Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Tvö ár - afmælispistill ritstjóra

Í lok ágúst átti vefritið Vantrú tveggja ára afmæli. Það er því viðeigandi að ritstjóri líti aðeins um öxl. Farinn vegur og svoleiðis.

Ég hafði lengi verið einherji í skrifum mínum um trúmál, hafði bæði skrifað á netið og í blöð. Þegar nokkrir góðir menn sem höfðu áður verið í félaginu SAMT tóku sig saman um að stofna vefritið Vantrú þá var mér boðið með. Til að byrja með vorum við fimm. Nú hefur birst efni eftir rúmlega þrjátíu manns hér og flestir þeirra eru meðlimir í félaginu Vantrú.

Félagið Vantrú var stofnað óformlega í febrúar 2004 en formlega í október sama ár. Félagar eru nú um 40. Ef við beitum stærðfræðiformúlum á þetta þá er þetta áttfjöld fjölgun á tveimur árum. Ef við höldum sama vaxtarhraða þá verður meirihluti landsmanna genginn í félagið þegar vefritið verður tíu ára, 10 ár í viðbót og heimurinn er okkar.

Vefritið hefur verið umdeilt frá upphafi. Það var vísvitandi ákvörðun að hafa umfjöllunina um trúmál beinskeyttari en hafði áður tíðkast. Reyndar má segja að við höfum ekki fundið upp hjólið í þeim efnum enda voru til afar harðorðir trúargagnrýnendur hér á landi áður fyrr. Þórbergur og Laxness eru kannski stærstu nöfnin í þeim efnum en Níels Dungal er í sérstöku uppáhaldi hjá okkur.

Gagnrýni á trúarbrögð hefur orðið hálfgert tabú á Íslandi. Í orði þá var talið ljótt að gagnrýna trúarskoðanir en í raun þá er það aðallega þjóðkirkjutrúin sem kemst undan gagnrýni. Allt í lagi að hamra aðeins á Snorra í Betel eða Gunnari í Krossinum. Vandamálið er að þjóðkirkjutrúin er alveg jafn röng og önnur trú. Þjóðkirkjan er með eina öflugustu áróðursmaskínu landsins en kvartar samt sáran yfir einelti frá litla vefritinu Vantrú sem á enga peninga og hefur engin völd. Það eina sem við höfum eru orð sem verða beittari eftir því sem þau eru sannari. Lesendahópurinn er sístækkandi og alltaf eru að einhverjir nýjir að uppgötva Vantrú.

Vantrú hefur tekið þann pól í hæðina að trúleysi feli ekki í sér það að vera laus undan oki trúarbragðana heldur að stunda gagnrýna hugsun á öðrum sviðum. Við höfum því tekið hér fyrir gervivísindi og allskyns kukl. Hin sorglega staðreynd er sú að fjölmiðlar eru í raun gagnslausir í því að berjast gegn svoleiðis svikastarfssemi og stunda það jafnvel að auglýsa ruglið án þess að nokkur gagnrýni komi þar fram. Vantrú er eini fjölmiðillinn sem berst gegn þessu kjaftæði. Þetta er sorgleg staðreynd. Fjölmiðlamenn mættu endilega vakna af blundi sínum og reyna að þjóna lesendum sínum með betri rannsóknarvinnu.

Ég verð að játa að það koma tímabil þar sem ég nenni ekki pæla í neinu sem tengist trúmálum. Stundum læt ég jafnvel vera að lesa Vantrú, það taka þá aðrir við boltanum og vefurinn rúllar einhvern veginn alltaf. Þetta kemur samt alltaf aftur. Það þarf kannski ekkert nema að heyra biskupinn segja eitthvað afburðaheimskulegt, lesa bakþanka Jóns Gnarr eða sjá hvernig fjölmiðlafólk lepur upp vitleysuna úr einhverjum kuklaranum. Það kemur mér af stað. Það er enginn skortur á hlutum til að vera vantrúaður á.

En hvað situr eftir? Það skemmtilegasta hefur án efa verið það að hitta fleiri trúleysingja og spjalla. Ekki í einhvers konar AA játningarstíl ("ég heiti Óli og ég er trúlaus" - "hæ Óli") heldur yfir góðum mat þar sem hláturinn dynur og gleðin ríkir. Í seinni tíð hef ég verið ánægðastur með það að við virðumst ná ágætlega til ungra kvenna en lengi leit út fyrir að sá hópur hefði engan áhuga á okkur (upphugsið eigin brandara um þessa setningu en þið vitið hvað ég á við). Fjölgun í okkar hópi hefur, eins og áður segir, verið hröð.

Hvað er framundan? Við munum ekkert fara að breyta grunninum en hugsanlega stækka við okkur. Taka að okkur stærri verkefni. Á næsta ári verður stór guðleysingjaráðstefna á Íslandi með þátttöku Vantrúar. Vantrú hefur líka tekið upp á að selja boli og aðrar skemmtilegar vörur. Þetta hefur farið vel af stað enda er Erich óneitanlega ofursvalt lógó.

Það er svo sem lítið sem ég get við þetta bætt (reyndar lygi, ég gæti bætt heilum ritgerðum við þetta en læt þetta duga) og fátt annað eftir en að þakka lesendum okkar fyrir lesturinn og félögum mínum fyrir samvinnuna undanfarin tvö ár. Þetta er búið að vera gaman.

Óli Gneisti Sóleyjarson 04.09.2005
Flokkað undir: ( Hugvekja , Leiðari )

Viðbrögð


urta (meðlimur í Vantrú) - 07/09/05 15:24 #

Allir trúlausir fagna 2ja ára afmæli Vantrúar af heilum hug. Geri athugasemd við eina setningu í afmælisræðu Óla Gneista. Hann segir: "Við höfum því tekið hér fyrir gervivísindi og allskyns kukl." Og vil í því sambandi árétta að trú að hvers kyns guð eða guði er ekki minna "kukl" en að lesa í bolla, stunda andalækningar, spyrja stjörnur himinsins hvað ég eigi að gera í dag - eða láta ógert, eða hvað annað af því tagi. Sjáið bara serímóníurnar við svokallaðar almennar guðþjónustur eða jarðarfarir!


Árni Árnason - 09/09/05 16:02 #

Til hamingju Vantrú, með afmælið. Sannarlega ekki vanþörf á að hrista svolítið upp í viðjum vanans. Það vita jú flestir sem vilja vita að trúarbrögðin eru lítið annað en gamall vani fyrir allan almenning á vesturlöndum.

Undarlegt samt hvað þessi vani getur blindað fólk þannig að það sjái flísina í auga bróður síns, en ekki bjálkann í sínu eigin. (svo maður vitni nú í margþvælt ævintýri)

Grímuklæddur töfralæknir sem makar sig blóði halfdauðrar hænu og dansar trylltann dans umhverfis strákofann þar sem ættarhöfðinginn liggur sóttheitur inni er umsvifalaust stöðvaður og trúboðinn sýnir honum að miklu betra er að stökkva hann vígðu vatni, gera krossmark yfir brjóst hans og fela hann þrenningunni patri et fili et spiritus sankti. Haldiði að það sé nú munur.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.