Prestur átti leið framhjá garði sem honum fannst óvenjulega snotur og sá eigandann vera að störfum í garðinum. Hann kallaði til hans og gaf sig á tal við hann.
Presturinn: Hér hefur aldeilis tekist vel til með garðyrkjuna, með drottins hjálp.
Garðyrkjumaðurinn: Já, en þú hefðir átt að sjá útganginn á honum meðan drottinn sá einn um hann!
Þessi gamansaga hefur á sér alvarlega hlið. Hún opinberar nefnilega þátt í fari okkar sem gerir okkur óheiðarleg og vanþakklát gagnvart góðum verkum annarra.
Við þökkum guðinum okkar fyrir slíkt, eins og fífl.
Sjáum fyrir okkur aðstæður þar sem gamall maður þarf að gangast undir skurðaðgerð. Meðal vina hans og vandamanna er prestur. Og presturinn sér ástæðu til að hópa saman ættingjunum í bæn til æðri máttarvalda, að þau megi nú sjá til þess að aðgerðin heppnist. Bænin er hreinræktuð galdraþula:
Drottinn vor!
Vér stöndum nú frammi fyrir þér
Í auðmýkt okkar og undirgefni
og treystum á eilífa miskunn þína
Meðtak þjónustu okkar
og blessa starf okkar
sem unnið er í lotningu til þín.
Vér biðjum þig að líta á
meðbróður okkar einn
sem á morgun mun gangast undir skurðaðgerð.
Við biðjum þess að allt fari vel.
Blessaðu læknana sem vinna á honum störf sín
og hjúkrunarfólkið sem er þeim innan handar
og legg læknandi kraft þinn og líkn
í handaverk þeirra.
Í Jesú nafni,
amen.
Líður svo og bíður. Aðgerðin fer fram og heppnast vel. Presturinn, í samtölum við ættingja og vini, þakkar guðinum fyrir að vel fór. Þetta var auðvitað bæninni að þakka, en ekki færni lækna og hjúkrunarliðs, ekki satt?
Sjáið þið ekki vanvirðinguna sem felst í að þakka guðum verk manna?
Nú má auðvitað gagnrýna þetta kaldlyndi mitt með því að benda á að það lýsi góðum huga og kærleiksríkum að biðja svona fallega fyrir bróður sem er að leggjast undir hníf óvissunar. Bænin veiti þarna huggun þeim sem biður, í öllum þeim áhyggjum sem svona óvissuskref óneitanlega er.
Því er til að svara að betri leið, en að hugarhægja sjálfan sig með samræðum við ímyndaða veru, væri að berjast fyrir því að stofnunin sem tekur að sér skurðaðgerðir sé vel fjáð og starfsfólk hennar vel alið. Sjúkrahús landsins eru í stöðugum fjárhagskröggum og sífellt er verið að skera niður fjármagn til heilbrigðiskerfisins, en á sama tíma fær Þjóðkirkjan, sem varla gerir nema ógagn, yfir þrjá milljarða á ári úr sameiginlegum sjóðum landsmanna.
Við þurfum á læknum að halda, ekki töfralæknum. Tökum þetta fé sem nú fer í að viðhalda trú á hindurvitni og veitum því beint í heilbrigðiskerfið. Gefum þessari gagnslitlu, sjálfskipuðu samfélagshjálp frí.
Þetta "guði sé lof" er bara orðatiltæki sem fólk hefur alist upp við að nota og hefur ekki sömu merkingu og liggur í orðunum.
Sjálfur segi ég oft "guð minn almáttugur" og eitthvað álíka þegar ég er hneykslaður... ég er samt ekkert að ákalla guð eða leggja nafn hans við hégóma.
Ef við hefðum vanist við að segja "blobbeddíblabb" í stað "guði sé lof" þá mundum við bara nota það.
Það eru ósköp fáir að þakka guði eða gefa honum dýrðina með því að nota þessa frasa sem fastir eru í hausnum á okkur flestum.
Já, þetta er auðvitað rétt hjá þér. Og hið sama á við þegar við segjum „djöfulsins“, „andskotans“ eða „helvítis“ – eða jafnvel „djöfulsins, andskotans, helvítis“. :) Með því erum við auðvitað ekki í raun og veru að ákalla myrkrahöfðingjann – já, eða bölva honum, eftir því hvernig á það er litið.
En það breytir því ekki að það hljóta að vera til trúaðir læknar sem raunverulega þakka guði fyrir þegar þeim tekst að ráða bót á neyðarástandi. Þeir veita guði í raun hlutdeild í heiðrinum af sínum eigin verkum. Það hvort þeir tjá þessa hugsun sína með orðum er aukaatriði.
Þetta er bara nokkuð góður brandari. Og borðskapurinn má með góðum vilja túlka á jákvæðan hátt. Setningin þú hefðir átt að sjá útganginn á honum meðan Guð sá einn um hann er áhugaverð. Hvenær varð það sem Guð skuldbatt sig til að annast garðinn og hafa í því ástandi sem eigandi garðsins vildi? Garðeigandinn er fulltrúi mjög heimskulegs trúarsjónarmiðs þ.e.að Guð eigi að vera í hlutverki foreldris ofdekraðs barns og uppfylla óskir þess til hægri og vinstri eins og andinn í sögunni um Aladíns.Ef við viljum eignast fallegan garð þá er leiðinn ekki sú að leggjast á bæn, heldur verður að gera það sem gera þarf af fullri alvöru. Max Weber telur reynda að það hafi verið hinn trúarlega afstaða mótmælenda einkum Kalvínista sem lagði grunninn að kapítalismanum Fagmennska og vönduð vinnubrögð hafa sínar takmarkanir, það er sennilega ekki til ein einasti læknir sem aldrei hefur gert mistök. Auk þess koma við sögu ótal atriði sem eru ekki á mannlegu vandi að stjórna enn sem komið er. Manninum er ekki gefið neitt almætti, og ekki læknum heldur, það er því ekkert alltaf sem batinn er læknum einum að þakka. Þær kröfur sem við gerum til læknisins er að hann geri sitt besta, í samræmi við bestu þekkingu og aðferðir sem hann á völd á. En auðvita vonar hann að allt gangi vel og það gera ættingjar líka og tjá þá von í bæn. Trúað fólk mun halda áfram að gera slíkt jafnvel þó að Birgir sé á móti slíku. Birgir er svo upptekin af þráhyggju sinni um illsku trúarbragða, að hann ætlast til þess að aðstandendur sjúklinga, gleymi ættingja sínum sem er að berjast fyrir lífi sínu, en gerist þess í stað fótgönguliðar í herferð hans gegn óvinum sínum. Mér finnst ekki líklegt að orsakir vandans í heilbrigðismálum sé hægt að rekja til þess að svo miklu af tekjum ríkisins sé varið til þjóðkirkjunnar. Ástæðurnar eru tvær, hægristefna ríkistjórnarinnar sem leggur áherslu á skattalækkanir og niðurskurð ríkisútgjalda og einkavæðingu. Þar við bætist vandi sem rekja má til aukins kostnaðar vegna tækniframfara og illviðráðanlegra kostnaðarhækkana á lyfjum. Það myndi því ekki breyta neinu til langs tíma litið þó öllum peningum sem nú er varið til þjóðkirkjunnar yrði varið til heilbrigðismála. Ásókn hægrimanna í skattalækkanir og niðurskurð er óseðjandi og þar við bætist að tilhneiging til kostnaðarhækkana í heilbrigðismálum er illviðráðanleg. Birgir fær plús fyrir brandarann, en er í grundvallar atriðum ósammála öllu hinu, eins og vanalega.
"Garðeigandinn er fulltrúi mjög heimskulegs trúarsjónarmiðs .............." Guðjón, ég held að þú sért ekki að "fatta djókinn"´.
Spurningar til þín Guðjón : Þegar að aðgerð misheppnast, í versta falli með dauða sjúklings, hve mikinn þátt í mistökunum eignar þú guði ? Eða er hann bara að verki þegar vel gengur ?
Ég hélt að þetta væri nokkurn veginn punkturinn hjá Birgi.
Þessir 3 - 4 milljarðar sem fara til þjóðkirkjunnar á ári myndu án efa koma sér afar vel fyrir heilbrigðiskerfið. Þeir sem eru kristnir í raun, ekki 90% af þjóðinni, ættu að reka sínar kirkjur sjálfir óháð ríkinu. Er það ekki trúfrelsi ?
Brandarar eru til að hlæja að þeim og ég læt öðrum það eftir að úrskurða um hver hafi náð hinum eða þessum brandaranum. Það má vel vera að trúaðir garðeigendur líti almennt svo á að Guð annist um garða þeirra og þess vegna þurfi þeir ekki að reita arfa eða raka laufi Guð reddi málunum eða hvað? Það er nauðsynlegt fyrir fólk að átta sig á því að mjög margt sem gerist í lífinu er þess eðlis að við ráðum engu um það. Í síkum tilfellum eigum við þann eina kost að sætta okkur við orðin hlut. Eitt af því sem getur gerst er að ættingi deyr í læknisaðgerð, vegna óhapps. Það að reiðast Guði og ásaka hann er álíka skynsamlegt og þjónar jafn miklum tilgangi og þær aðgerðir konungsins úr einhverri sögu sem ég man því miður ekki eftir sem sendi menn sína til þess að refsa hafinu með því að lemja á því eða eitthvað í þá veru.
Er þá ekki álíka heimskulegt að þakka guði fyrir ef aðgerðin heppnast? Ég er orðin rugluð...
Fyrir þann sem er sannfærður um að Guð sé ekki til og það sé mjög heimskulegt að trúa á hann er vissulega heimskulegt að þakka honum eitt eða neitt eða biðja til hans.
En fyrir þá sem trúa, er það ekki jafn tilgangslaust að þakka guði vel heppnaða aðgerð? Er það ekki svipað og þakka hafinu fyrir að drekkja manni ekki, eftir sjóferð?
Mér finnst ekki líklegt að orsakir vandans í heilbrigðismálum sé hægt að rekja til þess að svo miklu af tekjum ríkisins sé varið til þjóðkirkjunnar.
Það er ekki verið að halda því fram að rekja megi vanda heilbrigðiskerfisins beint til þess að skattfé renni til Þjóðkirkjunnar.
Hins vegar er miklum fjármunum kastað á glæ með því að eyða því í Þjóðkirkjuna. Peningarnir væru betur nýttir í annað sem skilar einhverjum áþreifanlegum árangri.
Guðjón: "Það má vel vera að trúaðir garðeigendur líti almennt svo á að Guð annist um garða þeirra og þess vegna þurfi þeir ekki að reita arfa eða raka laufi Guð reddi málunum eða hvað?"
Hver var að tala um þetta ?
Sumir brandarar eru bara til að hlæja að þeim, svo eru til brandarar þar sem alvarlegur hlutur, stundum, er settur í gamansamt form "to make a point". Ef þú "fattar" ekki "djókinn" þá nærðu heldur ekki boðskapnum í greininni sem er ofureinfaldur. En svo getur þú líka misskilið þetta viljandi, þér er það alveg frjálst (æ dóntt ker ;-)).
"En fyrir þá sem trúa, er það ekki jafn tilgangslaust að þakka guði vel heppnaða aðgerð? Er það ekki svipað og þakka hafinu fyrir að drekkja manni ekki, eftir sjóferð?"
Eftir að þú öðlast trú verður þetta skiljanlegt, þangað til verður það í besta falli broslegt.
Það sama má segja um hið öndverða sjónarmið. Um leið og þú áttar þig á því að guðinn þinn er aðeins tilvistarlaus goðsögn hættir umrætt atferli að vera eðlilegt og verður þér tragíkómískt.
Eftir að þú öðlast trú verður þetta skiljanlegt, þangað til verður það í besta falli broslegt.
Aha, ég skil þetta ekki og get aldrei skilið því ég trúi þessu ekki.
Það sem er broslegt í þessu er sú fullvissa að á himnum sé yfirnáttúruleg vera sem passar uppá að skurðaðgerðir heppnist, sé þess gætt að menn leggist á bæn til hennar.
"Það sem er broslegt í þessu er sú fullvissa að á himnum sé yfirnáttúruleg vera sem passar uppá að skurðaðgerðir heppnist, sé þess gætt að menn leggist á bæn til hennar."
Vissulega hef ég lýst yfir trú minni á það sem þú kallar yfirnáttúrulega veru, en hvort bæn virkar eins og þú lýsir eða á einhvern hátt sem við skiljum ekki fullyrði ég ekkert um. Það er augljóst að bænin hefur áhrif á þann sem biður og auk þess trúi ég á þann sem beðið er fyrir, en það hvernig hún virkar veit ég ekki og þarf ekkert að vita.
Það er augljóst að bænin hefur áhrif á þann sem biður og auk þess trúi ég á þann sem beðið er fyrir, en það hvernig hún virkar veit ég ekki og þarf ekkert að vita.
Ég veit ekki hvort að bænir virka eða ekki en afhverju er það svo augljóst að þínu mati?
Hin augljósu áhrif á þann sem biður eru sefjunaráhrif, sem er skyld dáleiðslu. En hvernig get ég vitað að bæn virki á þann sem beðið er fyrir? Ég met það svo á grundvelli persónulegrar reynslu og þess sem ég hef heyrt um þessi mál, m.a. rannsókna. Ég hef aðeins kynnt mér þessi mál og veit að til eru rannsóknir sem benda til bænir geti haft áhrif. Ég er hins vegar ekki með þetta fyrir framan mig og er annað að gera nú á næstunni. Þannig að ég verða láta mér nægja að lýsa þessu sem skoðun minni.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Þórður Sveinsson - 29/04/05 16:54 #
Frábær grein sem vekur mann til umhugsunar. En mega presturinn, sjúklingurinn og ættingjarnir ekki eiga það að sennilega eru þeir þrátt fyrir allt ekki bara þakklátir guði? Heilbrigðisstarfsfólkið fær nú væntanlega hlutdeild í heiðrinum líka.
Annars má vera að læknarnir og hjúkrunarliðið veiti líka guði hlutdeild í sínum eigin heiðri. Margir hljóta að kannast við að hafa sagt eitthvað á borð við „Guði sé lof!“ þegar eitthvað hefur farið betur en á horfðist. Þegar sjúklingur í skurðaðgerð er í bráðri lífshættu en læknunum tekst að bjarga honum á síðustu stundu er einmitt líklegt að einhver þeirra stynji upp úr sér þessum orðum og veiti þannig guði hlutdeild í heiðrinum af sinni eigin frækilegu frammistöðu.