Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Guðinn sem við sköpum...

Það er áhugavert að skoða hvernig guð fólk býr sér til. Þeir sem mótmæla því að fólk skapi sinn guð geta þá væntanlega orðið sammála um að það sé áhugavert að skoða hvaða eða hvernig guð fólk velur að trúa á. Í þjóðfélagi nútímans blasa dæmin við – eins og þau hafa gert alla tíð.

Lítum á nokkur dæmi. Þeir sem eru haldnir mikilli homma- og lesbíufóbíu segja að það sé andstætt “lögmáli guðs” að fólk fái að velja sér ástvin að geðþótta. Þessi guð er einnig gjarnan á móti því að kona fái að ráða því hvort hún eignast barn eða ekki – hvort sem um er að ræða getnaðarvarnir eða fóstureyðingu.

Eitt er einkennandi fyrir marga þá sem eru mjög trúaðir að kalla alla þá sem trúa á einhvern annan guð – eða guði: Heiðingja. Og svoleiðis lið á, í besta falli, afskaplega bágt og nauðsynlegt að herja út sem mesta peningina til þess að senda menn af stað til þess að hjálpa fólkinu að hætta að vera heiðingjar. Oft er það gert með mútum – fólki er boðin menntun og aðstoð til heilsugæslu í skiptum fyrir trú. Þetta á einkum við um þjóðir sem líða skort. vegna heimsverslunarinnar og alþjóðabankans.

Í stuttu máli má segja að fólk velji sér almennt guð eftir skoðunum sínum. Fordómafullt fólk velur sér fordómafullan guð. Umburðarlinnt fólk velur sér umburðarlyndan guð. Dálítið fyndið þegar maður skoðar t.d. hvernig litið er á þá sem segjast komast í samband við þá sem látnir eru. Guð sumra bannar það alveg – slíkt er að skemmta skrattanum en þeir sem slíka iðju stunda – og selja dýrt – gera það allt í drottins nafni.

Þeir sem valdið hafa velja einnig guð fyrir það fólk sem þeir hafa vald yfir og nota þann guð miskunnarlaust til þess að stjórna – eða kúga undirsátana hvort sem það eru heilu þjóðirnar eða bara einn söfnuður. En fyrst og fremst er gott að hafa guðlegt vald til þess að hafa fé upp úr krafsinu. Lifa góðu lífi með því að fá fólk til þess að trúa því að það sé sko þessi guð sem sé hinn rétti og ef fólk trúir ekki á hann og gefur tíund af tekjum sínum, ja – þá fari það beina leið til helvítis þegar það deyr.

Við sem veljum trúleysi – neitum því að það sé nauðsynlegt að skapa sér einhvern guð erum alsæl með það. Við höfum ýmsar skoðanir – en við segjum að það séu okkar skoðanir og færum rök fyrir þeim. Við þurfum ekki að segja að við höfum þessa og þessa skoðun vegna þess að einhver guð segi það. Við veljum okkur farveg og berum ábyrgð á því vali.

Jórunn Sörensen 22.05.2005
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


s - 23/05/05 13:51 #

Það er kannski aukaatriði í þessari grein, en ég get ekki sleppt því að gagnrýna þá fullyrðingu að til séu "þjóðir sem líða skort vegna heimsverslunarinnar og alþjóðabankans".

Það eru fjölmargar þjóðir sem líða skort vegna takmarkana á milliríkjaverslun og einnig sem líða fyrir það að hafa ekki nýtt fjármag frá alþjóðabankanum nógu vel. Ég skora hins vegar á þig að nefna rökstutt dæmi um þróunarríki sem væri betur statt án milliríkjaverslunar eða ef alþjóðabankinn væri lagður niður, eða taka þessi orð aftur ella.

Ástæðan fyrir því að ég læt þetta ekki afskiptalaust hér er ekki síst sú fullyrðing ykkar að í þessu vefriti sé hið sanna látið standa og órökstuddar (og órökréttar) klisjur séu ekki samþykktar.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 23/05/05 14:50 #

Þetta vefrit snýst ekki um pólitískar deilur sem ekki varða trúmál. Vantrúarmeðlimir hafa mismunandi skoðanir á stjórnmálum, þar með talið alþjóðavæðingu og Alþjóðabankanum.

Ég get ekki séð að þetta atriði skipti miklu máli í greininni, kjarni hennar breytist ekkert þó seinni hluti setningarinnar væri felldur út: "Þetta á einkum við um þjóðir sem líða skort vegna heimsverslunarinnar og alþjóðabankans."


Snær - 23/05/05 15:01 #

Ástæðan fyrir því að ég læt þetta ekki afskiptalaust hér er ekki síst sú fullyrðing ykkar að í þessu vefriti sé hið sanna látið standa og órökstuddar (og órökréttar) klisjur séu ekki samþykktar.

Ég vill vera fullkomlega viss um það hvað það er sem þú átt við:

Viltu virkilega meina það að við (vantrúarseggirnir) þykjumst hafa fullkomlega rökréttar og skotheldar skoðanir?

Ef svo er, þá verð ég að vera þér með öllu ósammála. Við reynum alltaf okkar besta, en ég hef ekki getað séð betur en svo að við gerum okkur allir meira eða minna grein fyrir því að við höfum stundum rangt fyrir okkur, og höfum getuna til þess að játa slíkt fyrir okkur sjálfum og öðrum.

Ég biðst afsökunar fyrir mig og félaga mína ef svo skyldi vera að við höfum ekki alltaf áttað okkur á rangmæti sumra skoðana okkar (sem eru í sumum tilfellum mjög ólíkar innbyrðis), en við getum bara gert okkar besta, hvorki meira né minna.


kópur - 23/05/05 17:33 #

En er ekki réttmætt að krefja síðuna Vantrú, sem berst gegn boðun hindurvitna, röksemda þegar hún boðar hindurvitni (sem staða hnattvæðingar og Alþjóðabankans gagnvart fátækt hlýtur að teljast, komi ekki til frekari rök)?


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 23/05/05 18:15 #

Óskaplega hlýtur fólki að leiðast þegar það nennir að eltast við aukaatriði.

röksemda þegar hún boðar hindurvitni (sem staða hnattvæðingar og Alþjóðabankans gagnvart fátækt hlýtur að teljast,
Þetta er afar frumleg notkun á hugtakinu hindurvitni. Einnig ansi frjálsleg notkun á hugtakinu boðar. Ég er þegar búinn að benda á að inntak greinarinnar breytist ekki þó þessi hluti hennar sé strikaður út. Ef ykkur langar að rökræða alþjóðavæðinguna og áhrif hennar á fátæk ríki bendi ég á spjallborðið.


Bjoddn - 24/05/05 00:41 #

Eftir stendur hin einfalda staðreynd að á landi voru er fjölgyðistrú sem lýsir sér í því að guðirnir eru mikið til jafn margir þeim sem trúa og allir heita sama nafninu. Held að það kallist barnatrú eða eitthvað álíka.

Er við öðru að búast þegar orð guðs, sem halda mun í aldir alda að sögn mér merkilegri manna á tyllidögum, breytist bara með hverri útgáfu biblíunnar?

Homminn í gær er barnaníðingur dagsins í dag og svo skemmtilega vill til að vitleysan uppgötvast akkúrat þegar tabú er að hata homma en í lagi að hata barnaníðinga... bara svo lengi sem hatrinu er viðhaldið en það er partur af heilagri þrenningu kristninnar sem er, eins og allir vita, hatur, ótti og eigingirni.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 24/05/05 01:13 #

Homminn í gær er barnaníðingur dagsins í dag og svo skemmtilega vill til að vitleysan uppgötvast akkúrat þegar tabú er að hata homma en í lagi að hata barnaníðinga...
Jamm, þetta er ótrúleg tilviljun.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 24/05/05 01:13 #

Vel mælt, Bjöddn!

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.