Það er ekki hægt að taka alvarlega fullorðið fólk uppklætt í svarta síðkjóla með hvítan trúðskraga, þusandi töfraþulur frá járnöld um meyfæðingar, upprisur og blóðfórnir. Þegar horft er á þessar leiksýningar úr fjarlægð á upplýsingaöld virka þær kjánalegar og hlægilegar. Klerkarnir framkvæma þær engu að síður alvörugjarnir og af hátíðleik. Því kjánalegri og undarlegri sem hátterni þeirra er því meira herðist snara sárinda um þá og þátttakendur. Það er því keppikefli þeirra að fá sem flesta til að taka þátt í leiknum svo að sem fæstir geti hlegið af atferlinu. Með slæmri blöndu af völdum og fjármagni í slíkt kenningakerfi má segja til verði hömlulaust Titanic skrímsli sem allt vill gleypa. “Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi” heyrist frá járnskrímslinu áður en það leggur á haf út.
Það skal því engan undra að margir trúmenn gangast upp í heift og æði gegn gagnrýnendum sínum. Margir þeirra vilja ganga að hinu frjálsa orði dauðu sér til varnar. Enda engin þolinmæði fyrir nokkra gagnrýni á órökstudda og lokaða heimsmynd trúarbragðanna. Það segir okkur margt að í skjóli fáfræði, ótta og einveldis uppsker eingyðistrú sína frjósömustu akra. Gagnrýni eða ef dregið er dár af kenningum slíkra fyrirbæra geta endað með því að gerandinn er hakkaður í spað. Þanmörkin eru nákvæmlega sömu hjá einræðisherrum og Yahweh trúarbrögðunum. Trúmenn þeirra ríkja sem hafa minnst frelsi til orðs og æðis eru hvað trylltastir fyrir hönd guðs síns. Reynsla okkar af Jyllandsposten málinu er öllum víti til varnaðar.
Hér á landi höfum við eingyðistrúarreglu sem er flækt í ríkisvaldið. Þetta fyrirbæri leyfir sér að vaða yfir samfélagið með ruddaskap í skjóli óréttlátra laga og reglugerða. Börn eru brennimerkt í trúfélag móður við fæðingu, þegar réttum aldri er náð þarf þolandinn að gera sér sérstaka ferð á manntalningarskrifstofu til segja sig úr klúbbnum. Samt sem áður mun viðkomandi borga ævilangt hluta sinna skatta til að halda upp viðhafnarlífi ríkiskirkjunnar. Stjórnarskráin er rennvot tuska í andlit þeirra sem ekki aðhyllast þessar evangelísku kenningar. Í nafni hefðaraka hanga erindrekar ríkiskirkjunnar á barnaheimilum og á skólalóðum til að heilaþvo ómótuð börn í þeirri viðleitni til viðhalda sjálfum sér. Í öllum þessum ófyrirleitna yfirgangi er stutt sárindi og reiði við minnstu gagnrýni.
Þessi ríkisrekna eingyðistrú þolir því lítt gagnrýni eða aðhlátur. Sönnun þess er 125 gr. hegningarlaga um guðlast þar sem bannað er að draga dár af kenningum hennar. Á endanum hlýtur að koma að ákveðnu uppgjöri eftir þessa þúsund ára eyðimerkurgöngu hennar hér á landi. Landsmenn sýndu það í verki með því að mæta ekki við kristnitökuhátíðina á Þingvöllum. Algjör meirihluti landsmanna vill skilja að ríki og kirkju. Það færist sem betur fer í vöxt að landsmenn líti á presta sem jafningja en þeir hinir sömu kalla það sárreiðir “afhelgun samfélagsins”. Skrokkur Titanics er illa laskaður og hið ósökkvandi skip er að sökkva. Kapteinn biskup, í sínu fílabeinsstýrishúsi, fyrirskipar að henda eigi “kynvillingum” frá borði. Hann segir þau sem trúa ekki á ósökkvanleika skipsins séu ógn við farþega og skipsáhöfn. Skipinu er þannig siglt rakleiðis í djúpið þar sem Kristur á bíða eftir farþegunum. Í svona ástandi er nauðsynlegt að hefja björgunaraðgerðir.
Áróðri og útpældum félagsþrýstingi þegar fólk er á hvað viðkvæmustum aldri.
Fermingarnar eru líklega eitt besta dæmið um það. Það heyrðist ósjaldan á þessum tíma "hva, ætlaru ekki að fermast?" "nei, af hverju ætti ég að gera það, bara af því að það gera það allir?" Ef fermingunni yrði fresta um nokkur ár þá held ég að þátttakan í þessum skrípaleik myndi snarminnka. Það var aldrei nein gagnrýnin umræða frá kennurum eða neinum, þetta þarf augljóslega að bæta að mínu mati.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Sverrir - 19/02/06 17:46 #
Vel hnitmiðuð grein hjá þér. Sem betur fer lifum við í samfélagi tjáningafrelsis, en því miður ekki algjöru (sbr. 125.gr hegningarlaga). En með góðri umræðu og vitundarvakningu þjóðarinnar gerist það smám saman að við rísum upp fyrir þessa þörf okkar að trúa á barnalegar furðuverur til að líða vel með okkur sjálf og sjá tilgang í lífinu. Einnig er það gríðarlega mikilvægt umhugsunarefni með uppeldið. Trúarlegt uppeldi er að mínu mati skaðlegt. Leyfið börnum ykkar að mynda sínar skoðanir á trúarbrögðum og hvort þau vilji aðhyllast þau. Ef það er þeirra val, gott og vel, en ekki beita áróðri.