Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Lán guðs

Að þrenningarkenningunni undanskilinni er fórnardauði Jesú líklega sú allra vitlausasta í kristinni trú. Samkvæmt henni þurfti guð að láta drepa sjálfan sig svo hann gæti fyrirgefið sumum okkar að hafa brotið reglur sem hann setti. Kristnir menn vísa oft til litlu biblíunnar og segja að þessi vitleysa sé meginefni biblíunnar:

Jóhannesarguðspjall 3:16 Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.

Eins og Múhameð benti á í síðustu laugardagsteiknimyndinni, þá er það í raun rangt að segja að guð hafi gefið nokkrum manni son sinn, því hann þurfti bara að ráfa um í Palestínu í um það bil þrjátíu ár, hanga á krossi í örfáa klukkutíma og loks liggja í gröf í um það bil tvo daga. Í raun er þetta bara lán.

En kristið fólk er samt afar upptekið af þessum morgni sem Jesús þurfti að lafa á krossinum. Vissulega er það örugglega ekki þægilegt að vera negldur á krossi, en hver myndi ekki ganga í gegnum það til þess að bjarga milljónum manna frá eilífð í helvíti, vitandi það að þú eigir síðan eftir að fara upp til himnaríkis?

En auðvitað var þetta bara óþarfa vesen hjá guði að vera að krossfesta sig, hvers vegna ekki bara að fyrirgefa fólki án allrar blóðsúthellingar? Þegar ég fyrirgef fólki þá gerist það án allra blóðsúthellinga. Raunin er sú að ef guð kristinna manna væri örlítið siðmenntaðri hefðum við aldrei þurft að hlusta á presta væla yfir því hversu illa guð fór með sjálfan sig.

Grundvöllur fórnardauða Jesú er einmitt sá að guð kristinna manna hefur sama persónuleika og fornaldarhöfðingjar. Hann er í raun bara ósýnilegur fornaldarhöfðingi. Þegar einhver óhlýðnast honum þá þarf að refsa fyrir það.

Það er í raun sorglegt að í þjóðfélagi þar sem frelsi, lýðræði og mannréttindi eru í hávegum höfð skuli fólk viljandi gerast þrælar þessa ímyndaða einræðisherra. Það er enn sorglegra þegar atvinnutrúmenn fullyrða að þessi einræðisherra sé uppspretta þessara grundvallaratriða samfélagsins.

Hjalti Rúnar Ómarsson 19.03.2006
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Böddi - 19/03/06 16:08 #

Á þessari blog síðu http://blog.central.is/sigvardur er ein trúaður einstaklingur sem hefur frelsast frá áfenginu með krafti guðs eins og hann orðaði það, búið er að heilaþvo hann með með kennisetningum trúarinnar. Svo er hann rakkandi niður vísindi og homma á vefsíðu Snorra Óskarsonar öfgatrúarmanns. Hvernig er þetta land að verða. Verða ekki fleiri trúarfyrirtæki hérna eftir 20 ár?

Ég tala nú ekki um hjónin á þessari blogsíðu http://blog.central.is/hordursteinunn. Þau hafa frelsast eins maðurinn hérna að ofan. Voðalega algengt hérna á landi að fólk verði alveg gjörsamlega helað af kristin trú bara til að losna frá einhverju vandamáli. Er þetta ekki vísbending til þess að trúarandinn er ekki svo nátengdur gleði sem sorg. Endilega skoðið þessar blogsíður.


Tóti - 19/03/06 17:56 #

Voðalega algengt hérna á landi að fólk verði alveg gjörsamlega helað af kristin trú bara til að losna frá einhverju vandamáli.

Enda ekki furða. Fari maður í meðferð á íslandi er ákveðið ætlast til þess að maður fari í AA samtökin, einn meðferðarfulltrúi orðar það þannig að meðferð búi til AA meðlimi.

Til þess að vera meðlimur af AA verður maður að trúa. Samtökin voru byggð á grunni babtista og klauf sig frá upphaflegu samtökunum "The Oxford group" m.a. vegna þess að þau voru hliðhollari kaþólsku. Það er þó ekki lengur þannig að maður verði á trúa á Jesúm til að hætta að drekka, en maður verður að trúa.

Þetta er kannski eitthvað sem vantrú mætti líta á, hvernig fólk er gripið á veikri stund og talið trú um að það verði að taka upp trú því annars muni það lenda í helvíti alkóhólismans.

Mæli með grein sem heitir "Piety gets you Sobriety?" og birtist í tímaritinu American Atheist 1997. Þar er lýst hvernig fólk sem er tekið ölvað undir stýri er skikkað til að fara á AA fundi og þá í raun skikkað til að taka upp trú.


mofi - 19/03/06 21:59 #

En auðvitað var þetta bara óþarfa vesen hjá guði að vera að krossfesta sig, hvers vegna ekki bara að fyrirgefa fólki án allrar blóðsúthellingar?

Ástæðan er að Guð er ekki aðeins kærleiksríkur heldur líka réttlátur. Það er réttlæti að hegna fyrir glæpi. Dómari sem á að dæma nauðgara gæti auðvitað bara fyrirgefið viðkomandi en það væri ekki réttlæti og móðgun við fórnarlambið. Lögmál Guðs er að sú sál sem syndgar mun deyja, gjöfin ekki lánið, sem Guð gaf var gjaldið fyrir glæpina sem hafa verið framdir.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 19/03/06 22:13 #

Mikið er ég ánægður að flestir foreldrar eru ekki svona "réttlátir" og geta fyrirgefið börnunum sínum án þess að beita þeim líkamlegu ofbeldi.


Ágúst - 19/03/06 23:01 #

Það er í raun sorglegt að í þjóðfélagi þar sem frelsi, lýðræði og mannréttindi eru í hávegum höfð skuli fólk viljandi gerast þrælar þessa ímyndaða einræðisherra. Það er enn sorglegra þegar atvinnutrúmenn fullyrða að þessi einræðisherra sé uppspretta þessara grundvallaratriða samfélagsins.

Íslenskt þjóðfélag er mjög gott samanborið við mörg önnur. Í samanburði lítur út fyrir að frelsi, lýðræði og mannréttindi séu í hávegum, þótt megi benda á misfellur. Íslenskt samfélag er samt ekki fullkomið. Sem dæmi má benda á að íslenskum stjórnvöldum fannst meira um vert að reyna að klekkja á Baugsfjölskyldunni en standa sig í þeim “skyldum” að reka barnaspítalann með óumdeilanlega sómasamlegum hætti og eyddu í það mál miljónum í hundruða tali. Gott siðferði? Nú hefur undirréttur sýknað Baugsfjölskylduna! Baugsfjölskyldan er nú búin að tryggja rekstur barnadeildarinnar með viðunandi hætti!

Þegar olíumálahneykslið kom upp á sínum tíma, þá sagði davíð oddson (má vera með litlum stöfum), þáverandi forsætisráðherra, að hann sem neytandi vildi ekki borga sekt olíufélaganna í hærra bensínverði, eða einhvern vegin þannig, en þegar Baugsmálið kom upp þá sagði hann ekki að hann vildi ekki borga sekt Baugs í hærra matvöruverði! AF HVERJU? Vegna góðs siðferðis? Hann var, jú, forustumaður þjóðarinnar! Hver er forseti hins háa Alþingis? Kannski vantar eitthvað inn í þessa gylltu mynd þína um þetta fullkomna þjóðfélag sem við lifum í! Ef þér yfirsést eitthvað þarna, af hverju þá ekki um kristnina?

Annars, þetta með Jesú og Mó ( Múhameth) VAR ÁGÆTT!


Khomeni - 19/03/06 23:20 #

Hjalti Rúnar er með þessari litlu grein að velta upp gömlu vandamáli. Vandamálinu um eðli Krists. Var hann Guð eða maður? Þversögnin eins og Hjalti bendir á er þessi hérna: Ef Jesú var Guð, og Guð stjórnar öllu, Því var hann að hafa fyrir því að drepa sig/son sinn?

Þrenningarkenningin sem Hjalti bendir réttilega á að sé hæpin var einmitt fundin upp til þess að slá á þessa þversögn. Búin var til hugmynd þar sem Guð var á þremur plönum. Hugmyndin er í raun svo flókin (og hæpin) að öll gagnrýni á hana fer fyrir ofan garð og neðan. Því miklu púðri þarf að eyða í að skilgreina þrenninguna.

Í mínum huga er gengur fórnardauði Krista upp sem tákn Guðs um elsku sína á mönnunum. Hann getur alveg sett upp leikrit fyrir okkur mennina til þess að sýna fram á að hann elskar okkur.

En því var hann að hafa fyrir þessu ef hann er almáttugur? Gat hann bara ekki sagt okkur það, opnað hinnininn og skrifað þetta í skýin?

-o-o-o-o-o-o-o-

Eins og Vantrú er skemmtilegur vefur brennur það oft við að mikið af greinunum hérna eru skrifaðar af að því er virðist, reiðu fólki. Það er til vansa og hefur grafið undan þeim krafti sem vantrú .is hefur til að bera.


mofi - 19/03/06 23:23 #

Mikið er ég ánægður að flestir foreldrar eru ekki svona "réttlátir" og geta fyrirgefið börnunum sínum án þess að beita þeim líkamlegu ofbeldi.

Ef svo vill til að þú ert að tala við mig. Guð borgaði gjaldið sjálfur fyrir refsinguna.


Butcer - 19/03/06 23:33 #

hvern var guð að borga þetta gjald fyrir? ahh þú ert svo vitlaus greyið


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 19/03/06 23:33 #

Ágúst:

Kannski vantar eitthvað inn í þessa gylltu mynd þína um þetta fullkomna þjóðfélag sem við lifum í! Ef þér yfirsést eitthvað þarna, af hverju þá ekki um kristnina?

Ég kannast ekki við að hafa þessa gylltu mynd af þjóðfélaginu. Ég er einungis að benda á að þessi gildi sem fólk talar alltaf um að séu grundvallarstoð samfélagsins eiga lítið sameiginlegt með Jahveh.

Khomeini:

Eins og Vantrú er skemmtilegur vefur brennur það oft við að mikið af greinunum hérna eru skrifaðar af að því er virðist, reiðu fólki. Það er til vansa og hefur grafið undan þeim krafti sem vantrú .is hefur til að bera.

Ég held að þetta sé missýn hjá þér, ertu ef til vill að túlka harðorða gagnrýni sem reiði?

mofi:

Ef svo vill til að þú ert að tala við mig. Guð borgaði gjaldið sjálfur fyrir refsinguna.

Sem er álíka gáfulegt og að foreldri færi að rassskella sjálfan sig vegna þess að einhver þarf að þjást vegna mistaka barnsins síns.


Ágúst - 19/03/06 23:39 #

Eins og Vantrú er skemmtilegur vefur brennur það oft við að mikið af greinunum hérna eru skrifaðar af að því er virðist, reiðu fólki. Það er til vansa og hefur grafið undan þeim krafti sem vantrú .is hefur til að bera. Hvort siðferðið er betra?

Aðeins að hrekkja Hjalta; annars ágætlega greindan ungann mann.

Ég er (hlaðborðs) kristinn og af hverju má hann alltraf vera með ádeilur á mig? Ég vil líka vera með ádeilu á hann!

Hver á svo að dæma um hvaða siðferði er betra (og við hvað er stuðst. Sjálfdæmishyggju?)?


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 19/03/06 23:49 #

Ég er (hlaðborðs) kristinn og af hverju má hann alltraf vera með ádeilur á mig? Ég vil líka vera með ádeilu á hann!

Þú mátt alveg gagnrýna (vera með ádeilur) málflutninginn minn. Ef það tengist ekki þessari grein, þá er spjallborðið opið.

Hver á svo að dæma um hvaða siðferði er betra (og við hvað er stuðst. Sjálfdæmishyggju?)?

Það eru nú ekki margir möguleikar í stöðunni. Ég, þú og samfélagið dæmum um það. En ég held að þetta tengist ekki greininni, en ef þú vilt ræða þetta þá bendi ég þér á spjallið.


Ágúst - 20/03/06 00:07 #

Hver á svo að dæma um hvaða siðferði er betra (og við hvað er stuðst. Sjálfdæmishyggju?)?

Það eru nú ekki margir möguleikar í stöðunni. Ég, þú og samfélagið dæmum um það. En ég held að þetta tengist ekki greininni, en ef þú vilt ræða þetta þá bendi ég þér á spjallið.

Er nú komin upp sú staða að einhver lýðræðisleg niðurstaða sé hinn sanni dómari um hvað geti talist rétt og hvað geti talist rangt? Eru það sönn vísindi?


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 20/03/06 00:12 #

Siðfræði eru ekki vísidni. Endilega taktu þetta á spjallborðið ef þú vilt ræða þetta.


Ágúst - 20/03/06 00:22 #

[Athugasemd færð á spjallið - Hjalti Rúnar]

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.