Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Amityville kjaftæðið

amitiyvilleÍ dag verður kvikmyndin "The Amityville Horror" frumsýnd hér á landi. Þessi mynd er endurgerð samnefndrar kvikmyndar frá árinu 1979. Myndin fjallar um það að árið 1974 var heil fjölskylda myrt í svefni í húsi einu í Long Island. Ronald DeFeo yngri, kallaður “Butch”, játaði að hafa banað fjölskyldu sinni og sagðist hafa gert það vegna þess að “raddir í húsinu” sögðu honum að gera það .

Þessi mynd er auglýst í sjónvarpi og kvikmyndahúsum sem sönn saga. Í Fréttablaðinu í dag segir í umfjöllun um myndina að hún “[byggi] á raunverulegum atburðum”.

The Amityville Horror fékk slagkraft sinn ekki síst frá þeirri staðreynd að hún byggði á raunverulegum atburðum en árið 1974 var heil fjölskylda myrt í svefni í gömlu húsi á Long Island. Ronald DeFeo yngri játaði svo skömmu síðar að hafa banað foreldrum sínum og systkinum vegna þess að „raddir í húsinu“ sögðu honum að gera það. Nokkru síðar fluttu ung hjón í húsið án þess að vita nokkuð um skelfilega fortíð þess. Illir andar hússins flæmdu þau út á um það bil tveimur vikum og þau máttu þakka fyrir að sleppa lifandi frá draumaheimili sínu. Eiginmaðurinn virtist á þessum stutta tíma vera að missa vitið og ógnaði fjölskyldunni. Prestur sem reyndi að kveða óværuna niður beið þess aldrei bætur að glíma við myrkraöflin innan veggja heimilisins.

Sagan breyttist ört hjá “Butch” en hann sagði lögreglunni einnig að mafían hefði skipað honum að drepa fjölskyldu sína. Hann viðurkenndi eftir handtökuna að hann ætlaði að bera við geðveiki og sleppa alveg eða allavega eftir nokkur ár. Á meðan “Butch" var í fangelsi fluttu George og Kathy Lutz í húsið, sumarið 1975. Þau vissu vel hver saga hússins var en ákváðu að það væri ekkert vandamál fyrir þau og börnin þeirra þrjú. Að þeirra sögn flæmdu illir andar þau útúr húsinu eftir einungis tíu daga. Sögurnar sem þau sögðu voru vissulega óhugnanlegar en þau töluðu um andsetin svífandi svín, glóandi rauð augu sem störðu á þau í gegnum glugga á efstu hæð hússins, raddir drauga sem skipuðu þeim að “koma sér út” úr húsinu, pittur sem leiddi þau beint til helvítis í kjallaranum, slím og blóð á veggjunum, innri þörf til þess að endurtaka morðin sem höfðu verið framin, flugna pestir og það að vakna á sama tíma og morðin voru framin. Sagan reyndar breyttist ört hjá þeim eins og hjá Butch en seinna meir sögðust þau m.a. hafa verið í húsinu í 28 daga.

Staðreyndin er sú að tenging kvikmyndarinnar við raunverulega atburði byggir á afar veikum grunni, en haft hefur verið eftir George Lutz að það “að segja satt og rétt frá skiptir minna máli en peningar sem hægt er að græða á uppdiktuðum framhaldsmyndum”. Hægt er að lesa nánar um þessa greinlegu lygi og svik hjá csicop, í orðabók efahyggjunnar og hér

Í Fréttablaðinu er haft eftir Brad Fuller, einum framleiðenda myndarinnar að „Það erfiðasta við endurgerðir er að áhorfendur bera myndina strax saman við forverann og fólk hefur miklar meiningar um Amityville-hryllinginn og hvað raunverulega gerðist og hvað ekki“. Það er nokkuð ljóst, ef staðreyndir málsins eru skoðaðar, að það sem myndin Amityville Horror fjallar um gerðist ekki raunverulega. Það má hugsanlega segja að hún byggi á raunverulegum blekkingum, morðin áttu sér vissulega stað, en það er afar langsótt að halda því fram að kvikmyndin byggi á raunverulegum atburðum.

Í harðri samkeppni nota menn öll ráð til ná athygli neytenda og eins og framleiðandi myndarinn segir, „hryllingsmyndir sem eiga sér stoð í raunveruleikanum snerta fólk dýpra þar sem það trúir því að það sem það sér á tjaldinu geti komið fyrir það sjálft“. Menn hafa því verulega hagsmuni af því að telja fólki trú um að sagan á bakvið myndina sé sönn. Það er vissulega bagalegt þegar sölumennskan gengur út á að boða ranghugmyndir og hindurvitni. Vafalítið má hafa gaman af þessari kvikmynd en við hvetjum fólk til að kynna sér málið áður en það telur sjálfum sér eða öðrum trú um að þetta sé eitthvað annað en skáldskapur.

Erik Olaf 14.07.2005
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Unnur - 14/07/05 16:08 #

Hér er líka góður linkur um Amityville málið :)


Þórður Örn - 14/07/05 20:07 #

Ég man einmitt eftir að hafa séð þessa mynd auglýsta í bíó, og sagði þá einmitt „my ass!“ upphátt þegar það kom „based on a true story“ á skjáinn.

Það er alveg óþolandi hvernig fólk er blekkt svona. Þegar ég var barn þá horfði ég á heldur ógeðfellda sjónvarpsmynd eftir sögu Stephen King, IT (sem er skáldsaga frá A-Ö). Áður en hún var sýnd var sagt að hún byggðist á sannsögulegum atburðum. Eins og gefur að skilja hef ég verið hræddur við trúða síðan.


Erik Olaf - 15/07/05 08:08 #

Algjörlega óþolandi að svona markaðherferðir skuli viðgangast. Ég held að þetta sé eina leiðin til að fanga athygli fólks á þessum "unglingahrollvekjum". Það nennir enginn að sjá þessar myndir annars. Og í staðinn fáum við fullt af krökkum/unglingum sem trúa þessum bábiljum.


Árni Árnason - 15/07/05 14:32 #

Eru nú fallbyssurnar farnar að skjóta mýflugur.

Mér þykir menn eyða miklu púðri á ómerkileg skotmörk. Það má sjálfsagt segja að frjálslega sé með farið þegar menn segja Amitywille myndina byggða á sannsögulegum atburðum, og þó.

Fólkið var jú drepið, það er þó satt. Morðinginn sagði raddir hafa dregið sig til að fremja morðin, og það er þó satt að hann bar því við.

Seinni íbúar flýðu úr húsinu, það er þó satt. Þeir kenndu draugagangi um, það er þó satt að þau báru því við.

Þannig er þetta byggt á sannsögulegum atburðum, þó að raddir og draugagangur hafi bara verið til inni í höfðinu á viðkomandi.

Þetta er nú bara dægradvöl, einhver hryllingsmynd. Varla púðursins virði að svekkja sig á því.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 15/07/05 14:51 #

Eru nú fallbyssurnar farnar að skjóta mýflugur.

Mér þykir menn eyða miklu púðri á ómerkileg skotmörk. Það má sjálfsagt segja að frjálslega sé með farið þegar menn segja Amitywille myndina byggða á sannsögulegum atburðum, og þó.

Óskaplega á ég erfitt með að skilja svona athugasemdir. Hver er eiginlega tilgangurinn með þessu innleggi Árna?

Tilgangurinn með greininni er að fá fólk til að hugsa. Myndin er auglýst á þeim forsemdum að verið sé að fjalla um atburði sem áttu sér stað í raunveruleikanum. Vissulega voru þessi morð framin. En þar endar raunveruleikinn, restin er fullkominn skáldsapur.

Það fjallar enginn annar um þessi mál á krítískan hátt. Ef Vantrú gerði það ekki, hver þá?

Stór hluti þjóðarinnar trúir á drauga. þessi mynd og gagnrýnislaus umfjöllun um hana er vatn á myllu þeirra sem trúa á slík hindurvitni.

Árni bætir við:

Þetta er nú bara dægradvöl, einhver hryllingsmynd. Varla púðursins virði að svekkja sig á því.

Greinin endar með þessum orðum:

Vafalítið má hafa gaman af þessari kvikmynd en við hvetjum fólk til að kynna sér málið áður en það telur sjálfum sér eða öðrum trú um að þetta sé eitthvað annað en skáldskapur.

Við vitum að þetta er dægradvöl og höfum ekkert út á draugamyndir að setja. En þegar markvisst er reynt að sannfæra fólk um það þarna sé eitthvað meira en skáldskapur á ferðinni þykir okkur rétt að benda á staðreyndir málsins.

Annað var það ekki.


Árni Árnason - 18/07/05 16:51 #

Menn spyrja hver sé tilgangurinn með innleggi eins og mínu.

Tilgangurinn er sá að benda á, að þó að efahyggjan sé góð, en trú og hindurvitni til baga, þá meiga menn passa sig á því að verða ekki fanatíkerar í þessu frekar en öðru.

Ég helda að hvorki framleiðendur Amitywille, né áhorfendur upp til hópa trúi því að þetta sé byggt að öllu leyti á sannsögulegum atburðum. Það eru auðvitað ýkjur, sem eiga að gera þetta eitthvað meira spennandi.

Sjálfum finnst mé gaman að tilþrifum, eins og þeim þegar vegagerðarmenn flytja grettistök ( álfasteina ) úr vegarstæðinu eða taka hlykk á veginn fram hjá þeim ( sbr. Álfhólsveg í Kópavogi ) Ég held að álfa- og drauga"trú" íslendinga sé bara svona "djók" til þess að lifga upp á hversdaginn. Þetta eða Amitywille horror er ekki vandamálið sem við vantrúaðir eigum við að glíma, og með því að vera að amast við þessu, eða láta það pirra sig erum við komnir út í sparðatíning sem bara gerir okkur fanatíska í augum annarra.

Einbeitum okkur að einhverju bitastæðara, var allt sem ég vildi segja.

Kveðja Árni


Matti (meðlimur í Vantrú) - 18/07/05 17:25 #

Þér þykir þetta lítilfjörlegt. Gott og vel. Það er ekki eins og hér hafi verið rituð doktorsritgerð um efnið.


Már - 18/07/05 17:53 #

Jæja V strákar. Þið voruð semsagt að komast að tveimur sannleikum:

a) að það er stundum (alltaf?) logið í auglýsingum

b) að íslensk "blaðamennska" snýst að mestu leyti um að afrita auglýsingar og fréttatilkynningar.

Jedúddamía!

Að vísu finnst mér hálf augljóst með orðunum "byggir á sannsögulegum atburðum" er jafnframt verið að segja okkur að sagan (myndin) sé í öllum megin atriðum skáldsaga, en það hefur hingað til ekki þótt fréttnæmt að í skáldsögum virki náttúrulögmálin á annan hátt en í alvörunni - svín fljúgi, o.þ.h.

Skáldsögur eru sko bara í "þykjó".

Það hlýtur að vera gúrkutíð í Vantrúar bransanum. :-)


Már - 18/07/05 18:05 #

...en þetta með sannsögulegu myndirnar (sérstaklega þær bandarísku), er reyndar félagslegt vandamál sem er alveg vert að skoða nánar. Eftir því sem almenningur á vesturlöndum les minna af bókum og innbyrðir í staðinn sífellt meira af kvikmyndum og sjónvarpi, þá fara svona "sannsögulegar" myndir að spila stærra og stærra hlutverk í "sagnfræðiþekkingu" venjulegs fólks, og skilin á milli ævintýris og sagnfræði verða óljósari og óljósari.

Maður tekur sérstaklega skýrt eftir þessu með DaVinci lykilinn - ég veit ekki hversu margar íslenskar sálir ég hef heyrt besservissast um mannkynssöguna út frá einhverju sem viðkomandi las í þeirri bók. Sama gildir um fjölmargar kvikmyndir: Oliver Stone endurskóp í grófum dráttum skilning heimsbyggðarinnar á JFK morðinu, og taldi minni kynslóð trú um að Doors hafi verið stórmerkilegir tónlistarmenn. Svipað gildir um kvikmyndina U-571 þar sem Bandaríkjamönnum er eignaður, í stað Breta, heiðurinn af því að brjóta Enigma kóðann. Eftir sú mynd var sýnd í Bretlandi sumarið 2000 sýndu skoðanakannanir að yfirgnæfandi meirihluti bresks almennings trúði því að Bandaríkjamenn hefðu unnið stríðið fyrir Bretana.

Allt er þetta gert í skjóli orðanna "byggir á sannsögulegum atburðum".


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 18/07/05 18:07 #

Þannig að þú ert á því máli að það sé ekki gagnrýnisvert að ljúga í auglýsingum.

Er það voðalega langsótt að halda að einhver falli fyrir þessu kjaftæði?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 18/07/05 18:08 #

Mitt komment var skrifað áður en seinna komment Más kom.


Erik Olaf - 19/07/05 08:03 #

Allt er þetta gert í skjóli orðanna "byggir á sannsögulegum atburðum".

Að mínu mati þarf að benda á þessa hluti. Ég hef lesið einhver blogg og séð á tveim stöðum allavega þar sem verið er að tala um "þessa sannsögulegu". Og þar sem verið er að ræða hvað þau hefðu gert hefðu þau lent í þessu sama og fólkið á myndinni og þar fram eftir götunum.


Hjördís Óskarsdóttir - 20/07/05 20:19 #

Munið þið ekki eftir fárinu í kringum fyrstu Blair wich project myndina. Þá var sagt að þetta væri alvöru til að auglýsa myndina og fólk trúði þessu. Er þetta ekki spurning um auglýsingabransann, hversu langt má ganga.


Már - 22/07/05 16:08 #

Óli, jú mér finnst það gagnrýnivert þegar logið er í auglýsingum. Bara svo það sé alveg á hreinu.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.