Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Jólahugvekja: Skrímslið Jesús

Hversu mjög sem Þjóðkirkjufólk og guðfræðingar reyna að þræta fyrir það þá er það nú einu sinni þannig að goðið þeirra Jesús Kristur boðar fjöldanum að kveljast í eldi eilífðina á enda. Við hliðina á slíkri helför verður Hitler og nasisminn bara að léttri skemmtigöngu á björtum sumardegi. En í stað þess að viðurkenna bara að trúarbrögðin sem fylgt hafa menningu okkar um aldir séu siðlaust ógeð reyna menn að halda uppi vörnum. Sjáum t.d. hvað Þórhallur Heimisson segir Í nýlegu svari á trú.is:

Jesús talar oft um dóminn sem bíður allara manna, alls heimsins handan landamæra dauðans. En þurfum við að óttast dómarann sem bíður? Er það ekki Jesús Kristur sem dó fyrir syndir okkar, gaf líf sitt fyrir okkur, leiðir okkur frá dauðanum til lífsins? Til eru þeir sem kjósa að snúa baki við orði Jesú, við fyrirgefningu hans og náð. Þeir dæma sig sjálfir til þess að vera án Guðs. Ekki bara handan dauðans heldur þegar í þessu lífi. En að lokum mun Jesús einnig snúa þeim til sín og leiða þá inn i fögnuð himinsins [leturbreyting mín - BB].

Hvar nákvæmlega kemur það fram í Biblíunni að þetta skrímsli sem Þórhallur og félagar tilbiðja muni að lokum fyrirgefa villuráfurunum og taka þá inn í fögnuð himins? Þetta eru alveg nýjar fréttir. Þegar fólk hefur í gegnum aldirnar verið hrætt til að auðmýkja sig gagnvart þessu monsteri hefur það ætíð verið á þeim forsendum að aðeins þannig komist menn í himnavist eftir dauðann. En nú þegar menn eru hættir að óttast þennan þvætting og eru farnir að sjá hann fyrir það sem hann er bregðast kirkjunnar menn við á þennan óheiðarlega hátt, að gera Jesú upp nýjar vinnuaðferðir.

Þetta verða þeir auðvitað að gera nú þegar farið er að benda á að refsirammi Himnafeðga hf. er út úr öllu korti þess siðferðis sem við þekkjum í dag. En við erum sem betur fer svo heppin að þetta Jesúrugl er bara kjaftæði. Ekkert mark er takandi á þeirri stétt manna sem boða þessa vitleysu í musterum heimskunnar.

En sú eymd og kvöl sem Jesús boðaði eftir dauðann var ekki nóg, því nóg hefur verið af volæðinu í jarðlífinu sjálfu, þjáningum sem má rekja beint til þess sem heimfært er upp á þetta mömbódjömbóskrímsli í áróðursriti (fjórrriti) sem kallað hefur verið Nýja testamentið. Nægir að nefna tiltrú manna gegnum aldirnar á tilvist illra anda og þeirra meðala sem menn hafa reynt að beita til að varpa þeim skepnum út af geðveiku og flogaveiku fólki.

Jesús hefði mátt vita það, þar sem hann á nú einu sinni að vera guð, að tilburðir hans í þessum geira lækninga myndi kosta gríðarlega kvöl og pínu óteljandi manna gegnum árþúsundin. Það þurfti að hverfa frá trúarforsendunum og hefja könnun heimsins upp á nýtt á veraldlegum forsendum til að komast að því hvað þarna var raunverulega á ferðinni. Og í kjölfarið komu svo almennileg lyf við þessu.

Þið verðið að fyrirgefa kristsmenn góðir sem núna væmnist yfir Jesúbarninu í jötunni. Í mínum augum eruð þið að tilbiðja það eina afl sem segja má að sé fullkomilega illt í eðli sínu. Verði ykkur að góðu og gleðileg jól.

Birgir Baldursson 24.12.2005
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.