Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kraftaverkið sem ekki var (frekar en öll hin)

Það eru væntanlega fáir sem vita af tilvist Kirkju.net. Þar má finna "efni tengt kaþólskri trú". Þann 24. febrúar skrifaði Jón Rafn Jóhannsson grein sem fjallar aðallega um kraftaverk í Hiroshima. Í lok greinarinnar eru "[a]lvitringarnir á Vantrúarnetinu" beðnir um að koma með skýringar á þeim magnaða atburði sem lýst er í greininni.

"Þann 6. ágúst 1945 varpaði B-29 sprengiflugvél kjarnorkusprengju á Hiroshima. [...] Allt innan einnar mílu hringferils var tortímt fullkomlega. Innan þessa hrings, dvöldu átta jesúítafeður. Fyrir utan nokkrar smá skeinur komust þeir allir lifandi af úr þessum hildarleik."

Heimildir Jóns fyrir þessari sögu eru nú ekki merkilegar. Sagt er að greinin sé "byggð á frásögn Richard Hubbell" og tölvupóstfang þess manns gefið upp. Þegar reynt að senda skeyti á þetta tölvupóstfang þá koma villuskilaboð til baka. Þessi saga hefur gengið á netinu í töluverðan tíma. Hún hefur fengið á sig nokkur einkenni flökkusagna. Til að mynda er í henni algengt minni úr trúarlegum flökkusögum sem við getum kallað "gáttaðir vísindamenn". Þær útgáfur af sögunni sem ganga á netinu passa reyndar ekkert sérstaklega vel við frásögn prestsins John A. Siemes sem var á staðnum.

Í stuttu máli virðist sannleikurinn vera sá að það hafi verið fjórir jesúítaprestar á staðnum en ekki átta. Þeir sluppu lifandi en sár þeirra voru töluvert alvarlegri en Jón Rafn gefur til kynna. Þó að svæðið í kringum prestahúsið hafi verið illa farið þá var ekki öllu tortímt og töluvert fleira fólk af svæðinu komst lífs af. Siemes segir líka að kirkjan hafi hrunið þó að Jón Rafn segi að það hafi verið aðallega þakið á henni sem skemmdist. En prestahúsið slapp reyndar merkilega vel og prestarnir voru frekar heppnir að bjargast. En kraftaverk? Nei.

Ekkert bendir til þess að vísindamenn hafi verið gáttaðir á því hvernig prestarnir sluppu. Lýsingarnar á áhrifum kjarnorkusprengjurnar sem Jón Rafn notar í grein sinni virðast gera ráð fyrir því að sprengjan hafi sprungið í miðri borginni en í raun sprakk hún í 600 metra hæð. Vissulega var eyðileggingin gríðarleg en það er óþarfi að ýkja hana.

Þess má líka geta að þó að í grein sinni segir Jón Rafn að presturinn Herbert Schiffer hafi andast fyrir skömmu þá benda flestar heimildar til þess að hann hafi reyndar látist árið 1978. Það þurfti reyndar ekki flókna rannsóknarvinnu til að finna þessar upplýsingar. Fimm mínútur á Google geta hrakið flestar kraftaverkasögur.

En hvað með boðskapinn? Það verður að segjast að grein Jóns Rafns hefur frekar ógeðfelldan undirtón. Samkvæmt honum þá á Guð að hafa tekið sig til og bjargað átta jesúíta prestum á meðan um 80.000 Japanir létust (fleiri dóu síðar). Af hverju eyðilagði Guð ekki bara sprengjuna? Gat hann það ekki? Af hverju deyr gott fólk á hverjum degi ef Guð gæti alveg eins komið í veg fyrir það? Er það fólk ekki nógu gott? Voru Japanarnir sem létust ekki nógu góðir til að lifa af? Er Guð Jóns Rafns siðblindur?

Viðbót
Frá því að þessi pistill var skrifaður hefur grein Jóns Rafns á Kirkju.net verið breytt og fimm neðanmálsgreinum hefur verið bætt við. Líklega er það tengt því að ég kom með nokkrar spurningar í athugasemdakerfinu.

Heimildir
Ýmsar útgáfur af Hiroshima kraftaverkasögunni safnað á
einn stað og bent á rangfærslur

Frásögn John A. Siemes
Lýsing á áhrifum árásarinnar á Hiroshima

Óli Gneisti Sóleyjarson 27.02.2006
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 27/02/06 10:16 #

Það er eitthvað afar kómískt við þessa áskorun.

Alvitringarnir á Vantrúarnetinu geta vafalaust upplýst okkur „kuklarana“ um það sem hér átti sér stað. Þeim ætti að reynast það heldur léttsótt þar sem hér er um „upplýsta“ menn að ræða. En sjálfur trúi ég því að hér hafi verið um kraftaverk að ræða.

Nú er búið að upplýsa blessaða mennina um hvað raunverulega gerðist þarna. Ætli það breyti einhverju um trú þeirra? Ég efast um það!


frelsarinn@vantru.is (meðlimur í Vantrú) - 27/02/06 11:19 #

Þessi endalausa leit af heppnu kristnu fólki sem lifir af hamfarir á meðan heiðingjarnir drepast er ekki bara ósiðlegt heldur viðbjóður.


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 27/02/06 11:38 #

Ég hef heldur aldrei náð því að algóður gvuð hlaupi til og lækni spikfeitann ameríkana af bakverk, uppi á sviði hjá Benny Hinn, en geri ekkert við grátbænum milljóna mæðra í Afríku þegar börnin þeirra eru að deyja í fangi þeirra. Þessu svaraði einn jesúhopparinn svo að það væri vegna þess að Afríkubúarnir væru ekki kristnir.

Ef þessi gvuð væri til þá væri hann mesta skrímsli sögunnar.


Snæbjörn - 27/02/06 17:03 #

Mjög fyndið. Sammála því að það er fremur ógeðfellt viðhorf sem endurspeglast í sögunni. En ég skil ekki til hvers þeir yfir höfuð draga svona sögur fram, því yfirleitt grafa þær alltaf undan trúkerfinu.


Snæbjörn - 27/02/06 17:04 #

Ég meina, því yfireitt grafa þær undan trúkerfinu.


frelsarinn@vantru.is (meðlimur í Vantrú) - 27/02/06 17:18 #

Það má kannski láta það koma fram hér að það voru evangelískir prestar sem blessuðu sprengjurnar áður en þeim var varpað á Japan.


Jórunn (meðlimur í Vantrú) - 01/03/06 10:25 #

Dan Barker segir frá því í bók sinni: LOSING FAITH IN FAITH að hópur fólks sem komst lifandi af úr flugslysi hafði þakkað það því að það var svo trúað. Þannig var látið að því liggja að þeir sem fórust hefðu ekki verið nógu trúaðir. Aðstandendur þeirra sem fórust kærðu og unnu málið.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 01/03/06 22:42 #

Það er eitthvað bogið við siðferði þeirra sem hugsa svona.


Turkish - 02/03/06 18:47 #

Þetta er svo ógeðslegur hugsunarháttur að orð fá honum ekki almennilega lýst.


Snæi - 11/03/06 13:37 #

Mér finnst skrýtið að fólk ætlist til þess að Guð komi alltaf okkur til bjargar, það voru menn sem bjuggu til sprengjuna og menn sem dóu vegna hennar. Guð skipaði engum að gera þetta, þeir tóku sjálfir ákvörðun um hvað þeir voru að gera og hvað þeir mundu gera öðrum. Ekki kenna Guði um þá þjáningu og ömurlegheit sem til er í heiminum, kennið frekar þeim um sem standa á bakvið þetta. Við sjálf. Við öskrum svo hátt hvort á annað að við erum fyrir löngu síðan hætt að heyra rödd Guðs...

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.