Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Er guð til? Þriðja svar kirkjunnar

Í fyrsta svari kirkjunnar fór ég yfir fermingarfræðslubókina Líf með Jesú, þar næst kíkti ég á málflutning séra Páls í Fermingarkverinu. Nú í þriðja og síðasta svari kirkjunnar við spurningum fermingarkrakka um tilvist guðs mun ég ekki skoða bók frá kirkjunni. Ég ætla kíkja á heimasíðuna hennar.

Á nýjum vef kirkjunnar, trú.is er hægt að senda inn spurningar sem valdir menn innan kirkjunnar svara. Í svarflokknum “Guð” er spurning frá “fermingarbarni”:

“Er Guð til?”

Fermingarbarnið spyr hreint út. Til svara er séra Kristján Valur Ingólfsson, verkefnisstjóri á Biskupsstofu og lektor við guðfræðideild Háskóla Íslands:

Já. Guð er til.

Kristján fullyrðir að guð sé til, vonandi getur hann komið með einhver rök til þess að styðja þessa fullyrðingu sína.

Það er líka til fólk sem segir að hann sé ekki til. Þessvegna er auðvitað ekki nóg að ég skrifi bara jákvætt svar hér eins og þar með væri málið leyst.

Kristján veit vel að tilvist guðs er umdeild og þess vegna nægir ekki að koma bara með fullyrðingu, heldur þarf hann að koma með rök.

Guð er til og hann á erindi við þig. Það að hann er til verður þér þá fyrst fyllilega ljóst þegar þú finnur að hann á erindi við þig.

Aftur fullyrðir Kristján að guð sé til. Ég veit ekki alveg hvernig Kristján ímyndar sér að fermingarbarnið eigi að “finna” að þetta guð eigi erindi við sig. En hvað um það, þá hljóta rökin fyrir tilvist guðs að fara að koma....

Nei, svarið er búið! Kristján reyndi ekki einu sinni að koma með rök fyrir tilvist guðs. Ég er hræddur um að þetta mun ekki sannfæra ónafngreinda fermingarbarnið.

Þjóðkirkjan virðist vera hætt að reyna að sannfæra fermingarbörnin um að guð sé til, að minnsta kosti virðist hún vera hætt að koma með rök fyrir því. Ekki nóg með að Kristján hafi ekki reynt að koma með rök, heldur vantar kaflann sem ég skoðaði í fyrstu greininni í nýjustu útgáfunni af fermingarfræðslubók Þjóðkirkjunnar, Líf með Jesú, kaflann sem fjallaði um tilvist guðs.

Ástæðan er einföld. Það eru engin góð rök fyrir tilvist guðs kristinna manna. En auk þess eru mörg góð rök gegn tilvist þessa guðs. Svo góð rök að þegar fólk verður að horfast í augu við þau, eins og þegar myndir sáust af tugum líka fljótandi eins og hráviður eftir flóðbylgjuna miklu á Indlandshafi, þá hafa prestarnir í besta falli engin svör og segja að þetta sé mikill leyndardómur.

En þetta er enginn leyndardómur, því guð er einfaldlega ekki til.

Hjalti Rúnar Ómarsson 22.03.2006
Flokkað undir: ( Rökin gegn guði )

Viðbrögð


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 22/03/06 10:22 #

Meira að segja af guðfræðingi að vera þá er þetta skelfilega slappt svar hjá Kristjáni Val. Rökstuðningur svarsins fyrir þessari grundvallarspurningu er enginn. Það er ekki einu sinni reynt að grænsápast aðeins í kringum það.

Svarið á Vísindavefnum við sömu spurningu er þó mun skárra.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 22/03/06 12:12 #

Þetta svar Kristjáns Vals er sorglegur dómur yfir Guðfræði sem fræðigrein, því það má ekki gleyma að Kristján Valur er lektor í Háskóla Íslands. Þetta er skammarlegt.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 22/03/06 13:55 #

Þetta þættu ekki góð vinnubrögð í nokkurri annarri fræðigrein. En guðfræðin virðst vera hafin yfir fræðileg vinnubrögð og rökstuðning fyrir þeim tilgátum sem varpað er fram. Enda sést vel hve árangurinn er lítill, enn eru menn að burðast með fornar guðshugmyndir, því tilvistin hefur sem slík aldrei verið skoruð á hólm með röksemdafærslu, heldur er bara gengið út frá henni sem frumforsendu.

Já, skammarlegt. Í raun er óverjandi vitleysa að varið sé opinberu fé til að halda úti guðfræðideild.


Ottó - 22/03/06 17:33 #

Hvað Kristján Val varðar, þá nenni ég varla að fara raula um hvernig svar hans var.

Fyrir mitt leiti, þá er nóg fyrir mig að fara utandyra og horfa á sköpunina í kringum mig og það er kominn nógu mikil rök fyrir tilvist Guðs í hjarta mínu (en það er öðruvísi farið með ykkur greinilega). Það að ég fái séð fíkniefnasjúklinga og annars konar einstaklinga sem eiga í barráttu með tilvist sína, fá einhverja óskiljanlega rótfestu og góða stefnu í lífinu sínu (sem sagt bót á mein sín) er önnur sönnun fyrir mig að Guð sé til. Ég gæti endalaust talið áfram hvernig Guð sannast fyrir mitt leiti, eitt annað t.d. hvernig líkaminn getur starfað svo fullkomlega er mér beyond að skilja að menn vilji kenna því við þróun (en þróun styður undir guðleysið, þannig ég get gefið fólki sem er að leita af sönnun þess að Guð sé ekki til, skilning að hluta þar), og þar sem sköpunar"kenningin" vs. þróunarkenningin hefur sköpunarkenning ætíð haft betra vígi hvað varðar rök.

Ef þið viljið fara benda á guðfræði Kristjáns varðandi svör hans án raka, þá gæti ég eflaust reynt að grennslast fyrir viðtali sem ég sá með einstakling sem var með BA gráðu í þróun og þessu öllu saman (þróunarkenningar sinni) og hann gat lítið stutt undir að þróunarkenningin væri THE truth með rökum.

Ég verð að fá að láta það fylgja með, að þá get ég aldrei séð að Kirkja undir stjórn ríkis geti gengið upp eftir vilja Guðs (Þjóðkirkjan). Það að setja reglur á Guð getur ekki gengið upp. Ég ætla ekki að segja að allir þeir sem starfa innann veggja þjóðkirkjunnar séu ekki sannarlega trúaðir menn (þar sem ég veit að margir hverjir eru það). En Þjóðkirkjan er búin að setja svo mörg höft og fara í svo margar málamiðlanir með Guð, að auðvita kemur hann út þar sem dauður (Guð vinnur eftir sínu vinnu umhverfi ekki mannanna, ef svo má orði komast).

Í 1 Korintubréfi 2:4 segir "Orðræða mín og prédikun studdist ekki við sannfærandi vísdómsorð, heldur við sönnun anda og kraftar"

Og það er það sem ég og margir aðrir hafa upplifað, að þegar vissir einstaklingar eru að tala, þá koma orð frá þeim sem maður veit og finnur að það fylgir einhvað vald með. Það er ekki verið að reyna fara í flækjur og reyna sanna með vísindum að Guð sé til, það er dautt á meðal við þegar Andi Guðs talar. Þið verðið auðvita að fá að eltast við ykkar leit af guðleysinu, en ég og aðrir sem erum sannfærðir um tilvist hans, þurfum ekki vísindalegar sannanir og svör fyrir honum, hann hefur nú þegar opinberast okkur fullkomlega (sama hvað vísindin eiga eftir að geta klórað sig áfram í framtíðinni hvað varðar að "afsanna" tilvist hans).

Að guðfræðinni, þá held ég að flestir hér sem og ég, viti það að guðfræði er hugmynd manna á Guði. Guð hefur aldrei og mun aldrei þurfa að láta sér um skipta hugmynd manna á sér, hann er og verður ætíð sá sem hann er. Því þarf einstaklingur að leita Guðs sjálfan til að fá að kynnast honum ekki eltast við að kynnast honum í gegnum guðfræðina.

Ég ætla að fá að henda upp smá kjánalegri myndlíkingu, en dæmi sem kannski útskýrir mitt á þessu öllu og því að sanna Guð vísindalega.

En gefum okkur það að ég hafi stól fyrir framan mig, sem er leður klæddur lazyboy og stórkostlega þægilegur að sitja í (ég veit það því ég hef setið mikið í honum). Svo er einstaklingur sem ég er að sýna þennan stól, hann hefur aldrei séð svona stól, hann veit ekki hvað leður er, hann hefur aldrei nokkurtímann komist í snerti við neitt af þeim efnum, saumum og þeim smíðum sem eru í þessum stól (eða nokkru því sem líkist þessum smíðum). Hann hreinlega veit ekki hvað stóll einu sinni er. Ég hef sem sagt prufað þennan hlut sem hinn hefur aldrei augum litið, og ég segi honum að hann sé þægilegur og góður að vera í, en hinn vill fara þræta við mig um það að stólinn sé það ekki áður en hann prófar stólinn. Það er bara einhvað sem hann getur ekki gert, þar sem ég hef upplifunina en hann ekki. Þannig er Guð, hann þarf að upplifa ekki sanna með setningum eða vísindum, þar sem hann er ekki úr þreifanlegu efni eins og stóllinn þá fæst hann ekki sannast sem slíkur. Tilvist hans einfaldlega sannast okkur aftur og aftur eftir að við höfum sannfærst.

Kveðja Ottó


Happydays - 22/03/06 19:44 #

Sælt veri fólkið. Ég er enginn guðfræðingur, hef engan sérstakan áhuga á guðfræði en langar til að leggja orð í belg vegna þess að ég skil Kristján. Auðvitað er erfitt og sennilega ekki hægt að rökstyðja óvéfengjanlega tilvist Guðs. Tilvist hans þess eðlis og takmörkuð eru skilningavit okkar. Við vitum ekki hvaðan við komum eða hvert við förum. En þeir sem finna eða hafa fundið fyrir tilvist Guðs þekkja sannleikann. Það þarf ekki guðfræðinga til, aðeins opið hjarta og trú. Kann ekki að vísa til Biblíunnar máli mínu til staðfestu, hef ekki lesið bókina, en vil benda ykkur á að það er ekkert sérstaklega erfitt eða flókið að opna hjarta sitt gagnvart Guði. Hlusta og finna en ekki útiloka. Tel að Kristján hafi rökstutt tilvist Guðs með eins sönnum og einföldum hætti og mögulegt er.
Góðar stundir, Happydays


G2 (meðlimur í Vantrú) - 22/03/06 20:30 #

En þeir sem finna eða hafa fundið fyrir tilvist Guðs þekkja sannleikann.

Það eru einmitt svona staðhæfingar sem skjóta mér skelk í bringu. Og nú er ég ekki að snúa út úr, en hefur ekki forseti Bush fundið guð? Væntanlega í Írak. Ég greinilega þekki ekki sannleikann, enda trúlaus með öllu.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 22/03/06 20:52 #

Óttó, dæmisagan um stólinn er s.s. ágæt nema það vantar eitt - stóllinn er ósýnilegur. Þú er að reyna selja einhverjum að það sé gott að sitja í stól sem hann hefur ekki prófað en málið er að stóllinn er ósýnilegur. Maðurinn horfir á gólfið, hlustar á þig lýsa einhverjum stól sem er ekki til og þú ætlast til að hann setjist í hann?!? Ég myndi hætta að hlusta og ganga út.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 22/03/06 21:40 #

Tel að Kristján hafi rökstutt tilvist Guðs með eins sönnum og einföldum hætti og mögulegt er.

Þetta er frumleg beitin á hugtakinu "rökstutt" :-) Það sem Kristján gerir er að fullyrða að Gvuð sé til án rökstuðnings. Það er ekki rökstuðningur að segja "ég veit það". Kannski virkar svona "röksemdarfærsla" á leikskólalóðinni, en þegar menn eru orðnir lektorar við Háskóla Íslands hljótum við að gera oggulítið meiri kröfur til þeirra.


Color Limbo - 22/03/06 22:01 #

Hey matti, kristján er ekkert að svara sem lektor í háskólanum heldur sem trúmaður og prestur. Svar hans er einlægt sem slíks. Svo verður fólk líka að átta sig á því að það er fermingarbarn sem spyr. Kristján gæti ekkert farið að telja upp kenningar ágústínusar eða miðaldaguðfræðinga og fara svo út í immanuel kant og síðar nietzsche. Það væri skot yfir markið. Þetta svar er frábært miðað við það hver hann er og á hvaða forsendum hann er svara. Let it be maður, let it be.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 22/03/06 22:11 #

Þetta svar er ekki frábært, það að segja að guð sé til og að fermingarbarnið muni uppgötva það bara þegar hann fattar að guð hefur tilgang með lífinu hans er lélegt svar.

Alveg eins og ef ég segði: "Já, það eru til grænir álfar og þeir vilja að þú skiljir eftir mat við Álfhól. Það að þeir eru til verður þér þá fyrst fyllilega ljóst þegar þú finnur að þeir vilja fá mat við Álfhól."


Ottó - 22/03/06 23:14 #

Jón Magnús sagði:

"Óttó, dæmisagan um stólinn er s.s. ágæt nema það vantar eitt - stóllinn er ósýnilegur. Þú er að reyna selja einhverjum að það sé gott að sitja í stól sem hann hefur ekki prófað en málið er að stóllinn er ósýnilegur. Maðurinn horfir á gólfið, hlustar á þig lýsa einhverjum stól sem er ekki til og þú ætlast til að hann setjist í hann?!? Ég myndi hætta að hlusta og ganga út."

Ég átti nú von um að einhver kæmi með aðfinnslu um dæmisöguna, en Guð er alls ekki ósýnilegur, hann er ljóslifandi mér og mörgum öðrum, þó svo við sjáum hann ekki með veraldlegum augum (vildi bara hafa það á hreinu :) ), nema það að sjá verk eftir hann, sem ég hef oft hlotið blessun á að sjá.

Staðhæfingin þín um að stólinn sé ekki til er akkurat það sem deilt er um, hvort hann sé til eða ekki, þó svo veraldleg augu sjái hann ekki.

En það er akkurat, flestir sem efast og eru á móti þeirri staðreynd (að mínu mati) að Guð sé til, það er að þau vilja fá að sjá og snerta, en í því tilfelli þá er Guð í svo miklu æðra formi, að andlega hliðin er sú eina sem getur átt við þann part. Enda segjir í Biblíunni að hver sá sem myndi fá að sjá Guð með berum augum myndi samstundist detta niður dauður vegna hversu mikil dýrð hans er (skal finna versið fyrir þig í Biblíunni efa þú vilt þegar ég er kominn heim?).

Það að stólinn sé ósýnilegur, þá hef ég oft talað við einstaklinga sem segja sig ekki sjá stólinn (efa við fáum að halda okkur við dæmisöguna). En eftir að hafa setið með þeim, talað við þá og beðið með þeim til Guðs. Þá er eins og þau fatta að stóllinn hafi verið þarna alla tíð, þau hafa bara aldrei viljað sjá að þetta var stóllinn eftir allt saman (enda þekktu þau ekkert af því sem viðkom smíðum stólsins og efni hans, og gátu því kannski ekki séð hann fyrr en augu þeirra opnuðust gagnvart því).

Hjalti sagði:

"Alveg eins og ef ég segði: "Já, það eru til grænir álfar og þeir vilja að þú skiljir eftir mat við Álfhól. Það að þeir eru til verður þér þá fyrst fyllilega ljóst þegar þú finnur að þeir vilja fá mat við Álfhól." "

Efa þú skyldir svar Kristjáns á þennan veginn, þá auðvita er það heimskulegt. En eins og ég skyldi svarið, þá þarf þetta fermingarbarn að fá einhvern til að leiða sig að Guði til að finna hvort Guð sé raunverulega til (enda hef ég oft talið netið lítinn grundvöll að leiða fólk að Guði, það þarf persónulegt samfélag við einstaklinginn eins og Guð þráir persónulegt samband við einstaklinginn).

En til að svara því dæmi sem þú komst með þessa grænu álfa þína :). Þá efa þú leiðir einstakling og sýnir honum þína upplifun og hvernig þú fékkst samfæringuna um það að álfarnir væru að biðja um mat á Álfhól, þá ertu kannski búinn að opna augu einhvers og fá hann til að trúa því sem þú telur sannleikann. Þannig er eins farið með Guð nema hann er einhvað svo miklu miklu æðra og meira, en tilvist hans er ekki svaraði í spurningu á netinu.


Happydays - 22/03/06 23:43 #

G2: "Það eru einmitt svona staðhæfingar sem skjóta mér skelk í bringu"
Happydays: Við hvað ertu hræddur G2, fólk sem finnur fyrir Guði, ekki getur það verið slæmt?

Og Matti segir: "Þetta er frumleg beitin á hugtakinu "rökstutt" :-)Það sem Kristján gerir er að fullyrða að Gvuð sé til án rökstuðnings."
Happydays: Þetta er einmitt vandamálið, hvernig á að sanna tilvist hins óáþreifanlega fyrir þeim sem ekki upplifir það eða finnur fyrir því, hvernig er td. hægt að sannfæra þann sem ekki hefur upplifað ást um að hún sé til? Tel að Kristján sé einfaldlega að benda á stystu leið að markinu þegar han segir að mönnum verður ljós tilvist Guðs þegar þeir finna fyrir honum. Og þá vaknar að sjálfsögðu spurningin: hvernig eiga menn að finna fyrir Guði? Sagan sýnir hafa menn fundið ýmsar leiðir til þess.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 23/03/06 01:55 #

Ottó: Ég skil ekki hvað þú átt við með því að segja: "Efa þú skyldir svar Kristjáns á þennan veginn, þá auðvita er það heimskulegt.", því að þetta innlegg mitt um álfana var alveg eins og það sem Kristján sagði um guð, nema í staðinn fyrir guð stóð grænir álfar og í staðinn fyrir að eiga erindi við þig stóð að vilja að þú skiljir eftir mat við Álfhól.

En það eru engin rök fyrir tilvist guðs að segja að þú eigir bara eftir að finna fyrir tilvist hans. Þetta er álíka gáfulegt og ef einhverjir indíánar færu að tala um að andar forfeðranna séu til, þú eigir bara eftir að finna fyrir þeim.

Happydays: Nokkrar leiðir til þess að finna fyrir guði eru eiturlyf, að svelta ("fasta"), endurtaka sömu orðin endalaust og flest annað sem ruglar í heilastarfseminni.


Ottó - 23/03/06 03:21 #

Hjalti: Ok tók reyndar ekki eftir því að þú hefðir bara snúið svarinu svona við. En það kom svo gjörsamlega öðruvísi út, enda álfar í spilunum, ekki almáttugur Guð. En og aftur, þá er ég ekki og var ekki að verja hvernig Kristján svaraði fermingarbarninu (enda sagði ég bara hvernig ég skyldi svarið).

Það er líka viss fásinna í því að tauta stöðugt um þessi rök, hvað kallar þú rök? Fyrir mér eru nógu góð rök að félagi minn hefur ekki snert á fíkniefnum síðan hann kynntist Guði og fór að lifa með honum (og hann upplifði Guð aldrei undir áhrifum fíkniefna, ekki fyrr en hann hætti á þeim), var búinn að gera fjöldinn allann af tilraunum en ekkert virkaði fyrr en hann eignaðist samfélag við Guð (þetta eru eflaust ekki rök fyrir þig).

Ég vill ekki vera rífast við þig um hvort Guð sé til eða ekki. Ef þú vilt ekki trúa því, þá er það þinn réttur til að velja og ég virði hann. En ekki reyna alltaf að koma með rök rök rök og sannanir þuluna, og svo ekki taka við neinum af því sem aðrir segja, Guð er persónulegur Guð og því fær enginn breytt, þó svo mikill vilji sé fyrir hendi. Fyrir þeirra leiti sem trúa, þá þurfa þeir/við ekki vísindin til, við höfum sannfærst á einhvern svo miklu meiri hátt (spurning til þín, trúir þú ekki á andlegann hluta lífs? Ef ekki, þá enn og aftur er það þitt, en ég er sannfærður um þann hluta). Þú verður að fá að kljást við að reyna fá sannanir eða afsannanir í gegnum vísindin, því ekki þurfum við þeirra til. Það er eitthvað sem þú verður að taka, eins og ég skal taka því að þú þarft að fá rök fyrir því að Guð sé til eða ekki til.

Þú vilt fá rök fyrir því að Guð sé til, komdu sjálfur með einhver rök fyrir því að Guð sé ekki til. Og það eru enginn rök að segja að hinir og þessir þjást, fullar ár af líkum. Því ef þú myndir skoða Biblíuna og bara nema hvernig maðurinn sjálfur lifir, þá myndirðu sjá að maðurinn er sá sem er vondur, og maðurinn er alltaf að storka náttúruöflunum. Maðurinn getur í lang flestum tilfellum kennt sér sjálfum um, en svo eru til tilfelli sem slysin gerast bara. Að bera þróunarkenninguna fyrir sér, þá er hún enþá á því stigi að kallast kenning því hana er ekki hægt að sanna. Sköpunarkenningin hefur enþá sterkari vægi hvað rökin varðar.

Þú segir að heilastarfsemin mín sé ekki í lagi (það jaðar á við fordóma, sem er reyndar allt önnur umræða) afþví ég hef marg oft upplifað Guð (og fór þá engar af þeim eftirtöldu leiðum sem þú nefndir, nema jú ég hef fastað og upplifði hann þá ekkert sem einhverja jumper bilun í heilanum, sá ekkert og heyrði ekki neitt). Hvað gefur þér það leyfi að segja að mínar upplifanir og sannfæringar séu ekki réttar, og segja þær vera heilabilun. Þú verður að passa orðaval þitt ef þú vilt ekki að fólk taki þig því síður alvarlega.

Skal kenna þér eina af mínum leiðum til að upplifa Guð. Ég lyfti upp höndum og loka augunum og tala við hann, þakka honum og syng til hans. Það hefur ekki ennþá verið sannað (þar sem þú vilt vera svolítið í þeim ;) ), að loka augum, syngja, tala eða lyfta upp höndum framkalli truflun í heilastarfsemi. Ekki einu sinni heldur þegar þetta er allt framkvæmt samtímis.

Góðar stundir; Ottó


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 23/03/06 03:52 #

En það kom svo gjörsamlega öðruvísi út, enda álfar í spilunum, ekki almáttugur Guð.

Hvað er guð annað en ofur-álfur?

Það að vinur þinn hafi farið yfir í guð til þess að losna við fíkniefni segir ekki neitt um tilvist guðs, nema þá að þú sért tilbúinn að það sama gildi um allt annað sem fólk festist í þegar það reynir að losna við fíkn.

Ég vill ekki vera rífast við þig um hvort Guð sé til eða ekki.

Þetta eru ekki rifrildi heldur rökræður, í mesta lagi rökrildi ;)

Ef þú vilt ekki trúa því, þá er það þinn réttur til að velja og ég virði hann.

Þetta er ekki spurning um hvað ég vil, ef ég fengi að ráða væri algóður guð til og ég myndi lifa að eilífu í himnaríki.

En ekki reyna alltaf að koma með rök rök rök og sannanir þuluna, og svo ekki taka við neinum af því sem aðrir segja, Guð er persónulegur Guð og því fær enginn breytt, þó svo mikill vilji sé fyrir hendi.

Ég skil ekki hvað þú átt við. Getur maður ekki komið með rök fyrir tilvist guðs af því að hann er persónulegur guð? Getur guð ekki sannað tilvist sína?

Fyrir þeirra leiti sem trúa, þá þurfa þeir/við ekki vísindin til, við höfum sannfærst á einhvern svo miklu meiri hátt

Ég er ekki að biðja um að vísindin sanni yfirnáttúru.

spurning til þín, trúir þú ekki á andlegann hluta lífs? Ef ekki, þá enn og aftur er það þitt, en ég er sannfærður um þann hluta

Hvað áttu við með "andlegan hluta lífs"?

Þú vilt fá rök fyrir því að Guð sé til, komdu sjálfur með einhver rök fyrir því að Guð sé ekki til. Og það eru enginn rök að segja að hinir og þessir þjást, fullar ár af líkum. Því ef þú myndir skoða Biblíuna og bara nema hvernig maðurinn sjálfur lifir, þá myndirðu sjá að maðurinn er sá sem er vondur, og maðurinn er alltaf að storka náttúruöflunum. Maðurinn getur í lang flestum tilfellum kennt sér sjálfum um, en svo eru til tilfelli sem slysin gerast bara.

Ottó, fullar ár af líkum eru einmitt rök gegn tilvist guðs, slysin gerast ekki bara, guð lætur og leyfir þeim að gerast.

Að bera þróunarkenninguna fyrir sér, þá er hún enþá á því stigi að kallast kenning því hana er ekki hægt að sanna. Sköpunarkenningin hefur enþá sterkari vægi hvað rökin varðar.

Þú mátt gjarnan koma á spjallið og stofna þráð um rök fyrir þróunarkenningunni. Þú munt líklega verða hissa á því hvað það eru mörg og góð rök fyrir henni.

Þú segir að heilastarfsemin mín sé ekki í lagi (það jaðar á við fordóma, sem er reyndar allt önnur umræða) afþví ég hef marg oft upplifað Guð

Ég er ekki að segja að það sé eitthvað að heilastarfseminni þinni. Það er ekkert óeðlilegt við það að verða fyrir trúarlegum upplifnum við vissar aðstæður, til dæmis á samkomum þegar maður lyftir höndunum og syngur. Og, já, á svona samkomum er verið að "krukka" í heilanum. ;)


Magnús - 23/03/06 10:38 #

"... maðurinn er sá sem er vondur ..."

Og var skapaður í ímynd guðs, segja einhverjir. Ég trúi hvorugu, ég tel að maðurinn hafi mikla hæfileika til að lifa í sátt við aðra en þá þarf hann að umgangast þá af virðingu og taka ábyrgð á eigin verkum. Það þarf enga guði til þess, bara að hegða sér eins og maður.


Gunnar - 23/03/06 22:54 #

Einhvern veginn heldur maður að trúarbrögðin lifað allt of lengi á guðshugmynd sem er erfitt að færa rök fyrir. Það er nú einnig nógu erfitt að færa rök fyrir tilveru okkar hérna á þessari jörð. En þar sem lífið á jörðinni hefur komið út frá úr geimnum er þá ekki guð bara alheimurinn og náttúran sem er gjörsamlega ópersónulegt afl sem kemur vitund okkar og lífi ekkert við á þessari jörðu.
Það hlýtur að vera til einhvers konar líf annars staðar í alheiminum en heldur en bara hér á þessari jörðu okkar. ég tel mig vera náttúrutrúar frekar en guðstrúar.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 24/03/06 04:03 #

... er þá ekki guð bara alheimurinn og náttúran sem er gjörsamlega ópersónulegt afl sem kemur vitund okkar og lífi ekkert við á þessari jörðu.

Nei. Ef þú ert farinn að segja að guð sé bara alheimurinn og náttúran, þá held ég að það væri best að nota bara orðin alheimurinn og náttúran. það veldur bara ruglingi að fara að kalla nota orðið "guð" um alheiminn.


Sindri - 30/03/06 00:05 #

Guð er til og hann á erindi við þig. Það að hann er til verður þér þá fyrst fyllilega ljóst þegar þú finnur að hann á erindi við þig.

Mér finnst þetta reyndar bara flott hjá honum, þetta er frekar góð leið til að segja:

"Þú mátt trúa því sem þú vilt.", án þess að segja að guð sé ekki til, sem hann má auðvitað ekki segja vegna þess að hann er prestur. Með þessu er hann að virða trúfrelsið sem hér ríkir á Íslandi.

Og afhverju þarf að færa rök fyrir því að Guð sé til, því ef þú trúir því að hann sé til þarftu engin rök fyrir því.

Skiljið það, Takk fyrir.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.