Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Er guð sekur um brot gegn friðnum?

Í frétt Morgunblaðsins 3. mars var frá því greint að Tony Blair, sem vart þarf að kynna, hefði sagt að guð mundi „skera úr um hvort það hafi verið rétt eða röng ákvörðun hjá honum að ráðast inn í Írak árið 2003.“ Enn fremur hefði hann sagt „að ef maður tryði á Guð að þá hafi ákvörðunin verið tekin af honum einnig.“ Burtséð frá því hvort menn styðja árásina á Írak eða ekki er ástæða til að sperra eyrun. Óþarft er að rekja óvinsældir Íraksstríðsins, en rétt er að minna á að 1949, í Nürnberg-réttarhöldunum, voru sjö af tólf leiðtogum nasista dæmdir til dauða árið 1949 fyrir „brot gegn friðnum“ og/eða árásarstríð. Hvort sem það er til að líta betur út í augum almennings eða til að friða eigin samvisku er því skiljanlegt að Blair vilji fría sig ábyrgð á ákvörðunum sem gætu reynst honum dýrkeyptar.

Hvað grípur maður til bragðs til að fría sig ábyrgð? Ein vinsælasta leiðin til þess er guð, hin klassíska afsökun valdsins. Í raun var það guð sem ákvað að ráðist skyldi á Írak, vill Blair að við samþykkjum. Í raun er það guð sem mun dæma hann -- og ef guð skipulagði innrásina mun Blair að sjálfsögðu verða náðaður, enda var hans hlutverk í raun lítið í samanburðinum. Þessu vill hann að fólk trúi.

Varla þarf að telja upp alla þá möguleika sem þessi lífssýn býður upp á. Hvers vegna að refsa glæpamönnum? Guð mun dæma þá, auk þess sem það var í raun guð sem framdi glæpinn (sem þá er auðvitað ekki glæpur, því vegir guðs eru órannsakanlegir). Hvers vegna að styrkja flóðvarnargarða í kring um New Orleans? Ef guð vill að flóð sökkvi borginn, þá dugar enginn garður til að stöðva það. Hvers vegna að taka ábyrgð á nokkrum sköpuðum hlut, ef þetta hefst allt og endar hjá guði hvort eð er?

Þekkt er þegar börn spyrja foreldra sína hvers vegna himininn sé blár, og foreldrarnir nenna ekki að útskýra það fyrir þeim (eða vita kannski ekki svarið), þá er vinsælt að svara: „Af því að guð vill það.“ Frekari spurningum er svo hægt að vísa í glatkistu gagnrýni á kristna trú: „Af hverju vill hann það?“ „Vegir hans eru órannsakanlegir.“ En fleiri en foreldrar eiga hauk í horni þar sem guð er. Guð er nefnilega besti vinur valdamanna. Kvarta fátæklingar undan því að vera fátækir eða sjúklingar undan því að vera sjúkir? Ekkert mál: „Guð skapaði þetta svona og vegir hans eru órannsakanlegir.“ Kvarta réttlausir undan því að vaðið sé yfir þá? Ekkert mál, „Guð dæmir á endanum.“ Óþarfi að stemma stigu við yfirgangi valdamanna, bjóðum bara hina kinnina.

Guð er hið fullkomna vald, frummynd valdsins. Engin skipting í dómsvald, framkvæmdarvald og löggjafarvald, engar takmarkanir, engin vanþekking. Er guð kannski persónugerfingur þess, sem allt vald sækist kannski eftir því að verða á endanum, eins konar útópía valdsins? Valdið kitlar hégómagirndina með því að spegla sig í guði. En þegar öllu er á botninn hvolft er valdið, rétt eins og guð, huglægt. Ef það er ekki viðurkennt, þá er það ekki til.

Guð veitir ekki syndakvittun í lifanda lífi fyrir þá sem eru sakaðir um glæpi. Um slík mál sjá jarðneskir dómstólar. En ef Tony Blair hefur rétt fyrir sér um að guð muni eiga síðasta orðið í deilum um réttmæti eða óréttmæti Íraksstríðsins, þá er ég ekki í vafa um að hann mun finna úrskurð við hæfi.

Vésteinn Valgarðsson 06.03.2006
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


ari - 09/03/06 14:01 #

Might makes right and God makes might, thus God is right? :þ


Ágúst - 11/03/06 00:15 #

Véstein, að vandal ert þú rökfastur og góður greinahöfundur (bara verð að fá að koma því að). Trúarbrögð og heimspeki hafa mætt áhuga mínum. Ég er ekki í nokkrum vafa um það frekar en þú að ef :

En ef Tony Blair hefur rétt fyrir sér um að guð muni eiga síðasta orðið í deilum um réttmæti eða óréttmæti Íraksstríðsins, þá er ég ekki í vafa um að hann mun finna úrskurð við hæfi.

Guð er hið fullkomna vald, frummynd valdsins. Engin skipting í dómsvald, framkvæmdarvald og löggjafarvald, engar takmarkanir, engin vanþekking. Er guð kannski persónugerfingur þess, sem allt vald sækist kannski eftir því að verða á endanum, eins konar útópía valdsins?

Er það ekki, samkvæmt bókinni, Djöfullinn sjálfur sem setur sér slíka fyrirmynd? Að minnsta kosti lítur hið veraldlega vald oft út sem djöfullegt og kemur fram sem djöfullegt og er þá alveg sama þótt það kenni sig við himnaföðurinn eða ekki. Ástæðurnar fyrir því, að kenna sig við trúna á Guð (eða þá bara einhverja hugmyndafræði af veraldlegri toga, sem á að heita góð) kunna að vera margar eins og til að mynda að verja vald sitt og gerðir (aðal ástæður). Á þeirri vegferð, þar sem valdafíkn og græðgi ráða ferðinni og réttlætið fer fyrir ofan garð og neðan, er eins og mönnum sé ekkert heilagt. Raunverulegar þarfir og það sem ætti að vera sjálfsagður réttur manna er þá oftast fótum troðið og látið víkja fyrir ranglætinu, hugmyndafræðinni sem er skálkaskjól lygaranna, jafnvel í Jesú nafni og mjög heppilegt fyrir ofbeldismennina að skýla sér á bakvið slíkan hégóma. Oft, meira að segja, virðast þessir vesalingar beinlínis halda að þeir séu að vinna þörf og góð verk sem muni þoka mankyninu réttan veg og hér á jörðinni muni þeirra verða mynnst í sögunni fyrir göfug afrek. Þeir geta líka hugsanlega komið til með að hafa áhrif á hver söguskilningurinn verður, sér til hagsbóta. Í gömlu kommúnismablokkinni þurfti að endurmeta söguna vegna allra þeirra lyga sem troðið var í hana.


Ágúst - 11/03/06 00:17 #

Óþarft er að rekja óvinsældir Íraksstríðsins, en rétt er að minna á að 1949, í Nürnberg-réttarhöldunum, voru sjö af tólf leiðtogum nasista dæmdir til dauða árið 1949 fyrir „brot gegn friðnum“ og/eða árásarstríð. Hvort sem það er til að líta betur út í augum almennings eða til að friða eigin samvisku er því skiljanlegt að Blair vilji fría sig ábyrgð á ákvörðunum sem gætu reynst honum dýrkeyptar.

Blair þarf ekki að óttast annað en almenningsálitið og það veit hann. Valdakerfi vesturlanda er ekki að hrynja í náinni framtíð, svo sýnilegt sé, og það skjól sem það veitir valdhöfum sínum, og fyrri valdhöfum sínum er því ekki að gefa sig. Stríðsglæpadómstólar eru, því miður, eins og skrípaleikur einn sem hefur réttinn ekki að leiðarljósi (eða hvað?). Athugið hverjir eru dregnir fyrir dómstólanna og hverjir ekki! Hvernig lítur hið tvískynuga réttlæti út (ekki bara þarna, heldur yfirleitt)? Íraksforseti fyrrverandi og hans “lið” ásamt “Júgópakkinu” eru þeir sem mega (réttilega) svara til saka fyrir þjóðarmorð og ofsóknir gegn andstæðingum. En af hverju er þessi seinagangur með Pinoschet? Auk þess er merkilegt að skoða fréttirnar um það mál (Pinoschet). Menn segja eitt í dag og annað á morgun, vegna þess hvernig það virkar þegar lygin er rekin til baka; fyrst er logið, síðan verður að segja eitthvað annað. Sem dæmi peista ég inn í blokk af fréttavef RUV:


Ágúst - 11/03/06 00:19 #

Bandarískur banki kom fé undan fyrir Pinochet Skýrsla bandaríska öldungadeildarþingsins hefur leitt í ljós að bandaríski Riggs Bankinn aðstoðaði Augusto Pinochet, fyrrverandi einræðisherra Chile, að koma 568 miljónum íslenskra króna úr landi. Í skýrslunni segir að bankinn hafi stofnað reikninga fyrir Pinochet eftir að hann var handtekinn fyrir glæpi gegn mannkyni í Lundúnum árið 1998. Þegar hann var handtekinn voru allar eigur herforingjans frystar en Riggs bankinn flutti fyrir hann fé frá Englandi til Bandaríkjanna og stofnaði reikninga undir öðru nafni að því er fram kemur í skýrslunni. Sonur Pinochet staðhæfði að ásakanirnar á hendur föður hans væru lygar og uppspuni. Richardo Lagos forseti Chile sagði að rannsókn málsins væri nú hafin. Pinochet var einræðisherra í Chile frá árinu 1973 til 1990. Eftir handtökuna dvaldi hann í Lundúnum en máli hans var vísað frá árið 2000 sökum heilsubrests og hann fékk að snúa aftur til Chile. Fréttin var fyrst birt: 16.07.2004 08:32 Síðast uppfærð: 16.07.2004 08:48 Sjóðir Pinochets í BNA ætlaðir verjendum Garin hershöfðingi, náinn vinur Pinochets fyrrverandi einræðisherra í Chile, segir að ef Pinochet átti fé í bandarískum banka hafi það verið samskotafé sem ætlað var verjendum hans eftir að hann var handtekinn í Lundúnum 1998. Þetta hafi ekki verið peningar í eigu Pinochets. Rannsókn Öldungadeildar þingsins á Riggs-bankanum í Washington leiddi í ljóst að Pinochet átti leynilega reikninga þar og að á árunum 1994 til 2002 hafi inneignin verið á bilinu 4 til 8 miljónir dollara. Garin segir að þeir Pinochet telji að söfnunarfé hafi hugsanlega verið komið fyrir í bandaríska bankanum, fé sem gefið var til að standa straum af vörn hans fyrir rétti í Lundúnum. Kona Pinochets og 5 börn hans kannast ekki við þetta fé og fullyrða að hann hafi aldrei notað vald sitt til að beina greiðslum úr opinberum sjóðum í eigin vasa eða vasa barnanna., Pinochet var 17 mánuði í stofufangelsi í Lundúnum frá 1998 til 2000 sakaður um að bera ábyrgð á hvarfi á 3.000 stjórnarandstæðingum og fleiri brotum á stjórnarárum sínum 1973 til 1990. Hann slapp undan málsókn þar sem læknar töldu hann þjást af elliglöpum. Búið er að höfða ótal einkamál gegn Pinochet í Chile og Hæstiréttur úrskurðar í næsta mánuði hvort svipta skuli hann friðhelgi og sækja hann til saka fyrir morð og mannshvörf. Hann er ekki ákærður fyrir fjársvik, þótt ólíklegt þyki að hann hafi getað rekið stórhýsi og aðrar stóreignir á launum hershöfðingja eða forseta. Fréttin var fyrst birt: 17.07.2004 12:37 Síðast uppfærð: 17.07.2004 12:46 Chile: Pinoschet sviptur friðhelgi Hæstiréttur í Chile hefur svipt Pinochet fyrrverandi einræðisherra friðhelgi. Þetta merkir að hægt er að sækja hann til saka fyrir mannréttindabrot. Úrskurðurinn vekur vonir fórnarlamba hans um að hann verði látinn sæta ábyrgð vegna glæpa á sautján ára valdatíma hans. Hæstiréttur staðfestir úrskurð undirréttar frá í maí, um að ákæra megi Pinochet fyrir hvarf 19 stjórnarandstæðinga um miðjan áttunda áratuginn. Lík þeirra hafa aldrei fundist. Pinochet tók völd í byltingu 1973. 3.000 andstæðingar hans voru drepnir á stjórnarárum hans. Hann missti völdin 1990 en hafði þá fengið frá friðhelgi sem hefur varið hann gegn málsókn til þessa. Fréttin var fyrst birt: 26.08.2004 17:12 Síðast uppfærð: 26.08.2004 17:19 Forseti Chile fær pyndingaskýrslu Ricardo Lagos, forseta Chile, var í gær afhent skýrsla um pyndingar fanga í valdatíð Augusto Pinochet, oddvita herforingjastjórnar sem ríkti frá 1973-1990. Þúsundir manna voru myrtar skömmu eftir valdarán herforingjanna, tugþúsundir teknar höndum og misþyrmt. Skýrslan er byggð á viðtölum við 35.000 manns, fyrrverandi fanga herforingjanna. Hún er óbirt en þó er vitað um ýmiss efnisatriði hennar. Þannig var tíundi hver fangi herforingjanna kona, margar sættu hrottalegu kynferðislegu ofbeldi í varðhaldi. Aðrir urðu m.a. að sæta barsmíðum, bruna, raflosti og kaffæringum. Fréttin var fyrst birt: 11.11.2004 07:49 Síðast uppfærð: 11.11.2004 07:47 Rannsókn á fjármálum Pinochet Dómari í Chile hefur fyrirskipað nýja rannsókn á fjármálum Augustos Pinochets, fyrrverandi einræðisherra landsins. Talið er að Pinochet hafi falið allt að 17 milljónir dollara í meira en 100 bönkum víðs vegar um heiminn. Áfrýjunardómstóllinn í Chile ákvað í júní að friðhelgi yrði létt af Pinochet og að honum yrði gert að svara fyrir ásakanir um skattsvik. Pinochet er 89 ára en hann var einræðisherra í Chile á árunum 1973 til 1990. Fréttin var fyrst birt: 27.07.2005 06:43 Síðast uppfærð: 27.07.2005 06:34 Chile: Friðhelgi Pinochet felld úr gildi Áfrýjunardómstóll í Chile felldi í gær úr gildi friðhelgi sem Pinochet fyrrverandi einræðisherra hefur notið sem fyrrverandi forseti. Það þýðir að hægt verður að ákæra hann fyrir fjársvik. Hann er sakaður um að hafa fært um 3 miljarða króna af opinberu fé á einkareikninga sína. Pinochet var í október sviptur friðhelgi vegna skattsvikamáls sem höfðað hefur verið gegn honum og fyrr í vikunni tapaði hann áfrýjunarmáli fyrir Hæstarétti Chile þannig að hægt verður að ákæra hann fyrir hvarf hóps vinstrisinna á valdatíma hans. Fréttin var fyrst birt: 31.12.2005 09:23 Síðast uppfærð: 31.12.2005 09:25

Þetta er að sjálfsögðu ekkert tæmandi um málið og bara stiklað á stóru (ítarlegra á fréttavef RUV), en sýnir að einhverju leiti hvaða máli það skiptir að eiga rétta vini í heimsvaldaklíkunni. Þessi kauði var að bjarga efnahag landsins og yfirstéttarinnar (fámennrar klíku, í hlutfallslegu tilliti til stærðar þjóðarinnar) frá villu og háska kommúnismans. Er það fullgild réttlæting fyrir gerðunum? Er þetta nokkuð annað en viðhorf og aðferðafræði auðvalds, sem allt vill gleypa, í hnotskurn? Ekki má heldur gleyma því, eftir því sem fréttir bera með sér, að hann var líka stórtækur þjófur. Þjófur, morðingi, pyntari og valdaræningi. Er ekki full ástæða að halda hlífiskildi yfir slíku stórmenni? Hann var nú ,,þjóðarleiðtogi” sem bjargaði frá háska og villu kommúnismans. Kanarnir eru oft búnir að leggja mikið undir í fjárfestingum í Suður-Ameríku og Kúba er enn í viðskiptabanni. Frá mínu sjónarmiði eru þeir afskaplega flatir í kapítalismanum og yfirleitt með skrítna hugmyndafræði, sem ég get alls ekki borið traust til, og mér óar við að Íslendingar séu að lepja upp eftir þeim alla auðgræðgina. Þegar menn fara að leggja mikið upp úr því að græða er hætt við að þeir falli á siðferðisbrautinni og auðurinn verður þeim dýrmætari en þarfir og réttindi alþýðunnar (þær þarfir sem góð siðgæðisvitund og hrein samviska leiða í ljós,en ekki það sem valdapakkið ætlar að skammta af nísku og eigingirni, þeir eru eins líklegir til að leggja súrefnisskatt á okkur) að hann verði þeim dýrmætari en raunveruleg sæmd. Aðalforgangslistinn er skipulagður með þeim hætti að gróðinn einn er æðsta markmið og það að greiða óbreyttum starfsmönnum laun er óæskilegur kostnaðarliður. Forstjórarnir geta hlotið ofurlaunin vegna þess að það er Amerískur siður og þeir eru partur af sjálftökuliðinu. Ég man að ég heyrði minnst á það í fréttum, ég held Bylgjunnar eða Stöðvar- tvö, að innrásin í Írak lá inni á borði Amerísks hugmyndabanka löngu áður en til hennar kom, og fyrir henni var skrifaður (einhver) æðsti maður Bush stjórnarinnar. Olíuauðurinn. Óréttlæti, græðgi og valdafíkin er það sem auðkennir óráðsíu þessa (græðgina og valdafíknina sem vanvirðir og nauðgar öllu). Það er einmitt þar sem djöfullinn sjálfur birtist. Hégóminn og blinda fólksins er það sem er nauðsynlegt fyrir það vald til að komast á legg. Eftir að það er fullburða er það háskalegt skrímsli, sem er alveg eins líklegt til að leiða okkur öll til glötunar, í blindri græðgi og fullkomnu tillitsleysi til alls sem raunverulega skiptir máli, með ofurstyrk og ofurvaldi sem veikburða og háð alþýðan getur ekki spornað við. Einhvern tíman sá ég mynd, í bók um málaralist, mynd eftir einhvern málara sem málaði seríu. Í fyrstu var náttúran fögur og ósnortin, ég man ekki hvort hann málaði millistigið en við getum gert okkur í hugarlund hvað það var, að lokum var hin NÝTTA náttúra með skógana höggna og beinahrúgur skeppnanna og ríkið var dauðans. Erum við efins um að það sé til góðs að leggja allt á altari peningahyggjunnar? Hvað við veljum og hverju við viljum fylgja er undir okkur komið. Við getum spornað við afvegaleiðingunni og ógæfunni ef við höfum nothæfan skilning og vilja til og ef við getum lært að standa saman og spornað við ógæfunni, annars ekki. Það þarf í sjálfu sér ekki að vera vont að auður safnist á fárra hendur. Það sem mestu máli skiptir er hugarfar og leikreglur. En af hverju eigum við að leggja traust á gráðuga auðvaldseggi sem virðast vera í leiknum á eigin forsendum einum? Ég legg ekki traust á þá og ég syrgi þá ekki í logum helvítis.

Þetta er orðið mjög langt hjá mér. Ég bið þig um að fyrirgefa ef ég er alvarlega að brjóta reglur með þessu. Ég hef það mér til málsbóta að hinir hafa skilið eftir mikið pláss handa mér. Lifið vel og lengi.


Ágúst - 11/03/06 01:44 #

Í frétt Morgunblaðsins 3. mars var frá því greint að Tony Blair, sem vart þarf að kynna, hefði sagt að guð mundi „skera úr um hvort það hafi verið rétt eða röng ákvörðun hjá honum að ráðast inn í Írak árið 2003.“ Enn fremur hefði hann sagt „að ef maður tryði á Guð að þá hafi ákvörðunin verið tekin af honum einnig.“

Því er við þetta að bæta (ég man ekki hvar það,eða hvernig, það stendur) að guð hefur skapað bæði þá sem eru til réttlætingar og þá sem eru til vandlætingar. Syndarin og skömmin er af Guðs völdum, samkvæmt þessu, og þar kemur upp þessi klassíska mótsögn ritningarkinnar.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.