Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kreppa endurskoðunarguðfræðinnar

Að undanförnu hefur átt sér stað mikil umræða um réttarstöðu samkynhneigðra innan kirkjunnar, og ekki að ástæðulausu, enda hefur máli þeirra verið hallað þar á bæ lengur en elstu menn muna. Öðru megin víglínunnar hafa skipað sér hinir íhaldssamari af klerkastéttinni, en hinu megin þeir frjálslyndari. Hvorir hafa nokkuð til síns máls. Hvað guðfræðilega rökfestu varðar virðast þeir fyrrnefndu ótvírætt hafa vinninginn, enda er ritningin ómyrk í máli þegar samkynhneigð er annars vegar. Ef ritningin fer rétt með vilja guðs (sem ég býst við að klerkar séu almennt sammála um), þá verður ekki séð að mikill vafi leiki á.

Samúð mín er samt með frjálslyndu guðfræðingunum. Ég sé hvorki að nein haldbær rök hnígi gegn því að réttarstaða allra manna sé sú sama, né að það komi neinum við hvoru kyninu fólk hneigist að, hvað þá að það sé rétt að hindra fólk í að bindast lífsförunaut eftir því sem tilfinningar þess bjóða því. Því síður þykir mér afsakanlegt að stofnun sem á að heita að þjóni öllum landsmönnum án manngreinarálits komist upp með að mismuna fólki með þeim hætti sem kirkjan gerir samkynhneigðum. Þarna er siðferði samtímans komið fram úr siðferðinu sem ríkti á ritunartíma Biblíunnar. Þarna eru mennirnir komnir fram úr meintu almættinu í siðferðisþroska. Dragi fólk af því þær ályktanir sem það vill.

Bók sem boðar að kynvillinga skuli fordæma og beita ofbeldi hefur dagað uppi siðferðislega. Geta menn verið trúir ritningunni um leið og þeir ganga í berhögg við skýr fyrirmæli hennar? Hafa menn heimild til að endurskoða orð guðs? Eitthvað rámar mig í að ritningunni sé klykkt út með heldur ókræsilegum viðurlögum þeim til handa, sem bætir við eða tekur af henni.

Í deilum rétttrúaðra og endurskoðunarsinna er þögn eins manns æpandi, biskups Þjóðkirkjunnar. Hvar er forystan sem ætti að setja niður innanbúðardeilur eins og þær sem nú ganga fjöllum hærra? Víst er úr vöndu að ráða. Hvort á að halda í kristilega kenningu og siðferði eða stíga skrefið og endurskoða innihald hennar og laga að húmanísku umburðarlyndi samtímans? Hvort á kirkjan að dragast aftur úr framförunum og halda áfram að steinrenna, eða afneita orðum ritningarinnar og gengisfella um leið trúna sem hún snýst um? Hvort á hún að halda velli trúarlega og sjá á eftir fólkinu sem mun yfirgefa hana frekar en að taka þátt í kristilegri fordæmingu á samkynhneigð, eða hlaupast undan eigin merkjum og halda hóp sinn skuldbindingalausan? Þótt ekki sé öfundsvert, væri æskilegt að biskup Íslands gengi að föðurleifð sinni, rækti ábyrgð sína og tæki af skarið í þessari deilu.

Þessi grein birtist áður í Morgunblaðinu 16. desember 2005

Vésteinn Valgarðsson 21.12.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 21/12/05 09:48 #

Ég færði nafnlausa athugasemd á spjallið. Mun setja hana inn aftur ef póstfang verður staðfest.


Árni Árnason - 21/12/05 11:07 #

Ef biskup og prestarnir væru sannir trúmenn:

  1. Myndu þeir allir sem einn fordæma samkynhneigð og fortaka að gefa saman samkynhneigða. (Kæmust sennilega ekki upp með að drepa þá)

  2. Myndu þeir vilja aðskilja ríki og kirkju, og fá að beita sínu kennivaldi óáreittir.

  3. Myndu þeir hækka fermingaraldur til þess að sortera út þá sem fermast án raunverulegrar trúar.

  4. Myndu þeir gagnrýna harðlega óhófið í fermingargjöfum, sem tælir ungmenni til trúarjátningar á fölskum forsendum.

  5. Myndu þeir hafna allri fjárhagslegri meðgjöf og taka upp tíund til þess að fá heilsteypta söfnuði fólks sem telur eitthvað á sig leggjandi til að standa að trúarstarfi.

  6. Myndu þeir stunda hreint trúboð án hjálparstarfs, þannig að þeir sem "frelsast" geri það á grundvelli trúarinnar einnar.

  7. Myndu þeir vinna öll "prestsverk" án endurgjalds, af hugsjón einni saman.

  8. Myndu þeir byggja einföld og ódýr hús yfir trúarstarfið, og nota mismuninn í kærleiksverk.

  9. Myndu þeir hætta að reka verslun með skurðgoð.

  10. Myndu þeir hætta að gengisfella ritninguna í vinsældaskyni.

  11. Myndu þeir sætta sig við að kristnir yrðu bara 10% þjóðarinnar, en gegnheilir trúmenn.

    Eru þeir trúmenn eða businessmenn ? Dæmi hver fyrir sig.


Dipsí - 21/12/05 11:14 #

Það að halda því fram að samkynhneigð pör séu ekki gift í kirkjum af því að guð er á móti því er alveg rétt. Guð hata homma og það er bara ekkert flókið við það.

En guð hatar bara fleiri en það.

Fráskilið fólk er á þeim lista, þ.e. sá sem giftist eftir skilnað er að drýgja hór.

Alveg eins og sanntrúaðir hvetja homma til að lifa skírlífi ættu þeir að hvetja fráskilda til hins sama.

Biskup þegir þegar kemur að samkynhneigðum, hann hinsvegar tróð sér inn í brúðkaup Óla forseta þrátt fyrir að sá maður sé suðvitað hórkarl í biblíulegum skilningi þess orðs, enda giftur fráskilinni konu.

Biskup er því tilbúinn til að beygja orð guðs fyrir þá hópa sem hann er samþykkur.

Orð guðs hefur ekkert með neitt að gera í þessu máli, það er bara notað til að réttlæta kreddur og fordóma einhverra karla sem vilja ákveða hvernig fólk hagar sínum ríðingum einhverra hluta vegna.

Fyrst ríkiskirkjan beygir orð guðs fyrir fráskilda er ekkert því til fyrirstöðu að beygja það fyrir samkynhneigða.

Besta leiðin út úr þessu rugli er að aðskilja ríkið frá kirkjunni. Þá getur hvaða söfnuður sem er haft sínar kreddur og sitt hatur í friði og allir verið sáttir. Það er hinsvegar þokkalega ömó að borga í söfnuðinn og fá ekki sömu þjónustu og aðrir þrátt fyrir að gera svosem ekkert meira af sér en annað fólk.

Hjónaband fráskilinna er synd. Hjónaband samkynhneigðra er synd. Af hverju fær fyrri hópurinn undanþágu en ekki sá seinni?


Árni Árnason - 21/12/05 12:17 #

Eigum við ekki að ganga svolítið lengra Dipsí ?

Ég veit ekki betur en að kynlíf utan hjónabands sé hórdómur. Ættu ekki prestarnir að neita að gifta konur með kúlu ?

Hvað með að gifta pör sem á börn ?

Það er meira að segja komin ákveðin hefð á hvernig helv#**! hóruungunum er raðað á altarisþrepið þegar foreldrar þeirra gefnir saman í heilagt hjónaband.

Gott er að hafa tungur tvær og tala sitt með hvorri.


Dipsí - 21/12/05 13:43 #

Mikið rétt hjá þér Árni. Ef kirkjan væri samkvæm sjálfri sér, þá mundi hún neita töluvert fleirum en samkynhneigðum um að gifta sig í kirkju.

Þetta lið er að kafna úr hræsni en lætur sig svosem hafa það enda vel borgað djobb við að gera ekki neitt.


Árni Árnason - 21/12/05 15:17 #

Já og hræsnin ríður ekki við einteyming hjá þeim blessuðum. Ég bókstaflega veltist um af hlátri yfir prestgreyinu sem taldi alveg nauðsynlegt að kenna börnunum að Jólasveinninn væri ekki til.

Jeeesus fu#ki&g h. kræst hvað það er hægt að vera stupid.


Dipsí - 21/12/05 15:41 #

Ef Flóki ætlar að vera samkvæmur sjálfum sér, þá auðvitað setur hann varnagla við jólasögunni sem hann les upp nú um jólin.

"Taka skal fram að um skáldskap er að ræða og til að virkilega trúa þessu bulli er nauðsynlegt að setja heilann í bakkgír" eða eittvað álíka.


Vésteinn (meðlimur í Vantrú) - 21/12/05 16:13 #

Árni og Dipsí, þið hafið lög að mæla, bæði tvö. Einu má við bæta: Það er skylda, skv. Biblíu, að maður gangi að eiga ekkju bróður síns, sama þótt hann sé giftur fyrir. Hvað varð um þann góða sið?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 21/12/05 19:07 #

Já en Vésteinn minn, þetta er auðvitað bara líkingamál. :)


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 22/12/05 00:46 #

Já ... lesa þetta í ljósi kryssts...

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.