Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Göfgiþráin

Þegar fyrsta greinin hans Matta Á., Af hverju ætti allt þetta fólk að ljúga?, birtist á Vantrúnni rifjaðist upp fyrir mér ritgerð ein sem ég hafði unnið og skilað inn í ÍSL203 í MH fyrir margt löngu. Sú hét Að loknu lífi og fjallaði um líf eftir dauðann.

Á menntaskólaárum mínum var ég nýaldarsinnaður. Sennilega var þetta smit frá bróður mínum sem á þessum tíma var áskrifandi að Ganglera og átti slatta af erlendum UFO-blöðum. Ég var búinn að lesa tvær bækur eftir Harold Sherman en ritgerðina byggði ég að stórum hluta á bókinni Himinn, jörð og hugur manns sem ég hafði fengið í jólagjöf.

Niðurstaða heimildarritgerðarinnar var einmitt þessi sem Matti fjallar um: Það er líf að loknu lífi, því af hverju ætti allt þetta fólk að vera að ljúga? Hefur það einhvern ávinning af því að spinna þetta upp?

Tilhugsunin um slíkt þótti mér fráleit, trúgjörnum unglingnum. Í dag myndi ég hins vegar ekki hika við að svara þessari síðustu spurningu játandi. Að sönnu eru margir þeir sem einungis hafa látið blekkjast í þrá sinni eftir einhverju æðra, en þeir eru líka margir sem beinlínis spinna þetta upp. Ástæðan þarf ekki einu sinni að vera peningalegs eðlis, því þeir sem ekki hafa beinan fjárhagslegan ávinning af því að gefa sig út fyrir miðils- og aðra handanheimahæfileika hljóta í það minnsta upphafningu og virðingu trúgjarnra samborgara sinna.

Þeir eru bókstaflega hafnir upp á stall.

Unglingurinn ég lét sig dreyma um að hafa skyggnigáfu eða aðra súpernatúral hæfileika. Ég leitaði grimmt í hugskoti mínu að einhverjum ummerkjum um slíkt, en varð að lokum heiðarlega að játa það fyrir sjálfum mér að engu svona var til að dreifa. Ég var bara venjulegt litlaust flón.

En af hverju þráði ég þetta svo? Ég var nefnilega skíthræddur við þetta handanheimadrasl líka, óttaðist ásækna anda og aðra drauga, fylgjur og svipi sem vantaði fæturna á. Það var ekki þráin eftir reynslunni sem lá að baki heldur göfgiþráin.

Ég vildi vera mikilvægur í hinu kosmíska samhengi, útvalinn.

Holier than thou kallast þessi kennd á enskri tungu. Stór hluti fólks í kristnum söfnuðum gengur með hana og flest allir nýaldarsinnar. Göfgiþráin felst til dæmis í fullvissu trúmannsins um að hann sé í teymi með almættinu og geti þannig haft óbein áhrif á náttúruöflin og alla framvindu. Þetta skapar þæginda- og valdatilfinningu sem fær trúmanninn til að finnast hann göfugur og merkilegur.

Þeir sem telja sig hafa höndlað einhvern slíkan sannleik og upphafningu verða svo yfirleitt manna hrokafyllstir og víla t.d. ekki fyrir sér að úthúða vísindum og vísindamönnum, hreinlega þola þá ekki með alla sína þurrkuntulegu skeptík.

Önnur og hrokafull birtingarmynd þessa er án efa orð hins kristna trúmanns sem stendur í þeirri meiningu að leiðtoginn Jesús hafi pínst og dáið á krossinum fyrir syndir hans sjálfs. Í krafti þeirra óraunhæfu hugmynda tekst hann svo á við lífið með bros á vör og fullvissu um að sér geti ekki mistekist, því verndarhendi skaparans sjálfs sé yfir honum. Miklar hörmungar hafa átt sér stað sökum þessarar ranghugmyndar valdamikilla manna.

Kannski á Lisa Simpson bestu skýringuna á þessu undarlega fyrirbæri, göfgiþránni:

HOMER: (við morgunverðarborðið daginn eftir) Það er alveg satt, ég sá veru frá annarri plánetu.

LISA: Kannski dreymdi þig það bara.

HOMER: Er það? En þegar ég kom til sjálfs mín aftur var ég þakinn slímugu, glæru klístri. Útskýrðu það!

MARGE: Viltu meiri pylsu? (Homer slefar)

LISA: Samkvæmt tímaritinu Ungi efahyggjumaðurinn eru líkurnar á því að annarskonar lífsform komist í sambandi við okkur einn á móti 175 milljónum.

HOMER: Og hvað með það?

LISA: Það þýðir að þeir sem þykjast hafa séð geimverur eru upp til hópa brjóstumkennanlegur almúgi í skítadjobbum. Ó... Og svo þú, pabbi. Haha.

Birgir Baldursson 19.04.2005
Flokkað undir: ( Nýöld )

Viðbrögð


Guðjón - 19/04/05 09:26 #

Hvers vegna er eftirsóknarvert að vera í hóp eins og vantrú? Hefur vantrú ekki uppá að bjóða flest af þessu sem þú talar um? Eru ekki aðallega tveir þættir sem vantrú snýst um annars vegar árásir á kerfið þ.e. kirkjuna og hins vegar boðskapurinn um að efahyggja sé vegurinn, sannleikurinn og lífið og þeir menn sem þann veg feta hafi meira manngildi en trúað fólk? Sækja menn ekki styrk og fullvissu í hópinn um að þeir séu betri og æðri, en fyrirlitlegir trúmenn. Njóta forystumenn efahyggjumanna ekki virðingar og aðdáunar? Innhalda kenninganna hefur breyst en eru markmiðin ekki þau sömu og áður þ.e. að vera merkilegri en gengur og gerist?


Snær - 19/04/05 09:40 #

Eru ekki aðallega tveir þættir sem vantrú snýst um annars vegar árásir á kerfið þ.e. kirkjuna...

Já, það mætti líklega segja sem svo, þó mér þyki það heldur harkalegt að kalla þessa uppbyggilegu gagngrýni "árásir".

...og hins vegar boðskapurinn um að efahyggja sé vegurinn, sannleikurinn og lífið og þeir menn sem þann veg feta hafi meira manngildi en trúað fólk?

Nei.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 19/04/05 09:41 #

Eru ekki aðallega tveir þættir sem vantrú snýst um annars vegar árásir á kerfið þ.e. kirkjuna og hins vegar boðskapurinn um að efahyggja sé vegurinn, sannleikurinn og lífið og þeir menn sem þann veg feta hafi meira manngildi en trúað fólk?

Við boðum ekki sannleikann, við viljum að fólk efist um það sem annað fólk segir (þar á meðal það sem við segjum) og við fögnum allri málefnalegri gagnrýni. Ástæðan fyrir því að kirkjan er gangrýnd meira en annað er bara af þeirri einföldu staðreynd að hún miklu meira áberandi.

Síðan tel ég mig ekki hafa meira "manngildi" en trúað fólk - fyrir mér eiga allir jafnan rétt á því að vera á þessari plánetu þrátt fyrir mismunandi skoðanir. Að segja að einhver hafi meiri rétt á því að lifa en annar er siðferðilega rangt.


G2 (meðlimur í Vantrú) - 19/04/05 09:44 #

Guðjón - það er nákvæmlega ekkert eftirsóknarvert að vera í hópi eins og Vantrú. En á meðan mannkerti eins og þú halda fram áróðri, lygum, mannfyrirlitningu, gróðabralli, lögbrotum og öðrum óþvera í nafni kristni og kirkju, er sem betur fer til hópur eins og Vantrú, sem spyrnir við fótum.


Geiri - 19/04/05 09:54 #

Sæll Birgir. Góð grein, endurspeglar ágætlega það hugarfar sem er ríkjandi hjá öndungum.

Þar sem þú ert í þessari grein að tala um þitt "fyrra líf" sem öndungur(spírítisti) langar mig að spyrja þig spurningar sem ég hef spurt þig áður en ekki fengið svar við, sem er í sjálfu sér allt í lagi þar sem þú hefur engar skyldur gangvart mér né öðrum sem "kommenta" hérna frekar en þú vilt. En þakklátur yrði ég fyrir svarið.

Spurningin: Hvað var það í ritum öndunga sem þér þótti athyglisverðast ?

Kv Geiri.


Simmi - 19/04/05 10:05 #

Það er almennur veikleiki mannlegs eðlis að hafa takmarkalausa trú á því sem það hvorki sér né skilur,og stjórnast ótilhlýðilega af því.

Júlíus Sesar.

Þetta er ekkert flóknara en það.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 19/04/05 13:32 #

Hvað var það í ritum öndunga sem þér þótti athyglisverðast ?

Ég get bara ekki svarað þessu, Geiri. Maður las nú ekkert voða mikið, nema helst Ganglera og svo þessi rit sem tiltekin eru hér að ofan. Mér fannst þetta allt saman voða merkilegt - að fara út úr líkamanum, ósjálfráð skrift, líkamningar, minni á dauðastund, blómálfar á ljósmyndum, áruljósmyndir, útfrymi, miðilshæfileikar, framtíðarsýnir og allt þetta bull sem gerði ókunnugt fólk merkilegt og göfugt.


Geiri - 19/04/05 16:19 #

Þakka hreinskilið svar Birgir. Kv. Geiri.


Ívar M. - 19/04/05 22:46 #

Hvers vegna er eftirsóknarvert að vera í hóp eins og vantrú? Hefur vantrú ekki uppá að bjóða flest af þessu sem þú talar um? Eru ekki aðallega tveir þættir sem vantrú snýst um annars vegar árásir á kerfið þ.e. kirkjuna og hins vegar boðskapurinn um að efahyggja sé vegurinn, sannleikurinn og lífið og þeir menn sem þann veg feta hafi meira manngildi en trúað fólk?

SVAR:

Vantrú er ekki trúfélag. Ég hef að vísu ekki hitt neina af þessum ágætu mönnum sem hér rita í nafni vantrúar. En ég get samt sem áður ekki annað en dáðst að og verið sammála þeirri gagnrýni sem hér kemur fram á trúarbrögð og önnur hindurvitni.

Eftir að hafa fylgst með þessum ágæta vef alveg frá byrjun, þá er ekki hægt að segja að einn eða neinn af þeim sem hér skrifa sé beinlínis að ráðast á kirkjuna og það sem að hún stendur fyrir. Hins vegar eru flestir af vantrúarmönnum gagnrýnir á það sem að kirkjan og trúarbrögð standa fyrir og eru einfaldlega með gagnrýnni hugsun og almennri skynsemi að reyna að benda trúuðum á það hvers konar vitleysa það er að fylgja skrifum og spádómum löngu látinna manna í blindni. Fæstir af þessum mönnum höfðu aðgang að þeim upplýsingum sem við höfum aðgang að í dag og því er hæpið að taka of mikið mark á þeim.

Ég hef ekki séð að þeir sem hér skrifa telji sig vera betri menn en þá sem aðhyllast kristna trú eða önnur trúarbrögð. Mín túlkun á þessum vef er sú að hér fari fram málefnaleg gagnrýni á trúarbrögð, og þessi viðbrögð þín eru alveg dæmigerð fyrir viðbrögð flestra trúaðra sem hér skrifa. Lituð af hræðslu við það að verið sé að rífa niður einhverskonar "heimsmynd" sem veitir fólki "frið" og fullvissu um það að þeir hafi ekki stjórn á eigin lífi, heldur sé allt það sem gerist stjórnað af einhverri óútskýrðri veru sem kallast gussi (GUÐ) og getur í krafti sínum haft áhrif á allt það sem gerist á þessari örsmáu plánetu.

Þetta tal þitt um að trúlausir telji sig betri menn er einfaldlega paranoia. Þið getið einfaldlega ekki tekið málefnalegri og rökstuddri gagnrýni.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.