Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kristin"fræði": 1. Illu andarnir

Á árunum 1994 til 2001 komu út sjö kristinfæðibækur fyrir grunnskóla eftir Sigurð Pálsson, þjóðkirkjuprest, og Iðunni Steinsdóttur. Í þessum greinaflokki verður bent á ýmislegt sem betur mætti fara í þessum kennslubókum.

Við byrjum á einu þeirra atriða sem upplýstir kristnir menn eiga ef til vill erfiðast með að sætta sig við, illa anda. Í einni bókanna, Upprisan og lífið, stendur:

Á dögum Jesú álitu margir að sjúkdómar stöfuðu af því að hinir sjúku hefðu syndgað eða væru haldnir illum öndum.
Þessu hafnaði Jesús. [1]

Það er vel hægt rökstyðja það að Jesús hafi verið ósammála því að sjúkdómar stöfuðu af syndum, en að halda því fram að hann hafi hafnað því að illir andar geti orsakað sjúkdóma er út í hött. Ekki nóg með það að hvergi í öllum guðspjöllunum hafnar Jesús því að illir andar orsaki sjúkdóma, heldur er sagt frá því að hann hafi læknað sjúkt fólk með því að reka úr því illa anda. Hlustum bara á hvað Pétur polstuli, einn nánasti samstarfsmaður Jesú, segir í Postulasögunni:

Posulasagan 10:38
Það er sagan um Jesú frá Nasaret, hvernig Guð smurði hann heilögum anda og krafti. Hann gekk um, gjörði gott og græddi alla, sem af djöflinum voru undirokaðir, því Guð var með honum.

Kannski var Pétur að hugsa um svona atvik:

Lúkasarguðspjall 13:10-16
Jesús var að kenna á hvíldardegi í samkundu einni. Þar var þá kona nokkur. Í átján ár hafði hún verið haldin sjúkleiks anda og var kreppt og alls ófær að rétta sig upp. Jesús sá hana og kallaði hana til sín og sagði við hana: Kona, þú ert laus við sjúkleik þinn! Þá lagði hann hendur yfir hana, og jafnskjótt réttist hún og lofaði Guð. En samkundustjórinn reiddist því, að Jesús læknaði á hvíldardegi, og mælti til fólksins: Sex daga skal vinna, komið þá og látið lækna yður og ekki á hvíldardegi. Drottinn svaraði honum: Hræsnarar, leysir ekki hver yðar á hvíldardegi naut sitt eða asna af stalli og leiðir til vatns? En þessi kona, sem er dóttir Abrahams og Satan hefur fjötrað full átján ár, mátti hún ekki leyst verða úr fjötrum þessum á hvíldardegi?

Nú gætu einhverjir reynt að malda í mótinn og sagt að með orðunum "Satan hefur fjötrað" sé Jesús ekki að viðurkenna að illir andi hafi verið að verki heldur sé um ljóðræna myndlíkingu að ræða. Sú túlkun er auðvitað fræðilega möguleg en það hlýtur að vera eðlilegra að gera ráð fyrir því að þarna sé verið að lýsa viðhorfi sem var almennt á þessum tíma, að illir andar orsaki suma sjúkdóma.

En besta dæmið í guðspjöllunum, sem ætla mætti að Sigurður Pálsson hafi lesið oftar en einu sinni, gefur ekki færi á svona undanbrögðum. Þar er augljóslega um sjúkan mann að ræða og ekki er hægt að bjarga Jesú með því að mistúlka orð hans:

Markúsarguðspjall 9:17-29
En einn úr mannfjöldanum svaraði honum: ,,Meistari, ég færði til þín son minn, sem málleysis andi er í. Hvar sem andinn grípur hann, slengir hann honum flötum, og hann froðufellir, gnístir tönnum og stirðnar upp. Ég bað lærisveina þína að reka hann út, en þeir gátu það ekki." Jesús svarar þeim: ,,Ó, þú vantrúa kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá yður? Hversu lengi á ég að umbera yður? Færið hann til mín." Þeir færðu hann þá til Jesú, en um leið og andinn sá hann, teygði hann drenginn ákaflega, hann féll til jarðar, veltist um og froðufelldi. Jesús spurði þá föður hans: ,,Hve lengi hefur honum liðið svo?" Hann sagði: ,,Frá bernsku. Og oft hefur hann kastað honum bæði í eld og vatn til að fyrirfara honum. En ef þú getur nokkuð, þá sjá aumur á okkur og hjálpa okkur." Jesús sagði við hann: ,,Ef þú getur! Sá getur allt sem trúir." Jafnskjótt hrópaði faðir sveinsins: ,,Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni." Nú sér Jesús, að mannfjöldi þyrpist að. Þá hastar hann á óhreina andann og segir: "Þú dumbi, daufi andi, ég býð þér, far út af honum, og kom aldrei framar í hann." Þá æpti andinn, teygði hann mjög og fór, en sveinninn varð sem nár, svo að flestir sögðu: ,,Hann er dáinn." En Jesús tók í hönd honum og reisti hann upp, og hann stóð á fætur. Þegar Jesús var kominn inn og orðinn einn með lærisveinum sínum, spurðu þeir hann: ,,Hví gátum vér ekki rekið hann út?" Hann mælti: ,,Þetta kyn verður eigi út rekið nema með bæn."

Þessi maður var augljóslega flogaveikur. Jesús hélt að flogaveikin væri orsökuð af illum anda. Jesús hafnaði því augljóslega ekki að illir andar orsaki sjúkdóma. Þrátt fyrir þetta er börnum kennt í kristinfræði að Jesús hafi afneitað því að illir andar orsaki sjúkdóma.

Ég skil það vel að kristnum mönnum sé illa við það að meintur sonur guðs og frelsari þeirra hafi verið það óupplýstur, eins og nánast allir samtímamenn hans, að hann hafi trúað því að illir andar væru fljúgandi um í loftinu og væru að valda sjúkdómum. Ég skil það líka að þeir vilji ekki að börn læri að Jesús hafi verið svona "vitlaus", það hefur líklega slæm áhrif á trúarinnrætinguna. Þeir mega alveg trúa því, þvert á allar heimildir, að Jesús hafi ekki haft þessar skoðanir. Þeir mega jafnvel ljúga því að börnunum sínum í sunnudagsskólunum. Það er skiljanlegt að þeir vilji gera það, enda getur það skemmt fyrir trúarinnrætingunni að fá að vita óþægilegar staðreyndir. Þeir ættu samt ekki að fá að kenna þessa trú sína í opinberum skólum.

Hvað varðar þessa rangfærslu í kennslubókinni, þá held ég að ástæðan fyrir henni sé sú að höfundarnir, eða að minnsta kosti sá höfundur sem hefur sérfræðiþekkinguna á efninu, hafi átt í erfiðleikum með að greina á milli trúarsannfæringar sinnar og staðreynda. Mér finnst það mjög skiljanlegt að fólk sem vinnur við það að boða kristna trú, en ekki staðreyndir, eigi erfitt með að greina þarna á milli. Þess vegna tel ég það nauðsynlegt að fólk sem þarf ekki að greina þarna á milli komi að því að semja kennslubækur um svona viðkvæmt efni.


[1] Iðunn Steinsdóttir og Sigurður Pálsson, Upprisan og lífið. Námsgagnastofnun. Reykjavík 1996. bls. 73

Hjalti Rúnar Ómarsson 28.02.2006
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 28/02/06 09:14 #

Ekki má heldur gleyma geðsjúku mönnunum tveimur í Gadarena en Jesú læknaði þá með því að reka úr þeim illa anda í svínahjörð sem svo steyptist fyrir björg (Matt. 8.30). Ef Kleppspítali hefði haldið svín þá hefði margur maðurinn læknast fyrr.....NOT!

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.