Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

En margir hinir síðustu munu telja sig hina fyrstu

Það er með ólíkindum hvernig þjónar ríkiskirkjunnar geta talið stofnun sína í framvarðasveit mannhelgi og lýðræðis hér á landi. Það hefur verið lenska síðustu ár að blekkja landsmenn í stólræðum um þýðingu ríkiskirkjunnar í mannréttindamálum. Allt verður þetta mjög óskiljanlegt þegar saga hennar er skoðuð frá siðaskiptum til okkar dags. Í upphafi voru kenningar Lúters sem ríkiskirkjan byggir bjarg sitt á mjög öfgafullar. Gagnstætt fullyrðingum frjálslyndra presta þá var Lúter ekkert annað en illa innrættur bókstafstrúar talibani. Endar voru afleiðingar þess að taka upp kenningar hans skelfilegar.

Valdsmenn í norður Evrópu notfærðu sér kenningar hans til að halda lýðnum í fjötrum trúar. Stóridómur hér á landi var gott dæmi um sjúka evangelíska trú sem leiddi af sér ofsóknir og fjöldamorð. Kirkjan leit svo á að konungur fengi vald sitt frá guði samkvæmt biblíunni og hefði því fullt umboð frá Yahweh til allra einvaldsverka. Það var því ekki fyrr en að kóngurinn ákvað sjálfur að gefa Íslendingum stjórnarskrá að hann innleiddi takmarkað trúfrelsi hér á landi árið 1874. En þá var kirkjan búin að ríkja umbótalaust hér á landi frá árinu 1550. Það er því fullsannað að biblían og kristindómurinn gerði hana ekki að betri stofnun né færði landsmönnum mannréttindi.

Á 20. öldinni hófust miklar deilur innan ríkiskirkjunnar um kvenpresta. Segja má að kirkjan hafi verið með þeim síðustu til að átta sig á mannréttindum kvenna. Í raun var hún hinn mesti dragbítur í þeim málum. Sama sagan var um öll vesturlönd þar sem kristin trú stóð í vegi fyrir sjálfsögðum réttindum kvenna. En fyrr á öldum réðu þær ekki einu sinni yfir eigin líkama í kristnum samfélögum. Nýjasta dæmið um mannréttindi eru málefni samkynhneigðra. Aftur er kirkjan til vandræða. Þrátt fyrir að hafa kúgað samkynhneigða um aldir og tekið af lífi kann hún ekki að skammast sín. Sama sagan endurtekur sig í réttindamálum þeirra eins og annarra sem kirkjan hefur kúgað.

Aftur og aftur deila menn þar innanborðs um mannréttindi vegna þess að biblían segir hitt og þetta um þræla, konur eða samkynhneigða. Aftur og aftur er ríkiskirkjan síðust allra að viðurkenna sjálfsögð mannréttindi vegna biblíunnar. Aftur og aftur telja þjónar hennar að hinir síðustu séu fyrstir í þessum málaflokki. Aftur og aftur sýnir þetta okkur hversu óeðlileg sé tilvist ríkistrúfélags sem byggir tilveru sína á úreltum skrælingjalögum sem stangast á við sjálfsögð mannréttindi. Viljum við hafa slíka stofnun sérstaklega verndaða í stjórnarskrá lýðveldisins Ísland? Er ekki ástæðan augljós hvers vegna slík stofnun þarf á slíkri vernd að halda? Staða hennar og saga er einfaldlega samfeldur harmleikur í réttindabaráttu landsmanna.

Frelsarinn 15.12.2005
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Haraldur - 15/12/05 10:15 #

Mig langar að fá að vita hvernig kirkjan er að brjóta mannréttindi á samkynhneigðum?

Sá einhversstaðar skrifað, og er algerlega sammmála, að það geti varla talist mannréttindabrot að fá ekki að taka þátt í einstökum athöfnum sértrúarsöfnuða eða annarra hópa.

Fyrir utan það... hversvegna er svona mikilvægt fyrir samkynhneigða að fá blessun kirkjunnar?

Bara svona að velta þessu fyrir mér.


Ormurinn - 15/12/05 10:39 #

Já, en eru rökin ekki þau að (þjóð)kirkjan er ekki sértrúarsöfnuður?


G2 (meðlimur í Vantrú) - 15/12/05 10:52 #

Kirkjan brýtur á samkynhneigðum með því að neita að viðurkenna annað form hjónabands en milli karls og konu. Er það ekki augljóst? Þetta snýst ekkert um einhverja blessun kirkjunnar, enda skilst mér að grænsápungar hafi þegar gerst svo göfugir að gera einmitt það. Ríkisstjórnin þorir ekki að setja sjálfsögð lög um réttindi ALLRA til lagalegs jafnréttis vegna andstöðu kirkjunnar. Auðvitað ættu stjórnmálamenn að sýna þann manndóm að virða að vettugi mannfjandsamleg viðhorf kirkjunnar, en þeir heykjast á því vegna óafsakanlegrar þjónkunar við kirkjuna í skjóli 62. greinar stjórnarskrárinnar. Kirkjan má skíra, gifta og jarða eins og henni dettur í hug, en það er ólíðandi að þetta apparat sé beinlínis ábyrgt fyrir lagasetningum á Alþingi. Til þess hefur kirkjan hvorki umboð eða getu.


Árni Árnason - 15/12/05 12:25 #

Mannréttindi- Mannréttindi er hrópað á torgum, en orðið er að verða svo útvatnað af ofnotkun að það fer nánast að missa merkingu sína.

Hvernig í ósköpunum á það að flokkast sem mannréttindi að eitthvert trúfélag sé skikkað til þess með lögum að gifta homma og lesbíur? Það er fjarri öllu lagi. Alþingi getur vissulega sett lög sem heimila söfnuðum, sem á annað borð hafa réttindi til að gera löggerninga, að gefa saman homma og lesbíur, en það er algerlega út úr korti að Alþingi geti skyldað þá til þess.

Það er ekki hægt að óska aðskilnaðar ríkis og kirkju, og á sama tíma ætlast til þess að Alþingi stýri kirkjunni í málum eins og þessum. Það er alger þversögn.

Það sem okkur vantar er ALGJÖR OG FULLKOMINN AÐSKILNAÐUR RÍKIS OG KIRKJU. Þá getur kirkjan gert það sem henni sýnist, gift eða gift ekki samkynhneigð pör svo dæmi sé tekið.

Hin Evangelíski Lútherski söfnuður á Íslandi er í því einu frábrugðinn öðrum "sér"-trúarsöfnuðum að hann er stærri. Annað ekki. Það er fullkomlega óeðlilegt og með öllu óásættanlegt að hann einn safnaða skuli ríkisrekinn.

Kirkjan á að hafa algerlega sjálfstætt og óháð vald til þess að ákveða sjálf hvort hún giftir gay liðið eða ekki, en hún verður líka að fara af ríkisspenanum, og það strax.

Hversu aumkunarvert er að fá náð fyrir augum kirkjunnar með lagaboði? Hversu mikla höfnun þarf gay liðið áður en það snýr sér eitthvert þar sem það er velkomið?


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 15/12/05 12:39 #

Árni, ég held að enginn hérna sé að biðja um að Alþingi skyldi kirkjuna til þess að gifta samkynhneigða.


Árni Árnason - 15/12/05 12:56 #

Þó að margt megi segja um Gunnar í Krossinum og hans lið, er þó skömminni skárra að menn komi til dyranna eins og þeir eru klæddir. Gunnar hafnar alfarið hjónavígslu samkynhneigðra, og vísar þar í grundvallartrúarritið, sem sannanlega fordæmir samkynhneigð. Hann sættir sig við að sú afstaða málar hann út í horn og að hvorki hann né söfnuður hans hljóti vinsældir fyrir.

Þvaður einstakra þjóðkirkjumanna um að skoða beri samkynhneigð í ljósi krists, þvert á hatramman líflátsáróður skruddunnar afdönkuðu, er ekkert annað en lágkúrulegur popularismi. Það er endalaust verið að reyna að lappa uppá þetta arfavitlausa fornrit, til þess að skaða ekki viðskiftahagsmuni.

Það væri óskandi að þjóðkirkjan tæki einarða afstöðu gegn giftingum samkynhneigðra, því að þá myndi fólk kannski vakna af dvalanum og sjá kirkjuna fyrir það sem hún er. Ekkert kæmi okkur aðskilnaðarsinnum betur.


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 15/12/05 12:57 #

Já einfaldlega að leyfa þeim að gera það en ekki skylda. Kirkjan virðist líta á þetta sem þvíngun sem þetta er að sjálfsögðu ekki. Þeir vita nefninlega að við þessu geta þeir ekki afsakað sig með að það sé ekki samkvæmt lögum og farið að verja inbyggða fordóma trúar sinnar. Krikjan á eftir að verða klofin milli frjálslyndra presta sem vilja knígja fram ókristilegt umburðarlyndi innan kirkjunnar. Og það verður eitthvað sem hefðbundnir djáknar verða bara að feisa.


Árni Árnason - 15/12/05 13:07 #

Nei það er svo sem ekki nefnt berum orðum, en ef menn telja það mannréttindabrot að kirkjan skuli ekki vígja samkynhneigða, þá er ekki öðrum verndurum mannréttinda til að dreifa. Það eru líka mannréttindi að fá að stofna félög og trúfélög með inngönguskilyrðum og hegðunarreglum. Væri það manréttindabrot ef Vinstri-Grænir neituðu Hannesi Hólmsteini að skrá sig í flokkinn?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.