Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ljóðrænar kvalir

Ef við tökum mark á guðspjöllunum þá var Jesús afar ljóðrænn maður. Hann talaði oft um endurkomu sína í dæmisögum. Þrælaeigandi sem ber þrælinn sinn, konungur sem fyrirskipar líflát óhlýðinna þegna, menn sem brenna illgresi, allt eru þetta líkingar sem Jesús notaði um endurkomu sína og allar bera þær vitni um ógeðslegustu kenningu hans og kristninnar, helvíti.

Þjóðkirkjan trúir auðvitað orðum Jesú, eins og sést í höfuðjátningu lútherskra manna, Ásborgarjátningunni:

.17. grein: Um endurkomu Krists til dóms

Ennfremur kenna þeir: Kristur mun birtast við endi heims til að dæma og mun hann uppvekja alla dauða. Guðhræddum mönnum og útvöldum mun hann gefa eilíft líf og eilífan fögnuð. Guðlausa menn og djöflana mun hann fordæma, að þeir kveljist eilíflega.

Þeir fordæma endurskírendur, sem álíta, að endir verði bundinn á refsingu fordæmdra manna og djöflanna.

Þetta er frekar auðskiljanlegt, og ekkert myndmál eins og hjá Jesú. Eða hvað? Samkvæmt æðsta biskupi Þjóðkirkjunnar, Karli Sigurbjörnssyni, er þetta myndmál:

Ritningin og játningarnar grípa til myndmáls til að lýsa því ólýsanlega og það eru myndir eins og "eilífur eldur" eða "eilíf kvöl" og fleiri.

Það væri gaman að vita hvað Karl telur að “eilíf kvöl” eigi að tákna annað en einmitt nákvæmlega það. Hvað getur það hugsanlega annað táknað? Hvernig getur Jesús ekki verið að vísa til kvala þegar hann talar um eldsofn, grát og gnístran tanna og að vera barinn mörgum höggum? Það skiptir ekki máli hve mikið Karl reynir að rembast við að losna við þessa kenningu, kirkjan hans kennir að guðlausir menn muni kveljast. Ef hann getur ekki sætt sig við það ætti hann að reyna að breyta kenningunum eða fara í annan söfnuð.

En er það ekki heppilegt að einmitt það atriði sem kristið þjóðkirkjufólk getur ekki trúað upp á Jesú skuli vera myndmál í játningunni? Ætli upprisa Jesú sé kannski líka bara myndmál? Auðvitað ekki og auðvitað eiga eilífu kvalirnar í játningunni að vera kvalir. Kíkjum bara hundrað ár aftur í tímann, í Helgakver, ráðandi fermingarkver Þjóðkirkjunnar í hálfa öld, sums staðar lengur. Þar stendur:

.169. Eftir dóminn hreppa þeir, sem með vantrú og þrjósku hafa hafnað guðs náð, eilífan dauða eða eilífa glötun. Líf þeirra verður æfinlegt kvalalíf í sambúð við illa anda, endalaus angist og örvænting án allrar vonar um frelsun. Þetta er og kallað hinn annar dauði. (Sb. 67) [Helgakver bls.150 -skáletrun upprunaleg]

Nema þetta sé bara líka allt myndmál.

Hjalti Rúnar Ómarsson 20.03.2006
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


mofi - 20/03/06 11:18 #

Ennfremur kenna þeir: Kristur mun birtast við endi heims til að dæma og mun hann uppvekja alla dauða. Guðhræddum mönnum og útvöldum mun hann gefa eilíft líf og eilífan fögnuð. Guðlausa menn og djöflana mun hann fordæma, að þeir kveljist eilíflega.

Bara svo það komi fram þá er þetta ekki það sem Biblían kennir.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 20/03/06 11:32 #

Bara svo það komi fram þá er vel hægt að túlka marga staði Biblíunnar á þann hátt.


mofi - 20/03/06 15:13 #

Bara svo það komi fram þá er vel hægt að túlka marga staði Biblíunnar á þann hátt.

Ekki séns :)


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 20/03/06 23:35 #

Ég held að trú nærri því allra kristinna manna síðustu árþúsundin mæli gegn því að það sé "ekki séns" ;)

En ég skal endilega ræða við þig um skoðun biblíunnar (þó svo að það sé ekki rétt að biblían hafi eina mynd af eftirlífinu) á spjallinu. Hérna er ég að ræða trú Þjóðkirkjunnar og eins og við vitum báðir, þá skiptir álit biblíunnar afar litlu máli fyrir hana. :)


mofi - 22/03/06 16:17 #

Ég held að trú nærri því allra kristinna manna síðustu árþúsundin mæli gegn því að það sé "ekki séns" ;)

Góður punktur en eftir að hafa farið nærri því of ítarlega í gegnum þessa umræðu á gospel.is þá finnst mér þetta vera alveg á hreinu.

En ég skal endilega ræða við þig um skoðun biblíunnar (þó svo að það sé ekki rétt að biblían hafi eina mynd af eftirlífinu) á spjallinu. Hérna er ég að ræða trú Þjóðkirkjunnar og eins og við vitum báðir, þá skiptir álit biblíunnar afar litlu máli fyrir hana. :)

Rétt að grænsápan eins og þið eruð einstaklega duglegir við að kalla hana ræður ríkjum í þjóðkirkjunni. Annars takk fyrir mjög gott boð en ég vil ekki taka tíma frá þér frá því mikilvæga trúboði sem þú ert í :)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.