Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Guðlast

Ég man þá gömlu góðu daga, þegar Spaugstofan var ennþá fyndin og noju-sjúklingar Þjóðkirkjunnar stukku upp til handa og fóta ef Siggi Sigurjóns setti upp geislabaug og tók lærisveinana í fótsnyrtingu. Það var þá sem ég fór að leiða hugann að því hvað guðlast raunverulega væri.

Guðlast er samkvæmt mínum skilningi hverskyns afbökun og útúrsnúningar á guðdóminum sem særa blygðunarkennd sæmilega alvörugefinna trúmanna, hvort heldur þeim er ætlað að gera það eður ei.

Dæmi um guðlast eru til dæmis brandarar um krossfestinguna, kynferðislegar heimfæringar trúarlegra rita, hverskyns bölv og ragn í garð eingyðis, vísvitandi brot á trúarlegum boðum og bönnum o.s.frv.

Nú um daginn var föstudagurinn langi, ósköp venjulegur föstudagur sem þökk sé kristlingum, er almennur frídagur. Þá tóku stjórnendur vefritsins Vantrú upp á því að guðlasta viljandi í Snarrót, félagsmiðstöð grasrótarhreyfinga, Garðastræti 2. Þeir skipulögðu og erfiðuðu við kvikmyndasýningu þar sem sýnt var guðlast 20. aldarinnar "Life of Bryan" eftir Monthy Python, og hlaut sýningin miklar undirtektir og almenna ánægju guðlastara.

En það er fleira sem guðlast felur í sér. Til að mynda er hátíðamaturinn á jólaborðum flestra landsmanna hamborgarahryggur, eins saurugt og óguðlegt það fæðulíki er. Vésteinn Valgarðsson fræddi mig um daginn um saurug dýr og hrein. Meðal þeirra saurugu voru klaufdýr sem ekki jórtra, sjávarfang án hreisturs og ugga, skriðdýr, eðlur, rottur hverskyns, angólar (alpagammar), moldvörpur, flóðhestar, krókódílar o.s.frv. Listanum fylgdi síðan viðmiðunarbálkur um hvernig bæri að bera sig að við hreinu dýrin. Sem dæmi var minnst á að ekki er heimilt að sjóða kiðling í móðurmjólk hans.

Nú sé ég ekki betur en að Íslendingar almennt éti rétti eins og t.d. pítsu með nautahakki (mjólk og kjöt af sömu skepnunni). Eru þeir þá orðnir guðlastarar? Grænsápusvara óskað.

Þegar ég var lítill strákur var ég úr hófi fram guðhræddur. Það breytti reyndar ekki einföldum staðreyndum eins og þeim að mér fannst trúfrelsið fótum troðið með kristnifræðikennslu og trúði á heiðnu goðin fremur en Drottin allsherjar (sem mér fannst alltaf vera hálf gufukennt átrúnaðargoð). Ég stundaði almennt siðu góða af ótta við að brenna í logum helvítis og sá mikið eftir því að hafa sungið dónalegt lag um hassreykingar uppi í kirkjuturninum á Egilsstöðum. Siðferðilega séð, var ég álíka frjálslyndur og Viktoría drottning, taldi víst að mannkyninu almennt yrði alvarlega refsað fyrir syndir svo sem sjálfsfróun og almenna greddu, blygðaðist mín fyrir syndsamlega hegðun og þar fram eftir götunum.

Á þessum sama tíma þekti ég ungan dreng, semitrúaðan en fullkomlega óttalausan við allt sem tengdist umbun og refsingu. Minnisstæð er mér setningin: „Ég lem alveg krakka, en samt veit ég að ég fer til himnaríkis“.

Þetta hefur valdið mér heilabrotum æ síðan.

Nú þekki ég nútímalegt fólk sem af ótta við Guð stundar ekki kynlíf fyrir hjónaband, drekkur ekki og gerir sér lífið leiðinlegra með hvers kyns kreddum sem fyrir einhverja undarlega ofurkrafta eiga að auðvelda Guði tilveruna og gera það þóknanlegra.

Hverju er faðir bættari að dóttir hans stundi ekki kynlíf fyrir hjónaband? Hvað kemur það honum við? Af hverju lætur fólk stjórnast af kreddum sem á engan hátt geta orðið nokkrum til blessunar?

Hvað er guðlast? Sé Guð til, mun hann þá fyrirgefa mér að hafa bölvað nafni sínu, kallað hann gufugoð, talað gegn trúboðum hans og verið honum á allan hátt til óþekktar? Samkvæmt Biblíunni mun hann ekki gera það, og af hverju ætti mér ekki að standa á sama?

Haukur Hilmarsson 09.05.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


mofi - 09/05/05 22:17 #

Ég tel eðlilegast að láta Biblíuna skilgreina guðlast kristinn einstakling þar sem hún er opinberun Guðs fyrir hann. Samkvæmt henni er guðlast að ég best veit það að segjast vera Guð eða vera jafn Guði, Markúsarguðspjall 2:7 og Jóhannesarguðspjall 10:33. Minnir að það er einnig guðlast að framkvæma illvirki í nafni Guðs.

Nú þekki ég nútímalegt fólk sem af ótta við Guð stundar ekki kynlíf fyrir hjónaband, drekkur ekki og gerir sér lífið leiðinlegra með hvers kyns kreddum sem fyrir einhverja undarlega ofurkrafta eiga að auðvelda Guði tilveruna og gera það þóknanlegra.

Ef einhver gerir þetta af ótta við Guð þá er viðkomandi að gera það af röngum ástæðum. Að fylgja reglum Guðs í þessu samhengi er án efa blessun og mun forða viðkomandi frá mörgu slæmu í lífinu.


Davíð Örn - 10/05/05 11:08 #

"Hvað er guðlast? Sé Guð til, mun hann þá fyrirgefa mér að hafa bölvað nafni sínu, kallað hann gufugoð, talað gegn trúboðum hans og verið honum á allan hátt til óþekktar? Samkvæmt Biblíunni mun hann ekki gera það, og af hverju ætti mér ekki að standa á sama?"

Jaa, nú veit ég ekki? :S en hvernig tók Guð á Páli (áður Sál) í Postulasögunni eftir allt sem Páll (áður Sál) hafði gert?


Haukur - 10/05/05 14:50 #

Mofi: Ég held að orðið guðlast hafi í tímans rás öðlast örlítið víðari merkingu. Spaugstofan hefur verið kærð fyrir guðlast, Félagi Jesú var á sínum tíma álitin mikil guðlastsræða, það er guðlast að bölva nafni Guðs...

Að lifa lífinu samkvæmt kreddum sem maður er ekki sammála af því að einhver gufa í ævintýrum segir annað sé syndsamlegt er sjaldan til blessunar. Það forðar manni kanski frá ýmsu illu að loka sig inni í herbergi og leika sér með jójó en það er þó engann veginn til blessunar, er það?


mofi - 10/05/05 22:39 #

Mofi: Ég held að orðið guðlast hafi í tímans rás öðlast örlítið víðari merkingu. Spaugstofan hefur verið kærð fyrir guðlast, Félagi Jesú var á sínum tíma álitin mikil guðlastsræða, það er guðlast að bölva nafni Guðs...

Minn punktur var að fara í einu heimildina sem ætti að skipta kristinn einstakling máli og athuga skilgreininguna þar. Fólk er alltaf að breyta hlutum svo þeir henti þeim betur en maður á bara helst ekki leyfa þeim það eða að minnsta kosti að vita þessa hluti. Sama á við með Krist, ekki láta annað fólk skilgreina Hans boðskap heldur fara beint í uppspretuna og komast að því þar.

Að lifa lífinu samkvæmt kreddum sem maður er ekki sammála af því að einhver gufa í ævintýrum segir annað sé syndsamlegt er sjaldan til blessunar. Það forðar manni kanski frá ýmsu illu að loka sig inni í herbergi og leika sér með jójó en það er þó engann veginn til blessunar, er það?

Maður á auðvitað ekki að trúa því sem maður er ósammála, það er bara fáránleiki. Fáránleiki sem allt of margir lifa í. Ég trúi að Biblían sé orð Guðs og ef ég fylgi þeim ráðum sem hún gefur þá mun það verða mér blessun. Ég trúi aftur á móti að Kóraninn er ekki orð Guðs og að fylgja sumu sem þar stendur mun ekki verða blessun fyrir mann. Það sama gildir um alls konar kenningar sem menn hafa komið upp með, þær eru misgáfulegar eins og það sem var vinsælt í uppeldisfræðum fyrir nokkrum áratugum.


Ívar M. - 12/05/05 01:42 #

Það er rosalegt að lesa bullið frá þér Mofi. Hvar fórstu eiginlega út af sporinu. VÁ!!

Hefurðu prófað að setjast niður og hugsa aðeins um afhverju þú trúir? Farið aðeins lengra aftur, allt að rótum vandans. Hvar byrjaði þetta eiginlega? Þú þarft ekki að trúa öllu sem þér er sagt, gagnrýnislaust. Hugsa....... það er númer eitt, tvö og þrjú.


Mofi - 12/05/05 10:03 #

Ég myndi segja að ég hef mjög gagnrýna hugsun, hvað er það sem fer fyrir brjóstið á þér?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 12/05/05 10:49 #

Ég hef tekið þessa umræðu hingað, enda tengist þetta lítið greininni. Þar er ég með spurningu handa þér, mofi.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.