Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Til varnar Carlos Ferrer

Prestinum Carlos Ferrer var slegið upp á forsíðu DV í gær. Þetta var fyrir tvennt, annars vegar að hafa lamið einhvern með kústi og hins vegar út af umræðu sem hann hóf um sjálfsfróun meðal fermingarbarna sinna.

Látum kústinn liggja á milli hluta, þetta var víst bara eitthvað slys. En fram kemur að foreldrarnir hafi látið þetta sjálfsfróunartal ofbjóða sér og gengið út úr kennslustundinni, en þar voru þeir af einhverjum ástæðum viðstaddir. Þetta segir okkur að eitthvað sé meira athugavert við viðhorf foreldranna en prestsins.

Því hvað er að því að ræða sjálfsfróun við krakka á þessum aldri? Það getur engan veginn flokkast undir dónaskap að tala um slíkt málefni almennt. Ekki var Carlos að fróa sér þarna, né hvatti hann aðra til slíkra verka. Hann spurði einungis hverjir viðstaddra fróuðu sér. Kannski var það ekkert sérlega heppileg aðferð til að opna umræðuna, en augljóst er að hinn frjálslyndi guðfræðingur vildi aðeins með þessu koma því á framfæri að sjálfsfróun væri hið besta mál.

Og slíkt er þakkar- og virðingarvert. Það er nefnilega ekki aðalatriðið að verið sé að tala um sjálfsfróun, heldur hvaða skilaboð koma í kjölfarið. Kirkjan hefur gegnum aldirnar fordæmt þennan verknað og vitnað í söguna um Ónan skoðunum sínum til stuðnings. En í dag vitum við sem er að sjálfsfróun er ekki á nokkurn hátt hættuleg, heldur þvert á móti heilsusamleg. Og þegar fulltrúi Þjóðkirkjunnar er farinn að halda slíkum frjálslyndum nútímaviðhorfum á lofti ber að fagna því.

Okkur hér á Vantrú hefur alltaf fundist það gott mál að fólk stundi sjálfsfróun og að hægt sé að ræða það opinskátt. Við sendum Carlos Ferrer því baráttukveðjur og vonum að honum takist að láta þennan storm í vatnsglasi sem vind um eyru þjóta. En auðvitað má hann um leið velta fyrir sér af hverju þetta umræðuefni fór svona fyrir brjóstið á foreldrunum þarna. Getur verið að þeir séu eitthvað skemmdir af gamalli kirkjuboðun og guðræknislegum tepruskap eldri kynslóða? Er Carlos kannski of frjálslyndur fyrir trúarbrögðin sem hann tilheyrir?

Ritstjórn 27.04.2005
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Helgi Heiðar - 27/04/05 11:54 #

Þarf samt nokkuð að biðja krakka um að gefa það upp opinberlega hvort þeir frói sér, þó hann sé að fjalla um sjálfsfróun almennt?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 27/04/05 12:07 #

Eins og við sögðum, það er óheppilegt. En síður en svo eitthvað hræðilegt.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 27/04/05 12:43 #

Ég held að hluti vandans sé að fólk vilji "ömmuprest" og slíkir menn eiga ekki að vita hvað sjálfsfróun er, hvað þá tala um málið.


Guðmundur Jónsson - 27/04/05 16:44 #

Það er fagnaðarefni að rætt sé um kynlíf á opinskáan hátt í fermingarfræðslu. En að stilla fólki svona upp við vegg og krefja það svara um sitt eigið kynlíf er svívirðilegt. Þeir sem ekki vildu taka þátt í þessari nýstrárlegu "skriftun" hans Carlosar höfðu í raun ekkert val, þeim var gert að svara þessari spurningu játandi eða neitandi og það fyrir framan félagana. Kynfræðsla er viðkvæmt mál og ég efast um að guðfræðingar hljóti sérlega góðan grunn í sínu námi varðandi það hvernig beri að taka á slíkri fræðslu.

Ætli Carlos hafi sjálfur rétt upp hönd?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 27/04/05 16:48 #

Þetta virðist nú bara hafa verið skyndiákvörðun hjá honum, hefði hann hugsað sig aðeins um þá hefði hann væntanlega áttað sig.


Guðmundur Jónsson - 27/04/05 23:43 #

Engu að síður slæm skyndiákvörðun.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 28/04/05 00:15 #

Hvað sem því líður þá var framtakið gott. Carlos fær hrós frá okkur fyrir viðleitnina, þótt nokkuð klaufalega hafi tekist til.


Guðmundur I. Markússon - 28/04/05 00:33 #

Tek ofan fyrir Carlosi í þessu máli. Maður veltir því fyrir sér hví þetta komst í blöðin, svo ekki sé talað um forsíðuna. Er DV að reyna að ala á tepruskap í samfélaginu? Eitthvað segir mér að ef þetta hefði aðeins snúist um að reka kústskaft í einhvern hefði áhuginn verið lítill.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 28/04/05 01:11 #

Ætli Carlos hafi sjálfur rétt upp hönd?

Ég rétti hér með fúslega upp hönd.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 28/04/05 14:18 #

Vonandi þvoðirðu hana fyrst....


Sævar Helgi (meðlimur í Vantrú) - 28/04/05 15:07 #

Held ég láti það vera að taka í höndina á þér á föstudaginn! ;)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 28/04/05 15:15 #

Hvað meiniði? Er ekki meginpunkturinn hér að allir frói sér? Ætlið þið þá að hætta að taka í höndina á öllum?

Ég þríf hendur mínar eftir að ég sinni vessum líkamans og úrgangi. Skárra væri það nú.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 28/04/05 16:14 #

Ég held að yfirleitt séu fleiri sýklar á höndum en kynfærum, þannig að hugsanlega ættu menn frekar að skola á sér skaufann en hendurnar eftir sjálfsfróun nema eitthvað frussist á hendurnar við hamaganginn.

Annars finnst mér þetta dálítið fyndið, miðað við móðursýkina sem stundum er í gangi má gera ráð fyrir að helmingur barnanna í fermingarhópnum hafi stundað hópkynlíf og endaþarmsmök, hvað þá sjálfsfróun :-)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 28/04/05 16:22 #

Hehe já, mjög góður punktur. DV er að verða eins og versta kvenfélagskellíng.


Carlos - 28/04/05 18:46 #

Mér þykir vænt um þá samstöðu sem þið sýnið mér. Afsakið þótt ég kjósi að fara ekki út í einstök atriði í máli sem er lokið í söfnuðinum, farsællega.

Ég get þó upplýst að meðal efnis í fermingarundirbúningi hefi ég kennt úr mannréttindasáttmála S.þ., velt upp spurningum um siðferðilega vídd þess að vera kynvera (n.b. ekki kynfræðsla) og vangaveltur um það að eiga trú eða trúlausar lífsskoðanir og viðhorf.


Jónas T. - 12/01/06 15:22 #

það á kannski ekki að spyrja börn um svona því að sumum finnst það frekar vandræðalegt en álitið á þessum góða presti var/er algerlega komið út í öfgar frá foreldrum,þetta er ekki eitthver alveg hræðilegur hlutur sem aðeins er gerður á meðal glæpamanna,sýður en svo.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.