Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Páfinn og smokkarnir

Í Afríku er talið að um 24 milljónir manna séu smitaðar af HIV-veirunni, um 60% allra smitaðra í heiminum. Sameinuðu þjóðirnar spá því að meira en 80 milljónir Afríkubúa kunni að hafa látist úr þessum illvíga sjúkdómi í kringum árið 2025 verði ekkert að gert og komið í veg fyrir útbreiðslu sjúkdómsins.

Nýverið hvatti Benedikt páfi XVI afríska biskupa til áframhaldandi baráttu gegn alnæmi og sagði kristilegt siðgæði betur til þess fallið heldur en notkun smokka. Hann ítrekaði þessa skoðun kaþólsku kirkjunnar og fullyrti að skírlífi væri eina „örugga“ leiðin til þess að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdómsins.

Í Bandaríkjunum beita kristnir siðapostular svipuðum aðferðum. Þeir hvetja ungt fólk til að lifa skírlífi fram að giftingu og benda í biblíuna, máli sínu til stuðnings.

Fyrir skömmu var sýnd frétt í fréttaþættinum 60 Mínútur þar sem rætt var við Peter Bearman, prófessor í félagsfræði við Kólumbíuháskóla sem framkvæmdi ítarlegustu rannsókn hingað til á kynheilbrigði ungs fólks. Engu var til sparað og hljóðaði kostnaður rannsóknarinnar upp á 45 milljónir bandaríkjadala, en hún var fjármögnuð af sautján ríkisstofnunum. Bearman tók viðtöl við yfir 20.000 ungt fólk um skírlífisheiti.

Í ljós kom að skírlífsheitið frestar kynlífi um tæplega eitt og hálft ár, sem óneitanlega er langur tími í lífi ungs fólks, og góðar fréttir fyrir alla þá sem vilja koma í veg fyrir ótímabærar þunganir, fóstureyðingar og útbreiðslu kynsjúkdóma, enda sparar þetta heilbrigðiskerfum dágóðar upphæðir.

Neikvæða hliðin á þessu var hins vegar sú að þegar þetta sama fólk byrjar að stunda kynlíf, er það mun ólíklegra til þess að nota smokka við fyrstu samfarir, að sögn Bearman. Hagurinn sem hlýst af skírlífinu hverfur á svipstundu vegna þess að þetta fólk er miklu ólíklegra til þess að nota smokka við fyrstu samfarir.

Að sögn Bearman hefur boðskapur siðapostulanna valdið því að þessu fólki hefur ekki verið kennt hvernig smokkar virka og það jafnvel óttast þá. Það veit ekki hvernig það á að nota þá, hefur enga reynslu af þeim og veit ekki hvar hægt er að verða sér úti um þá. Þetta hefur síðan slæmar afleiðingar í för með sér, þegar til langs tíma er litið.

Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur í ljós að krakkar sem sverja skírlífisheit eru ekki aðeins líklegri til að bera kynsjúkdóma heldur en krakkar sem sverja ekki skírlífisheit, heldur eru þau líka líklegri til þess að taka þátt í hættumeiri kynlífshegðun. Sú niðurstaða kom vissulega mörgum verulega á óvart.

Þessir krakkar sverja skírlífisheit og hafa ekki hefðbundnar samfarir, en eru miklu líklegri til að stunda munn- og endaþarmsmök. Þau telja sig samt enn ósnortin og skilgreina þessar kynlífsathafnir ekki sem kynlíf. Þar af leiðandi eru þau ólíklegri til að gangast undir læknisskoðun í leit að kynsjúkdómum.

Trú er tvímælalaust ein helsta ástæða þessa að ungt fólk sver skírlífisheit. Siðapostularnir demba kristna siðgæðinu yfir unga fólkið (að sjálfsögðu með biblíuna að vopni) og þykjast umhugað um heilbrigði almennings, þegar þeir eru aðeins að reyna að koma á sínu siðgæði. Skírlífisheitið myndi vissulega virka ef fólk stundaði ekki kynlíf, en að lokum gerir fólk það þó og er þá í flestum tilfellum óvarið, sem auðvitað verndar fólkið ekki neitt. Af þessum 20.000 sem sóru skírlífisheit brutu 88% þeirra heitið og stundaði kynlíf fyrir giftingu.

Í skólum í Bandaríkjunum er því slegið fram að kynlíf fyrir giftingu sé tilfinningalega niðurdrepandi. Í kynfræðslu þar hefur fólk, svo veruleg umhugað um kristið siðgæði, komið því þannig fyrir að krakkar læri ekki hvernig smokkurinn er notaður (kennarinn má ekki svara spurningum af því tagi) né hvar hann sé fáanlegur. Þar fyrir utan er krökkum kennt að smokkar klikki oft. Þeim er sem sagt ekki sagt að séu þeir notaðir rétt, virka þeir nánast alltaf og séu langöruggasta vörnin þegar kemur að kynlífi.

Já, kristið siðgæði er „gott“ siðgæði. Smokkarnir og að lokum lækningar gegn kynsjúkdómum eru gjöf vísindanna til mannkynsins. Við getum auðvitað alltaf beðið fyrir lækningu en það er vandasamt að sjá hvað það skilar okkur. Fáfræðin er gjöf guðs til mannkynsins. Ráð páfans virðast því miður ekki virka í baráttunni gegn kynsjúkdómum.

Sævar Helgi Bragason 14.06.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Bond007 - 23/06/05 16:19 #

Þessir páfar eru eins. Eins sagt er þá sé ég engan mun á þessum og hinum páfanum sem dó á þessu ári. MARGT ER LÍKT MEÐ KÚK OG SKÍT

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.