Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Aðskilnaður: Ykkar vegna

Fólk hefur oft og tíðum mistúlkað baráttu okkar gegn sambandi ríkis og kirkju á þann veg að við séum bara að berjast fyrir okkar eigin hagsmunum og engra annara. En ekkert gæti verið fjær sannleikanum...

Staðreyndin er sú að fullur aðskilnaður ríkis og kirkja gagnast öllum, ekki bara trúleysingjunum. Þetta er líka mjög mikilvægt fyrir þau trúfélög sem eru ekki studd af ríkinu, og það sem meira er, meðlimi Þjóðkirkjunnar sjálfrar.

Aðskilnaður valdhafanna og trúarbragðanna er ekki aðeins til að vernda fólk frá trú, heldur líka til þess að verja réttindi fólks til að stunda sína trú. Í sekúlarísku samfélagi eiga allir að geta ástundað þá trú sem þeir vilja, án afskipta ríkisvaldsins. Einnig á fólk að geta fengið frið frá trúarbrögðum annarra. Fólk á ekki að þurfa að þola það að trúarlegum heilaþvotti sé troðið inn í börnin þeirra af sjálfu skólakerfinu! Fólk á ekki að þurfa að þola það að skattpeningar þeirra fara í trú sem það ástundar ekki. Fólk á ekki að þola það að trúin reyni að troða sér að þar sem hún á alls ekki heima.

Hvar er hinn kristilegi kærleikur sem kristnir státa sig svo oft af? Kannski er kominn tími til að þeir fari að verða samkvæmir sjálfu sér og hætti að reka sína trú ofan í kokið á okkur hinum.

Auðvitað eiga margir trúmenn eftir að vera ósammála þessu og segja að það séu svo mikil “menningartengsl” á milli kristninnar og þjóðarinnar. Þá vil ég spyrja: Hvað ef við hefðum haldið í fornu heiðnu goðin? Hvað ef við hefðum aldrei snúist til Kristni? Hvað ef staðan væri sú að 85% landsmanna væru í Ásatrúarfélaginu? Mynduð þið þá vilja aðskilnað ríkis og trúar? Varla mynduð þið vilja að börnunum ykkar væri kennt það sem sagnfræðileg staðreynd að mannskepnan hafi verið búin til úr tveimur trjábútum (ekki það að kristna sköpunarsagan sé eitthvað gáfulegri)? Tæplega.

Mynduð þið ekki frekar kjósa sekúlarískt þjóðfélag þar sem ykkur væri frjálst að leggja stund á kristnina með börnunum ykkar í friði fyrir hinum heiðnu trúarbrögðum? Mynduð þið ekki álíta það vera betra samfélag?

Þjóðkirkjan er hrædd, hún er hrædd því að hún veit að það mun ekki líða á löngu þangað til hún fær ekki að sjúga lengur af ríkisspenanum. Það er ekki spurning um hvort heldur hvenær endanlega verður skorið á naflastrenginn og að Þjóðkirkjan verði tilbúin að standa á sínum eigin fótum, á sínum eigin forsendum, í þjóðfélagi þar sem allir fá að iðka sína trú á jöfnum grundvelli.

Og þá ætti þjóðkirkjufólkið að vera á meðal þeirra fyrstu til að standa upp og fagna.

AndriÞ 22.11.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Hulda Guðmundsd. - 23/11/05 10:27 #

Andri skrifar m.a.: "Aðskilnaður valdhafanna og trúarbragðanna er ekki aðeins til að vernda fólk frá trú, heldur líka til þess að verja réttindi fólks til að stunda sína trú. Í sekúlarísku samfélagi eiga allir að geta ástundað þá trú sem þeir vilja, án afskipta ríkisvaldsins. Einnig á fólk að geta fengið frið frá trúarbrögðum annarra. Fólk á ekki að þurfa að þola það að trúarlegum heilaþvotti sé troðið inn í börnin þeirra af sjálfu skólakerfinu! Fólk á ekki að þurfa að þola það að skattpeningar þeirra fara í trú sem það ástundar ekki. Fólk á ekki að þola það að trúin reyni að troða sér að þar sem hún á alls ekki heima."

Það hefur þegar orðið aðskilnaður ríkis og trúarbagða hér á landi. Það gerðist fyrir 130 árum, um leið og strjórnarskráin var sett, með ákvæðinu um trúfrelsi.Þar með fékk fólk frelsi til að iðka þá trú sem því sýnist, eða iðka enga.

Valdhafar hafa hins vegar ALLTAF einhverskonar afskipti af því hvernig trúmálum er komið fyrir innan hvers ríkis.(t.d. að banna starfsemi trúfélaga/lífsskoðunarfélaga eða þveröfugt að t.d. að ríkið byggi á trúarbókstaf Kóraninsins)

Þannig er það í okkar lýðræðislega stjórnarfari að sett voru lög um skráð trúfélög (núgildandi nr. 108/1999) þar sem fram kemur að allir eiga rétt á "að stofna trúfélög og iðka trú í samræmi við sannfæringu hvers og eins." Þar eru sett skylirði fyrir skráningar trúfélaga og þar kemur líka fram að menn eiga rétt á að stofna félög um trúleysi.

Þau félagsgjöld skráðra trúfélaga sem innheimt eru í gegnum skattkerfið fara til þess trúfélags sem viðkomandi er skráður hjá, eða renna til HÍ, ef menn standa utan skráðra trúfélaga. Um það geta menn svo deild, hvort það sé sjálfsagt að þeir sem standa utan skráðs trúfélags eigi að greiða til HÍ. Í lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002 segir "skal gjald sem rennur til þjóðkirkjusafnaða, skráðra trúfélaga og Háskóla Íslands vera 566 kr. á mánuði árið 2002 fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri í lok næstliðins árs á undan gjaldári"

Nú hefur Siðmennt óskað eftir að fá skráningu á grundvelli laga nr. 108/1999 sem lífsskoðunarfélag og fá með því móti innheimt félagsgjöld sín í gegnum skattkerfið eins og önnur skráð (trú)félög. Dómsmálaráðuneytið hefur syngjað Siðmennt um skráningu, en félagið hefur óskað eftir því við stjórnarskrárnefnd að 63. gr. stjórnarskrárinnar verði endurskoðuð, þannig að gætt sé jafnræðis, þ.e. réttar annarra en bara þeirra félaga sem stofnuð eru á grundvelli trúarlegra lífsskoðana.

Mér finnst ástæða til að taka undir þá ósk Siðmenntar að félagið fái skráningu sem lífsskoðunarfélag og falli þar með undir lög nr. 108/1999 um skráð trúfélög. Þar með fær húmanistafélagið sömu stöðu og félög sem byggja á trúarlegri afstöðu og fær þá (sóknar)gjöld sín innheimt í gegnum skattkerfið og nýtur annarra þeirra réttinda og skyldna sem fylgja lögum nr. 108/1999.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 23/11/05 10:53 #

Það hefur þegar orðið aðskilnaður ríkis og trúarbagða hér á landi. Það gerðist fyrir 130 árum, um leið og strjórnarskráin var sett, með ákvæðinu um trúfrelsi.Þar með fékk fólk frelsi til að iðka þá trú sem því sýnist, eða iðka enga.

Ég veit nú ekki á hvaða plánetu þú ert búinn að vera en ríki og þjóðkirkjan eru enn í sömu sæng. Hvernig er hægt að láta svona vitleysu út úr sér spyr ég?

Þar eru sett skylirði fyrir skráningar trúfélaga og þar kemur líka fram að menn eiga rétt á að stofna félög um trúleysi.

Það hefur hinsvegar staðið í vegi fyrir skráningu Siðmenntar að þau hafa ekki haft yfirnáttúru á sinni dagskrá. Á meðan svo er er tómt rugl að tala um að trúleysissamtök geti sótt um sömu réttindi og trúfélög.


Hulda Guðmundsd. - 23/11/05 11:02 #

Ég sé ástæðu til að endurtaka: "Mér finnst ástæða til að taka undir þá ósk Siðmenntar að félagið fái skráningu sem lífsskoðunarfélag og falli þar með undir lög nr. 108/1999 um skráð trúfélög. Þar með fær húmanistafélagið sömu stöðu og félög sem byggja á trúarlegri afstöðu og fær þá (sóknar)gjöld sín innheimt í gegnum skattkerfið og nýtur annarra þeirra réttinda og skyldna sem fylgja lögum nr. 108/1999."

Þetta er sú "pláneta" sem ég er á, ásamt Siðmenntarfólki sem mér finnst réttilega vera að benda á ójafnræði (trú)félaga með erindi sínu til sjórnarskrárnefndar.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 23/11/05 11:06 #

Á plánetunni sem við hin erum á hefur ekki orðið aðskilnaður ríkis og kirkju að fullu, enda nýtur þjóðkirkjan sérstakrar verndar og fyrirgreiðslu. Það er því tómt kjaftæði að tala hér eins og aðskilnaður sé raunveruleiki.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 23/11/05 11:07 #

Ég er alveg sammála þér með þetta en hvað var þá hitt? Þú veist að það er ekki búið að skilja að ríki og kirkju.


Snær - 23/11/05 12:33 #

"Það hefur þegar orðið aðskilnaður ríkis og trúarbagða hér á landi. Það gerðist fyrir 130 árum, um leið og strjórnarskráin var sett, með ákvæðinu um trúfrelsi.Þar með fékk fólk frelsi til að iðka þá trú sem því sýnist, eða iðka enga.

Valdhafar hafa hins vegar ALLTAF einhverskonar afskipti af því hvernig trúmálum er komið fyrir innan hvers ríkis.(t.d. að banna starfsemi trúfélaga/lífsskoðunarfélaga eða þveröfugt að t.d. að ríkið byggi á trúarbókstaf Kóraninsins)"

Í frjálsum samfélögum er það almennt haft að leiðarljósi að auka frelsi allra einstaklinga eins mikið og mögulegt er, þó án þess að þeir hafi réttinn til þess að hefta frelsi og réttindi annarra.

Skiljanlegt er að starfsemi trúfélöga/lífsskoðunarsamfélaga sem iðka athafnir, trúarlegs eða annars eðlis, sem brýtur lög, sé heft. Hinsvegar þykir mér það óréttlætanlegt að veita einu trúfélagi fyrirgreiðslu og verndun fram yfir önnur. Það er ástæðulaus ójöfnuður.

ÞAÐ er það sem þetta snýst hvað helst um, eftir því sem ég fæ best séð.


Hulda Guðmundsd. - 23/11/05 13:45 #

Í hverju felst "fyrirgreiðslan" til þjóðkirkjunnar af hálfu ríkisvaldsins?

Er líklegt að ríkið myndi standa í innheimtu félagsgjalda fyrir öll trúar/lífsskoðunarfélög ef þjóðkirkjan, í krafti stærðar sinnar og þjónustu fyrir alla landsmenn, hefði ekki fengið þessri innheimtuaðferð framgengt? Er þessi innheimtuaðferð ekki að stærstum hluta til það sem Siðmennt hefur áhuga á að fá ríkið til að gera fyrir sig, eins og stórnarmaður í Siðmennt skrifar um í Mbl í dag, þar sem hann segir að þau "réttindi" sem Siðment sé að sækjast eftir með að fá skráningu sem trú(félag)seu:´"Þau réttindi fela í sér lögbundna skráningu og öflun sóknargjalda gegnum ríkið"

Hvað felur hin "lögbundna" skráning annað jákvætt í sér fyrir Siðmennt? Vill hið frjálsa félag þær skorður sem fylgir því að fara eftir lögum um trúfélög??


Dipsí - 23/11/05 14:07 #

Hvað er svona gott við það að ríkið standi fyrir innheimtu félagsgjalda í trúarklúbbum?

Stendur ríkið fyrir innheimtu félagsgjalda hjá Golfklúbbum eða annarri félagsstarfsemi? Af hverju hafa klúbbar áhugafólks um trú einhverja sérstöðu?

Þú spyrð um fyrirgreiðslu, ég bendi þér þá bara á þá 4 milljarða sem renna til kirkjunnar úr ríkiskassanum. Þú getur ekki talað um nema tæplega helming þess fjár sem félagsgjöld sem fengin eru m.a. með því að skrá öll börn sjálfkrafa í trúfélag móður og hafa greiðsluskyldu í því formi að ef ég vil ekki greiða fyrir trú einhvers, þá greiði ég samt, bara eitthvað annað.


Árni Árnason - 23/11/05 18:00 #

Ég ætla rétt að vona að umsókn Siðmenntar um skráningu sem viðurkennt trúfélag, og þarmeð aðgang að innheimtukerfi ríkissjóðs, sé aðeins táknræn, og að höfnunin hafi verið sú útkoma sem þeir voru að slægjast eftir.

Það varð bókstaflega að finna upp skilgreininguna "viðurkennt trúfélag" til þess að réttlæta innheimtu sóknargjaldanna fyrir þjóðkirkjuna. Ef sóknargjöld væru einungis innheimt fyrir þjóðkirkjuna væri blaðran löngu sprungin. Þröng skilgreining er því nauðsynleg, til þess að allir fái ekki sóknargjöldin í eigin vasa, því að þá hrynur kerfið sem ætlað var kirkjunni. Það getur verið slóttugra að gefa aðeins eftir, halda friðinn og fá sitt, en sprengja allt upp og fá ekki neitt.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 23/11/05 18:24 #

Það hefur þegar orðið aðskilnaður ríkis og trúarbagða hér á landi. Það gerðist fyrir 130 árum, um leið og strjórnarskráin var sett, með ákvæðinu um trúfrelsi.Þar með fékk fólk frelsi til að iðka þá trú sem því sýnist, eða iðka enga.
Hulda, þó svo að ríkið leyfi fólki að aðhyllast hvaða trú sem er, þá þýðir það ekki að ríkið hætti að "styðja og vernda" eitt ákveðið trúfélag.

En svo held ég að Siðmennt sé að reyna að skrá sig sem lífsskoðunarfélag, sem eiga að hafa sömu réttindi og trúfélög.


Hulda Guðmundsd. - 24/11/05 17:38 #

Hjalti skrifar: "En svo held ég að Siðmennt sé að reyna að skrá sig sem lífsskoðunarfélag, sem eiga að hafa sömu réttindi og trúfélög"

Hvaða réttindum (og væntanlega skyldum um leið) telur þú að Siðmennt sé að sækjast eftir með því að óska eftir skráningu sem (trú)félag?


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 24/11/05 17:44 #

Siðmennt er líklega að reyna að fá félagsgjöldin sem meðlimir Siðmenntar greiða þegar, en fara nú í Háskólasjóð.

En heldurðu því enn þá fram að ríki og kirkja hafi verið aðskilin fyrir 130 árum? Ef svo er viltu þá ekki prófa að spyrja einhvern prófessor í guðfræðideildinni um þetta? Td Hjalta Hugason? Kannski hlustarðu frekar á hann heldur en okkur.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.