Á sunnudaginn fjallaði guðspjallakaflinn sem var lesinn í kirkjun landsins um innkomu Jesú í Jerúsalem. Eins og flestir sem fylgdust með í kristinfræði í grunnskóla vita, þá reið Jesús á asna inn í Jerúsalem. Eða hvað?
Við skulum kíkja á kaflann:
Guðspjall Matt 21.1-9
Þegar þeir nálguðust Jerúsalem og komu til Betfage við Olíufjallið, sendi Jesús tvo lærisveina og sagði við þá: Farið í þorpið hér framundan ykkur, og jafnskjótt munuð þið finna ösnu bundna og fola hjá henni. Leysið þau og færið mér. Ef einhver hefur orð um, þá svarið: Herrann þarf þeirra við, og mun hann jafnskjótt senda þau.
Þetta varð, svo að rættist það, sem sagt er fyrir munn spámannsins:
Segið dótturinni Síon:
Sjá, konungur þinn kemur til þín,
hógvær er hann og ríður asna,
fola undan áburðargrip.Lærisveinarnir fóru og gjörðu sem Jesús hafði boðið þeim, komu með ösnuna og folann og lögðu á þau klæði sín, en hann steig á bak. Fjöldamargir breiddu klæði sín á veginn, en aðrir hjuggu lim af trjánum og stráðu á veginn. Og múgur sá, sem á undan fór og eftir fylgdi, hrópaði: Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur, í nafni Drottins! Hósanna í hæstum hæðum!
Öll hin guðspjöllin segja að þeir hafi bara tekið einn fola (Lúk. 19, Jóh. 12, Mark. 11), en höfundur Matteusarguðspjalls hefur ösnu og fola. Tilvitnun hans í Sakaría 9:9 talar um “asna og fola undan áburðargripi” þar sem merkingin er “asna, fola undan áburðargripi”. Það er aðeins um eitt dýr að ræða., en af einhverjum ástæðum virðist Matteus hafa skilið þetta sem tvö dýr, asna og fola undan áburðargripi.
Þetta er ekki öll sagan. Íslenska þýðingin er svolítið "ónákvæm", því í grískunni er ekki aðeins sagt “hann steig á bak”, heldur stendur “hann steig á bak þeirra” (orðréttara: settist ofan á þá). Jesús virðist hafa riðið inn í Jerúsalem á tveimur dýrum! Líklega er þetta vanmetnasta kraftaverk Jesú!
Bókstafstrúarmenn reyna að útskýra þetta með því að segja að “þeirra” í þessu versi vísi til klæðanna sem lærisveinarnir settu á dýrin. Þessi afsökun stenst ekki. Í Markúsarguðspjalli er aðeins eitt dýr, þar er notuð sama sögnin: “setjast á”, þar eru klæði á asnanum, og þar “sest hann á “hann”. Þegar höfundur Matteusarguðspjalls hefur tvo asna þá breytist “hann” í “þá” í þessri setningu. Hann segir að Jesús riðið á tveimur dýrum.
Við höfum tvo möguleika. Annars vegar reið Jesús á tveimur dýrum og allir guðspjallahöfundarnir, nema höfundur Matteusarguðspjalls, minntust ekki á þetta kraftaverk vegna þess að þeir misskildu ekki spádóminn. Hins vegar að höfundur Matteusarguðspjalls hafi fundið þennan spádóm, misskilið hann og “hægrætt” sögunni þannig að hún passi við spádóminn.
Síðari möguleikinn verður að teljast líklegri. Að minnsta kosti er það afar langsótt að Jesús hafi riðið á tveimur dýrum sem passa einmitt við misskilning höfundar Matteusarguðspjalls á spádómi.
Það er mjög skaðlegt fyrir trúverðugleika höfundar Matteusarguðspjalls að hann skuli “búa til” nýtt dýr bara til þess að láta söguna passa við spádóminn. Hvaða atburðir áttu sér bara stað í hugum höfunda Nýja testamentisins án þess að það sé auglýst með svona mistökum? Við vitum það ekki.
Ef við myndum fínkemba guðspjöllin í leit að svona skáldskap þá myndum við bara finna það sem er augljóslega skáldskapur. Við myndum ekki finna þann skáldskap sem er vel falinn. Hvers vegna ætti maður þá að leggja nokkurn trúnað í ævintýri Jesú og félaga?
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.