Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Almenningur varaður við óheilnæmri hegðun

Um þessar mundir ber mikið á blaðaskrifum þar sem gallar tóbaksnotkunar eru útlistaðir. Þeir verða ekki raktir sérstaklega hér, enda ekki þörf á. Tóbaksnotkun er ósiður, fíkn sem heldur fólki í greipum gegn vilja sínum. Margir tóbaksneytendur halda áfram að neyta tóbaks þótt þeir viti um áhættuna sem fylgir því. Tóbak er þrátt fyrir allt lögleg vara og fátítt er að fólk sé neytt til að hætta neyslu þess, en ekki virðist það angra neinn þótt talsmenn heilsuverndar eða tillitssemi reki það fyrir almenningi að best sé að hætta að reykja.

Það er líka gott og blessað, en hvers vegna heldur margt fólk samt áfram að neyta tóbaks? Jú; -- fíklinum finnst gott að fróa fíkn sinni og auk þess kostar það meðvitað átak að venja sig af ósið eins og þessum. Fíkillinn lýgur því að sjálfum sér að þetta sé erfitt og lítur fram hjá augljósum, óumdeildum kostunum sem fylgja því.

Það eru sterk rök fyrir því að hætta að neyta tóbaks.

Það eru líka sterk rök fyrir því að hætta að trúa á guð eða önnur hindurvitni og yfirnáttúru sem haldið er fram, ýmist með rakalausum staðhæfingum eða rökvillum og rangfærslum, að séu til í alvörunni. Sé málið litið allsgáðum augum sést berlega að rökhyggja er manni betra leiðarhnoð í lífinu en „fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá“ (sbr. Hebr. 11:1). Vera má að einhverjir trúmenn sætti sig ekki við þessa samlíkingu, en takið eftir: Trúgirni er ekki dyggð.

Það er einfeldningslegt þegar nútímafólk þarf andlega hækju á borð við þríeina himnavætt til að finnast það geta fótað sig í lífinu. Í þessari grein hef ég hvorki séð ástæðu til að útlista sérstaklega galla tóbaksneyslu, né kosti þess að hætta að neyta tóbaks. Að sama skapi á þetta ekki að vera nein tæmandi úttekt á göllum trúar eða kostum rökhyggju. Hitt vil ég benda á, að trú tekur gjarnan á sig mynd fíknar. Fíkill hefur oft brenglaða heimsmynd, sem meðal annars felur oftar en ekki í sér afneitun á fíkninni. Sá sem er ölvaður af trú er, á svipaðan hátt, líklegur til að afneita því að hann sé trúarfíkill.

Við á Vantrú höfum oft hlotið skammir fyrir að „gagnrýna trú fólks“. Hvað heyrum við oft skammast yfir fólki sem gagnrýnir reykingar eða aðra fíkn?

Sá sem er fastur í viðjum fíknar er ekki öfundsverður. Fyrrverandi trúmenn þekkja bæði þægindin við að vera í andlegum móðurkviði trúarinnar, togstreituna við andlega endurfæðingu sem trúleysingi, og loks léttinn, frelsið sem fylgir því að geta sópað fíkn og röngum hugmyndum út af borðinu eins og hverju öðru skrani. Sömu reynslu hafa fyrrverandi reykingamenn og aðrir fyrrverandi fíklar.

Það eru góðar ástæður fyrir því að menn amist við auglýsingum þess efnis að tóbak sé gott, en enginn amast við því að skaðsemi þess sé auglýst. Það eru líka góðar ástæður fyrir því að menn amist við trúboði og innrætingu trúar en það er samt látið viðgangast, og þegar menn gagnrýna það og benda á skaðsemi trúgirni og órökhyggju taka margir því illa. Hverju sætir? Hvers vegna bregst fólk reitt og sárt við þegar gagnrýnin er málefnaleg og rökstudd? Takið skrefið, leitið ykkur hjálpar ef þið þurfið, en fyrir alla muni, takið út úr ykkur andlegt snuð trúgirninnar og drepið í vitsmunalegri sígarettu órökhyggjunnar. Þið sjáið ekki eftir því.

Vésteinn Valgarðsson 30.01.2006
Flokkað undir: ( Rökin gegn guði )

Viðbrögð


Orri - 01/02/06 02:36 #

Ósköp er þessi útgangspúnktur þinn með tóbakið einkennilegur og skrítinn.

Nikótín er ávanabindandi kemískt fyrirbæri. Ekki reyna að líkja því við trú. Engan veginn sambærilegt.

Ég, sem stuðningsmaður þinn í trúleysi, er vonsvikinn yfir þessari lítilfjörlegu grein.

Skortir ykkur vantrúarmönnum mótívasjón eða tíma til uppbyggilegra skrifa, þessa dagana?

Ég hlakka til þess dags þegar þið vantrúarmenn farið aftur að skrifa greinar sem hafa einhverja vigt.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 01/02/06 09:13 #

Nikótín er ávanabindandi kemískt fyrirbæri. Trú er ávanabindandi sálrænt fyrirbæri. Þetta tvennt er sambærilegt að því leyti. Trúmenn fjargviðrast annað slagið út af því að amast sé við trú þótt það sé gert með sanngjörnum hætti. Ekki amast ég, sem reykingamaður, við því að amast sé við reykingum þegar það er gert með sanngjörnum hætti.


eggert - 02/02/06 00:16 #

Ég trúi því að reykingar séu skaðsamar og vondar. Þessvegna er ég tiltölulega nýhættur. Og merkilegt nokk þá finn ég strax breytingu til batnaðar. Betra lyktarskyn. Betra bragðskyn. Betri list. Léttara að sofna. Léttara að vakna o.fl mætti telja til. En ég finn merkjanlegan mun eingöngu vegna þess að ég trúði að reykingar yllu mér skaða þannig að ég hætti. Ef ég hefði aldrei reykt þá hefði ég aldrei upplifað það að skynja munin á því að reykja og reykja ekki. En sökum þess að ég trúði að best væri að hætta að reykja þá fékk ég að upplifa nýtt líf og nýja skynun hvað bragð, lykt etc. áhræir.

Og þá komum við að blessaðri trúnni:) Nú er það mín reynsla sem vantrúarmanns til fjölda ára að maður fær nýja vídd og nýja skynjun við það að breyta um viðhorf. Ég er enginn öfgatrúmaður í dag og legg það ekki í vana minn að sækja samkomur eða fara í kirkju. En ég hef mína trú eins og ég vil hafa hana og það gerir mér gott. Hún gefur mér nýja skynjun og öðruvísi nálgun á menn, málefni og annað sem snertir daglegt líf. Ef það gerir mér gott hví þá ekki að láta það eftir sér að trúa á það svo lengi sem maður fer ekki útí einhverjar öfgar. Væri ég einhverju betur settur með tóma rökhyggju þó svo að hún sé líka allra góðra gjalda verð og nauðsynleg í daglegu lífi. En ef rökhyggjan ein og sér réði öllum mínum gjörðum og hugsunum þá er ég ansi hræddur um að mitt líf væri ansi innantómt og tilgangslaust.

PS. Ef þú mælir svo einarðlega fyrir rökhyggju umfram trú hví læturðu ekki rökhyggju hafa meira að segja í þínu lífi. Öll rök benda til þess að reykingar séu skaðsamar. Hví hættirðu ekki?


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 02/02/06 00:57 #

Mér finnst afar fyndið að þrettán mínútum eftir þetta innlegg kemurðu með athugasemd þar sem þú viðurkennir skaðsemi trúar. Trúmenn munu alltaf blanda trú í siðferðisumræðu. Það er einn aðalskaði trúarinnar.


eggert - 02/02/06 02:59 #

Það var og Hjalti. Ef ég hef eina afstöðu til einhvers en aðra til annars þá er ég ekki sjálfum mér samkvæmur. Ertu að segja það. Nú var ég að láta á það reyna að pósta hérna inná Vantrú í fyrsta sinn og hélt að maður fengi kannski einhver röklegri innlegg en svo við því sem að ég skrifaði en að það væri fyndið. Er þetta það besta sem er í boði hérna?

Það má vel vera að þetta sé fyndið í hugum þeirra sem temja sér einsleitar skoðanir og hugarfar og láta trú eða trúleysi eftir því hvað við á móta allt sitt hugarfar að öðrum sé fært að hafa ólíkar skoðanir eða trú eftir því hvaða málefni eru til umræðu hverju sinni.

Trúmenn eru misjafnir rétt eins og trúleysingar eru misjafnir og því finnst mér hæpið af þinni hálfu að segja "trúmenn munu alltaf blanda trú í siðferðisumræðu". Þetta er ansi víðfeðm alhæfing og jaðrar við trúarofstæki af þinni hálfu. Því þessu trúir þú í blindni rétt eins og þú vilt halda að trúmenn trúi í blindni.

Þó svo ég hafi mína hugmynd um Guð og trúi á hann eins og ég tel hann vera þá hef ég og mun ávalt viðurkenna að trú getur valdið skaða. Enda sýnir sagan okkur það. En annars er það ekki trúin ein og sér sem veldur skaðanum heldur mannfólkið sem oft á tíðum mistúlkar eða býr til eitthvað skrýpi úr trúnni þannig að það væri betur komið án hennar. Held að hófleg blanda af rökhyggju, skynsemi, trú og kærleika sé hvað best fyrir mig.

Gaman væri ef þú eða einhver annar kemur með eitthvað innlegg á þetta að leggja þá orð í belg á röklegum nótum í stað þess að bjóða uppá sleggjudóma eins og það að þetta sé bara fyndið.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 02/02/06 03:25 #

Það má vel vera að þetta sé fyndið í hugum þeirra sem temja sér einsleitar skoðanir og hugarfar og láta trú eða trúleysi eftir því hvað við á móta allt sitt hugarfar að öðrum sé fært að hafa ólíkar skoðanir eða trú eftir því hvaða málefni eru til umræðu hverju sinni.

Er ég með "einsleitar skoðanir og hugarfar"? En mér fannst þetta ekki vera óskyld málefni. Grein Vésteins fjallar um hversu skrýtið það sé að það megi ekki auglsýsa skaðsemi trúar og hin greinin fjallar um eitt af skaðsemum trúar.

Trúmenn eru misjafnir rétt eins og trúleysingar eru misjafnir og því finnst mér hæpið af þinni hálfu að segja "trúmenn munu alltaf blanda trú í siðferðisumræðu". Þetta er ansi víðfeðm alhæfing og jaðrar við trúarofstæki af þinni hálfu. Því þessu trúir þú í blindni rétt eins og þú vilt halda að trúmenn trúi í blindni.

Já, Þetta er frekar víðfeðm staðhæfing. En hvers vegna segirðu að þetta jaðri við trúarofstæki? Og hvers vegna segirðu að ég trúi þessu í blindni? Hvernig geturðu sagt þetta án þess að vita á hverju ég byggi þessa afstöðu mína?

En annars er það ekki trúin ein og sér sem veldur skaðanum heldur mannfólkið sem oft á tíðum mistúlkar eða býr til eitthvað skrýpi úr trúnni þannig að það væri betur komið án hennar.

Þetta er nú bara "eini sanni Skotinn" rökvillan, nema þarna er það "eina sanna trúin", þar sem að öll trú sem að þér finnst slæm er ekki sönn trú heldur skrípi.


eggert - 02/02/06 03:48 #

Jæja Hjalti. Takk fyrir öllu málefnalegra og betra innlegg en síðast.

Þetta voru engan vegin sömu málefnin og ástæðulaust að reyna að halda því fram. Vissulega finnst mér að það megi vel rökræða og velta fyrir sér skaðsemi trúar. Þessvegna þakkaði ég fyrir góðan vef í einu af mínum innleggjum. Þessvegna er ég alveg opinn fyrir því að ræða lögleiðingu líknardráps.

Það eitt útaf fyrir sig hrekur aðra fullyrðingu þína um að trúmenn noti trú alltaf í siðferðisumræðu. Geri ég það t.a.m. og gera allir trúaðir það. Þarna ertu búin að setja ansi stóran og víðfeðman hóp fólks í eitt mengi og alhæfir um það. Þú gerir það væntanlega vegna þess að þú trúir því að þú sért að fara með rétt mál. En heldur þú virkilega að þetta eigi við alla? Vissulega kemur fólk inná marga fleti þegar siðferðisspurningar eru til umræðu. Trúmál, lagasetningar og ýmsa fleiri fleti enda ósköp eðlilegt. Eigum við ekki að vera hugsandi og velta málunum fyrir okkur útfrá sem flestum sjónarhornum.

Hmm svo væri líka ágætt ef að þú legðir fólki ekki orð í munn eða hugsanir í haus. Það er engin ein sönn trú í mínum huga. Þar af leiðandi er engin trú svosem verri eða betri en mín. Búddistar mega hafa sýna trú. Spiritistar líka. Og það er ekkert skrýpi. Hitt er annað mál að það er hægt að nota trúna og trúarbrögðin til illra verka með ofstæki og þá vil ég meina að um skrýpi sé að ræða. Trúleysi er líka trú svona vel að merkja og ekkert skrýpi heldur:)


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 02/02/06 04:08 #

Þetta voru engan vegin sömu málefnin og ástæðulaust að reyna að halda því fram.

Voru þau ekki tengd? Skaðsemi trúar og hvers vegna það er illa séð að vara fólki við trú. Er þetta ekki tengt?

En mikið væri ég til í að fá svar frá þér fyrir því hvers vegna þessi skoðun mín "jaðri við trúarofstæki" og hvers vegna þú segir að ég trúi þessu í blindni.

Þessvegna er ég alveg opinn fyrir því að ræða lögleiðingu líknardráps.

Það eitt útaf fyrir sig hrekur aðra fullyrðingu þína um að trúmenn noti trú alltaf í siðferðisumræðu. Geri ég það t.a.m. og gera allir trúaðir það. Þarna ertu búin að setja ansi stóran og víðfeðman hóp fólks í eitt mengi og alhæfir um það. Þú gerir það væntanlega vegna þess að þú trúir því að þú sért að fara með rétt mál. En heldur þú virkilega að þetta eigi við alla?

Þú misskilur mig ef þú heldur að ég eigi við að allir trúmenn blandi trúnni inn í allar umræður um siðferðismál. Það er náttúrulega út í hött. En eðli trúar (ósýnilegt fólk sem veit helling af félagslega mikilvægum hlutum) er þannig að það er auðvelt að tengja það við siðferði. Enda veit ég ekki af þeim trúarbrögðum sem hafa ekki eitthvað að segja um breytni. Veist þú um einhver sem gera það ekki?

Vissulega kemur fólk inná marga fleti þegar siðferðisspurningar eru til umræðu. Trúmál, lagasetningar og ýmsa fleiri fleti enda ósköp eðlilegt. Eigum við ekki að vera hugsandi og velta málunum fyrir okkur útfrá sem flestum sjónarhornum.

Við eigum að vera hugsandi en að velta siðferðisspurningum fyrir sér frá sjónarhorni trúar er óskynsamlegt og skaðlegt að mínu mati. Við ættum að nota skynsemina en ekki órökstudd hindurvitni í svona umræðum. Hvaða gagn gerir það að velta því fyrir sér hvað ósýnilegir andar eða einhver helgirit hafa til málanna að leggja?

Hmm svo væri líka ágætt ef að þú legðir fólki ekki orð í munn eða hugsanir í haus. Það er engin ein sönn trú í mínum huga. Þar af leiðandi er engin trú svosem verri eða betri en mín. Búddistar mega hafa sýna trú. Spiritistar líka. Og það er ekkert skrýpi. Hitt er annað mál að það er hægt að nota trúna og trúarbrögðin til illra verka með ofstæki og þá vil ég meina að um skrýpi sé að ræða.

Ég var nú bara að tala um orð þín sem voru á þá leið að oftar en ekki væri fólkið bara að mistúlka hlutina eða búa til skríði úr trúnni þegar hún gerir skaða, þeas að það sé ekki alvöru trú. En auðvitað er það alveg jafn alvöru trú og trúin sem þér líkar við.

Trúleysi er líka trú svona vel að merkja og ekkert skrýpi heldur:)

Trúleysi er ekki trú. Hvers vegna í ósköpunum heldurðu það?


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 02/02/06 10:12 #

Eggert, ég efast um að þú hafir bara trúað því að það væri sniðugt að hætta að reykja. Ég giska -- nóta bene, giska -- á að þú hafir haft rökstudda sannfæringu um það. Skaðsemi reykinga er vel rökstudd. Skaðsemi trúar er það líka. Það eru tilfelli þar sem trú gerir ekki vitund til, og það eru líka til "hvítir hrafnar" sem virðast geta reykt fram yfir tírætt án þess að fá svo mikið sem kvef. Undantekningarnar sanna ekki regluna. Reykingar eru slæmur ávani og trú er það líka.

Án þess að mínar reykingar eigi að vera issjúið hérna, þá spurðirðu hvers vegna ég hætti ekki. Strangt til tekið held ég að það væri lögbrot ef ég segði þér það, því þá væri ég að segja eitthvað jákvætt um tóbak. En here goes: Mér finnst það gott. Auk þess er það dægrastytting og gagnast við að fæla burtu skordýr. Loks finnst mér það töff. Ég vona að löggan lemji mig ekki í hausinn með kylfu fyrir þessi illa ígrunduðu ummæli.

En reyndar hef ég hætt að reykja. Reykti ekki í 16 mánuði, þar til ég byrjaði aftur. Reynsla mín af því að hætta að reykja er ekki ósvipuð reynslu minni af að hætta að trúa. Bragð- og lyktarskyn komu aftur, sambærilegt við þegar heimsmyndin skýrðist og draugarnir hurfu úr skúmaskotunum heima hjá mér. Ég varði minni tíma og peningum í tóbak -- sambærilegt við að að spara tíma og peninga sem ella færu í bænahald, guðsorðabókakaup, áheit á Strandarkirkju eða frjáls framlög í söfnunarbauka kirkjunnar. Loks skánaði lyktin af mér.

Já, það er gott að venja sig af leiðum ávana.


eggert - 02/02/06 13:47 #

Takk fyrir svarið Vésteinn.

Nei það er líklega rétt hjá þér að ég hafi ekki bara trúað því í blindni að mér væri hollast að hætta að reykja og því fylgdu ýmsir kostir. Vissulega liggja fyrir ótal rannsóknir sem staðfesta óheilnæmi reykinga. En þær gera það líka að verkum að ég trúi því að það sé mér fyrir bestu. Þar liggur galdurinn. Ef ég tryði því ekki þá léti ég það sjálfssagt ógert að hætta að reykja. Vissulega hefur trúin leitt margan óskunda yfir mannkynið og ollið hörmungum og dauða því ætla ég ekki að mótmæla. Enda er ég ekki einn af þeim sem míg utan í Gunnar í Krossinum öllum stundum eða ligg á bæn. En hef þó mína trú sem ég tel innan eðlilegra skynsemis marka. Þ.e.a.s. engar öfgar. Slíka trú tel ég að valdi engum skaða og engu tjóni heldur láti bara gott af sér leiða í mínu lífi. Svo er sjálfsagt með marga aðra. Ef sú er raunin er þá ekki bara gott og vel að trúa ef manni líður betur fyrir vikið og verður vonandi eitthvað betri maður:)

Vona að löggan lemji þig ekki í hausinn:)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.