Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Framandi menningaráhrif

Þegar Karl Sigurbjörnsson, biskup Þjóðkirkjunnar er ekki að úthúða trúleysi í ræðum fjallar hann gjarna um þá hættu sem „siðnum“ í landinu stafar af erlendum menningaráhrifum.

Við þetta beitir hann óspart hefðarökunum, að gamalgrónar venjur séu í hættu og því beri með öllum ráðum að efla þennan sið hans. Það er heilmargt athugavert við þessa skoðun hans, eins og nú verður rakið:

Samfélög taka stöðugum breytingum og eru í stöðugðri þróun. Ísland hefur til dæmis baðað sig í erlendum mennningarstraumum alla síðustu öld og það tók ekki nema fáeina áratugi að skríða út úr moldarkofunum og upp í lúxusjeppann. Leikhúsin færa alþjóðlega strauma, tónlistin, myndlistin og ritlistin líka. Við skiljum poppmenninguna sem spratt fram í Bretlandi og Bandaríkjunum og kunnum að meta fegurð hennar og gildi. Ef við hefðum spornað við fótunum fyrir öld værum við enn að dansa ræla og lesa fornsögurnar.

Við værum fátækari þjóð.

Kristindómurinn er búinn að ríkja yfir öllu á þessu landi í meira en þúsund ár. Og þjóðin hefur öll verið einlit og fábreytt í háttum, Eyjafjarðarbúinn hlustað á sömu sálmana og Eyrbekkingurinn, lesið sömu skruddurnar og fengist við sama langspilsglamrið. Þegar svo erlendu menningaráhrifin dembdust yfir okkur varð þjóðin auðugri og upplýstari en hún hafði nokkurntíma verið.

Fylgifiskur þess að samfélagið opnaðist er þó auðvitað sá að fleiri trúarbrögð og lífsskoðanir náðu að festa hér rætur. Það sem Karl hræðist er að Þjóðkirkjan missi við þetta spón úr aski sínum og þurfi að horfa upp á sóknarbörn sín flykkjast í annarskonar söfnuði, eða taka upp lífsgildi sem ekki byggja á guðstrú. Og því vill hann spyrna við fótum og boða nauðsyn Siðarins.

Það er eitthvað nasískst við það að vara við erlendum menningarstraumum. Það hljómar dálítið eins og þeir séu á einhvern hátt ómerkari en okkar eigin hokur og fáfræði gegnum aldirnar. Sá sem ekki vill sjá framandi menningu halda innreið sína hingað er í raun að fordæma önnur samfélög og upphefja eigin túngarð.

Slíkur maður stuðlar að fordómum og andlegri fátækt.

En biskup Þjóðkirkjunnar er auðvitað enginn nasisti, heldur lætur hann stjórnast af peningasjónarmiðum, eins og bent var á hér að ofan. Peningalegir hagsmunir fóðra þarna áróður sem hljómar óhuggulega og hefur engin haldbær rök á bak við sig. Ef Þjóðkirkjan úreldist vegna viðhorfsbreytinga í samfélaginu verður Karl bara að bíta í það súra epli.

Þessi ofuráhersla Karls biskups á Siðinn er í senn ljót og hjákátleg. Með henni gengur hann á hlut annarra, í fullkominni andstöðu við allt það umburðarlyndi sem kirkjan hans gefur sig út fyrir að boða.


Sjá líka: Kirkjusiður í svaðinu

Birgir Baldursson 26.09.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Lalli - 27/09/05 16:51 #

Ég get ekki séð að kristindómur sé eitthvað öðruvísi enn hver önnur menningaráhrif sem talað er um í þessari grein. Ekki er þetta eitthvað alíslenskt, heldur er þetta eitthvað sem sótt var útfyrir landsteinan. Ef hann vill vera að passa eitthvað gamall og gott, þá ætti hann bara smella sér í ásatrú og hætta þessu þvaðri. Leyfa fólki að ákveða sjáft hvað er gott og gillt. Ekkert að því að halda í það gamla, enn ekki vera að skjóta niður eitthvað sem honum kemur ekkert við í þessum málum.


Karl B.F. - 28/09/05 15:42 #

Já mér finnst örlítið skondið að ætla að verja hátíðleika arabískra trúarbragða á Íslandi með því að vara fólk við útlendum áhrifum.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.