Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Dag einn á Sólheimum í Grímsnesi

Í matsal Sólheima í Grímsnesi, sem senn verður rifinn og fluttur upp á einn hæsta punkt staðarins, rak ég augun í eftirfarandi tilkynningu:

Til velunnara Sólheima

Stólakaup í Sólheimakirkju

Framkvæmdir við byggingu Sólheimakirkju eru nú á lokastigi og verður kirkjan vígð sunnudaginn 3. júlí. Ákveðið hefur verið að gefa velgjörðarmönnum Sólheima kost á að leggja fram fé til stólakaupa fyrir kirkjuna. Hver stóll kostar 12.000 kr.

Nafn gefanda verður skráð í kirkjubók.

Velgjörðarmenn eiga þess kost að greiða stólinn í versluninni Völu.

*

Með kveðju,
Stólanefndin.

Í mig fauk sá reglubundni pirringur sem grípur mig jafnan þegar ég hugsa til þessarar byggingar. Hún stendur á hæð nokkurri þarna í dalnum þar sem áður var hlandhaugur bæjarins Hverakots og blasir við eins og musteri Mammons þegar ekið er inn á staðinn. Þetta er í raun og sann fegursta bygging og minnir mig alltaf á kastala eða virki.

Kirkjan mun rúma 200 manns, á henni eru gluggar til allra átta og hún er því björt og notaleg, klædd að utan með torfi og rekaviður notaður í þakið. Umhverfis hefur nokkrum fallegum grenitrjám verið plantað og útsýnið frá henni spannar bæði villt tún með ríkulegum blómagróðri, barrtrjábelti og hina undurfögru Sólheimabyggð.(Sjá heimasíðu Sólheima.)

Svo var eins og það stingi mig beint í sjáöldrin. 12.000 kr!! Í fyrstu fannst mér það vera dýr sessa en eftir örlitla eftirgrennslan sögðu vanir menn mér að það væri sennilega ágætt verð fyrir góða stóla. Flestir fjárfesta í slíkum stólum til daglegra nota og telst eðlilegur hluti heimilisreksturs, en á hinn bóginn er um að ræða stóla sem verða notaðir til hátíðarbrigða í þessari kirkju, sem að mati allmargra er ekki annað en óþarft montprik og hefur lítið praktískt gildi fyrir fatlaða íbúa byggðarhverfisins.

Fyrir kom hér áður að velgjörðamenn Sólheima gæfu fé til að unnt væri að kaupa eitthvað gott á jólunum, styðja við sjálfbæra matvælaframleiðslu, reisa verndaðar vinnustofur o.s.frv. Nú er öldin önnur og eins og jafnan gerist í góðærinu er það sitjandinn sem er látinn ganga fyrir.

En hvernig stendur á þessari umleitan stólanefndar?? Ég tók að hugsa stíft, eins og minn er vani þegar ég virðist ekki sjá minnstu glóru í því sem fram fer í kringum mig. Stóll er sessa sem aðeins nýtist einum einstaklingi í einu. 12.000 X 200 = 2.400.000.

Var háttvirt stólanefnd að falast eftir 2.4 milljón króna gjöf í stólum??!!! Á Sólheimum starfa að minnsta kosti tveir afar hæfir handverksmenn/trésmiðir. Af hverju voru þeir ekki látnir smíða stóla eða einfaldlega fallega bekki í Waldorfstíl fyrir Kirkjuna? Væri það ekki ódýrara/ huggulegra/ sniðugra/ eðlilegra/ hæverskara...? Eða var kannski hugmyndin sú að spara laun þessara handverksmanna og fá í staðinn veglega stólagjöf í þetta svokallaða „sjálfbæra“ byggðarhverfi?

Hvað sem röflinu í mér líður eru allir ánægðir með nýju fallegu kirkjuna. Ráðherrar, forseti, þjóðkirkjuprestar og biskup Íslands geta séð þessa óheftu gleði með því einu að skella sér á Sólheima í fylgd með forystusauðum staðarins. Nú hef ég, óþveginn garðyrkjumaðkur, aldrei verið viðstaddur formlegan Sólheimarúnt en af sögusögnum ónafngreindra heimildarmanna, vefsíðum og opinberum blaðskrifum veit ég að það er ekki ónýtur labbitúr. Kvað það vera venja að hinn tigni gestur jarmi nokkur fögur hljóð í votta viðurvist og hæli staðnum fyrir fegurð, gagnsemi og mannúðarstefnu. Að því loknu er hann kynntur fyrir nokkrum vel völdum heimilismönnum og kannski sunginn fyrir hann svolítill lagstúfur. Þeir heimilismenn sem eru kynntir formlega fyrir gestum eru gjarnan svonefndir „hátt standandi“ einstaklingar, skrafgjarnir og brosmildir. Fámálir, meira fatlaðir einstaklingar standa síðan til hliðar og fylgjast spenntir með því sem fram fer án þess endilega að botna hið minnsta í því.

Gengið er um fagra trjálundi og helstu staðir skoðaðir. Heimilisfólkið sem rætt er við á þessum rúntum er yfir sig hamingjusamt með gang mála og sýnir það best hve mikið er lagt upp úr hagsmunum fatlaðra hér á staðnum. Það að 200 manna kirkja sé að rísa á staðnum er einmitt enn eitt tilefnið til þess að vinda sér í betri fötin.

Þrátt fyrir alla þessa botnlausu hamingju hef ég þó klórað mér eilítið í hausnum yfir einu og öðru í sambandi við kirkjuna. Ég hef velt því fyrir mér hvernig það geti mögulega verið í þágu heimilismanna hér á Sólheimum að önnur helg bygging rísi hér á staðnum. Eins og öllum sem fylgst hafa með gangi mála hér ætti að vera ljós, söfnuðust á sínum tíma nægilegir fjármunir í frækilegri göngu, íþróttastjörnu staðarins; Reynis Péturs Ingvarssonar, um landið, til að byggja á Sólheimum íþróttahús sem allar götur síðan hefur þjónað undir hátíðarguðsþjónustur ef svo ber undir enda er húsið VÍGÐ KAPELLA.

Í Grímsnesi einu og sér minnir mig að séu þrjár kirkjur (hengið mig ekki ef mér skjátlast), allar í þjónustu Lúthersku Þjóðkirkjunnar. Ekki hafa guðsþjónustur setið á hakanum þegar kemur að heimilinu og aldrei hef ég heyrt fatlaðan einstakling á Sólheimum barma sér yfir guðshúsaleysi. Hvaðan kom eiginlega þörfin fyrir þessa nýju kirkjubyggingu? Voru það hagsmunir fatlaðra sem réðu ríkjum? Trúarhiti fólks sem skilur ekki alveg morgunsálminn?

Og hvernig verður guðsþjónustum hagað héðan í frá? Verður sunnudagaskóli eða biblíufræðsla fyrir heimilismenn? Áratugum saman hefur nefnilega engum dottið í hug að nota hitt guðshúsið í þessu 100-150 manna samfélagi undir slíkt. Þarf þetta samfélag sem þjáist af húsnæðisskorti til handa starfsmönnum og sjálfboðaliðum að skaffa nýráðnum Sólheimapresti húsnæði?

Er sóknarbarn með Downs-heilkenni kannski ekki fært um að syngja um Jesúbarnið nema með 12.000 kr. smíðisgrip undir botninum? Grip sem gerði einhverjum góðborgaranum kleift að skarta nafni sínu í kirkjubók þessarar merku kirkju?

Hvar er þörfin og hver er tilgangurinn? Er ekki eðlilegt að þeir sem á annað borð skilja morgunsálminn spyrji sig þessara spurninga?

Haukur Hilmarsson 01.07.2005
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


lalli - 01/07/05 03:16 #

[athugasemd eytt]


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 01/07/05 03:30 #

Lalli, innsæi þitt er magnþrungið, snillingurinn þinn.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 01/07/05 14:07 #

Þetta er frekar ógeðfellt peningaplokk, fyrir algjöran óþarfa. Tvö guðshús á Sólheimum, líklega gert til að menn geti valið sér messu á páskum og jólum eða hvað?

Þjóðkirkjan stendur sig sem aldrei fyrr í sóun fjármuna, sjálfri sér til dýrðar.


Eva - 03/07/05 14:25 #

Tilgangurinn er augljós og hefur ekkert með kristindóminn að gera. Hér er fámenn klíka að byggja upp sælureit á einhverjum dásamlegasta stað á Íslandi. Það er gert undir því yfirskini að verið sé að bæta kjör fatlaðra íbúa staðarins þótt hverjum manni ætti að vera ljóst að kirkjubyggingin, eins og margar aðrar framkvæmdir á Sólheimum, þjónar miklu fremur hagsmunum þeirra sem langar að reisa sjálfum sér minnisvarða og sjá nafn sitt ritað í bók. Kannski ættu þeir sem tóku ákvörðun um þessa kirkjubyggingu frekar að opna bloggsíðu helgaða eigin ágæti en að sólunda almannafé sjálfum sér til dýrðar.


Haukur - 03/07/05 21:01 #

Ég hef ekki séð það sem frummælandinn Lalli sagði hér að ofan. Ég er sterklega á móti hvers kyns ritskoðun og er hissa á að gagnrýni hans hafi verið fjarlægð.

Hvað sagði hann eiginlega? Er ekki hægt að byrta það aftur?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 03/07/05 21:43 #

Þú hefur greinilega ekki verið að fylgjast með þessum vef, Haukur. Þannig vill til að Lárus Páll er útlægur ger af þessim vef, nema hvað hann hefur leyfi til að pósta athugasemdum við lesendabréfið sem hann sendi nýlega inn.

Þetta er ekki ritskoðun, heldur er hér verið að framfylgja banni sem sett var á Lárus, sem bæ ðe vei kom sér út úr húsi með því að geta ekki ástundað málefnaleg umræðu, heldur stundað markviss skemmdarverk. Og af viðbrögðum Vésteins að dæma hefur þetta sem hann setti inn hér að ofan varla verið málefnalegt hjá honum fremur en endranær.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 03/07/05 21:56 #

Annars skrifaðir þú greinina, Haukur, og ættir því að hafa fengið athugasemd Lárusar í pósti. Kom hún ekki?


Steinar Ólafsson - 04/07/05 21:35 #

Nú þekki ég sjálfur til reksturs Sólheima. Þessi umtalaða kirkja hér í greininni að ofan kostaði 40 milljónir í byggingu. Þjóðkirkjan borgaði ekki í kostnað þessarar kirkju. Steypan var gefin, glerið var gefið og viðurinn í gólfið var gefið, pípulagnirnar gefnar, hreinlætisvörur gefnar. Stólarnir kosta 12.000 þar af er eflaust verð stólana eitthvað minna og restin er gjöf til styrktar Sólheima kirkju. Ég sé ekki hvað þetta varðar ykkar hagsmuni, persónulega er ég ekki trúaður einstaklingur og er fylgjandi því að kirkjan verði aðskilin ríkinu en hvað varðar þetta okkar hagsmuni ? Þessi peningar koma fram sem gjafir eða frjáls framlög og því sé ég ekkert athugavert við þetta framlag þeirra á Sólheimum að reysa þar kirkju.


Hafþór Örn (meðlimur í Vantrú) - 04/07/05 21:59 #

Steinar, ætli gagnrýnin gangi ekki útá (geri ég ráð fyrir) kaldhæðnina í því að Sólheimar séu hálf sveltir peningalega á meðan peningum er spanderað í fokdýra kirkju.

Hversvegna er bruðlað við kirkju þegar þessa peninga má nýta í "nýtanlega" hluti?

Kær kveðja, Hafþór Örn


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 04/07/05 22:35 #

Hádegisverðurinn er aldrei ókeypis, eins og maðurinn sagði. Mér finnst það lítið skárri tilhugsun að Sólheimakirkja sé reist fyrir gjafafé, þetta er sóun á peningum fyrir því. Það eru guðshús á Sólheimum fyrir, nær væri að styðja reksturinn í staðinn fyrir þetta rugl.


Haukur - 10/07/05 23:52 #

Birgir:

Ég skil ekki alveg praktíkina í því að gera manninn útlægan. Félagsleg frávik styrkja andstöðuna gegn því sem er rangt og ósiðlegt. Réttast væri að láta mannræfilinn rasa út og svara honum af þolinmæði, þangað til hann gefst upp. Það er reynsla mín af fasistaöldunni sem reið yfir umræðuborð Dordinguls snemma síðasta ár að þetta er eina færa leiðin í baráttunni við rugludalla.

Annars eru pósthólf FB af einhverjum dularfullum ástæðum ekki opin yfir sumartímann.

Steinar Ólafsson:

Þú talar um að kirkjan hafi verið gefin, það er rétt að miklu leiti. Hún var styrkt gífurlega af "velunnurum Sólheima" en engu að síður var það arkitekt staðarins Árni Friðriksson sem teiknaði hana, byggingameistarar sem reistu hana og verkamenn, heimilisfólk og sjálfboðaliðar sem unnu störf eins og að klæða hana, tyrfa í kringum hana, gróðursetja, leggja stíga og svo framvegis.

Allt þetta fólk var á launum hjá Sólheimum. Í þau þrjú sumur sem ég hef unnið hér á staðnum hafa að minnsta kosti 4 eða 5 sjálfboðaliðahópar unnið mismunandi gáfuleg verk við þessa kirkju. Nú síðast voru þeir látnir tyrfa yfir óblandaða rauðamöl svo að unnt yrði að vígja kirkjuskömmina með þeirri viðhöfn sem eðlileg þótti á tilskyldum tíma, skammt frá hafði eins verið farið að og var grasið tekið að drepast.

Sjálfboðaliðar koma ekki í "sjálfbært bygðahverfi" til þess að þjóna dutlungum sem þessum. Hugmyndin er fyrst og síðast að gera gagn. Vafalaust sjá þeir fyrir sér störf í garðyrkju, matvælaræktun, sjálfbærri framleiðslu... en í staðin eru kraftar þeirra notaðir í bull eins og þetta.

Eitt af því sem ég reyndi að benda á með þessari grein er líka yfirborðsmennskan sem kirkjunni fylgir. Það er ekki bara kostnaðurinn (sem vissulega var gífurlegur) heldur líka og enn fremur aðrir og vafasamari hlutir sem ég er á móti. Löngunin í kirkju er ekki sprottin hjá því fatlaða fólki sem staðinn byggir. Hún er til komin fyrir sýniþörf staðaryfirvalda, útþenslustefnu þjóðkirkjunnar, spjátrungslegan "góðgerðavilja" fólks sem ber eitthvað allt annað en sérþarfir íbúanna fyrir brjósti.

Ég lýsti því líka ágætlega hvernig fatlað fólk er misnotað í pólitískum tilgangi og hefur það ekki sýst einkennt þetta kirkjumál. Kanski að það gengi verr að safna péningum í þetta göfuga verkefni ef ekki væri svona auðvelt að fá þroskahefta til að taka sér málstað með því að gera þá smá númer rétt á meðan. Heldur þú að heimilisfólkið hérna hugsi sig um og taki meðvitaða afstöðu áður en það gasprar um ágæti kirkjunnar, fái það tækifæri til að heilsa bikupnum? Einn heimilismaður gaf mér þá ástæðu fyrir því að það vantaði kirkju að langafi Sesselíu Hreindísar hafi verið prestur. Ef út í það er farið þá var langafi minn líka prestur en enginn reisir kirkju í garðinum mínum.

Óánægja vor beinist því einkum að þessum þáttum varðandi kirkjuna:

  1. Hún er heimskuleg sóun á peningum, ónauðsynleg, ópraktísk og þegar allt kemur til alls, verr til guðsþjónustu fallin en kapellan sem fyrir er, sérstaklega ef tekið er tillit til hreifihamlaðra.

  2. Hún er reist til þess að vera fjöður í hatt staðaryfirvalda og þjóðkirkjunnar. Yfirborðsmennskan leynir sér ekki frekar en í öðru því sem þjóðkirkjan tekur sér fyrir hendur og er okkur enn frekari áminning um það að þegar margir vanhugsandi einstaklingar mynda saman öflugan og fjársterkan söfnuð, þá þarf ekki að vera nokkur glóra í því sem forustusauðirnir taka sér fyrir hendur til þess að það fái almenna viðurkenningu og blessun.

  3. Hún er sóun á vinnuafli sem hefði mátt nýta í gáfulegri hluti. Til dæmis hefði mátt vinna í því að gera bygðahverfið nokkrum tugþúsundköllum sjálfbærara.

  4. Hún er minnisvarði um þá gengdarlausu misnotkun sem fatlaðir verða fyrir í þágu pólitískra breytinga sem snerta þá ekki mikið sjálfa.

  5. Hún gengur í berhögg við hugmyndir Sesselíu (og þar með hugmyndafræði Sólheima) um aðstoð við þá sem minna mega sín.

Kanski að þér finnist ástæðurnar fyrir pirringnum í mér fáar og lítilfjörlegar en skilur þú þær þó allavega núna?

Hafþór Örn: Reyndar eru Sólheimar ekki svelltir peningalega. Í þá er spandérað hrúgu af fé árlega. Árið 2004 fóru t.d. vel yfir 167 milljónir úr ríkiskassanum beint til sólheima auk ótal gjafa beinna og óbeinna frá bönkum og öðrum stofnunum. Hverfið hefur það að markmiði að vera sjálfbært og hefur fengið alþjóðlega viðurkenningu frá Global Eco-willage network þar að lútandi. Samt sogar það í sig þetta veglega ríkisframlag. Hvernig væri t.d. að vinna í því að gera hverfið sjálfbært í stað þess að spandéra í þetta. Þeir sem gáfu efni í kirkjuna hefðu margir hverjir alveg eins gefið það til þess að unnt væri að t.d. auka landbúnað á svæðinu.

Lárus Viðar:

Hádegisverðurinn er vissulega ekki ókeipis en þú þarft líka að vinna á bóndabæ eða veitingahúsi til að fá frítt að éta. Ekki gerir þú þá kröfu í byggingarvinnunni, á hárgreiðslustofu eða leigubílamiðstöðinni að fyrirtækið splæsi á þig hádegisverði.

Höldum okkur við efnið. Það er Sólheimakirkja sem er verið að ræða, tilgangsleysið með henni, pólitíkin á bakvið hana, kostnaður og svo framvegis. Rekstur Sólheima almennt er síðan efni í langa þrætubók sem á betur heima á öðrum vefsvæðum en Vantrú.


elín - 15/07/05 15:24 #

Hugsjónin um Sólheima er aðdáunarverð og starf Sesselju ómetanlegt. Því miður virðist það ávallt vera að hugsjónir, sérstaklega hinar fallegustu verði að gróðramaskínu. Stjórn Sólheima er eins og hver annar stjórnmálaflokkur og Sólheimar er söluvaran. Eftir búsetu mína þarna og vinnu þá þykir mér óendanlega vænt um Sólheima, en það er til skammar að reisa kirkju með þessum peningum sem svo sannarlega væri betur varið í margt annað og skýla sér bak við það að hún sé reist í anda antrópósófískrar byggingalistar sem eigi að einkenna Sólheima líkt og mörg önnur Waldorfþorp/Eco-Village.

Þar sem pólítíkin og trúin er, þar er......


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 16/07/05 00:55 #

Haukur, ástæðan fyrir því að gera Lalla brottrækan er einfaldlega sú að hann reið allri umræðu hér á slig með útúrsnúningum og kjaftæði. Honum tókst hvað eftir annað að senda fína umræðu út í móa með þessari taktík.

En það er svosem hægt að endurskoða þetta eins og annað, en þá reynir á okkur sem aldrei fyrr að vísa öllu sem ekki snertir umræðuna beint inn á spjallið.

Í tilfelli Lárusar yrði það endalaus vinna, en ég fyrir mitt leyti er til í að reyna það. Læt þó ritstjóranum eftir að ákveða það.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.