Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Blóðskömm eða hór? Valkvæmt ritningarminni biskups eða ritningarleg afstæðishyggja?

Að undanförnu hefur mikið verið rætt um afstöðu Þjóðkirkjunnar til þess hvort ríkisvaldið eigi að banna henni að gefa saman samkynhneigða í hjónabandi eða ekki. Karl biskup færðist til skamms tíma undan því að gangast við skoðunum sínum á málinu, en gerði það loks í alræmdri nýárspredikun sem hefur vakið verðskuldaða hneykslun. Nú er kjarni málsins sá, að kirkjunni þykir þægilegra að vera bannað að gefa saman samkynhneigða í vígðu hjónabandi. Slíkt bann forðar henni frá því að þurfa að banna það sjálf, og afhjúpa þannig fornaldarlegt siðferði sitt. Skiljanlega er það óþægilegt fyrir kirkjuna að þurfa að viðurkenna að hjónaband samkynhneigðra sé viðurstyggð í augum guðsins síns (sbr. t.d. 3. Mósebók 18:22), enda mundi það fæla marga frá. Fordómar og mannfyrirlitning eru nefnilega ekki aðlaðandi í augum margra, hvað þá hræsni á borð við þá að kirkjan segist annars vegar bjóða öllum opinn faðminn, en mismuna svo fólki eftir kynhneigð þegar á hólminn er komið.

Biskup hefur stundum talað um að „siðferðisleg afstæðishyggja“ fylgi fólki sem ekki byggir siðferði sitt á ævafornri lygi og heimsku. Þetta er athyglisvert. Hlýtur það ekki að teljast siðferðisleg afstæðishyggja, hvernig kirkjan velur sjálf úr þær reglur sem hún svo kallar ófrávíkjanlegar? Hvernig getur kirkjan – samkunda mennskra manna – verið þess umkomin að vinsa úr hvað guðinn hennar telur skipa miklu máli og hvað ekki?

Tökum dæmi. Sjötta boðorðið segir: „Þú skalt ekki drýgja hór.“ Ég efast um að Þjóðkirkjan afneiti þessu. En hvað felst í þessu? Hvenær drýgir maður hór og hvenær drýgir maður ekki hór? Hvað er haft eftir Jesú?

Matteusarguðspjall 5:32
En ég segi yður: Hver sem skilur við konu sína, nema fyrir hórsök, verður til þess, að hún drýgir hór. Og sá sem gengur að eiga fráskilda konu, drýgir hór.

Markúsarguðspjall 10:12
Og ef kona skilur við mann sinn og giftist öðrum, drýgir hún hór.

Lúkasarguðspjall 16:18
Hver sem skilur við konu sína og gengur að eiga aðra, drýgir hór, og hver sem gengur að eiga konu, sem skilin er við mann, drýgir hór.

Rómverjabréfið 7:3
Því mun hún hórkona teljast, ef hún, að manninum lifandi, verður annars manns. En deyi maðurinn er hún laus undan lögmálinu, svo að hún er ekki hórkona, þótt hún verði annars manns.

Ef fráskilin manneskja gengur aftur í hjónaband, þá drýgja bæði hór. Hversu margt fráskilið fólk ætli Þjóðkirkjan blessi í hjónabandi á hverju ári? Hvers vegna fær fráskilið fólk undanþágu sem samkynhneigðir fá ekki? Samkynhneigðir mega ekki giftast vegna þess að lífsstíll þeirra er guði andstyggð, samkvæmt Biblíunni, en fráskildir mega það, þótt athæfi þeirra sé brot á sjötta boðorðinu, samkvæmt Biblíunni! Hverslags tvískinnungur er þetta? Hvers vegna er fráskildum leyft, en samkynhneigðum ekki?

Vésteinn Valgarðsson 09.01.2006
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 09/01/06 04:14 #

Hvers vegna er fráskildum leyft, en samkynhneigðum ekki?

Ég held að séra Örn Bárður sé með mögulegt svar:

Það er það sem er svo merkilegt við kristna trú, full af mótsögnum.

:)


Steindór J. Erlingsson - 09/01/06 08:14 #

Þetta er flott grein hjá þér Vésteinn. Kirkjan velur úr Biblíunni það sem hentar henni á hverjum tíma. Ritningarstaðirnir sem þú vísar í ættu erindi í grein í einhverju af dagblöðunum.


Eva - 09/01/06 11:41 #

Jú, það er sjáðu vegna þess að meirihlutinn ræður. Kirkjan er ekkert frábrugðin öðrum stofnunum í svokölluðu lýðræðisríki. Það eru ekki guðir eða forfeður okkar sem ákvarða hvaða siðferði eigi að ríkja, heldur við sjálf, þ.e.a.s. meirihlutinn. Meirihlutinn vill fá að ríða óháð hjónabandi. Ergó -kirkjan hættir að pæla í ríðisögu þeirra sem hún gefur saman.

Meirihlutinn hefur hinsvegar ekki farið fram á að fá að giftast fólki af sama kyni, hestinum sínum eða hópi fólks. Þessvegna segir kirkjan nei við því. Um leið og meirihlutinn gefur út yfirlýsingu um smekk fyrir líkriðl eða mannát, mun kirkjan hætta að setja sig upp á móti því. Kirkjan er nefnilega ó sköp einfaldlega fyrirtæki sem lýtur vilja meirihluti eigendanna. Og það er enginn guð í þeirra hópi.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 09/01/06 11:45 #

Kirkjan hefur nú alltaf tignað mannát, enda snýst heilagt sakramenti ekki um neitt annað. Gleymum ekki að þetta er blóðfórnar- og dómsdagskölt í yfirstærð.


oli - 09/01/06 14:59 #

Já það eru mótsagnir í Biblíunni. Skrýtið að fæðingarhálfvitinn og kúkurinn Gunnar á krossinum skuli ekki fatta það enda er hann skrifa grein um biskupinn og kynvillinga eins og hann orðar það. Ég bið alla hérna um að lesa greinina hans á krossinn.is og það sjáið hvernig þessi fæðingarhálfviti hagar sér. Það fleiri öfl til að berjast gegn þessum helvítis ofsatrúarpakki og aulum.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/01/06 15:04 #

Umrædd grein er hér

Þó ég taki undir sterk orð í síðustu athugasemd vil ég biðja fólk um að tóna athugasemdir sínar aðeins niður. Veit ég get ekki sett mig á háan hest hvað þetta varðar en þið vitið hvað ég meina :-)


JM - 09/01/06 15:38 #

Smá viðbrögð frá guðfræðingi: Mér sýnist að skurðgoðadýrkun sé í hávegum höfð hjá mörgum ónefndum "forsvarsmönnum kristinnar trúar" þar sem Biblían er í hlutverki skurðgoðsins. Gleymum ekki að Biblían er samansafn rita (dásamlegt bókmenntaverk) sem mennirnir skrifuðu. Þar er hægt að finna alla flóru mannlífs frá grimmasta ofbeldi til mesta kærleika. Það er svo "out" og vanþroskað að velja setningar úr Biblíunni til stinga og særa náungann. Stundum er eins og manngildið og kærleikurinn til náungans skipti engu máli en bókstafurinn öllu. Karlar og kerlingar sem berja sér á brjóst og telja gagnkynhneigð sína vera blessun og allt annað óeðli. Gay or straight, trúaður eða trúlaus er ekki aðalatriðið heldur það að vera góð manneskja sem særir ekki aðrar manneskjur! En þetta virðist vera of flókið fyrir "hina réttlátu".. Enn er Biblíunni veifað og menn benda og pota og segja "EN ÞAÐ STENDUR".. Boðskapurinn sem virkilega skiptir máli í Biblíunni er að við eigum að elska náunga okkar eins og okkur sjálf .. og það þarf ekki að hafa trú til að fara eftir því .. og líti nú hver í eiginn barm.


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 09/01/06 15:58 #

ahhhh, grænsápan er svo góð.......


oli - 09/01/06 21:51 #

Ég biðst afsökunar á orðum mínum hérna um Gunnar greyið á krossinum. En það ég vil meina er að þessir bókstafstrúarmenn mega eiga sína trú fyrir sig en þurfa ekki að vera blanda sér líf annars fólks og ég er ekki hommi heldur trúi ég á að vísindin geta svarað spurningunni hvort samkynhneigð sé meðfædd eða hvernig fólk verður svona. Skýringar biblíunnar eru mótsagnakenndar og ber ekki saman. Ofsatrúarmennirnir ættu að hugsa um frekar eins og "frelsarinn" sagði ; Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður skuluð þér og þeir gjöra þeim.


Ágúst - 09/01/06 22:10 #

ahhhh, grænsápan er svo góð.......

þar sem er að finna fúlan skít er þörf á góðri sápu.

Biskup hefur stundum talað um að „siðferðisleg afstæðishyggja“ fylgi fólki sem ekki byggir siðferði sitt á ævafornri lygi og heimsku. Þetta er athyglisvert. Hlýtur það ekki að teljast siðferðisleg afstæðishyggja, hvernig kirkjan velur sjálf úr þær reglur sem hún svo kallar ófrávíkjanlegar? Hvernig getur kirkjan – samkunda mennskra manna – verið þess umkomin að vinsa úr hvað guðinn hennar telur skipa miklu máli og hvað ekki?

Hver er sannleikurinn, þessi mælikvarði sem vegur rétta gildið með óumdeilanlegum hætti? Er rétta gildið örugglega ekkert afstætt? Ég spyr, því ég veit ekki.

Jú, það er sjáðu vegna þess að meirihlutinn ræður. Kirkjan er ekkert frábrugðin öðrum stofnunum í svokölluðu lýðræðisríki. Það eru ekki guðir eða forfeður okkar sem ákvarða hvaða siðferði eigi að ríkja, heldur við sjálf, þ.e.a.s. meirihlutinn. Meirihlutinn vill fá að ríða óháð hjónabandi.

Ég dreg þá ályktun að Eva sé ósátt við afstæði í siðferði, eða þetta lýðræðisákveðna siðferði. Afstæða siðferðið getur falið það í sér að sá sem breytir vel í dag (er samkvæmt meirihlutaviljanum) hafi yfir sér skömm á morgun vegna góðu breytninnar sinnar í dag, vegna gjörbreytingar almenningsálitsins á morgun.

Viljum við standa á einhverju föstu, og ef svo er, veit þá einhver hvað það er? Mér er það svo líka spurn hvort kristna fólkið hafi ekkert þarfara um að hugsa en samkynhneigð?


Jón Valur Jensson - 09/01/06 23:48 #

".... í alræmdri nýárspredikun sem hefur vakið verðskuldaða hneykslun" ??? – Er ekki allt í lagi með eftirtektina hjá þér, Vésteinn?

Bylgjan, með sinn tiltölulega unga og frjálslynda hlustendahóp, var með skoðanakönnun um afstöðu fólks til nýársræðunnar og birti niðurstöðuna 5. jan.: 53% voru sammála ræðu biskups á nýársdag.  Aðeins 35% voru ekki sammála. 12 % sögðu: bæði og.

Þetta kallarðu "hneykslun"! Eða ertu bara að tala um stóryrðin hennar Súsönnu?

"Mér er það svo líka spurn hvort kristna fólkið hafi ekkert þarfara um að hugsa en samkynhneigð?" spyr Ágúst. – Jú, svo sannarlega, við hugsum um fjölmargt annað og helzt ekki um þetta, nema það sé að abbast of mikið upp á okkur. Nú er sókn hafin af hálfu samkynhneigðra, með frumvarpi sem þeir sjálfir eiga mikinn þátt í að móta, m.a. með fölsuðum grundvelli forsendna frumvarpsins, og þá er ekki nema von, að menn spyrni við fótum, meðan þessi illa unna samantekt liggur fyrir þingi. En svo láta þingmenn og óupplýstir fjölmiðlamenn eins og umræðan eigi að standa um hjónavígsluna, sem er þó ekki til umtals í frumvarpinu, í stað þess að taka á þeim alvarlegu afglöpum sem stefnt er að með ýmsum óvitlegum ákvæðum í frumvarpinu sjálfu!


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 10/01/06 00:22 #

Ég vil koma sérstökum þökkum til Jóns Vals. Ég er afskaplega feginn, glaður og hamingjusamur að Jón Valur er talsmaður kristinna gilda í samfélaginu. Það er hraðvirkasta leiðin til að fá fólk til að hafna "fagnaðarerindinu" sem hefur verið nauðgað upp á Evrópu um aldir.


oli - 10/01/06 11:50 #

Heyrðu frelsari þó kristin gildi geta verið góð þá ná þau ekki til allra í samfélaginu þar sem biblían var samin á tíma fáfræðis fyrir 2000 árum. ég er hamingjusamur yfir því að hafa trú á sjálfum mér og getið þar af leiðandi borið ábyrgð á mínu lífi sjálfur án þess að vísa í himnadrauginn.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 10/01/06 17:52 #

Bylgjan, með sinn tiltölulega unga og frjálslynda hlustendahóp, var með skoðanakönnun um afstöðu fólks til nýársræðunnar og birti niðurstöðuna 5. jan.: 53% voru sammála ræðu biskups á nýársdag. Aðeins 35% voru ekki sammála. 12 % sögðu: bæði og.

Ég ætla að vona að Jón Valur Jensson sé að gera grín að okkur þegar hann vísar í netkönnun Reykjavík síðdegis

Það vita vonandi flestir að þessar netkannanir eru alls ekki áræðanlegar jafnvel þó þess sé gætt að einungis sé kosið einu sinni frá hverri tölvu gefa svona kannanir alls ekki áræðanlega mynd af viðhorfi þjóðarinnar því úrtakið er á engan hátt rétt valið.

Ég furða mig á því að Jón Valur skuli vísa í þetta máli sínu til stuðnings. Málstaður hans er vissulega hrottalega lélegur, en ég vissi ekki að málefnastaða hans væri svona skelfileg.


Ágúst - 10/01/06 19:00 #

Málefni samkynhneigðra eru ekki mín nema af því leyti sem þau varða réttlætissýn manna. Það hvað er réttlæti í hugum manna er það sem er áhugavert bæði við þessa umræðu og aðrar. Hins vegar er ég fremur þeirrar skoðunar að þetta mál sé léttvægt dægurmál í samanburði við önnur málefni sem varða heildina og þess vegna spurði ég hvort ekki séu til þarfari málefni að hugsa um og ég get alveg eins beint þeirri spurningu til vantrúar. En það er misjafnt hvað hverjum finnst og ekki víst að ég finni skoðanabræður hér. Ástæðan er e.t.v. skorturinn á fasta grundvellinum.

En Jón Valur, ef þú villt svara mér spurningum af hverju svarar þú mér þá ekki spurningunni: Hver er sannleikurinn, þessi mælikvarði sem vegur rétta gildið með óumdeilanlegum hætti?

Er hann ekki til, bara mis vinsælar dægurflugur sem fylla skarð hans?

Þetta er spurningin sem ég færi fram, til þín og allra annarra sem hafa áhuga umræðum um málefni okkar mannanna og ég vil gjarnan að vantrúarmenn láti uppi skoðanir sínar. Það er nú einu sinni þannig að grein Vésteins hvíldi á þessu atriði hvort biskup byggði mál sitt á valkvæmni eða afstæðishyggju, þá vænti ég, fremur en á föstum grundvelli.

Ef mælikvarðinn (eða lögmál) er til, þá mun gagnsemi alls dæmast af honum.

Ef mælikvarðinn er ekki til heldur bara mis vinsælar dægurflugur sem fylla skarð hans, þá er afstætt siðferði og valkvæmni eitthvað sem hefur fullan rétt á sér eins og hver annar “ósómi” sem ekkert ætti að mæla gegn. Þar eru hjónabönd samkynhneigðra hvorki “afglöp” eða “ósómi” vegna þess að afglöp eða ósómi eru merkingarlaus hugtök í rauninni. Þá ættir þú Jón valur að láta af andstöðu þinni við hjónabönd samkynhneigðra og þið vantrúarmenn að líta á ræðu biskups sem fullgilda, því hvað sem hann hefði sagt þá hefði hvort sem er ekki verið vit í því.


Guðmundur Jónsson - 10/01/06 20:12 #

Það að Jón Valur skuli vitna sigri hrósandi og fyrirvaralaust í netkönnun sem þessa bendir til þess að hann sé ekki sérlega vel að sér í aðferða- og tölfræði. Honum til upplýsingar þá er nákvæmlega EKKERT mark takandi á könnunum með sjálfvöldu úrtaki og um það eru allir aðferðafræðingar sammála. Þetta rímar reyndar ágætlega við aðferðafræðina í greinargerð hans um illsku og viðurstyggð samkynhneigðra sem birtist á Kirkjunetinu nýverið. Þar eru upplýsingarnar valdar selektíft úr þeim "rannsóknum" sem henta best til þess að styðja málflutning hins mikla vísindarits, Biblíunnar, um bévítans kynvillingana. Kannski að Jón Valur ætti að lesa sér örlítið til í aðferðarfræði áður en hann næst leggur í að skrifa 18 blaðsíðna grautargerð um vísindaleg málefni.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 11/01/06 01:39 #

Auðvitað vakti predikunin hneykslun. Þegar jafn áhrifamikill maður og biskup Þjóðkirkjunnar kemur fram með svona óþverra, þá er varla við öðru að búast en að hann veki ugg í brjósti þeirra sem kæra sig um mannréttindi (í þessu tilfelli samkynhneigðra). Hvað varðar þessa skoðanakönnun sem þér finnst svo ábyggileg, þá hef ég ekki öðru við ábendingar Matta að bæta en því, að fordómar eru reyndar ennþá útbreiddir í samfélaginu -- og það gerir þá ekki rétta þótt margir aðhyllist þá. Annars skrifar Jón Valur:

við [kristna fólkið] hugsum um fjölmargt annað [en samkynhneigða] og helzt ekki um þetta, nema það sé að abbast of mikið upp á okkur. [leturbreyting V.V.]
Ha? Hvernig eru samkynhneigðir að abbast upp á þig, Jón Valur, með því að fara fram á að njóta sömu mannréttinda og annað fólk? Er það vegna þess að þú getur ekki unnt náunganum að lifa líferni sem guðinn þinn á að hafa sagt að sé viðurstyggð? Svo er hér önnur spurning sem Jón Valur Jensson má svara þegar hann hefur tíma til þess: Hvers vegna leyfist fráskildum að fá kirkjulega hjónavígslu, en samkynhneigðum ekki?

Eva skrifaði:

Meirihlutinn vill fá að ríða óháð hjónabandi. Ergó -kirkjan hættir að pæla í ríðisögu þeirra sem hún gefur saman.

Meirihlutinn hefur hinsvegar ekki farið fram á að fá að giftast fólki af sama kyni, hestinum sínum eða hópi fólks. Þessvegna segir kirkjan nei við því.Ég held að þetta sé ekki fjarri sanni. Kirkjan vill jú ekki fæla frá sér fólkið sem heldur henni uppi með sóknargjöldunum vinsælu! Hvað köllum við þetta? Sell-out er ágætt orð. Útvötnun, gjaldfelling... þau eru fleiri. Eins og Hjalti benti réttilega á hefur Örn Bárður Jónsson komið með góða skýringu:

Það er það sem er svo merkilegt við kristna trú, full af mótsögnum.

Ágúst reit:

Málefni samkynhneigðra eru ekki mín nema af því leyti sem þau varða réttlætissýn manna.
Ertu viss? Eru það ekki sameiginlegir hagsmunir okkar allra að mannréttindi séu universal eða algild?

Ef mælikvarðinn er ekki til heldur bara mis vinsælar dægurflugur sem fylla skarð hans, þá er afstætt siðferði og valkvæmni eitthvað sem hefur fullan rétt á sér eins og hver annar “ósómi” sem ekkert ætti að mæla gegn.
Það er nú svo, að mannréttindi eru, þegar öllu er á botninn hvolft, mannasetning. Ég fæ ekki séð að það geri þau neitt minna virði fyrir vikið. "Mis vinsælar dægurflugur" er kannski hægt að kalla það -- þótt mér finnist þau orð hljóma lítillækkandi -- en hverju stigi mannkynssögunnar fylgir siðferðisstig sem byggir á ýmsum félagslegum þáttum. Þannig að það á sér auðvitað skýringar að fornaldarsiðferði Biblíunnar sé ekki í takti við nútímasiðferði. Auðvitað á það sér skýringar! Skýringin er sú að við erum komin langt fram úr ritunartíma Biblíunnar siðferðislega!


Ágúst - 12/01/06 01:45 #

Ágúst reit:

Málefni samkynhneigðra eru ekki mín nema af því leyti sem þau varða réttlætissýn manna.

Ég átti við að eftir því sem maður sér meira réttlæti og heillyndi í brjóstum manna almennt og þá ekki síst hjá þeim sem ráða ferðinni að þá ber maður meira traust til samfélagsin og fólki almennt líður betur. Þetta felur það að sjálfsögðu í sér að eftir því sem þetta er fátæklegra og verra að þá líður fólki ver og ber minna traust til samfélagsins og getur orðið reiðara og uppreisnargjarnara. Það er eitthvað til sem heitir réttlát reiði. Að málefni samkynhneigðra komi mér ekki við nema..... merkir aðeins það að ég er ekki samkynhneigður sjálfur, en það varðar mig að það sé tekið á málum þeirra af réttlæti og sanngirni, því það sýnir fram á réttlæti og sanngirni í samfélaginu. Þannig sé ég þetta, jú, sem sameiginlega hagsmuni okkar allra.

Það er nú svo, að mannréttindi eru, þegar öllu er á botninn hvolft, mannasetning. Ég fæ ekki séð að það geri þau neitt minna virði fyrir vikið.

Mannréttindasáttmálinn er að minnsta kosti ákveðin stefna. Þegar hann er saminn í lok heimstyrjaldarinnar, þá voru margar þjóðir í sárum. Augu manna opnuðust fyrir þörfinni á gagnkvæmri virðingu og réttlæti í garð hvers annars og mönnum vantaði alþjóðlegar reglur í þeim tilgangi að reyna að tryggja frið og réttlæti. Á þeim grunni reynslunnar var hann byggður. Það var þeirra trú að það gæti leitt af sér betri heim og þannig urðu þessar “mannasetningar” til. Ef til vill eiga menn eftir að nálgast mark sitt betur og öðlast dýpri skilning á eðli viðfangsefnisins og bæta þessar setningar þannig að þær standi nær réttlætinu og fullkomleikanum. En því miður er sjáanleg spenna í heiminum og ekki að öllu leiti farið eftir honum. Eitt nýlegasta dæmið, sem einnig snertir okkur er meint fangaflug CIA. Þar er væntanlega verið að brjóta 5. greinina. Gamli valdaræninginn, eftirmaður rétt kjörins leiðtoga Aliende, frá Síle er ekki leiddur fyrir réttinn þótt hann sé meintur fjöldamorðingi hann var meira að segja vinur járnfrúarinnar og drakk með henni te þegar hann var gestkomandi í landi hennar. Sonur járnfrúarinnar var ásakaður um að hafa ætlað, nýverið, að ræna völdum í Afríkuríki sem hefur yfir að ráða olíu í jörðu. Af hverju? Í nafni hugsjónar eða bara af glæpsamlegu hugarfari? Varða þessi atriði ekki brot? Þegar menn haga sér svona í heiminum, eru þeir þá mjög siðferðisþróaðir? Þetta eru bara fá dæmi. Ríglega 12 miljónir manna búa við þrælahald víða um veröld, af því er fram kemur í nýrri skýrslu frá alþjóða vinnumálastofnun Sameinuðuþjóðanna. Þetta er frétt frá síðasta ári. Var lesin á Bylgjunni. Þetta er brot á 4. greininni og er í umtalsverðu mæli. Jafnvel er að finna kynlífsþrælar í okkar heimshluta, samanber tilfelli í nágrannalöndunum. Það er eins og hvert annað lögmál að sá vegur sem er valinn leiðir á einhvern áfangastað og eftir því sem hann er betur valin eru líkurnar betri, en eftir því sem ósanngirnin, ósóminn og grimmdin er meiri þess meira er bölið. Að það skuli vera svo er hvorki réttlæti né óréttlæti. Þetta er bara svona; leiðin sem er valin leiðir að marki. Það er ekkert óréttlátt við það. Það er frekar fullkomlega réttlátt að orsakasamhengið virki þannig. Hver er sinnar gæfu smiður, hefur verið sagt. Frá ófullkomnun til fullkomnunar er viturleg leið. Eða viljum við ekki stefna til fullkomnunar (og líta út sem viturleg?)? Allar leiðir kosta eitthvað. það er farsælla að vera fyrirhyggin en læra af sárum mistökum.

Þannig að það á sér auðvitað skýringar að fornaldarsiðferði Biblíunnar sé ekki í takti við nútímasiðferði. Auðvitað á það sér skýringar! Skýringin er sú að við erum komin langt fram úr ritunartíma Biblíunnar siðferðislega!

Ef til vill erum við komin fram úr því í bókunum, en mér sýnist margt vanta upp á að viðunandi marki sé náð í reyndinni. Dæmin sem ég taldi áður styðja það. Og þar að auki er ég haldin efasemdum um stefnur.

Svo vil ég nefna að ég skil ekki hvaða ofur kapp þið leggið á að reyna að kveða trúna í kútinn. Er það viturlegt eða þörf að taka það svo föstum tökum og með þessum krafti? Ættuð þið ekki að víkka dálítið sjóndeildarhringinn og láta vettvanginn vera um meira en trúmál og samkynhneigð, sem skipa stærstan sess? Eruð þið sáttir við allt annað í kring um ykkur? Er ekki til fleira (alvarlegt) bull en hindurvitnin? Er að ykkar mati ekki þörf á að líta í fleiri áttir?

Að lokum: 18. grein. Allir menn skulu frjálsir hugsana sinna, sannfæringar og trúar Í þessu felst frjálsræði til að skipta um trú eða játningu og enn fremur til að láta í ljós trú sína eða játningu, einir sér eða í félagi við aðra, opinberlega eða einslega, með kennslu, tilbeiðslu, guðsþjónustum og helgihaldi.

  1. grein. Hver maður er borinn frjáls og jafn öðrum að virðingu og réttindum. Menn eru gæddir vitsmunum og samvisku, og ber þeim að breyta bróðurlega hverjum við annan.

  2. grein.l) Hver maður skal eiga kröfu á réttindum þeim og því frjálsræði, sem fólgin eru í yfirlýsingu þessari, og skal þar engan greinarmun gera vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna. 2) Eigi má heldur gera greinarmun á mönnum fyrir sakir stjórnskipulags lands þeirra eða landsvæðis, þjóðréttarstöðu þess eða lögsögu yfir því, hvort sem landið er sjálfstætt ríki, umráðasvæði, sjálfstjórnarlaust eða á annan hátt háð takmörkunum á fullveldi sínu.

  3. grein. Allir menn eiga rétt til lífs, frelsis og mannhelgi.


G2 (meðlimur í Vantrú) - 12/01/06 05:02 #

Ágúst,

Varðandi:

"Svo vil ég nefna að ég skil ekki hvaða ofur kapp þið leggið á að reyna að kveða trúna í kútinn. Er það viturlegt eða þörf að taka það svo föstum tökum og með þessum krafti?"

Trú er nauðgun hugans og allrar almennrar skynsemi. Það er blátt áfram skylda hins vitiborna manns að leita sannleikans, en trú kemur í veg fyrir slíkt á öllum stigum mannlífsins eins og við þekkjum það í dag. Trúarbrögð eru einnig eitt helsta sundrunarafl samtímans; sjáðu t.d. hyldýpisgjána milli kristni og íslam. Trú er mannskemmandi, forheimskandi og órökrétt. Það er ekkert göfugt eða sjálfsagt við trúarbrögð, hverju nafni sem þau nefnast. Nýasta dæmið er áramótaræða biskups - hvernig er annað hægt en að snúast öndvert gegn hugmyndafræði, sem getur af sér því líkt skrípi?

Einnig:

"Ættuð þið ekki að víkka dálítið sjóndeildarhringinn og láta vettvanginn vera um meira en trúmál og samkynhneigð, sem skipa stærstan sess?"

Málið snýst ekki um samkynhneigð - það snýst um réttlæti. Umfjöllunin á þessum vef upp á síðkastið snýst um sjálfsögð mannréttindi, nokkuð sem trú örfárra einstaklinga kemur í veg fyrir. Ég neita að taka þátt í skrípaleik trúarbragðana. Þúsund ára kristni á Íslandi hefur ekki getið af sér neitt jákvætt. Eigum við að halda áfram að láta eins og ekkert sé??


Ágúst - 12/01/06 20:41 #

M2

Trúarbrögð eru einnig eitt helsta sundrunarafl samtímans

Það er skelfileg tilhugsun.

hvernig er annað hægt en að snúast öndvert gegn hugmyndafræði, sem getur af sér því líkt skrípi?

Ég legg hvorki mat á biskup, eða trúartúlkunar hans, ég þekki hann ekki, en viðbrögð hafa verið við ræðu hans. Ætli þeir séu ekki of fastheldir í kreddur og form en gleyma því sem á að vera kjarninn, þeir kirkjunnar menn. Fyrir vikið getur hinn almenni borgari spurt sig hvort kærleikurinn sé í raun í brjóstum fremstu manna kristinna kirkjudeilda og safnaða.

Málið snýst ekki um samkynhneigð - það snýst um réttlæti. Umfjöllunin á þessum vef upp á síðkastið snýst um sjálfsögð mannréttindi, nokkuð sem trú örfárra einstaklinga kemur í veg fyrir. Ég neita að taka þátt í skrípaleik trúarbragðana. Þúsund ára kristni á Íslandi hefur ekki getið af sér neitt jákvætt. Eigum við að halda áfram að láta eins og ekkert sé??

Að berjast fyrir réttlætinu er göfugt starf. Það er ekki hægt að þjóna réttlætinu með ranglæti. Eðli réttlætisins er réttlæti. Er það ekki bæði réttur og skylda að berjast fyrir (sjálfsögðum) mannréttindum?


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 14/01/06 17:22 #

Er það ekki bæði réttur og skylda að berjast fyrir (sjálfsögðum) mannréttindum?
Að mínu mati, jú. Gallinn við mannréttindin er einmitt að þau eru ekki sjálfsögð heldur þarf að berjast fyrir þeim.


Jóhanna - 16/01/06 20:20 #

Umræða síðustu daga í kjölfar biskupsræðu hefur verið afskaplega merkileg, en að mínu mati á algjörum villigötum - og líka hér á vantrú. Af hverju eru trúleysingjar allt í einu farnir að berjast fyrir því að samkynhneigðir fái blessun guðs í kirkju á samböndum sínum? Er ekki eitthvað öfugsnúið við þetta?

  1. Frumvarpið er gallað. Að breyta hjúskaparlögum þannig að trúfélög megi gefa saman samkynhneigða á lögformlegan hátt, er algjörlega úr takti við þá umræðu sem hefur verið um að minnka tengsl ríkis og kirkju. Af hverju eiga trúfélög yfirleitt að hafa lögformlegt vald um að úthluta fólki mannréttindum, og hafa áhrif á stöðu fólks skattalega og erfðaréttslega? Vantrú ætti að halda þessari spurningu á lofti. Víða um heim hafa trúfélög ekki þetta vald, aðeins ríkið getur gefið fólk saman í hjónaband á löglegan hátt, en trúfélögum er frjálst að blessa það eða blessa ekki eftir því sem túlkun þeirra á ritningargreinum leyfir.

  2. Hjónaband er ekki sakramenti í lútherskri trú og því engin guðfræðileg rök fyrir því að það sé mikilvægt sáluhjálparatriði fyrir fólk að prestur framkvæmi athöfnina. Hjónabandið er hins vegar sakramenti í kaþólskri trú, en íslendingar eru almennt ekki mjög meðvitaðir um hvort hin eða þessi hefðin tengist lúthersku, heiðni eða kaþólsku og stendur á slétt sama, nema þegar á að breyta einhverju. Semsagt kreddur og fáfræði.

  3. Samkynhneigðir og kirkjan. Kirkjan er í eðli sínu íhaldssöm stofnun, en hefur þó tekið nokkuð stór skref gegn óvinsælum ritningargreinum biblíunnar, t.d. með auknum réttindum kvenna innan kirkjunnar(þar er þó ekki enn fullt jafnrétti), hjónaböndum fráskildra (virðist hafa runnið ljúflega í gegn) og aflagt hótanir um eilífan bruna í helvíti fyrir synduga (enda ekki líklegt til vinsælda). Þetta hefur samt allt gerst á löngum tíma og kirkjan haft sína hentisemi í kring um þetta og alltaf verið nokkrum skrefum á eftir almenningsálitinu og löggjafarvaldinu. Það sama gildir um blessun á samböndum samkynhneigðra (ég meina prestar blessa allt frá klósettum upp í virkjanir), á endanum tekur kirkjan þetta líka upp án vandræða. En að detta í hug að kirkjan láti troða þessu upp á sig með lagasetningu frá alþingi og pressu frá samkynhneigðum er held ég algjör misskilningur. Þótt kirkjan sé ekkert sérlega trú ritningunni, þá vilja þeir amk. sjálfir fá að ákveða hvenær og hvernig breytingarnar verða. Trúaðir samkynhneigðir verða einfaldlega að vinna þessa vinnu innan sinna safnaða, en hætta að blanda ríkinu í málið.

  4. Að virða lífsskoðanir annarra. Reynsla mín sem trúleysings er að það er mikilvægt að fólk virði lífsskoðanir annarra. Það vantar oft stórlega upp á að trúaðir virði trúleysi fólks og algengt er að gagnkynhneigðir eigi erfitt með að virða lífsskoðanir samkynhneigðra. Trúlausir ættu að ganga á undan með góðu fordæmi og sýna lífsviðhorfum trúaðra skilning og umburðarlyndi. Þeir sem eru bókstafstrúaðir eiga erfitt með að brjóta gegn þeim bókstaf sem þeir hafa valið sér. Hversu heimskulegt sem okkur finnst það, þá eru það mannréttindi þeirra að fá að hafa þessa skoðun, svo lengi sem það brýtur ekki réttindi annarra. Og þar stendur einmitt hnífurinn í kúnni, ætlum við að skilgreina guðlega blessun allra hugsanlegra trúfélaga á hjónabandinu sem mannréttindi, eða eigum við að einbeita okkur að lögformlegum réttindum? Leyfum kirkjunni að halda sínum kreddum og yfirnáttúrutrú í friði.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 16/01/06 20:44 #

Ég hef ekki orðið var við að trúleysingjar séu það mikið að berjast fyrir því að Þjóðkirkjan veiti samkynhneigðum blessun sína. Ég held að trúleysingjar (og aðrir) átti sig almennt á því hvað kirkjan er treg til þess, eðli málsins samkvæmt, að losa um þessa kreddu, hvað sem líður guðfræðilegum rökum. Mér finnst full ástæða til þess að afnema bann við hjónavígslum samkynhneigðra, en hvert trúfélag fyrir sig hlýtur að gera það upp við sig sjálft hvað það gerir með þetta. Það er alveg rétt að trúfél-ög ættu ekki að hafa lögformlegt vald til þess að gefa fólk saman. Slíkt vald ætti að vera hjá veraldlegum aðiljum. Trúfélög gætu boðið upp á einhverjar seremóníur að auki, en þær ættu ekki að hafa lagagildi. Ég er meira og minna sammála þér, en ég fellst ekki á að umræðan sé á villigötum. Hvað lýtur að virðingu fyrir lífsskoðunum, þá sé ég ekki hvers vegna menn ættu að bera virðingu fyrir því að fólk trúi. allt í lagi að sýna fólki tillitssemi og bera virðingu fyrir fólkinu sem slíku, en ég sé ekki að skoðanir þurfi að virða sem slíkar ef þær eru rangar.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.