Það er svolítið gaman að fylgjast með því fólki sem sýnir viðbrögð í athugasemdakerfinu okkar. Þegar við gagnrýnum eitthvert nýjaldarkjaftæðið fagna hinir kristnu og gætu ekki verið meira sammála okkur. Á sama hátt mæta nýjaldarsinnar í kommentakerfið og samþykkja það sem við skrifum ljótt um kristindóminn.
Þegar við gagnrýnum Þjóðkirkjuna hlakkar í sköpunarsinnum. Og þegar við gagnrýnum sköpunarsinna kinkar Þjóðkirkjufólk ánægt kolli. Það vill nefnilega svo til að allir þeir sem lesa Vantrú eru hjartanlega sammála okkur þegar kemur að öllu nema þeirra eigin uppáhaldshindurvitnum.
En ætli það geti verið að við hér á Vantrú séum svona réttsýnir í öllu nema akkúrat því sem dillar trúmanninum sem les? Er kristindómurinn til dæmis eitthvað vitrænni en reiki?
Nei gott fólk, þetta er allt sama tóbakið. Og þetta byggir allt saman á lygum og svindli. Og svo langt gengur þetta að þeir sem selja handanheimanudd, lithimnulestur og kærleika krists eru margir hverjir sjálfir á valdi lyganna og sjá ekki hverslags ófögnuð þeir eru að breiða út um samfélagið. Þeir eru búnir að ganga með hugmyndir sínar frá því að þeim voru innrættar þær í æsku og geta með engu móti skoðað þær í gagnrýnu ljósi. En þegar kemur að eftirlætisbábilju náungans rýna menn á flísarnar gegnum trjábolinn í eigin auga.*
Ég skora á alla trúmenn, hvaða kerfi þvælu sem þeir aðhyllast, að skoða í alvöru hvort verið geti að Vantrú hafi kannski rétt fyrir sér um þeirra bábiljukerfi líka. Slík athugun gerir ekkert annað en stæla og þroska eigin huga. Við sem ástundum efahyggju gerum þetta öllum stundum.
Og kannski, ef vel gengur, losnið þið undan hugsanafjötrum þeim sem þið elskið svo mikið og getið séð þá fyrir það sama og allt hitt dótið sem við gagnrýnum hér.
*) Hér er kjörið tilefni fyrir einhverja kristna að hæðast af því að ég skuli afgreiða kristindóminn sem bábiljur ein vitni á sama tíma í Jesú Krist máli mínu til framdráttar. Því er til að svara að þótt Jesús hafi kannski stunið upp einhverju af viti táknar það ekki að restijn af Biblíunni geti ekki verið ranghugmyndir, lygar og kjaftæði.
Í þessum skilningi er kristinn einstaklingur 99,94% guðlaus ;-)
Guð er trúlaus.
Ef trú þýðir að maður trúi á æðri máttarvöld og ef Guð er æðstu máttarvöldin, þá getur hann ekki trúað á æðri máttarvöld og hlýtur þar af leiðandi að vera trúlaus.
Eða hvað? Ef guð er til hlýtur hann að hafa komið einhvers staðar. Eitthvað verður ekki til úr engu, svona til að vitna í trúaða. Hver skapaði þá guð? Ætli guð velti fyrir sér sjálfur hvaðan hann kom?
Æji, þetta er ruglingslegt. Mér finnst bara best að gera ekkert ráð fyrir guði.
"Við erum öll trúleysingjar. Í þessari bók má finna yfirlit yfir helstu guði og goðverur sem þekktar eru. Í bókinni eru u.þ.b. 1800 efnisatriði. Kristið fólk hafnar öllum guðum í þessari bók nema einum. Það er því ekki mikill munur á kristnum einstaklingi og trúleysingja. Sá fyrri hafnar 1799 guðum, en trúleysinginn 1800. Það er varla tölfræðilega marktækur munur!"
LOL snilldar komment!
Þetta er ágætis grein Birgir. Ég held að ég falli að mestu undir þennan hóp sem þú talar um, sem er alltaf sammála nema þegar eigin sannfæring er gagnrýnd. Ágætis punktur. Ég verð nú samt að segja eins og er að afstaða mín er ekki völt í sessi af þessum sökum.
Ég hef mjög gaman af greinum ykkar um nýöld, dulspeki, stjörnuspeki, furðu megrunarkúra og ýmsilegt í þessum dúr, og er ávallt sammála innihaldinu þar, en er aftur á móti ósammála þegar að menn ráðast á "fundamentalismann" minn. (Þó að ég hafi vissulega gaman að greinum þeim.) Ég er ekki í þjóðkirkjunni, og greinar gegn henni falla mér stundum vel í geð, og stundum ekki. Þjóðkirkjan hefur að mínu mati í heildina haft góð áhrif á íslenskt samfélag, þrátt fyrir ýmsa galla.
Að lokun, skemmtileg tilvitnun í franskan predikara: "Guð er ekki til, og Karl Marx er spámaður hans".
Satt - best að vera bara á móti þessu öllu! Best að vera á móti öllu og öllum! *
*) Vert er þó að taka fram að ef eitthvað af viti eða vel ort fyrirfinnst í einhverjum bábiljufræðum er vantrúuðum heimilt að nota það gegn því sem þaðan sem það kemur, ólíkt upphaflegum tilgangi orðanna. Einnig skal tekið fram að vantrúaðir ættu ekki að hætta sér of nærri texta af þessu tagi því fleira og fleira gáfulegt gæti komið í ljós við nánari lestur.
Fiffi, hvaðan kemur þér vitneskja um upphaflegan tilgang orða biblíunnar? Ef guðinn þinn þarf svona mikið að leibeina sauðunum sínum af hverju gerir hann það ekki svo allir skilji? Eða er það hér sem frjáls vilji kemur inn í myndina - þú velur það sem hentar þér og þínum takmarkaða skilningi á guðdómnum, en annað fær að fljóta með af því að það hlýtur að vera merkilegt. Það er jú í biblíunni!?!
Er ekki einmitt talað um að feta þrönga stigu í stað þess að taka breiðan og beinan veg? Ef það væri svona lítið mál að vera kristinn og halda í trúna - væru það þá ekki allir?
Guðinn minn þarf svo mikið að leiðbeina sauðum sínum því það er ekkert hlaupið að því að vera í hjörðinni (já og svo fyrir utan það að við erum náttúrulega sauðir - grínlaust!). Auk þess þarf maður að hlusta vel og vandlega á það sem meint er á bak við það sem sagt er - rétt eins og þið gerið, ekki satt?
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Sigurður Ólafsson - 17/09/05 11:17 #
Við erum öll trúleysingjar. Í þessari bók má finna yfirlit yfir helstu guði og goðverur sem þekktar eru. Í bókinni eru u.þ.b. 1800 efnisatriði. Kristið fólk hafnar öllum guðum í þessari bók nema einum. Það er því ekki mikill munur á kristnum einstaklingi og trúleysingja. Sá fyrri hafnar 1799 guðum, en trúleysinginn 1800. Það er varla tölfræðilega marktækur munur!