Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Einungis um helmingur þjóðkirkjumeðlima kristinn

Áróðursmaskína þjóðkirkjunnar hefur verið á fullri ferð undanfarið. Kynning á niðurstöðum könnunarinnar Trúarlíf Íslendinga hefur verið með eindæmum einhliða og villandi. Við á Vantrú höfum reynt að benda á þetta undanfarið og við munum halda því áfram á næstunni. Það er nefnilega þannig að könnunin geymir mikið af upplýsingum sem eru óþægilegar fyrir þjóðkirkjuna og alls ekki í takt við þá mynd sem markaðsmenn hennar hafa reynt að byggja upp.

Tvær áhugaverðustu spurningar könnunarinnar eru: "Telur þú þig vera trúaða(n) eða ekki?" og "Hver af eftirfarandi fullyrðingum kemst næst trúarafstöðu þinni?". Þeir sem sögðu afdráttarlaust já við fyrri spurninguna fengu þá seinni en þeir sem voru í vafa eða trúlausir ekki. Áður hefur verið bent á hérna á vefnum að einungis um 51% þeirra sem tóku þátt í könnuninni töldu sig kristna, rétt rúmur helmingur. Það er ennþá áhugaverðara að skoða hlutfall kristinna innan þjóðkirkjunnar.

Til að sjá hvert hlutfall kristinna er innan þjóðkirkjunnar þá þurfum við að fara í smá eltingarleik við tölurnar (og það þarf að námunda aðeins en það ætti ekki breyta niðurstöðunni).

Af þeim sem svöruðu spurningunni "Telur þú þig vera trúaða(n) eða ekki?" voru 743 í þjóðkirkjunni. Þar af töldu einungis 520 sig vera trúaða sem er um 70%. Þessir 520 fengu síðan spurninguna "Hver af eftirfarandi fullyrðingum kemst næst trúarafstöðu þinni?" Þar af sögðu einungis 393 að þeir játuðu kristna trú. Þar af leiðir að eingunis 393 af þeim sem segjast vera í þjóðkirkjunni játa kristna trú. Ef við breytum þessu í prósentur þá eru það um 53%. Það er fáránlega lágt hlutfall.

Hvers vegna eru þessi 47% ennþá í þjóðkirkjunni? Er það vegna þess að þeir hafa ekki nennt niður á Hagstofu? Er það vegna þess að þeim er sama um trúmál? Er það vegna þess að þeim finnst hefðin hentug? Er það vegna þess að þeir líta ekki á þjóðkirkjuna sem alvöru trúfélag? Eflaust eru svörin mun fleiri en ég nefni hér. Ef ég væri Karl biskup þá myndi ég hafa áhyggjur af þessum tölum en ég er svo heppinn að vera ekki hann.

Þjóðkirkjan hefur lengi verið hálfgerður áskrifandi að nýjum safnaðarbörnum. Flestir gifta sig í kirkju, flest börn eru skírð og fermd. Þetta er færibandavinna sem verður til þess að innihaldið gleymist. Kristnin er að hverfa úr þjóðkirkjunni sem er vissulega gott en um leið hljótum við að spyrja hvað við höfum gera með ókristna kirkju? Mest lítið held ég.

Óli Gneisti Sóleyjarson 08.11.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Finnur - 08/11/05 01:00 #

Er það vegna þess að þeir hafa ekki nennt niður á Hagstofu? Er það vegna þess að þeim er sama um trúmál? Er það vegna þess að þeim finnst hefðin hentug? Er það vegna þess að þeir líta ekki á þjóðkirkjuna sem alvöru trúfélag?
Þetta er stærsti kostur þjóðkirkjunnar, þú ert ekki krafinn um neina ákveðna trúarskoðun til þess að tilheyra henni.
Ef þú vilt iðka trú, þá gefur hún þér umgjörðina, ef vilt halda í hefðir, þá sinnir hún þeirri þörf, og ef þú trúir á guð en getur ekki skilgreint þá trú fyrir sjálfum þér, þá sinnir þjóðkirkjan þeirri þörf líka.
Þetta er fyrirmyndar trúfélag.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 08/11/05 01:09 #

Þá held ég að það væri best að hafa bara engar kennisetningar!


Þór Melsteð - 08/11/05 05:29 #

Þetta er stærsti kostur þjóðkirkjunnar, þú ert ekki krafinn um neina ákveðna trúarskoðun til þess að tilheyra henni.

Þú ert samt krafinn um skattpeninga, hvort sem þú tilheyrir henni eða ekki. Það er ekki fyrirmyndar trúfélag, það er skítafélag burtséð frá trú. Ef þú trúir ekki á guð, vilt ekki iðka trú og vilt ekki halda í hefðir, þá þarftu samt að borga. Það er langt frá því að vera réttlætanlegt.


Finnur - 08/11/05 05:36 #

[Athugasemd tekin út, við erum ekki að ræða málefni Ríkisútvarpsins hérna, haltu þig við efnið Finnur]


tarzan - 08/11/05 08:15 #

Þetta eru náttúrulega miklu betri rök en aðskilnaðarprósentan í Þjóðarpúlsinum nokkurn tímann. Meðan Þjóðkirkjan er Þjóðkirkja vegur stofnunareðli hennar þyngra trúfélagseðli hennar. Þess vegna er undarlegt að frumkvæðið að aðskilnaði sé ekki löngu komið úr herbúðum kirkjunnar...


Finnur - 08/11/05 08:29 #

Þess vegna er undarlegt að frumkvæðið að aðskilnaði sé ekki löngu komið úr herbúðum kirkjunnar...
Hversvegna er það undarlegt tarzan? Þeir sem eru ósáttir við umburðarlyndi kirkjunnar í kennisetningum leita annað, og sömuleiðis ákafir guðleysingjar. Flestir eru einhverstaðar þarna á milli og þjóðkirkjan sinnir þeirra þörfum vel.
Myndi það bæta samfélagið ef hægt væri að draga skarpar línur á milli þeirra sem eru kristnir, þeirra sem eru andlega sinnaðir húmanistar, þeirra sem eru guðlausir húmanistar og þeirra sem eru stjórnleysingjar -- sem dæmi.


Björn Friðgeir - 08/11/05 08:39 #

Það er nóg að fara á http://hagstofa.is/?PageID=20 og velja "Tilkynning til þjóðskrár um skráningu einstaklings, 16 ára og eldri, í trúfélag eða utan trúfélags" (beinn linkur ) prenta út og faxa. Engin þörf á að fara út úr húsi. BTDT.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 08/11/05 08:43 #

Myndi það bæta samfélagið ef hægt væri að draga skarpar línur á milli þeirra sem eru kristnir....

Tja, spurðu Biskup - hann gerir það ítrekað.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.