Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Heilagur Hryllingur VII: Galdrafárið

Á 15. öld sneri hinn heilagi rannsóknarréttur sér að nornaveiðum eða gegn göldrum. Næstu þrjár aldir gekk fárið yfir Evrópu með misþyrmingum og brennum á fleira saklausu fólki en tölu verður á komið. Helstu fórnarlömb galdrafársins voru konur. Heimildum ber ekki saman um fjölda þeirra sem teknir voru af lífi fyrir galdra, en tölurnar sem nefndar hafa verið hafa verið á bilinu hundrað þúsund upp í tvær milljónir. Ásakanir kirkjuyfirvalda voru yfirleitt að sú seka hafi flogið, haft mök við Kölska, breytt sér í dýr, gert sig ósýnileg eða framkvæmt djöfullega galdra. Pyntingar voru notaðar til að þvinga fram játningar og síðan var fórnarlambið brennt á báli.

Það var Gregoríus páfi IX sem upphaflega gaf út leyfi til að taka fólk af lífi fyrir galdra á 13. öld. Stöku réttarhöld áttu sér þá stað og aftökur en sjálft galdrafárið rann ekki upp í Evrópu fyrr en á 15. öld. Árið 1484 lýstu Innócentíus páfi VIII því yfir að tilvist norna væri raunveruleg ógn sem þyrfti að glíma við og útrýma. Einnig varð það trúvilla að afneita tilvist norna og segja má að með þessu hafi sjálft galdrafárið hafist. Rannsóknardómarinn Cumanus brenndi 41 konu og kollegi hans í Piedmont í Ítalíu tók 100 af lífi þetta sama ár að tilskipun páfans.

Fljótlega eftir þetta gáfu rannsóknardómararnir Jakob Sprenger og Heinrich Kramer ritið Nornahamarinn (Malleus Malefiacarum), um nornir og eðli þeirra, hvernig þær tældu til sín menn í svefni, ætu börn, kæmu af stað sjúkdómum og legðu á djöfullega galdra. Í ritinu er kynlífi norna lýst og konum almennt lýst sem stórvarasömum og svikulum. Þetta pervertíska rit var síðan notað um alla Evrópu til nornaveiða með tilheyrandi galdrabrennum og óhugnaði. Galdrafárið náði þá hámarki og breiddist út til Frakklands, Þýskalands, Ungverjalands, Spánar, Ítalíu, Sviss, Svíþjóðar og síðar til næstum allra útkjálka Evrópu. Á endanum náði það til Englands, Skotlands og svo meiri segja til Massachusetts í Norður Ameríku sem var þá nýlenda.

Venjulega voru fórnarlömbin afklædd af áfergju, og hár þeirra rakað af rannsakendum, sem ávallt voru karlmenn. Samkvæmt Nornahamrinum var merki djöfulsins að finna einhvers staðar á norninni og til að finna það voru fórnarlömbin stungin með beittum sting. Einnig var leitað af földum geirvörtum, þar sem nornin saug í sig djöfulinn. Ef ekkert fannst voru fórnarlömbin yfirleitt pyntuð til játninga. Oftast var hafist handa við draga af þeim fingurneglurnar og ef það dugaði ekki var borin eldur að brjóstunum. Einnig voru oft kynfæri kvennanna misþyrmt áður en þær voru settar á pyntingarbekk þar sem fórnarlambið var brotið og síðan slitið úr liðum með hjóli og steglu. Allar voru þessar háheilögu aðfarir yfirskilvitlega svívirðilegar. Eftir að þessar raunir var fórnarlambið dregið örvilna á bálköst og brennt lifandi.

Sem dæmi má nefna að 600 konur játuðu samlíf sitt við Kölska í Frakklandi og voru teknar af lífi. Heimildir eru til um 5000 konur sem teknar voru af lífi í Alsace, 900 í Bamberg, um 2000 í Bæjaralandi, 311 í Vaud, 167 í Grenoble, 157 í Wurzburg, 133 á einum degi í Saxlandi. Jafnvel eru til heimildir um að litlum þorpum hafi verið eytt í heilu lagi í fárinu. Brjálæðið hélt áfram fram á 18. öld. Í Skotlandi var eldri kona brennd árið 1722 eftir að hafa játað að hafa umbreytt dóttur sinni í smáhest og riðið gandreið á henni á nornasamkomu. Í Þýskalandi voru nunnur brenndar lifandi á markaðstorginu í Wurzburg árið 1749 eftir að þær játuðu að hafa með göldrum farið í svínslíki. Síðasta aftakan í Sviss var árið 1782. Galdrafárið var jafnt hjá kaþólskum sem mótmælendum. Það er sorgleg staðreynd að galdrafárið var ekki sett af stað af illa upplýstum almúga, heldur af þrælmenntuðum guðfræðingum, biskupum, og dómurum sem stýrðu þessum hryllingi frá upphafi til enda af kristilegum kærleik.

Galdrabrennurnar voru flestar á 17. öld hér á landi og talið er að fórnarlömbin hafi verið nálægt 30. Á meðan séra Hallgrímur orti níðvísur sínar um gyðinga, sem Karl Sigurbjörnsson biskup kallar „holl og tær siðfræðin urðu vegurinn og uppistaðan í trúarlífi og siðferðismótun þjóðarinnar“ var fólk brennt lifandi á Íslandi. Þá var kristna siðferðið í svaðinu og trúarlífið náði áður óþekktum botni. Mannhatrið var ótrúlegt og guðhræðslan átti sér engin takmörk. Við skulum minnast nokkurra fórnarlamba þessa blómstrandi trúarlífs og siðferðismótunar á gullöld íslensku þjóðkirkjunnar. Hér eru þekkt mál ólánssams fólks sem var tekið af lífi vegna galdra á Ísland, flest þeirra voru brennd:

1580 - Ónefnd galdrakona

1608 - Guðrún Þorsteinsdóttir

1625 - Jón Rögnvaldsson

1646 - Sveinn skotti Axlar-Bjarnarson

1650 - Jón ríðumaður (Jónsson, Sýjuson)

1654 - Þórður Guðbrandsson

1654 - Egill Bjarnason

1654 - Grímur Jónsson

1656 - Jón Jónsson eldri

1656 - Jón Jónsson yngri

1667 - Þórarinn Halldórsson

1669 - Jón Leifsson

1669 - Erlendur Eyjólfsson

1671 - Sigurður Jónsson

1674 - Páll Oddsson

1674 - Böðvar Þorsteinsson

1675 - Magnús Bjarnason eldri

1675 - Lassi Diðriksson

1677 - Bjarni Bjarnason

1677 - Þorbjörn Sveinsson

1678 - Stefán Grímsson

1678 - Þuríður Ólafsdóttir

1678 - Jón Helgason

1681 - Ari Pálsson

1685 - Halldór Finnbogason

Fórnarlömb kristni á Íslandi voru reyndar margfalt fleiri en um þau verður sérstakur kafli í „Heilögum Hryllingi“ sem mun birtast hér síðar.

Heimildir: Holy Horrors: An Illustrated History of Religious Murder and Madness eftir James A. Haught og Galdrasýning á Ströndum

Frelsarinn 12.11.2005
Flokkað undir: ( Heilagur hryllingur )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.