Það virðist einu gilda hversu oft andkristnir málefnamenn benda á hversu viðurstyggileg fordóma-, ofbeldis- og hrokaræða biblían í heild sinni er, sjaldnast er mikill skortur á kristlingum í afneitun sem koma henni óðar til varnar með svokölluðum grænsápusvörum.
Grænsápa er í stuttu máli ein meginstoðin í aðferðafræði guðfræðinnar og byggir á því að snúa út úr einföldum orðaræðum í trúarlegum ritum og ljá þeim helgislepju og háfleiga speki sem enginn nennir að leggja sig fram við að gagnrýna, í þeim tilgangi að sannfæra fáfróða, hálfvitandi sinnuleysingja og heittrúaða, verja þær óverjandi skoðanir sem þar koma fram og síðast en alls ekki síst, að þagga niður viðkvæm málefni.
Tökum dæmi:
Vinsælasta grænsápusvar samtímans er hjákátleg klisja sem allir sannir kristlingar kunna utanbókar núorðið og nota til að verja hvers kyns hneisu í biblíunni og víðar. Þetta svar er: „þú verður að skoða þetta í ljósi Krists“.
Þessi magnaða setning hefur slegið ryk í augu ótal varnarlausra sála. Hún hefur í för með sér nokkrar há alvarlegar afleiðingar á huga þess sem fyrir henni verður.
Það sem stendur í helgiritinu hættir að vera fordómafullur hatursboðskapur á hendur gyðingum, trúlausum, hommum... og verður þess í stað háfleygur sannleikskjarni sem meðalmaðurinn er bara allt of heimskur til að skilja. Sem betur fer fyrir þennan meðalmann er ekkert að óttast, hann þarf ekkert að skilja þetta. Þetta er nefnilega upplýst af vitund Krists (sem í flestum tilfellum er löngu kominn undir græna torfu þegar þetta er ritað). Hann getur því óhræddur „frelsast“ í kirkjunni sinni með því að hlíða á hræðsluáróður, hótanir, loforð um himnavist og klístraðar lýsingar af píslardauða Krists í þágu mannana án þess að líta málið nokkurn tímann gagnrýnum augum eða jafnvel án þess að skilja hvað það snýst um.
Viðeigandi vers er sjálfkrafa umvafið „ljósi Krists“. Þess vegna hlýtur það að vera gott. Ljós Krists er sett fram eins og álfkonan góða sem sveipar allt góðri hulu. Ástæðan er sú að „ljósið“ hlýtur að vera gott. Með því að slengja þessari setningu fram ætlast grænsápumoðarinn til þess af áheyranda sínum að hann stimpli skilyrðislaust allt sem viðkemur Jesú sem gott, án þess að gagnrýna það frekar. Þessi fullvissa hans skilar sér oftar en ekki í því að fórnarlambið samþykkir án þess að mögla. Síðan er hægur vandi að krækja hvaða vitleysu sem er aftan í ljós Krists og fá þannig fórnarlambið til að samþykkja viðeigandi kreddu vegna þess hve nálæg guðdómnum hún er.
Með því að segja „þú verður að skoða þetta í ljósi Krists“ telur grænsápungurinn viðmælanda sínum trú um að nú verði engin frekari rök færð í málið. Þetta gerir hann með því ósýnilega formerki sem setningin hefur í för með sér, en í fullri lengd yrði hún svona: „Þú verður að skoða þetta í ljósi Krists, og ekki orð um það meir!“.
Heimskir kristlingar taka setningunni fagnandi. Hún er nefnilega lokaröksemd sem þeir geta beitt í vörn, hvenær sem trú þeirra er gagnrýnd. Það má skoða allt í ljósi Krists. Það að skoða eitthvað í ljósi Krists er í rauninni bara það að ákveða að það sé gott. Trúaðir bjánar taka setninguna upp eftir trúuðum gáfumennum og nota hana svo til að hrekja öll rök í hvaða máli sem er. Með þessa setningu að vopni geta þeir alltaf fundið út að þeir hafi „sigrað“ í rökræðu, hafi því rétt fyrir sér og þurfi ekki að skoða málið út frá því sem andmælandi þeirra segir, jafnvel ekki einu sinni að hlusta á það eða skilja það.
Annað dæmi um grænsápu er það þegar eitthvað er þaggað niður. Þetta er sú grænsápugerð sem ég tel hvað varhugaverðasta. Dæmi um þetta er að á meðan biblían og aðrar trúarlegar ritningar eru stútfullar af viðbjóði beina löðurpredikarar sjónum fólksins að því sem er notalegt, hlýlegt, dáleiðandi eða áhrifaríkt út frá áróðurslegu sjónarhorni, svo sem fagnaðarerindinu og krossfestingunni.
Dæmi:
Í biblíunni er fyrirskipað að maður sem leggist með öðrum manni sem kona væri skuli grýttur.
Nú er hómófóbía almennt álitið fasískt viðhorf í dag og ekki talin til siðferðilega geðslegra fyrirbæra. Það breytir engu um það að biblían leggur áherslu á að kynvilla sé ósæmileg og afbrigðileg hvöt sem unnt- og skylt sé að berjast gegn. Í þeirri baráttu stingur hún upp á og mælir með aðferðum eins og dauðarefsingum. Hvað eiga grænsápuluffarnir að gera til þess að verja þetta? Aðferðirnar eru mismunandi. Sumir útskýra af þolinmæði að biblían hafi rétt fyrir sér, og að það sé af góðvilja til mannkynsins sem hún leggi þetta til. Hér sé guð að reyna að ala hommaræksnin upp, eins og þegar við gerum börnum okkar ljóst að ekki megi setja hluti upp í sig sem hafi dottið í klósettið.
Aðrir malda í móinn og reyna að líta fram hjá slíkum boðskap eins og hann væri alls ekki til staðar. Þetta eru þeir kristlingar sem öðrum fremur vilja búa við þá rökvillu að kristin trú sé öðrum umburðarlyndari og betri.
Enn aðrir sleppa því alfarið að vera samkvæmir sjálfum sér og kenna breyskleika guðspjalla-mannana um en sýna þó þá hræsni að kalla biblíuna guðsorð. Þessir grænsápungar hafa sumir gengið svo langt að hunsa ritninguna sem þeir byggja starf sitt á og gifta homma, eins og ef um vandræðalegan misskilning væri að ræða.
Aðferðirnar til að bregðast við svona leiðindaversum eru sem sagt mismunandi en allir eiga grænsápumoðarar það sameiginlegt að rumpa umræðunni af, gefa ófullnægjandi og óskýr svör án þess að rökstyðja mál sitt, og snúa síðan umræðunni sem skjótast á léttari og ánægjulegri brautir.
Það versta við grænsápu er það að samfélagið er gegndrepa af henni. Flest ef ekki öll höfum við í hugsanaleysi einhvern tímann skrifað undir rök grænsápu-aðferðafræðinnar eða fallið fyrir grænsápupredikun.
Grænsápan er ein höfuðástæðan fyrir því að menn gerast sinnulausir kristlingar. Hún viðheldur rökvillu meðal þeirra sem ekki leggja sig fram við að gagnrýna hana og þvermóðskulegu trúarofstæki þeirra sem ekki hafa við annað að styðjast en ómengað rökætu eingyði.
Það er von mín að þeir viti bornu einstaklingar sem þetta lesa varist í framtíðinni að láta þvo af sér rökin með því innihaldslausa bulli sem grænsápan er.
Grænsápuguðfræðin hefst strax í Nýja Testamenntinu því Jesús segist ekki kominn til að afnema neitt í Lögmáli Gamla Testamenntis heldur eigi þar hver stafkrókur að standa til hinsta dags. Það eru huggulegheit eins og þau að það beri umsvifalaust að drepa hvern þann sem safnar sér eldiviði á helgidegi, drepa homma, brenna galdranornir og svo furðuhlutir eins og þeir að karlmenn megi ekki snyrta á sér bartana eða þá að það sé bannað að sá fleiri en einni tegund af fræi á akri o.s.frv.
En svo kom "nýr" sáttmáli og þá allt í einu er ekkert að marka þann "gamla", nú er guð orðinn "Kærleikur" og þar með er það Ljósið Krists sem ber að beina að hinu grimma skrímsli Jehóva Gamla Testamenntis. Nú þarf ekki að færa endalausar brennifórnir eða forðast svínakjötsát nú er bara guð kærleikur og allt í þessu fína. Svo óheppilega vill til að Boðorðin Tíu eru í Gamla Testamenntinu og í þau vilja krissar halda og því er það innifalið í grænsápuguðfræðinni að segja að það sé ekkert að marka Gamla Testamenntið NEMA Boðorðin Tíu vegna þess að..........tja, bara vegna þess.
Hér verður aftur að spyrja – og nú hann Aiwaz – HVAÐA grænsápuguðfræðingar segi, "að það sé ekkert að marka Gamla Testamentið NEMA Boðorðin Tíu ..." – Ég hef aldrei heyrt neinn alvöruguðfræðing halda því fram. Það er ótalmargt í GT sem hefur ævarandi gildi – t.d. í þeirri (nú til dags) vanmetnu Jesú Síraks bók, sem er eitt af devterokanonísku ritunum í GT (en sumir Lútheranar kalla apokrýft rit; það á þó að vera með í næstu heildarútgáfu Biblíunnar). Það er í spekiritahefðinni og afskaplega gefandi lestur. Kom út í bókinni Apokrýfar bækur Gamla testamentisins um eða upp úr 1930, en hafði löngu áður verið partur af íslenzkum Biblíuútgáfum, t.d. Guðbrandsbiblíu, þar til menn fóru að láta (kalvínskt mótað) Brezka og erlenda Biblíufélagið fara að segja sér fyrir verkum um það, hvaða rit skyldu fá inni í ritinu. Ég þori að treysta því, að Aiwaz kemur bara jákvæðari frá þeim bóklestri sem ég er að hvetja hann til.
Hér verður aftur að spyrja – og nú hann Aiwaz – HVAÐA grænsápuguðfræðingar segi, "að það sé ekkert að marka Gamla Testamentið NEMA Boðorðin Tíu ..." – Ég hef aldrei heyrt neinn alvöruguðfræðing halda því fram. Það er ótalmargt í GT sem hefur ævarandi gildi – t.d. í þeirri (nú til dags) vanmetnu Jesú Síraks bók, sem er eitt af devterokanonísku ritunum í GT (en sumir Lútheranar kalla apokrýft rit; það á þó að vera með í næstu heildarútgáfu Biblíunnar). Það er í spekiritahefðinni og afskaplega gefandi lestur. Kom út í bókinni Apokrýfar bækur Gamla testamentisins um eða upp úr 1930, en hafði löngu áður verið partur af íslenzkum Biblíuútgáfum, t.d. Guðbrandsbiblíu, þar til menn fóru að láta (kalvínskt mótað) Brezka og erlenda Biblíufélagið fara að segja sér fyrir verkum um það, hvaða rit skyldu fá inni í ritinu. Ég þori að treysta því, að Aiwaz kemur bara jákvæðari frá þeim bóklestri sem ég er að hvetja hann til.
Jón Valur, þess ber að geta að ég skrifa oft "með tunguna út á kinn" en til grænsápuguðfræðinga tel ég þá verjendur kristindóms sem í spjalli við mig segja að allt hið "slæma" í Gamla Testamenntinu sé "gömul refsilöggjöf gyðinga" sem ekki sé lengur í gildi vegna hins nýja sáttmála og allt hið "slæma" í Nýja Testamenntinu séu "mannasetningar" sem verði að lesa í "Ljósi Krists" eða m.ö.o. ef það er slæmt er það ekki þóknanlegt Kristi (sem er auðvitað Kærleikur)og getur því ekki verið innblásið Orð Guðs.
Einnig eru það "ljóðrænar myndlíkingar" þegar Jesú talar um að hinum og þessum trúleysispésanum verði varpað í helvíti til eilífrar kvalar í eldi en ef það er eitthvað gott sem Jesú sagði þá ber að taka það bókstaflega og er auðvitað alls ekki ljóðræn myndlíking. Þetta kalla ég grænsápuguðfræði.
Þó að orðið sjálft "grænsápuguðfræði" sé tiltölulega nýtt af nálinni, er þó fjarri því að það sem orðið á að lýsa ( og gerir það reyndar býsna vel ) sé eitthvað nýtt. Það hefur fylgt kristninni nánast frá upphafi vega að grundvallarkennisetningunni, sjálfri Biflíunni, er ritstýrt og hún "túlkuð" eða hún endurþýdd með það að markmiði að sníða af henni skafanka sem ekki falla í kramið á hverjum tíma. Það er ekki kristnin sem lagt hefur siðferðisgrunninn, heldur hefur þróun almenns siðferðis kallað á breytingar á kennisetningunni.
Það var kirkjan sem ákvað á kirkjuþinginu í Karþagó forðum daga hvað henni hentaði að stæði í trúarritinu mikla, og hvað ekki. Og alla tíð síðan hefur kirkjan þurft að glíma við almenna upplýsingu fjöldans, sem hafnar jafnt og þétt fáránlegum lygasögum, grimmilegum refsingum fyrir litlar sakir o.s.frv.
Kirkjan er löngu hætt að vera trúfélag. Hún er í raun ekkert annað en veraldleg valdastofnun, sem verður að beita öllum tiltækum ráðum til að halda völdum. Kirkjan gengur fremst í flokki þeirra sem vilja og þurfa að útþynna kenninguna, svo að í boðuninni sé ekkert lengur sem hönd er á festandi.
Svo er nú að verða komið að kristin trú á nánast ekki að standa fyrir neitt annað en kærleika og mannúð, og ef hún á ekki að deyja drottni sínum er líklega eina ráðið fyrir hana að sækja um einkarétt á þessum fyrirbærum.
ÉG vil byrja á að þakka Jóni fyrir fróðlega orðaræðu, hugvekju og ábendingar.
Sú fyrsta þeirra var nú þess efnis að mér bæri að benda dómsfingri á guðfræðinga sem að ég áliti að gagngert beittu þessari aðferðafræði í leik og starfi. Rétt er að koma lítillega til móts við þessa beiðni.
Ég tek það fram að hvort ég hef ekki lagt í þá vinnu að kynna mér mentaferil nokkurra annara en minna nánustu kennara, en geri ráð fyrir (þó að það sé nú kanski ekki hávísindaleg aðferðafræði) að flestir þeirra hafi lesið sér í nokkru til um guðfræði og trúarleg rit
Fyrstan ber að nefna sr. Bjarna Karlsson í Laugarneskirkju sem nú er víðfrægur fyrir að gefa saman samkynhneigða og vera almennt víðsýnni en gengur og gerist meðal kirkjunnar manna. Mér hafa um tíma verið hugleiknar umræður sem hann og Gunnar í krossinum áttu í sjónvarpsþætti nokkrum nú fyrir skemstu. Þar sýndi sr. Bjarni af sér undarlega afneitunarhegðun þar sem hann hélt því fram (í andstöðu bæði við Biblíuna og almenna sálfræði) að kynvilla hefði bara ekki verið til þegar biblían var rituð (þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir refsingum fyrir hana í þeirri mætu bók).
Sá guðfræðingur sem ég hef þekki hvað best er Þorkell á annál. Af samtölum við hann hef ég lært lítið eitt um grænsápuguðfræði. Hann gerði tilraun til að Baháía mig á sínum tíma. Sem baháíi trúir hann náttúrulega því að guð hafi sent spámenn á 1000 ára fresti með boðskap til handa mönnunum eftir því hvað hentaði hverjum tíma. Þessu heldur hann (eins og aðrir baháíar) fram án þess að blikka þrátt fyrir þau lokaorð biblíunnar að hver sá sem bæti við hana minnsta stafkrók muni brenna um alla eilífð o.s.frv. Aðspurður um hörmungarnar mannkyns, sem mér finnst ekki alveg styðja hugmyndir um göfuglyndi Guðs, útskýrir hann að slíkt sé fórnarkostnaður fyrir þróun mannkynsins á Guðs vegum. Litla stelpan sem fékk sprengjubrot í mjöðmina og var hópnauðgað í Júgóslavíu, hún er bara dæmi um að mannkynið verður að læra af „mistökum“ og að í raun sé Guð góður að leyfa okkur það.
Keli hefur líka oftar en einu sinni og oftar en tvisvar vitnað í Stewen Howking, eins og að trúarsannfæring hans væri sönnun þess að trú sé skynsamleg.
Því miður man ég ekki nöfn allra þeirra presta og kristnifræðikennara sem í grunnskóla bentu mér á að skoða bara trúboð sem gjöf ekki átroðning, að líta á ofbeldið í biblíunni sem nauðsynlegt í þágu markmiða guðs (t.d. stofnun Ísralelsríkis), hvað þá alla þá sem hafa bent mér á að skoða bara hlutina í ljósi Krists.
Sannast sagna er ég fremur illa lesinn, bæði hér á Vantrú, Guðfræði.is og Annál. Engu að síður er þetta sá skilningur sem ég hef á guðfræði út frá þeirri reynslu sem ég hef af henni. Hún er kanski ekki nógu mikil en það breitir ekki því meginmáli greinarinnar að þeir sem tala máli biblíunnar eru almennt duglegir við að gefa ófullnægjandi og órökrétt svör.
Kanski var ég heldur fullyrðingaglaður að segja alla guðfræðinga beita þessum aðferðum, maður skyldi jú aldrei búa til mengi þar sem maður þekkir ekki allar öll stök. Annars finnst mér þetta hálfgerður titlingaskítur sem varla sé þess virði að gera meira en að biðjast afsökunar á. Ég ætla allavega ekki að telja fleiri guðsmenn upp í bili.
Varðandi spurningu þína um hómófóbíu þá er vert að geta þess að hér nota ég frjálslegt málfar múgamannsins, líkt og ef ég hefði sagt að Óli Gneisti væri „ýkt kúl gæi“. Báðir vitum við að líkamshiti Óla er að öllum líkindum við eðlilegar aðstæður í kringum 37° og því hálfgerður orðhengilsháttur að eyða tíma sínum í að útskýra nákvæmlega hvað ég á við, sérstaklega fyrir mentuðum mönnum svo sem þér sjálfum.
Hómófóbía er orð sem hugsanlega er ofnotað. Ég býst við að það eigi best við um þá sem að liði illa af að vita af landsþektum homma í næstu sturtu við sig þegar þeir færu í sund. Bein þýðing væri kanski hommafælni og því hefði sennilega verið réttara að segja hommahatur, þó að lesa megi af samhengi greinarinnar og almennri málvenju hvað ég á við.
Okkar á milli sagt þætti mér mjög vænt um það ef þú gætir slept því að eyða tíma mínum í framtíðinni með slíkum sparðatýningi.
Varðandi fasisma og hommahatur (nú eða fælni) má geta þess að fasistar hafa afar fastmótaðar hugmyndir um hvernig menn eigi að vera og frávik svo sem samkynhneigðir og aðrir minnihlutahópar litnir illu auga.
"Lokaorð" biblíunnar sem þú nefnir er að finna í einum af Mósebókunum; sem eru elstu rit GT. Gyðingar kalla þetta safn "Torah" og hjá þeim er löng helgihefð sprottin út frá þessum "lokaorðum", þó þeim hafi nú tekist að klúðra því vel og rækilega í tímanna rás. Var það þetta sem þú áttir við eða eitthvað annað?
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Jón Valur Jensson - 03/05/05 12:58 #
Ágætt væri nú fyrir Hauk Hilmarsson að nefna nokkur dæmi um þessa "grænsápuguðfræðinga" – tala ekki svona út í eitt án þess að menn hafi um það græna glóru, við hverja hann á. Ég tek fram, að mér dettur ekki í hug að taka þetta til mín, því að eins og Haukur segir: "allir eiga grænsápumoðarar það sameiginlegt að rumpa umræðunni af, gefa ófullnægjandi og óskýr svör án þess að rökstyðja mál sitt, og snúa síðan umræðunni sem skjótast á léttari og ánægjulegri brautir." En þeir, sem lesið hafa eitthvað frá mér á þessum vefsíðum, oft í ýtarlegu máli, munu kannast við, að slíkur er ekki minn viðræðuháttur (hitt kemur að vísu fyrir, að ég komist ekki yfir að svara öllum mótrökum gegn mér, einkum ef margir eru í atsókninni). Og ég er almennt afar ósáttur við þá aðferð að "skýra burt" þá Ritningartexta, sem erfiðir eru, hvað þá að "mýkja" textann í þýðingum Biblíunnar, nema frumtextinn sjálfur gefi tilefni til þess.
Án þess að þetta innlegg mitt sé svar við þessari grein í heild, hef ég hérna eina spurningu að lokum: Hvað á Haukur við með hómófóbíu? Orðið mun vera myndað af samkynhneigðum, e.k. háðskt svar við ýmsu sem um þá hefur verið sagt, sem hefur vissulega verið margt ljótt og ósæmandi, en fóbía er geðlæknisfræðilegt hugtak (t.d. agrófóbía: hræðsla við að vera úti á opnu svæði), og getur 'hómófóbía' svo sem átt við einhverja, sem fælast samkynhneigða eða atyrða þá vegna þess að þeim finnist þeim stafa ógnun af þeim á einhvern hátt; en þegar menn eru farnir að nota þetta hugtak um alla þá, sem samþykkja ekki gervallar kröfur samkynhneigðra eða vilja t.d. standa í trúfesti með afstöðu Nýja testamentisins í þessum málum, þá er það rakalaus ofnotkun hugtaksins. – Haukur segir: "Nú er hómófóbía almennt álitið fasískt viðhorf í dag ..." (sic!), og væri fróðlegt að sjá útskýringu á þessari fullyrðingu. Hver eru hugmyndafræðilegu tengslin, Haukur, milli þessa meinta ótta eða fælni og hinnar fasísku hreyfingar Mussolinis? Eða ertu ekki betur að þér í hugtakafræðinni en svo, að þú notir orðið fóbía um hatur? Ef svo er, af hverju notarðu ekki orðið hommahatur um þetta? Ég er viss um, að þá færðu fleiri til að samþykkja málflutning þinn, enda er ég t.d. sammála þér í því, að það mikill löstur í fari hvaða manns sem er, ef hann er haldinn slíku hommahatri.