Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Nafnleysingjarnir

Eins og lesendur þessa vefrits hafa tekið eftir eru hér allnokkrir einstaklingar sem skrifa undir nafnleynd. Við leyfum fólki það sökum þess að ekki eru allir tilbúnir að viðurkenna skort sinn á trú við nánasta umhverfi sitt eða samfélagið í heild. En hvernig í ósköpunum stendur annars á því?

Já hvað er það sem gerir að verkum að fullt af fólki í nútímasamfélagi þorir ekki eða vill viðurkenna fyrir öðrum að það trúir ekki á upprisinn Krist? Er það svona mikill glæpur? Er það hrætt við að fá þann stimpil að það sé siðlaust og óalandi? Hvaðan koma okkur eiginlega slík viðhorf?

Auðvitað eru okkur innrætt þau af prestum Þjóðkirkjunnar og engum öðrum. Ekki nóg með að þeir reyni að véla okkur barnung undir hatt sinn með lygasögum um guði, kraftaverk, framhaldslíf og syndafyrirgefningu, heldur búa þeir svo um hnútana að hver sá sem leyfir sér að efast um bullið er gerður tortryggilegur.

Úthrópaður.

Og afleiðing þessa er sú að út um allt samfélag eru einstaklingar sem skrifa ekki upp á þvaðrið og hafa kannski aldrei gert, en þora ekki að viðurkenna það. Þykir þægilegra að fylgja bara með straumnum sem fer í kirkju á jólum, mætir til giftinga, ferminga og jarðarfara vina og ættingja, en lætur sér hindurvitnavaðallinn í léttu rúmi liggja þess á milli.

Einn angi þessa eineltis töfralæknanna gegn fólkinu sem ekki trúir þeim er að gefa sig út fyrir að hafa einkarétt á góðu siðferði og brigsla svo trúleysingjunum um siðleysi. „Trúleysi ógnar mannlegu samfélagi,“ segir heimsendaköltleiðtoginn Karl Sigurbjörnsson í ræðu sem útvarpað var um allt land í þjóðarútvarpinu eins og ekkert sé sjálfsagðara.

Gagnvart kristindómnum erum við hin trúlausu á sama báti og samkynhneigðir. Við erum úthrópuð í Biblíunni og alið er á fordómum í garð okkar í þessu kristna samfélagi. Það er því stórt skref að stíga út úr trúleysisskápnum og játa stoltur fyrir nákomnum, jafnt sem öðrum, að maður trúi ekki þessari vitleysu.

Þótt ég skilji þá sem vilja nafnleynd ósköp vel styð ég að sem flestir varpi henni svo við getum orðið sýnilegri hópur í samfélaginu. Nafnleynd gefur svolítið af okkur þá mynd að við skömmumst okkar fyrir trúleysið og viljum ekki viðurkenna það. En aðeins með því að koma fram keik og óhrædd stöndum við uppi í hárinu á kúgurum okkar.

Því það eru þeir sem hafa komið því inn í kollinn á fólki að trúleysi sé eitthvað til að pukrast með og að allir eigi að vera trúaðir. Með því að sitja í skápnum styrkjum við þetta viðhorf, en með því að stíga út úr honum ögrum við þessu liði og sendum samfélaginu þau skilaboð að trúleysi sé toppurinn.

Birgir Baldursson 23.05.2005
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Árni Árnason - 24/05/05 11:06 #

Auðvitað erum við að heyja baráttu. Baráttan snýst auðvitað fyrst og fremst um að við trúleysingjarnir þurfum ekki að halda uppi trúarstarfi sem er gersamlega andstætt okkar lífsskoðunum. Þetta snýst ekki einu sinni um einhvern meirihluta og minnihluta eins og þjóðkirkjumenn vilja vera láta. Þegar trúarbrögð eru annars vegar er í raun ekki réttlætanlegt að ríkið reki batteríið, jafnvel þó að aðeins einn væri á móti því.

Samstaða okkar trúleysingjanna skiptir máli, því að sé rödd okkar sterk í samfélaginu má vera að okkur takist með tíð og tíma að vinda ofan af þessu trúarrugli sem heltekur allt samfélagið.

Þar er ég sammmála Birgi þegar hann segir: "Þótt ég skilji þá sem vilja nafnleynd ósköp vel styð ég að sem flestir varpi henni svo við getum orðið sýnilegri hópur í samfélaginu." og annarsstaðar: "..en með því að stíga út úr honum (skápnum) ögrum við þessu liði og sendum samfélaginu þau skilaboð að trúleysi sé toppurinn."

Kannski svolítið ósamræmi við ofansagt, þegar hann segir í annarri grein: "Það er mér ekkert kappsmál að „Vantrúarliðið“ sé eitthvert tím, standandi saman gegn „hinum“."

Þó er þess að gæta að um tvo ólíka hluti er að ræða, hvort menn eru í heimspekilegum og rökfræðilegum vangaveltum um tilveru guðs, eða hreinni pólitík um hver eigi að borga tilkostnaðinn af dýrkun hans.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 24/05/05 11:23 #

Já Árni, það er engin mótsögn í þessum tveimur setningum, því þær taka til mismunandi hluta. Mér er í mun að trúleysi verði viðurkennd lífsskoðun í samfélaginu og hætt verði að úthrópa okkur sem siðleysinjga og ógnun við samfélagið, nema hægt sé að færa fyrir því gild rök. En ég kæri mig ekki um neinn rétttrúnað innan trúleysiskreðsunnar, heldur að sjálfstæð, gagnrýnin hugsun sé í heiðri höfð hjá hverjum og einum.


eggert - 28/05/05 06:00 #

Chicken!


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 28/05/05 11:49 #

Afskaplega málefnalegt innlegg, Eggert. Hefurðu ekkert skárra til málanna að leggja? Viltu þá ekki bara vera úti?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.