Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Djöfulsins satanistar eða helvítis fjölmiðlafólk?

Páfi SatansÁ mánudagskvöld kynnti Elín Hirst ógnvekjandi frétt:

Tíu stúlkur á aldrinum 12-15 ára hafa verið beittar kynferðislegu ofbeldi og notaðar við djöfladýrkun í nærri tvö ár í smábæ í Finnlandi.
Um leið og ég heyrði þessa frétt fylltist ég efasemdum enda sýnir sagan okkur að fjölmiðlar eru gjarnir á ýkjur í svona málum.

Fyrr á árinu birtist hér á Vantrú þýðing á greininni Misnotkun við helgihald satanista af Skeptic's Dictionary. Í greininni kemur fram að ekki hefur fundist eitt einasta tilvik þar sem börn hafa verið misnotuð við helgiathafnir satanista. Þrátt fyrir þetta voru móðursýkislegar fréttir af svona málum áberandi í bandarískum fjölmiðlum á níunda og tíunda áratugnum. Hálfgerð múgsefjun greip um sig í landinu. Þar var um að kenna arfaslökum vinnubrögðum fjölmiðlafólks sem hefur hugsar meira um að fréttirnar séu grípandi en að þær byggi á staðreyndum. Þetta hefur leitt til þess að margir ganga um með þá ranghugmynd að kerfisbundin barnamisnotkun sé stunduð af satanistum/djöfladýrkendum.

Fréttirnar frá Finnlandi breyttu fljótt um svip. Málið skýrðist og ljóst er að fyrstu fréttir hafi verið í meira lagi ýktar. Lögreglan í bænum tekur fram að ekkert bendi til þess að nokkur tengsl séu við satanískar helgiathafnir. Það sem gerir æsifréttamennskuna í kringum þetta mál einstaklega ósmekklega er að hún gerir hinn raunverulega glæp að aukaatriði. Þetta er gríðarleg óvirðing við fórnarlömb glæpa að búa til fjölmiðlasirkus úr málunum. Þarna fengu óstaðfestar sögusagnir að njóta sín vegna þess að fjölmiðlafólk hafði ekki þolinmæði til að fá staðreyndirnar á hreint.

Væntanlega eru nú fjölmargir Íslendingar búnir að fá að heyra að satanistar misnoti börn í tengslum við helgiathafnir sínar og fá líklega fæstir nokkra leiðréttingu. Elín Hirst las enga frétt um þróun mála í Finnlandi í gærkvöldi. Það er stórfrétt að satanistar misnoti börn en það að satanistar misnoti ekki börn er ekki frétt. Ranghugmyndinni hefur verið komið í kollinn á fólki og fær væntanlega að vera þar í friði. Vefútgáfa Morgunblaðsins fær hrós fyrir að birta fréttir af þróun mála (þó að orðalagið mætti vera skýrara).

Heimildir
Kynferðisofbeldi í smábæ í Finnlandi - Kvöldfréttir Ríkissjónvarpsins þann 19. september 2005.
Tíu stúlkur beittar kynferðislegu ofbeldi í finnskum bæ - Fréttavefur Morgunblaðsins þann 19. september 2005.
Einn maður handtekinn vegna kynferðisbrotamáls í Finnlandi - Fréttavefur Morgunblaðsins þann 20. september 2005.
Toijala child abuse case less extensive than thought - one arrest made: Police discount claims of Satan worship - Fréttavefur Helsingin Sanomat þann 20. september 2005.

Óli Gneisti Sóleyjarson 21.09.2005
Flokkað undir: ()

Viðbrögð


Þórður Örn - 21/09/05 16:25 #

Gott að fá innlegg um þetta. Flestar sögur um svona eru tilkomnar, eins og sagt er í hinni greininni, frá meðferðaraðilum og eru þá yfirleitt fengnar í gegnum dáleiðslu (sem gerir meðferðaraðilum oft auðvelt að koma fyrir hugmyndum í huga fólks). Sögur um brottnám af geimverum eru yfirleitt fengnar með svipuðum hætti. Það væri kannski gaman að fá einhvern tíman grein um það mál, það er hvernig svona sögur eru búnar til hjá fólki.

Svo vil ég benda á að satanistar og djöfladýrkendur er tvennt ólíkt, og er djöfladýrkun, að ég held, mun alvarlegri.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 21/09/05 17:53 #

Af því sem ég lesið þá giska ég á að hugsanlega hafi einhverjar stelpur þarna verið gotharar og það sé að rugla fólk.


tarzan - 24/09/05 16:55 #

Er þetta ekki skotavilla? „Engir sannir satanistar misnota börn við helgiathafnir. Ef misnotkun á sér stað, hljóta það bara að vera gotharar.“


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 24/09/05 17:04 #

Ég sagði að stelpurnar sem talið var að hefðu verið misnotaðar væru að öllum líkindum gotharar (sumir gotharar daðra við satanisma þannig að það að vera gothari útilokar það ekki að maður sé satanisti). Það er hins vegar ekkert sem bendir til þess að glæpamennirnir séu satanistar né gotharar.


Hrafn - 24/09/05 20:35 #

"Svo vil ég benda á að satanistar og djöfladýrkendur er tvennt ólíkt, og er djöfladýrkun, að ég held, mun alvarlegri."

Það er ekki það sama að vera heimskur eða vitlaus, en ég held það sé verra að vera vitlaus...


Þórður Örn - 26/09/05 10:32 #

Heimskur og vitlaus eru samheiti. Það eru orðin satanisti og djöfladýrkandi ekki. Satanismi er til dæmis upprunninn um miðja seinustu öld (um 1960) en djöfladýrkun er mun eldri. Þar að auki eru engar fórnir, hvort sem það eru dýra- eða mannfórnir, í satanisma. Það eru hins vegar fórnir í djöfladýrkun hverskonar (alltaf dýrafórnir, eftir því sem ég best veit). Þess vegna held ég að djöfladýrkun sé verri heldur en satanismi.

Hvers vegna heldur þú eiginlega að það sé verra að vera vitlaus en heimskur?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 26/09/05 13:04 #

Hugtökin heimskur og vitlaus tákna ekki það sama.


Þórður Örn - 26/09/05 16:14 #

Í athugasemdinni sem þú tengir á talar segir þú að heimskingi sé hvorki vitgrannur maður né þroskaheftur maður, en berð í rauninni ekki saman orðin heimskur og vitlaus.

Í orðabók stendur:

vitlaus: mjög heimskur

heimskur: vitgrannur

Ég sé ekki muninn. Auðvitað getur vitlaus líka þýtt vitskertur þ.e. geðveikur, en ég held ekki að um þá merkingu hafi verið að ræða hér.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 26/09/05 21:36 #

Vandinn er sá að merking þessara tveggja orða hefur verið að taka sífelldum breytingum. Í dag nota menn gjarna orðið heimskur yfir þá sem í daglegu tali eru kallaðir vitlausir, en sú er samt ekki upprunaleg merking orðins, heldur þýðir þetta orð í raun fávís, sá sem sér ekki út fyrir eigin túngarð, þekkir bara heimahagana.

Menn geta þvi verið mjög greindir að upplagi, en samt heimskir af því þeir hafa aldrei gert sér far um að kynnast veröldinni.

Orðið vitlaus táknar í upphafi að vera geðveikur, en hefur svo með tímanum byrjað að eiga líka við um þá sem eru á lágu greindarstigi. Slíkt fólk getur ferðast um víða veröld, en heldur samt alltaf áfram að vera „vitleysingar“.

En auðvitað eru ekki skýr mörk þarna á milli, enda er vit og vitleysa? stundum notað í merkingunni *þekking og þá auðvitað líka vanþekking - heimska.

Þá sjaldan að ég hef minnst á „sjálfskipaða heimskingja“ hef ég auðvitað verið að tala um þá sem ástunda meðvitaða ásókn í fávisku. Eða geta menn ástundað greindarskort?

Eins og þú sérð á ofanskráðu er verra að vera vitlaus en heimskur - í hefðbundinni merkingu þeirra orða.


Salíbuna - 27/11/05 17:48 #

Mér finnst þið skrítnir.. En vitiðið eitthvað hvernig manndómsvígsla fer fram í annaðhvort satisma eða djöfladýrkun ? Plíís nennir einhver að svara og sem fyrst !!! ??


Kalli - 27/11/05 23:01 #

Ég veit ekki til þess að það fari fram nein manndómsvígsla hjá Church of Satan. Ég veit ekki heldur hvort það sé hægt að tala um djöfladýrkendur sem einsleitan hóp.

Vefur Church of Satan ætti að geta upplýst um þann félagsskap og kannski getur Wikipedia hjálpað.


Ásgeir - 21/01/06 16:30 #

Já gott að fá grein sem bendir á þessa vitleysu. Salibuna: Það er engin "manndómsvígsla" inn í Laveyan Satanisma. Hin eiginlega vígsla er að brjóta í gegnum ótta okkar á orðinu satan. Eitt sem ég hef ekki séð hérna ennþá (en það er ekk langt síðan að ég fann þessa síðu) er útskýring á hvað fólki finnst satanismi vera. Samkvæmt minni eigin skilgreiningu er þetta einfaldlega trúleysi með byggingu (Atheism with structure). En núna er ég að fara út fyrir efnið. Ef það er grein sem fjallar um Satanisma (almennt) getur einhver bent mér á hana? (Fann eina, en þar er ekki lengur hægt að segja skoðun sína). Takk fyrir.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.