Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Götuljós guðs

Að undanförnu hafa trúmenn skrifað mikið um þá ótrúlegu frétt að vísindarannsóknir staðfesti mátt bænarinnar. Í mörgum þessara rannsókna er athugað hvort sjúklingum sem beðið er fyrir vegni betur, verr eða jafn vel og sjúklingum sem ekki er beðið fyrir. En ef bænin virkar raunverulega, hvers vegna deyr þá fólk sem beðið er fyrir? Hvers vegna erum við ekki alltaf bænheyrð?

Trúmenn hafa líklega mörg svör við þessum spurningum. Fyrir utan "Vegir Guðs eru órannsakanlegir" er algengasta svarið líklega svipað þessari útskýringu guðfræðinemans Guðna Más:

Ástæðan er sú að bænasvörin sem Guð gefur okkur virka eins og götuljós. Stundum er grænt og við fáum strax það sem við biðjum um, stundum er gult og við þurfum að bíða uns rétti tíminn er kominn, en stundum fáum við rautt,...

Bænirnar “virka” sem sagt alltaf, guð heyrir allar bænir. Hann bara svarar ýmist “já”, “bíddu” eða “nei”. Það skiptir engu máli hvað gerist, bænin “virkar” alltaf. Annars eru bænir furðu líkar götuljósum. Það er engin persóna sem fylgist með okkur í umferðinni og ákveður hvort við lendum á rauðu, gulu eða grænu ljósi.

Reyndar geturðu beðið til hvaða guðs eða hlutar sem er um hvað sem er og svörin verða alltaf annað hvort “já”, “bíddu” eða “nei”. Erfitt er að sjá hvers vegna fólk ætti að biðja til guðs þegar svörin eru þau sömu og þegar beðið er til hvers sem er og þegar alls ekki er beðið

En Guðni er ekki hættur, hann getur einnig útskýrt hvers vegna bænirnar lenda stundum á rauðu ljósi:

[Við fáum rautt ljós] “...þegar við biðjum um hluti sem við þörfnumst ekki, hluti sem Guð veit að við þörfnust ekki. Við höldum líka eiturefnum frá börnum okkar. Þegar lítið barna sér mömmu sína hella hreinsilegi í fötu þá getur það sagt: súpa sona, og beðið um litríkt hreinsefnið að drekka. En við rétt eins og Guð vitum betur og höldum eiturefnum frá börnum okkar.”

Vissulega er skiljanlegt að guð gefi barni ekki hreinsiefni að drekka, en hvað með barn sem er að deyja úr þorsta og biður um vatn? Er það á rauðu ljósi? Gulu? Eða er kannski líklegra að guð sé ekki til?

Hjalti Rúnar Ómarsson 04.07.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 04/07/05 11:57 #

Það deyja TÍU ÞÚSUND börn úr niðurgangi og taugaveiki á hverjum einasta degi allt árið um kring. Foreldrar þessara barna biðja væntanlega innilega fyrir þeim án árangurs. Þau lenda sumsé á "rauðu ljósi" hjá algóðum guði.

Sá sami algóði guð bregður hins vegar upp "grænu ljósi" við bakverkjum feitra ameríkana á samkomum Benny Hinn og við áfengismisnoktun gamalla fyllibytta hjá Gunnari í Krossinum.

Ef þessi guð væri til og umferðarljósin hans einnig er hann slíkt skrímsli að það vekur furðu að nokkrum detti í hug að bugta sig og auðmýkja fyrir fyrirbærinu.


Ólafur Skorrdal - 08/07/05 13:26 #

Hvernig væri að gefa Guði frí frá svona fordómum og fara að hjálpa sjálf? Berum við ekki ábyrgð á náunga okkar? Eigum við að láta Guði um að bjarga heiminum? Þeir sem ekki trúa á Guð, ætti þess vegna að hætta að fordæma þá sem það gera og fara að snúa sér að hjálpa því fólki, sem Guð er greinilega ekki að hjálpa, í stað þess að fordæma þá, sem að minnsta kosti hugsa til þeirra í bænum sínum. Það er amk. kærleiksríkara, en að nota dauða þeirra sem vopn í baráttunni um fáránleikann.


Haukur - 12/07/05 23:21 #

Fyrir hönd trúleysingja um víða veröld vil ég þakka Ólafi Skorradal kærlega þetta gáfulega innlegg í litríka umræðu.

Reyndar á innlegg hans lítið erindi við það sem verið er að benda á. Guðni Már hafði gefið þá ástæðu fyrir rauða ljósinu að við þörfnuðumst ekki þess sem beðið væri um. Barn sem biður um að losna við banvænann niðurgang þarf semsé ekki á lífi sínu að halda.

Þegar bent er á þetta undarlega verðmætamat almættisins breggst téður Ólafur við með því að gera okkur upp samúðarleysi gagnvart hungruðum heimi og heimta að við uppfyllum bara bænirnar sjálf.

Fyrir það fyrsta vil ég benda honum á að mögulegt er að sýna samúð með öðru en bænahjali. T.d. mætti benda á trúarlega hlutlausar athafnir eins og kertafleitingar, minningartónleika, ljóðaupplestra o.s.frv.

Hvað varðar aðstoð við heiminn vil ég byrja á einfaldri spurningu. Ef þú ættir að fjármagna góðgerðasjóð sem skyldi sjá 100 soltnum einstaklingum fyrir mat, hvort myndir þú frekar biðja mig eða Bónus um að bera kostnað af verkefninu?

Ég get hugsanlega séð af 100.000 krónum, þ.e. ef ég sleppi því að fara í skóla, eiga félagslíf og kaupa mér gulrætur.

Bónus getur auðveldlega gefið gulrætur fyrir 100.000 krónur án þess að lenda í miklu veseni. Bónus gæti jafnvel boðið betur og bruðlað með kartöflur, mjöl, grjón, ávexti o.s.frv. fyrir hundruði þúsunda.

Skilurðu? Af hverju ætti ég að snúa mér til lítilmagnans og biðja hann um spón úr aski þegar galdrakarlinn á himnum þarf ekki að gera annað en að segja: "verði almenn sæla, og nægur matur" til þess að fóðra heilt þriðja heims ríki.

Þess má líka geta að margir trúleysingjar (eins og margir trúmenn) stunda hvers kyns félagslegt, efnahagslegt og pólitískt góðgerðarstarf. Margir okkar gefa fé, aðrir vinna sjálfboðavinnu, enn aðrir skrifa blaðagreinar...

Ég held að fæsta skorti samúð, þó að þeir sýni það kanski með því að senda samúðarskeiti í stað þess að snúa sér til ósýnilega þriðja aðilans.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 13/07/05 02:48 #

Hvernig væri að gefa Guði frí frá svona fordómum og fara að hjálpa sjálf?
Hvaða fordóma ef ég gagnvart þessu "Guði"? Það er síðan vel hægt að skrifa greinar sem benda á vitleysu trúmanna og hjálpa fólki líka.
Berum við ekki ábyrgð á náunga okkar? Eigum við að láta Guði um að bjarga heiminum?
Ber "Guð" ekki ábyrgð á náunga okkar?
Þeir sem ekki trúa á Guð, ætti þess vegna að hætta að fordæma þá sem það gera og fara að snúa sér að hjálpa því fólki, sem Guð er greinilega ekki að hjálpa, í stað þess að fordæma þá, sem að minnsta kosti hugsa til þeirra í bænum sínum.
Trúleysir hugsa til þeirra sem "Guð er greinilega ekki að hjálpa" þó svo að þeir geri það ekki í samtölum við ósýnilega vini. En fyrst að það er svona ósiðlegt að hjálpa ekki þessu fólki, er þá "Guð" ekki vondur að gera það ekki?
Það er amk. kærleiksríkara, en að nota dauða þeirra sem vopn í baráttunni um fáránleikann.
Hvað er að því að benda á að þjáning í heiminum gerir hugmyndina um algóðan, almáttugan, alvitran guð álíka trúverðuga og giftan piparsvein? Er það líka óviðeigandi að benda á helförina í rökræðum við nasista?

En Ólafur, þú minnist greinilega á sveltandi börn í bænunum þínum. Hvers vegna svarar guðinn þinn ekki þeirri bæn?


urta (meðlimur í Vantrú) - 13/07/05 14:45 #

Þetta er með því átakanlegra - að líkja bæninni við götuljós! Ef rautt - þá höfum við ekki gott af því! Nei - heyriði mig nú trúmenn. Ef sannanir fyrir mætti bænarinnar eru á þessum nótum þá er langt í land!

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.