Oft er sagt að einhver mesta lygasaga sem sögð hafi verið sé sú saga sem sögð er í Biblíunni um samband feðganna guðs og einkasonar hans. Ég er ekki frá því að það sé eitthvað til í því. Það er þó önnur skröksaga sem er jafnvel ennþá meira óþolandi, sú sem segir okkur að allir þurfa að trúa á eitthvað í lífinu. Það tel ég vera næststærstu lygina og ég er orðinn langþreyttur á henni.
Þær umræður sem hafa skapast hér á Vantrú undanfarin ár hafa verið að mörgu leiti gagnlegar en oft hafa þær líka verið illþolanlegar. Aftur og aftur hefur því t.d. verið hafnað að trúleysi sem slíkt geti verið til þar sem allir þurfa að hafa sína trú, hvað sem það nú þýðir. Eitt vandamálið í þessari umræðu er orðið sjálft, trú. Hvað merkir það að vera trúaður og hvað er það nákvæmlega þetta trúleysi?
Frá mínum sjónarhóli er þetta ekki flókið í sjálfu sér. Ef tilvist einhvers fyrirbæris er ekki rökstudd með góðum og gildum rökum hlýt ég að hafna því að það fyrirbæri sé til í raun og veru. Ég geri mér einnig grein fyrir því að þegar öllu er á botninn hvolft er það þó ég sjálfur sem met hvað sé trúverðugt og hvað ekki. Þar kemur eigin reynsla inn í myndina ásamt heilbrigðri efahyggju og sjálfsgagnrýni. Með þessa mælistiku á lofti hef ég útilokað út úr minni heimsmynd ýmsar kynjasögur sem eru ekki trúverðugar, eftir því sem ég best tel.
Ég gæti þó haft rangt fyrir mér.
Þar virðist oft skilja á milli mín og trúaðra en flestir þeir sem ég hef kynnst virðast ekki leggja mikið upp úr þeim möguleika að þeir gæti mögulega haft rangt fyrir sér. Enda stríðir það á móti grundvelli trúarinnar, því það er oftast fullvissa um að eitthvað sé til, ekki að eitthvað gæti verið til. Menn sækja ekki guðsþjónustur eða biðja bænir vegna einhvers sem gæti verið hugsanlegt, heldur út frá einhverju sem þeir telja vera satt og rétt. Að efast um slíka hluti grefur óneitanlega strax undan trúarlífinu.
Sígilt dæmi um útúrsnúninga þeirra sem skilja ekki trúleysi er að spyrja kjánalegra spurninga á borð við: “Trúir þú því að þú sért til?” og fleira í þeim dúr. Ef flokka á slíkt sem trú þá segir sig sjálft að enginn maður gæti sagt sig vera trúlausan. Trúleysi snýst ekki um það að vera á móti orðinu trú í hvaða samhengi og merkingu sem það kemur fyrir í. Það snýst í rauninni ekki um neitt sérstakt í sjálfu sér heldur er það einfaldlega lífskoðun þeirra sem reyna að lifa eftir sinni bestu vitund, í góðri fjarlægð frá öllum hindurvitnum þessa heims. Það er því vel hægt að vera trúlaus og lifa góðu lífi þannig, þrátt fyrir þá fullyrðingu sem ég vil kalla næststærstu lygina.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.