Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Vatnaveröld kirkjunnar

Síðasta laugardag var haldin ráðstefna um vatn og réttindi tengd aðgengi að hreinu og óspilltu vatni. Þjóðkirkjan tók þátt og æðsti klerkur þjóðkirkjunnar, Karl Sigurbjörnsson, flutti opnunarávarpið. En hvað hefur kirkjan fram að bjóða í vatnsumræðunni? Presturinn Kristín Þórunn Tómasdóttir reynir að svara þessu í pistli sínum Í upphafi var vatnið.

Í stuttu máli virðist aðalframlag kirkjunnar vera óþarfa myndmál úr biblíunni eða með orðum Kristínar “áþreifanleg vatnsmál [eru tjáð] með hugtökum guðfræðinnar og orðfæri trúarinnar.” Spurning hvort að skáld, íslenskufræðingar og málfræðingar ættu að taka þátt í umræðunni og benda á margskonar notkun vatns í myndmáli. Álíka gáfulegt!

Þegar kemur að siðfræðilegum umræðum þá er öll vísun í yfirnáttúru gagnslaus og eyðileggur ef eitthvað er fyrir skynsamlegri umræðu. Kirkjan á ekkert erindi í umræðu um siðfræði, að minnsta kosti ekki ef hún ætlar að vísa til yfirnáttúru, kennivalds trúarleiðtoga eða trúarrita.

Kirkjan virðist vera búin að sætta sig við þetta að einhverju leyti og það eina sem hún virðist bjóða í umræðuna er innihaldslaust orðagljáfur eins og "Guð er uppspretta hins lifandi vatns og hinn trúaði þráir samvistina með Guði [sic] eins og hindin þráir vatnslindir". Þetta blaður mun vonandi ekki vera glufan sem kirkjan notar til þess að troða trúarórum sínum inn í mikilvæga umræðu sem snertir okkur öll.

Kristín virðist samt falla í þá gildru að láta trúnna sína hafa áhrif á siðferðisskoðanir sínar, eins og sést í lokaorðum hennar:

Vatnið sem Guðs [sic] gjöf kallar sömuleiðis á ábyrgð manneskjunnar að umgangast það með virðingu og skynsemi. Mannréttindi og vatnsvernd eru þess vegna forgangsatriði í því umhverfi sem við viljum skapa í kringum vatn, á Íslandi og heiminum öllum.

Flestum finnst þessi niðurstaða líklega ekki galin. Fyrir utan það að þetta eru bara heppilegar túlkanir guðfræðinga á kennisetningum 1, þá er niðurstaðan ekki ámælisverð, heldur aðferðin. Hún gefur sér þá forsendu að vatnið sé guðs gjöf, það er vísun í yfirnáttúru sem er byggð á trú, andstæðu skynseminnar. Gallinn við þessa aðferðafræði er að með því að samþykkja trú þá getum við leikið okkur að því að komast að hvaða niðurstöðum sem er, því þegar trú er notuð þá er allt leyfilegt. Gott dæmi í þessari umræðu eru rök sumra trúmanna gegn náttúruvernd. Samkvæmt þeim mun heimurinn enda innan skamms tíma og þess vegna er tilgangslaust að vernda náttúruna, auk þess sem það getur jafnvel unnið gegn áætlun guðs um að enda heiminn. Heimskulegt ekki satt? En alveg jafn heimskulegt og að segja að vatnið sé “Guðs [sic] gjöf”. Við getum ekki leyft önnur rökin án þess að leyfa hin í leiðinni. Þannig að besta lausnin er auðvitað sú að ræða þessi mál án þess að láta órökstuddar trúarkreddur eyðileggja umræðuna.

Langflestir Íslendingar eru líklega sammála því að trúin hefur verið skaðleg á sviði vísindanna og hefur því ekkert að gera á vísindaráðstefnum. Vonandi munu fleiri átta sig á því að hún er alveg jafn skaðlega á sviði siðfræðinnar og hefur ekkert að gera á siðfræðiráðstefnum.

1Aðalfag guðfræðinga virðist vera að túlka óþægilegar kennisetningar á þægilegri hátt auk þess að túlka gamlar kennisetningar þannig að þær samræmist ríkjandi skoðunum samtímans.

Hjalti Rúnar Ómarsson 02.11.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Ásgeir - 02/11/05 08:14 #

Hví er hverri einasta notkun á orðinu „Guð“ fylgt af [sic] í tilvitnunum? Ég get ekki séð að orðið sé vitlaust stafsett í neinni af tilvitnunum.

Eina sem mér dettur í hug er að höfundur vill stafsetninguna „Gvuð“ eins og ég hef oft séð hér á síðunni, en þá stafsetningu sé ég sjaldan utan vantru.net.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 02/11/05 08:22 #

Orðið guð er samnafn en ekki sérnafn og skal því ritað með litlum staf.


Ásgeir - 02/11/05 10:28 #

Ég er nokkuð langt frá því að vera málfræðingur, en ég stend í þeirri trú að notkun orðsins guð sem samnafn hafi þróast frá notkun orðsins yfir [veruna/hugtakið/hvað sem maður vill kalla það] Guð.

Einnig, ef ég skýri hestinn minn Hestur, þá er orðið Hestur undir þeim kringumstæðum orðið sérnafn. Á sama hátt má nota orðið Guð sem nafn hins kristna guðs og sem samnafn yfir guðaverur.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 02/11/05 10:38 #

Í gvuðanna[sic] bænum, ræðið þetta á spjallinu.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 02/11/05 12:59 #

Jamm, komið á spjallið

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.