Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Árás á persónu vegna aðstæðna

Rökvillan Árás á persónu vegna aðstæðna felst í því að í stað þess að svara rökum viðmælandans eða hrekja þau, er gefið til kynna að viðmælandinn hljóti að hafa rangt fyrir sér vegna þess að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að hafa rétt fyrir sér. Þess vegna sé hann hlutdrægur og orðum hans sé ekki trúandi.

  1. A færir fram staðhæfinguna X.
  2. B fullyrðir að A haldi X fram aðeins vegna þess að A hafi hagsmuni af að halda X fram.
  3. Þess vegna er X ósatt.

Dæmi um þetta getur verið að háskólanemi hvetji fólk til að skrá sig úr Þjóðkirkjunni og rökstyðji það með vísunum í orð og æði biskups og presta hans. Formælandi Þjóðkirkjunnar mundi þá gerast sekur um þessa rökvillu ef hann héldi því fram að háskólanemanum gengi það eitt til að Háskóli Íslands (skólinn hans) fengi sóknargjöld þeirra sem mundu skrá sig utan trúfélaga.

Annað dæmi er þegar tóbaksfyrirtæki hafa haldið því fram að tóbaksneysla sé skaðlaus. Þeir sem halda fram skaðsemi tóbaks gerast sekir um þessa rökvillu ef þeir svara fullyrðingum um skaðleysi með því að benda á hagsmuni tóbaksfyrirtækjanna í stað þess að sýna fram á skaðsemina.

Auðvitað getur vel verið að lögfræðingur tóbaksfyrirtækisins hafi meiri áhuga á hagsmunum skjólstæðings síns heldur en sannleikanum um áhrif tóbaks á heilsu. Það getur líka vel verið að háskólaneminn hafi meiri áhuga á að háskólasjóður fái meiri peninga, frekar en að hann sé endilega ósammála því sem biskup og prestar segja eða gera. Rökvillan liggur í því að gera viðmælandann tortryggilegan vegna aðstæðna sinna í staðinn fyrir að svara rökum hans með mótrökum.

Vésteinn Valgarðsson 18.01.2006
Flokkað undir: ( Rökvillur )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.