Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Heilagur Hryllingur VIII: Blóðugu siðaskiptin

Mynd frá þrátíu ára stríðinu sem sýnir kaþólskan prest blessa mótmælendur sem teknir eru af lífi.

Á miðöldum var kaþólska kirkjan undirlögð af spillingu. Jóhannes XII gaf ástkonum sínum úr sjóðum kirkjunnar. Hann lét blinda, vana og drepa andstæðinga sína. Benedikt IX seldi páfastól sinn fyrir 1500 pund af gulli. Úrban VI lét myrða og pynta kardínála sína. Innócentíus VIII lét auðæfi kirkjunnar til lausleiksbarna sinna. Bonifacíus VII drap tvo keppinauta sína til páfastóls og Sergíus III gerði hið sama. Benedikt V nauðgaði barnungum stúlkum og flúði svo með sjóði Vatíkansins þegar upp komst. Klement VI átti margar hjákonur. Bonifatíus VIII sendi her til að drepa alla íbúa í borginni Palestrina. Klement VII lét drepa 8000 mans í Cesena, jafnt konur og börn. Hinn geðslegi Alexander VI keypti páfastólinn með því að múta kardínálum. Alexander hélt svo upp miklum kynsvallsveislum í páfagarði með börnum sínum þeim Casare og Lucrezia Borgia.

Jóhann Húss brenndur lifandi. Síðan var ösku hans safnað saman og hent í Rín.

Sukkið og svínaríið í páfagarði, ásamt sölu aflátsbréfa, reitti marga til reiði, en lítið var hægt að gera því hart var tekið á gagnrýnendum. Árið 1100 kallaði presturinn Arnold af Brescia á siðbót innan kirkjunnar. Hann var þá umsvifalaust bannfærður og sendur í útlegð. Á endanum var hann hengdur og líkið brennt árið 1155. Í Englandi árið 1300 var það presturinn John Wycliffe sem krafðist umbóta og vildi þýða Biblíuna á móðurmálið. Árið 1412 mótmælti presturinn Jóhann Húss framgangi páfa undir áhrifum Wycliffe. Þrír af hans nánustu fylgjendum voru þá teknir af lífi og hann brenndur á báli. Girolamo Savonarola var prestur í Flórens sem predikaði gegn sukkinu í Vatíkaninu. Hann, ásamt tveim aðstoðarmönnum, var hengdur og brenndur árið 1498.

Það var svo árið 1517 að Marteinn Lúther negldi upp yfirlýsingar sínar á dyr dómkirkjunnar í Wittenberg, og hratt þannig af stað blóðugu trúarbragðastríði milli kaþólikka og mótmælenda, sem stóð um aldir. Í upphafi fór prestur að nafni Thomas Muntzer undir áhrifum Lúthers og predikaði að útrými ætti guðlausum. Hann safnaði saman 8000 manna bændaher árið 1525. En bændaherinn var illa búinn til hernaðar og gjörtapaði fyrir herjum lénsherranna. Muntzer náðist síðar og var misþyrmt áður en hann var tekinn af lífi. Þúsundir bænda létust, en Lúther sá sér leik á borði, snéri baki við þeim og sagði þá réttdræpa sem djöfullega uppreisnamenn.

Lúther náði að endingu til valdsmanna í Schmalkalden og þar var stofnað bandalag gegn kaþólsku kirkjunni. Hinn heilagi rómverski keisari Karl V sendi þá kaþólskan her til að útrýma mótmælendum. Hann náði þónokkrum árangri, en árið 1555 var hann neyddur til að semja um frið með Ásborgarsamþykktinni, þar sem 300 lénsherrum var leyft að ákveða hvort þeir yrðu mótmælendur eða kaþólskir („cuius regio, eigus religio“). Þetta olli mikilli úlfúð hjá kaþólskum valdhöfum í Evrópu sem vildu stemma stigu við útbreiðslu mótmælendatrúar.

Á Spáni fór hinn heilagi rannsókarréttur að leita uppi og drepa alla grunaða mótmælendur. Hundruð mótmælenda voru hengdir og brenndir í auto-da-fé aftökum árið 1559, sem haldnar voru Filippusi II konungi til heiðurs og sérlegrar þægðar, en hann var sonur Karls V keisara. Erkibiskupinn Bartolome de Carranza af Toledo var fangelsaður í 17 ár fyrir að hæla hollenska hugsuðinum Desiderius Erasmus fyrir að umbera mótmælendur. Á Ítalíu fór einnig hinn heilagi rannsóknarréttur af stað við að myrða grunaða mótmælendur. Það eitt nægði að eiga meint rit mótmælenda undir höndum.

Í Sviss leiddi Ulrich Zwingli uppreisn gegn pápísku. Flestir borgir í Sviss tóku við siðbót Zwingli en nokkrar kantónur höfnuðu kenningum hans. Þetta kostaði tvö blóðug stríð. Á endanum var Zwingli drepinn árið 1531. Eftir dauða Zwinglis tók Jóhann Kalvín við af honum og stjórnaði hann mótmælendum í Sviss. Kom hann á fót hræðilegri trúarbragðalögreglu. Harðar refsingar voru meðal annars fyrir munnsöfnuð, dans, spil, drykkju og aðrar skemmtanir. Þau sem ekki tóku mótmælendatrú voru tekin af lífi. Til dæmis var Michael Servetus brenndur fyrir að efast um heilaga þrenningu. Jacques Gruet var afhöfðaður fyrir guðlast. Hinn frómi Kalvín hvatti sína menn til að brenna nornir.

Um alla Evrópu geisuðu mörg stríð á milli mótmælenda og kaþólikka. Aftökur og fjöldamorð, meðan á svokallaðri siðbót stóð, voru nánast óteljandi. Blóðvöllurinn náði um mest alla Evrópu og var Ísland þar ekki undanskilið. Milljónir manna létu lífið í þessu tilgangslausa trúarbragðastríði sem endaði með því að mörg Evrópulönd voru að þrotum komin sem neyddi valdhafa þeirra að semja um frið í Westfalen árið 1648. Hér verður farið aðeins yfir þá sögu.

Frakkland

Mótmælendatrú (húgenottar) breiddist með hraði til Frakklands og Hinrik II konungur greip strax til aðgerða. Hann kom á fót villutrúardómstól sem fljótlega var þekktur undir nafninu „Brennudómur“ vegna einsleitra dóma sem sakamenn fengu. Árið 1559 gengu Frakkland og Spánn í bandalag við að útrýma mótmælendum á áhrifasvæðum sínum.

Mótmælendur að myrða kaþólska munka í Frakklandi.

Um tíma fengu mótmælendur að iðka trú sína á nokkrum stöðum undir verndarvæng frönsku drottningarmóðurinnar. En það stóð ekki lengi og ótal smá stríð voru háð frá 1562 til 1589. Báðar fylkingar börðust án miskunnar. Her mótmælenda eyðilagði kaþólskar kirkjur og drap presta þeirra. Foringi mótmælenda hengdi eyru prestanna svo á hálsfesti sína.

Ungur mótmælendi tekinn af lífi fyrir morðið á kaþólska greifanum Guise með því að vera slitinn í sundur af hestum.

Franskur heimildaritari skrifaði „Það er ómögulegt að segja hver var villimannlegri, því grimmdarverk voru unnin jafnt af báðum aðilum. Þar sem mótmælendur ríkja eru minnismerki og grafreitir eyðilagðir. Kaþólikkar hafa drepið fjöldann allan af mótmælendum með því að drekkja þeim. Fljótið er yfirfullt af líkum þeirra.“

Píus páfi sendi á endanum her til Frakkalands til að útrýma mótmælendum í eitt skipti fyrir öll. Hann skipaði her sínum að taka alla af lífi og enga fanga. Síðar var Pius páfi gerður að dýrlingi. Þúsunda mótmælenda flúðu hryllinginn og stofnuðu nýlendu í Flórída þar sem núna er St. Augustine. Árið 1565 fundu Spánverjar þessa nýlendu og myrtu alla íbúa hennar. Spánskur herforingi sagði að íbúarnir hefðu ekki verið drepnir sem Frakkar heldur sem lútherstrúarmenn.

Fjöldamorð kaþólikka á mótmælendum á messu heilags Bartólómeusar.

Eftir þriðja stríðið ákvað Katrín af Medici að stöðva óöldina með því að gifta dóttur sína mótmælendaprinsinum Hinrik af Navarra. Þegar mótmælendur komu til Parísar til að vera viðstaddir giftinguna ákvað drottingin ásamt kaþólskum árhrifamönnum að myrða einn fremsta hershöfðingja mótmælenda, Gaspard de Coligny. Morðtilraunin mistókst og hann særðist aðeins lítillega. Í miklum flýti ákvað drottningin að myrða alla mótmælendur sem til náðist áður en þeir gætu gert gagnárás. Árið 1582, þann 24. ágúst, á messu heilags Bartólómeusar, fór kaþólskur her um hverfi mótmælenda í París og slátraði þúsundum. Coligny var á endanum afhöfðaður og á eftir fylgdu fjöldamorð um allt Frakkaland. Höfuð Coligny var sent til Rómar þar sem Gregoríus XIII páfi tók fagnandi við því. Hann bauð til öllum sínum mönnum heljar þakkarveislu og fékk listamanninn Giorgio Vasari til að mála fresku með myndum af sigrunum á mótmælendum.

Fjöldamorðin á Bartólómeusarmessu komu fjórða trúarbragðastríðinu af stað, auk þess að fjögur önnur fylgdu fljótlega í kjölfarið. Að endingu var mótmælandinn Hinrik af Navarra krýndur konungur Frakklands, að því tilskyldu að hann tæki kaþólska trú. Það gerði hann en leyfði mótmælendum að iðka trú sína áfram. Eftir dauða hans voru öll borgarleg réttindi tekin af mótmælendum og voru þeir ofsóttir á ný árið 1620. Árið 1715 skipaði Loðvík konungur XIV að útrýma ætti öllum mótmælendum í Frakklandi.

Niðurlönd

Þegar mótmælendatrú skaut niður rótum í Niðurlöndum brugðust kaþólsk yfirvöld skjótt við. María Ungverjalandsdrottning, sem var ekkjudrottning yfir Niðurlöndum, skipaði að lífláta ætti alla villutrúarmenn. Hinn heilagi rannsókarréttur lét sitt ekki eftir liggja og myrti fólk í hundraða vís. María drottning skipaði svo fyrir að þeir mótmælendur sem ekki vildu láta brenna sig yrðu teknir af lífi með sverði en konur þeirra grafnar lifandi. Hinn frægi kortagerðamaður Gerardus Mercator var sakaður um lútersku árið 1544 ásamt aðstoðarmönnum. Tveir af þeim voru brenndir, aðrir tveir grafnir lifandi og einn þeirra afhausaður. Mercator var síðar leystur haldi eftir illan leik.

Fjöldamorð kaþólikka á mótmælendum í Harleem árið 1573

Filippus konungur II á Spáni réð yfir Hollandi og Belgíu. Hann var einbeittur í að bægja mótmælendatrú frá sínum löndum. Hann kom rannsóknarréttinum aftur á fót og skipaði: „Takið alla fanga af lífi og látið þá ekki þjást um of, svo að dómararnir miskunni sig ekki yfir þá.“ Mótmælendur fyrtust við þetta og brenndu 400 kirkjur kaþólikka. Hertoginn af Alva sendi her sinn og gjöreyddi bæjum mótmælenda. Fjöldamorðin voru kölluð „spænska reiðin“. Þúsundir manna féllu á götum Antwerpen og Haarlem árið 1573. Rétturinn setti upp villutrúarréttarhöld sem kölluð voru „Blóðugu réttarhöldin“ og sendi þúsundir í dauðann. Eitt fórnarlambanna var Egmont greifi en dauði hans varð Ludwig van Beethoven innblástur að „Forleikur Egmonts“.

Kaþólskur her að myrða mótmælendur í Hollandi árið 1560.

Í Norður-Hollandi leiddi Vilhjálmur af Óraníu menn sína til sigurs og lýsti yfir sjálfstæði frá hinum kaþólska Spáni. Filippus II Spánarkonungur setti þá fé til höfuðs Vilhjálmi og hann var drepinn árið 1584. En þrátt fyrir það tókst eftirmönnum Vilhjálms að halda sjálfstæði mótmælenda í Norður-Hollandi.

England

Kaþólska kirkjan hafði þá reglu að biblían væri aðeins til á latínu og hún væri aðeins aðgengileg prestum og fræðimönnum hennar. Það var dauðasök að þýða eða prenta hana fyrir almenning. Árið 1520 bað William Tyndale um leyfi til að þýða Nýja testamentið á ensku. Þessi beiðni stofnaði lífi hans í hættu, svo hann varð að flýja til mótmælenda í Þýskalandi. Hann kláraði þar þýðingu sína á Nýja testamentinu og smyglaði því til Englands, þar sem yfirvöld gerðu það upptækt og brenndu eftir megni. Tyndale var svo handtekinn í Antwerpen af kaþólskum yfirvöldum og dæmdur fyrir villutrú. Hann var hengdur og brenndur, en síðar varð þýðing hans uppistaðan í King James útgáfunni af Biblíunni.

Hinrik VIII Englandskonungur hafði notað trúna sér til framdráttar. Hann réðst hart gegn Tyndale og hreyfingu mótmælenda. Hann var útnefndur af páfa „verndari trúarinnar“. Hinrik vildi skilja við eiginkonu sína, en páfinn hafnaði þeirri beiðni, þar sem hún var systir hins kaþólska Spánarkonungs. Hinrik fékk því erkibiskupinn Thomas Cranmer að samþykkja skilnaðinn. Hinrik ákvað svo að taka til sín lendur kaþólsku kirkjunnar, og til varð enska biskupakirkjan. Páfinn fyrtist við og bannfærði Henry konung. Hann reyndi svo að stofna til krossferðar gegn Englandi en evrópskir konungar lögðu ekki í slíkan hernað.

Þeir sem vildu ekki þýðast vald Hinriks, í stað páfa, voru teknir af lífi og það sama átti við um mótmælendur. Eftir að sonur Hinriks tók við völdum fjarlægðist enska kirkjan þá kaþólsku enn meir. Árið 1553 tók María I við konungsdæminu og var hún kölluð „Blóðuga María“. Hún var gift Filippusi Spánarkonungi og ákvað að endurreisa kaþólskuna í Englandi. Á þrem árum lét hún brenna 300 mótmælendur og fjöldann allan af biskupum ensku kirkjunnar. Þegar Elísabet I systir hennar komst til valda lét hún stöðva allar slíkar aftökur á mótmælendum. Fljótlega lenti hún á milli fylkinga. Á endanum lét hún taka 200 kaþólikka af lífi ásamt frænku sinni, hinni kaþólsku Maríu Skotadrottningu sem var hálshöggvin.

Danmörk og Ísland

Í greifastríðinu frá 1534 til 1536, sem voru átök um ríkiserfðir Danmerkur, sigraði Kristján III. Hann var mótmælandi og lögleiddi lútherska kirkjuskipan árið 1536 með því að taka yfir allar kirkjueignir. Með því móti gat hann bætt bágan fjárhag konungsdæmisins. Árið 1538 skipaði hann svo fyrir að sama sið ætti að innleiða á íslensku nýlendunni. Ekki gekk það vel, og barðist Ögmundur Pálsson Skálholtsbiskup hart gegn því að lútherskan yrði tekin upp. Eftir dauða Ögmundar var Jón Arason Hólabiskup einn biskupa eftir í kaþólskum sið, reyndar sá síðasti á Norðurlöndum. Fyrir það var hann hálshöggvinn árið 1550 ásamt tveim sonum sínum. Meira um það síðar í heilögum hryllingi um kristni á Íslandi.

Þrjátíu ára stríðið

Síðasta siðbótarstríðið var hið versta í sögunni. Þrjátíu ára stríðið stóð frá 1618 til 1648. Það kostaði milljónir Mið-Evrópubúa lífið og skildi Þýskaland eftir í rúst. Í byrjun var það hinn kaþólski Habsborgarkeisari í Hinu heilaga Rómverska keisaradæmi sem reyndi að draga úr kalvínisma, en mikil spenna var þá á milli kaþólikka og mótmælenda. Evangelískir mótmælendafurstar stofnuðu því varnarbandalag fyrir mótmælendur. Á sama tíma stofnuðu kaþólikkar eigin fylkingu. Spennan á milli þessara hópa var tifandi tímasprengja. Sprengjan sprakk svo þegar virtur mótmælandi heimsótti konungshöllina í Prag. Í bræði kastaði hann tveim kaþólskum prestum út um glugga á höllinni.

Kaþólskur her ræðst á mótmælendur í Tirano á Ítalíu árið 1606

Kaþólskur her fór umsvifalaust af stað og gjörsigraði heri mótmælenda. Þá hefðu átökin geta endað en kaþólski keisarinn Ferdínand II ákvað slátra öllum mótmælendum. Mótmælendur báðu þá Kristján IV konungi í Danmörku um hjálp. Hann sendi her sinn til að verja mótmælendur. Lútherskir og kalvínistar sameinuðust svo í Þýskalandi gegn kaþólikkum. Aftur töpuðu mótmælendur fyrir kaþólskum her og Ferdínand hélt áfram að slátra mótmælendum.

Næstur leiks var Gústaf Adolf Svíakonungur, sem kom mótmælendum til hjálpar og hélt með her sinn til Þýskalands. Sungu þeir sálm Lúthers „Vor Guð er borg á bjargi traust“ (númer 284 í Sálmabókinni) á meðan fólki var slátrað. Á endanum náði kaþólskur her að drepa Gústaf konung. Hefndaræði rann þá á eftirstandandi her Svíakonungs; fóru þeir um í flokkum og drápu alla kaþólska bændur sem urðu á vegi þeirra.

Kaþólskur her að slátra mótmælendum í Magdeburg aríð 1631.

Á endanum fór pólitíkin að blandast í málin og Frakkakonungur nýtti sér stöðuna. Hann ákvað að ganga í bandalag með mótmælendum til koma Habsborgurum frá völdum. Fjöldamorð og endalaus átök gerðu út um þrek beggja hópa. Þrjátíu ára stríðið kostaði milljónir manna lífið. Þjóðverjum fækkaði milli 15 til 30 prósent. Hungursneyð, drepsóttir og önnur óáran fylgdi stríðsbröltinu. Eftir Þrjátíu ára stríðið var skilið á milli trúar og pólitíkur, enda hafði sú blanda haft hörmulegar afleiðingar fyrir Evrópu. Með friðarsamningunum í Westfalen árið 1648 lauk beinum afskiptum páfastóls af stjórnvöldum í Evrópu.

Heimildir: Holy Horrors: An Illustrated History of Religious Murder and Madness eftir James A. Haught

Frelsarinn 16.11.2005
Flokkað undir: ( Heilagur hryllingur )

Viðbrögð


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 16/11/05 00:31 #

Magnaður þessi kærleikur sem notaður er til að boða trúnna - ef þú ert á móti okkur þá ertu dauður! Upp til hópa tómir geðsjúklingar.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 16/11/05 00:37 #

Þetta er sérstaklega sorglegt með kaþólikka og mótmælendur í ljósi þess að þeir trúa á sama guðinn, sömu Biblíuna o.s.frv.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 16/11/05 03:21 #

Fattið þið ekki að þetta hefur ekkert með trúna að gera? Þetta eru bara vondir kallar og alveg helvíti mikið af þeim. ;)


Erik Olaf - 16/11/05 10:55 #

Muniði bara að þessir menn voru ekki sannkristnir. ;)


Árni Árnason - 16/11/05 14:54 #

Mig langar að byrja á því að þakka Frelsaranum fyrir þessa frábæru greinasyrpu. Þó ekki væri annað er hún fróðleg sagnfræði, og þekking á fortíðinni er okkur öllum nauðsynleg til skilnings á fyrirbærum nútímans.

Viðbrögðin hafa gjarna verið á þann veg að menn spyrja: Hvað hefur þetta með kirkju nútímans að gera ? Á kirkja nútímans að að bera syndir einhverra vondra kalla ( og kellinga ) úr fortíðinni á herðum sér ?

Kirkja nútímans hlý og mærðarleg í veldi sínu, gengur til móts við okkur á sínum fægðu lakkskóm ofan á hyldjúpri forarvilpu og með því að halda uppi hempufaldinum óhreinkast hann ekki þó illan dauninn leggi upp úr henni. Það er næsta auðvelt að ganga þurrum fótum yfir slíka forarvilpu, með því að fylla hana fyrst af líkum andstæðinga sinna og tippla á hauskúpum þeirra sem mara í yfirborðinu


Maze - 17/11/05 15:59 #

Þýðir þetta Árni að ég megi stofna Nasistaflokinn að nýju? Því ég á ekki, samkvæmt þinni skilgreiningu, "að bera syndir einhverra vondra kalla ( og kellinga ) úr fortíðinni". Því ætti það að vera í lagi fyrir mig að stofan Nasistaflokk Íslands. Við komum bara aðeins betur fram við minnihlutahópa og mannúðarsjónarmið verða okkar aðall. Merki okkar verður hakakrossinn osfrv.

Annars þakka ég Vantrúarmönnum góða síðu.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 17/11/05 17:59 #

Nákvæmlega, Maze. þessari þungu spurningu verða trúmenn að velta fyrir sér.


Árni Árnason - 18/11/05 12:52 #

Maze. Ég veit ekki hvernig er hægt að misskilja svona hrapalega það sem ég skrifaði. Lestu það sem stendur á skjánum.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.