Morgunblaðið var nýlega með auglýsingaherferð þar sem gert var mikið úr því hve Íslendingar treysta Morgunblaðinu. Spurningin er hvort Morgunblaðið sé traustsins vert.
Fyrir þremur vikum birti Morgunblaðið tvær greinar þar sem fjallað var um áhrifamátt bænarinnar. Í þessum greinum var talað við félagsráðgjafann Gunnjónu Unu Guðmundsdóttur. Gunnjóna vitnaði í rannsóknir sínar og annara sem hún taldi sanna að bænin hefði mátt. Blaðamanni Morgunblaðsins kom ekki til hugar að koma með gagnrýnar spurningar eða skoða rannsóknirnar sem Gunnjóna vitnaði í. Fréttirnar af mætti bænarinnar vöktu athygli, var meðal annars hampað í leiðara Morgunblaðsins.
Ólíkt blaðamanni Morgunblaðsins ákvað ég að skoða á hvaða grunni Gunnjóna byggði mál sitt. Það kostaði litla rannsóknarvinnu að sjá út að fullyrðingar Gunnjónu voru afar vafasamar. Ég skrifaði grein um málið og sendi á Morgunblaðið. Ég fékk það svar að greinin væri of löng og því stytti ég hana. Nú eru liðnir 12 dagar síðan Morgunblaðinu barst greinin en þrátt fyrir það hefur hún ekki birst. Hvað veldur? Er sannleikurinn óþægilegur?
Í byrjun árs 2003 birti Morgunblaðið nýársávarp Karls Sigurbjörnssonar þar sem biskupinn lýsti því yfir að trúleysi ógnaði mannlegu samfélagi. Sigurður Hólm Gunnarsson sendi svargrein til blaðsins sem fékkst ekki birt þrátt fyrir margar ítrekanir. Hvers vegna má biskup þjóðkirkjunnar ráðast á trúleysingja í Morgunblaðinu án þess að trúleysingjar fái að svara fyrir sig? Hvers vegna birtir Morgunblaðið fullyrðingar um mátt bænarinnar en ekki grein sem hrekur fullyrðingarnar?
Karl Sigurbjörnsson er ekki eini kristni öfgamaðurinn sem hefur fengið svívirðilegar greinar birtar í Morgunblaðinu. Jónína Benediktsdóttir fékk birta grein þar sem hún hélt því fram að það væri sameiginlegt einkenni barnaníðinga að vera trúlausir (þrátt fyrir ótal kaþólska presta sem benda til annars). Þar að auki birtir Morgunblaðið reglulega viðbjóðslegar greinar frá kristnum hommahöturum.
Er Morgunblaðið traustsins vert? Ég held ekki, allavega ekki þegar um trúmál er að ræða. Er ekki kominn tími á að trúleysingjar segi upp áskrift sinni að málgagni kristinna öfgamanna?
Til stendur að birta greinina (lengri útgáfuna) um leið og Mogginn birtir hana. Ef hún birtist fyrr getur það orðið Mogganum átylla til að að hafna því að birta hana.
Það gerðist einmitt með þessa grein hér, þá fyrstu sem ég birti á Vantrú.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Bragi - 30/05/05 20:55 #
Ég tók eftir skrifunum um Gunnjónu í Morgunblaðinu og fannst einmitt skrýtið að enginn skyldi andmæla á síðum blaðsins. Geturðu birt greinina þína hérna á vefnum?