Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

2000 + 2

Það er fróðlegt að fylgjast með umræðunni um réttindi samkynhneigðra þessa dagana. Sér í lagi var athyglisvert að hlusta á þá Geir Waage og Bjarna Karlsson takast á um þetta mál.

Ekki stendur til að rekja hér það sem fram fór í þættinum, en eitt er það atriði sem stingur mig í allri þessari umræðu:

Kristnir menn halda því á lofti að Biblían hafi svörin við því hvernig við skulum lifa. Og í tvö þúsund ár hafa prestar kristninnar verið boðnir og búnir að útlista fyrir heimskum pöpulnum hvað guðinn er að meina með hinum og þessum torræðum tilskipunum og versum sem virðast gersamlega í mótsögn við önnur vers, hvað þá alla heilbrigða skynsemi.

Kynlíf með sama kyni er eitt af stóru fordæmingaratriðum Biblíunnar, bæði í Gamla-testamentinu og hinu nýja. Páll postuli kallar þá menn dauðseka er slíkt fremja og í Mósebókum má finna svipaða fordæmingu á mökum karla (ekkert er þó minnst þar á lessíng). Allt frá því að kristnir söfnuðir hafa starfað hefur þetta ekki verið umdeilt, þessi vers ber bara að skilja eins og þau koma fyrir.

Þar til núna.

Geir Waage ætlar ekki að fara að hlaupast eftir vindum þeim er almenningsálitið blæs á hverjum tíma, heldur vera trúr guðinum sínum og því orði sem hann trúir(!) að sé frá honum komið. Ríkið á þar með ekkert að vera að skipta sér að kenningu kirkjunnar, hversu brjálæðisleg sem hún annars er. Aðrir prestar, eins og til dæmis Bjarni Karlsson sjá hins vegar í hendi sér að siðferði þessa meinta guðs stendur nútímasiðferði langt að baki.

Og biskupinn hefur sett á nefnd til að túlka þessi vers og á hún að starfa í tvö ár.

Er þetta trúverðugt? Þessi stétt manna þykist útlærð í guðsorðinu og gefur sig út fyrir að hafa kennivald yfir okkur hinum í siðferðislegum efnum. En samt er jafnstórt mál og kynlíf samkynhneigðra ekki meira á hreinu hjá þeim en svo að setjast þarf niður í tvö ár til að gá hvað guðinn er að meina með þessu. Þeir eru búnir að hafa tvö þúsund ár til þess, hvað þykjast þeir eiginlega eiga eftir að skoða?

Augljóst er að Þjóðkirkjan getur ekki staðið á meiningu sinni og túlkun frá einum tíma til annars. Til þess er hún allt of upptekin við að hlaupa eftir þeim sjónarmiðum sem vinsælust eru á hverjum tíma. Við sjáum þetta birtast í loðnum svörum biskupsins, sem sjálfur er á móti því að gefa samkynhneigðum meiri réttindi en þorir ekki að segja það hreint út.

Nei, það er í eðli kirkjunnar (og kirkna yfirhöfuð) að vera dragbítur á framförum og framþróun í samfélaginu. Þessi óþurftarstofnun hefur það eitt að markmiði að kasta hlekkjum á huga samborgaranna svo hægt sé að mjólka af þeim peninga í krafti hugmynda sem lykta af stækri forneskju og mannfyrirlitningu. Út af með þetta skítabákn!

Birgir Baldursson 05.12.2005
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 05/12/05 01:38 #

Hérna er hægt að horfa á "rökræður" Geirs og Bjarna. Set rökræður innan sviga því Bjarni virtist eiga afar erfitt með að koma sér að efninu.

En reyndar er ekki verið að deila um kynlíf samkynhneigðra heldur samkynja hjónavígslu.

En það er rétt að það virðist vera afar erfitt að skilja skýran boðskap biblíunnar, tekur þúsundir ára. :)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 05/12/05 02:08 #

En reyndar er ekki verið að deila um kynlíf samkynhneigðra heldur samkynja hjónavígslu.

Já, á forsendum kirkjukenninga sem fordæma slíkt kynlíf. Þessi fordæming í Biblíunni er forsenda þess að kirkjan hikar þegar kemur að jafnsjálfsögðu réttlætismáli og því að samkynhneigðir njóti sömu mannréttinda og annað fólk.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 05/12/05 03:59 #

Nú myndi ég ekki kalla það mannréttindi að fá að taka þátt í athöfn einhvers trúfélags.

En þó svo að fordæming á kynlífi samkynhneigðra sé kannski hluti af ástæðunni, þá er aðalforsendan sú að það er skýrt tekið fram í biblíunni að hjónaband sé á milli karls og konu. Það er að þeirra mati "skikkan skaparans".


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 05/12/05 11:38 #

Jamm, en af hverju þurfa þeir þa að taka sér tvö ár til að skoða þetta núna? Er þetta ekki á hreinu? Hefur þetta ekki alltaf verið á hreinu?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 05/12/05 11:41 #

Mannréttindabrotið felst í því að samkynhneigðir hafa ekki getað gengið lögformlega í hjónaband fram að þessu, því Þjóðkirkjan hefur staðið í vegi fyrir því. En það er sem betur fer að breytast.


mofi - 05/12/05 16:57 #

Gallinn við þessa umræðu er að hún virðist sjaldnast glíma við kjarna vandans sem er trúfrelsi. Það er trúarlegt atriði að segja að kynlíf milli tveggja einstaklinga af sama kyni er rangt og þess vegna í landi sem ríkir trúfrelsi á ekki að mismuna einstaklingum vegna þess. Gifting aftur á móti er kirkjuleg athöfn og ríkið hefur ekkert með það að gera að leyfa eða banna trúfélögum hvort þeir leyfa þetta eða ekki. Ríkið á auðvitað að setja þetta val í hendur trúfélaga þannig að þau trúfélög sem vilja gifta samkynhneigða geti það og þau sem vilja það ekki eru ekki neydd til að gera það sem þau eru á móti. Gallinn við þjóðkirkjuna er að hún er kirkja allra landsmanna og þess vegna hefur hún í raun ekki vald til að ákveða þessa hluti sjálf, hún verður að veita öllum sama rétt. Ef hún væri aftur á móti aðskilin ríkinu og væri aðeins Lútherska kirkjan á Íslandi þá ætti hún að fá að ráða þessu öllu eins og henni finnst eðlilegast og þeir sem eru ósammála henni fara þá einhvert annað.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 05/12/05 18:18 #

Það stefnir í að samkynhneigðir geti fengið að giftast borgaralega, lögformlegri giftingu. Þetta hefur ekki verið hægt hingað til, því Þjóðkirkjan hefur staðið í vegi fyrir lagasetningu þess efnis.

Málið er að kirkjan á ekkert að hafa vald til þess að gefa fólk saman að lögum. Slíkt vald ættu bara stjórnvöld að hafa, sýslumenn, fógetar og slíkt fólk. Giftingarathafni innan trúarsafnaða ættu að vera ótengdar hinu lagalega og vera þess í stað einskonar sáttmáli milli guðsins og þeirra sem á hann trúa, hafi fólk þörf fyrir slíkan gerning.

Þjóðkirkjan á ekki að hafa nein áhrif á það hvort samkynhneigðir geti gifst eða ættleitt börn.


Gilgames - 06/12/05 23:15 #

Mér, Gilgames frá fornu fari, skilst að samkynhneigðir Íslendingar vilji endilega fá presta þjóðkirkjunnar og annarra trúarsafnaða hér á landi til að gefa sig saman sem trúaða einstaklinga innan síns safnaðar.

Samkynhneigðum sé ekki nóg að fá sýslumenn eða aðra sem hafa til þess opinbert leyfi stjórnvalda að gefa sig saman.

Þetta er svona svipuð krafa og krafan sem Helgi Hóseason setti fram á síðustu öld og vildi að skírn á honum sem ómálga barni yrði tekin aftur. Sú athöfn var og er ekki til í helgisiðabókum kirkjunnar.

Frumburðir Hebrea (drengir) fengu blessun föðurins og hlutu þannig rétt til að erfa allt góss föðurins að honum látnum. Hægt var með brögðum að næla í þessa blessun eins og menn kannski muna af sögu Esaú og Jakobs. Sú blessun varð ekki tekin aftur, frekar en skírn Helga Hóseasonar.

Löngu áður en kristin trú var gerð að ríkistrú Íslendinga tíðkaðist að elsti sonurinn erfði búið að föðurnum látnum. Kannski arfur úr hefðum Hebrea, Kelta, Grikkja eða Rómverja. Alla vega eru siðir þjóðkirkjunnar margir hverjir miklu eldri en kristin trú. Sama er að segja um siði annarra trúarbragða eins og Islam, Taoisma, Hindúisma og Búddisma.

En siðir trúarbragðanna eru ört að láta undan kröfum nútíma mannréttindastefnu. Þjóðkirkjan hefur t.d. lítið sem ekkert vald lengur yfir opnanatíma verslana um helgar eins og tíðkaðist langt fram á síðustu öld. Þjóðkirkjan er löngu hætt að amast við dansi eins og hún gerði í byrjun síðustu aldar. Minni söfnuðir eru líka að missa tökin á fólki sínu varðandi drykkju, át og skemmtanir ýmiss konar sem forstöðumenn safnaðanna lögðu hart bann við. Muslimar drekka grimmt á laun. Þeir ríkustu fara bara í verslunarferð til vestrænna borga og skemmta sér eins og þeim sýnist, eða halda lokuð samkvæmi í sínum eigin marmarahöllum og brjóta öll boð Kóransins eins og þeim sýnist.

En hægt og sígandi verða trúarbrögðin að láta undan vilja fólksins og hægt og sígandi rís vitund almennings um réttlæti, mannréttindi og frelsi, ofar helgisiðakenningum trúarbragðanna.

Nútíma trúarbrögð víkja fyrir nýrri gildum á sama hátt og trú Grikkja, Rómverja, Hebrea og Zoroastrian trú Persanna vék fyrir Kristindómi og Islam.

Ef samkynhneigðum tekst að fá presta innan þjóðkirkjunnar til að gefa sig saman þá hlýtur það að kalla á endurskoðun helgisiðabóka og getur í kjölfarið valdið klofningi innan kirkjunnar og jafnvel fleiri safnaða. Slíkt er ekkert nýtt fyrirbrigði og er reyndar alltaf að gerast.

Kannski verður Jesús skilgreindur sem samkynhneigður á svipaðan hátt og séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir skilgreinir Guð sinn sem konu.

Eða hvernig túlka menn orðaskipti Jesú við Símon Pétur í Jóh. 21.15-18 "...þú veist að ég elska þig..." ???


Árni Árnason - 07/12/05 17:26 #

Það má vart á milli sjá hvort er ógeðfelldara, að hanga eins og hundur á roði á forneskjulegum trúarbókstaf, sem allir sæmilega viti bornir menn eru fyrir löngu búnir að afskrifa sem óráðshjal fávísrar hirðingjaþjóðar, eða hitt að sitja sveittur við að strika út aðra hverja línu í þessum sama trúarbókstaf, og teygja merkinguna á restinni til þjónkunar við viðskiftahagsmuni.

Annar trúir þvælunni, en hinn þvælir trúnni.


Árni Árnason - 07/12/05 18:02 #

SNOBBHÆNSNIÐ OG SÖLUMAÐURINN

Geir Waage heldur víst að hann geti áunnið sér virðingu með því að skera sig úr fjöldanum með uppásnúið skegg einglyrni og pípuhatt, og nota fornt ritmál með jeg í stað ég. Hann áttar sig ekki á að fyrir flestum er hann eins og fígúra á grímudansleik. Ótrúverðugt snobbhænsn.

Bjarni Karlsson er eins og stuttbuxnastrákarnir í verðbréfabransanum, í stanslausu auglýsingastríði að yfirbjóða í sveigjanlegum lausnum. Kjörin eru að óskum kúnnans, allt er falt og ekki spurt um innistæðu. Ótrúverðugur spákaupmaður.


KingKenny - 16/12/05 00:45 #

Birgir, ertu ekkert hræddur um hvað gerist þegar þú deyrð?


Sævar Helgi - 16/12/05 00:58 #

Af hverju ættum við að hræðast dauðann? Það gerist nefnilega ekki neitt annað en við deyjum.

Það eina sem við ættum að hafa áhyggjur af er að færa ekki afkomendum okkar reikistjörnuna í rústi! Það er bara býsna göfugt markmið.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 16/12/05 01:57 #

Birgir, ertu ekkert hræddur um hvað gerist þegar þú deyrð?

Nei, enda ekki á valdi þeirra lyga sem boðberar trúarbragðanna halda að trúgjörnu fólki.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.