Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Brúðuleikarar í biblíubreytingum

Árið 1991 ákvað Ólafur Ragnar Grímsson sem fjármálaráðherra að láta þýða Biblíuna á kostnað skattborgara, að beiðni biskupsstofu og kirkjumálaráðherra. Verkefnið hófst með 2,7 milljóna greiðslu og síðan hafa síauknir fjármunir farið í verkefnið á hverju ári, í samtals 14 ár. Sýnilegur kostnaður skattgreiðanda á fjárlögum er kominn vel yfir 50 milljónir á núvirði. En það er nær öruggt að dulinn kostnaður innan kerfisins er örugglega mun hærri. Það vekur sérstaka undrun að Þjóðkirkjan með sína milljarða veltu á hverju ári þurfi sérstaklega að krækja í skattpening almennings til slíkra gæluverkefna. Við þekkjum öll hið ótrúlega ólánssukk í kringum kristnihátíð árið 2000, þar sem kostnaðurinn rauk yfir hálfan milljarð. Svo kemur þessi afskræmda biblíuþýðing sem á reyndar ekkert skylt við þýðingar heldur ritbreytingar.

Í 2 tbl. Biblíutíðinda útgefið af Biblíufélaginu sem er að stofninum til undir væng ríkiskirkjunnar stendur um þessa útgáfu:

Fjárstyrkur stjórnvalda til þessa verkefnis hefur ekki dugað nema fyrir hluta kostnaðarins við það og því þarf meira til þess að hrinda útgáfunni úr vör.

Hvað kosta þá þessi herlegheit? Er kostnaðurinn komin upp í aðra Kristnihátíð? Er virkilega búið sólunda hundruðum milljóna í allskonar kristnisukk á síðustu árum hér á landi fyrir utan alla milljarðana sem hafa farið í ríkiskirkjureksturinn? Svo mikið er víst að ríkiskirkjukristnin hér á landi er ekkert annað en akfeitur úlfaldi sem mun seint komast í gegnum nálarauga almennings þegar fram líða stundir.

Biblían er til í mínu bókasafni en flokkast þar undir erlendar þjóðsögur. Þjóðsögur Jóns Árnasonar eru þar nærri en flokkast undir innlendar þjóðsögur, þó sumar þeirra eigi rætur sínar að rekja til annarra landa. Ég er viss um að ef einhver íslenskur fræðimaður færi að breyta þjóðsögum Jóns Árnasonar, vegna eigin skoðana á ævintýrunum, mætti það mikilli mótspyrnu sagnfræðinga og velunnara íslenskrar sagnahefðar. Eiginlega ætti það sama að eiga við örverpið sem kirkjan er að skapa. En frekari sannana er ekki þörf um óáreiðanleika biblíunnar. Í tvöþúsund ár hafa menn skrifað og snúið textanum á alla kanta sér í vil og velþóknunar. Núna er það hin Evangelíska íslenska kirkja sem talar fyrir hönd Yahweh og blóðfórnarsonar hans. Svona tekur textinn breytingu eftir hentugleika hvers tímabils. Það er ekki langt í að Jesú fæddist í Búðardal og var krossfestur á Arnarhóli. Svona verða þjóðsögur til.

Í gegnum aldirnar hafa klerkar talað fyrir munn guðs og túlkað skoðanir hans. Þessi sagnahefð minnir á brúðuleikhús þar sem prelátar tala fyrir munn strengjabrúðanna, því aldrei hefur hann Yahweh sagt stakt orð né verið sýnilegur nokkrum manni. Fyrir nokkrum árum fannst kirkjunnar mönnum leikritið orðið slitið og ósiðlegt. Fyrir frekju og yfirgang þeirra hefur nýtt handrit fengið ríkistyrk. Sem skattgreiðandi er ég búinn að fá nóg af þessum viðhafnarlifnaði, skrúði og orðaleikjum ríkiskirkjunnar. Það var virkilega vanhugsað af Alþingi Íslands, sem kristnir menn lögðu niður fyrir hart nær 1000 árum, að dekra við slíka textasköpun og ritbreytingar á aldagömlum ævintýrasögum. Það er kominn tími til að við skiljum á milli ríki og trúar.

Frelsarinn 18.04.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 18/04/05 00:17 #

Semsagt hundruðir milljóna fyrir eina fökkíng þýðingu! Hvað voru eiginlega haldnar margar matarveislur? Keyptir margir bílar? Farnar margar utanlandsferðir? Hvernig er hægt að verja þennan fjáraustur?


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 18/04/05 00:24 #

Hvernig væri að senda forseta Biblífélagsins, Karli Sigurbjörnssyni, fyrirspurn um heildarupphæð styrkja frá ríkinu?


G2 (meðlimur í Vantrú) - 18/04/05 09:23 #

Ég tek undir með Hjalta - látum biskupsfíflið reyna að ljúga sig út úr þessu.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 18/04/05 12:28 #

Það er líka umhugsunarvert að þessu verkefni var startað 1991 og er búið að vera í gangi í 14 ár. Ekki þurfti að þýða alla skrudduna upp á nýtt heldur yfirfara eldri þýðingar sem ætti að vera minna verk. Hvað hafa þessir menn verið að gera í öll þessi ár með allan þennan skattpening?

Hvernig væri að veita styrk í þýðingu á The Skeptics Annotated Bible? Það væri líka mun skemmtilegri lesning heldur en ný, steríl útgáfa af Biblíunni.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 18/04/05 12:32 #

Já, ég hélt að meiningin með þessari nýju útgáfu væri að færa textan til nútímalegra horfs, svo auðveldara væri fyrir yngri kynslóðirnar að lesa þetta og skilja. En nú hefur komið í ljós að það þurfti að merkingarbreyta óþægilegum versum. En hvernig getur slíkt kostað milljónatugi eða hundruði?


Orri - 19/04/05 02:39 #

Til hamingju, strákar mínir, að vera orðnir sammála Gunnari í Krossinum. Hann var að sjálfsögðu andvígur því að Biblían yrði þýtt upp á nýtt.

Enda eiga öll költ það sameiginlegt að hinum heilaga bókstaf megi eigi breyta.

Gunnar hefur eflaust gaman að því að þið skulið gerast andvígir þessu.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 19/04/05 02:49 #

Við höfum alla tíð verið sammála Gunnari í Krossinum um aðskilnað ríkis og kirkju.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 19/04/05 03:04 #

Fyrir nú utan það að ég er ekkert á móti breytingum á Biblíunni per se. Mér er skítsama hvernig þetta dót er togað og teygt, enda hefur þessi bókmennt ekkert mér að segja. Hins vegar hef ég gaman af því að benda á fáránleikann í þessu öllu um leið og ég harma alla fjármunina sem hefðu getað farið í þarfari mál.

Þetta mál allt er Þjóðkirkjunni til skammar.


Árni Árnason - 18/04/06 12:15 #

Eilítið hliðarspor, en þó ekki. Í grein Frelsarans er vikið að útgjöldum vegna hátíðarinnar "miklu" árið 2000, sem ég hef kosið að kalla Hræsnihátíð. Frelsarinn telur kostnaðinn hafa verið yfir hálfan milljarð, en ég þykist viss um að raunverulegur beinn og óbeinn kostnaður ríkisins, þegar allt er talið hafi verið nær, ef ekki yfir, heilum milljarði. Á þessum tíma var ég að leggja saman ýmsar tölur og áætlanir sem upplýst var um og man ekki betur en þetta hafi auðveldlega getað náð milljarði. Skandallinn var auðvitað sá að stjórnvöld forðuðust eins og heitan eldinn að gera nokkra samantekt á kostnaðinum, enda hefði slíkt valdið enn meiri pirringi út í þessa skrípahátíð, sérstaklega í ljósi þess að þátttaka reyndist þegar upp var staðið hreint afspyrnuléleg, og hrein sönnun þess að stjórnvöld skutu langt yfir markið í áætlunum sínum um trúaráhuga þjóðarinnar. Það var augljóst að þessi hræsnihátíð og allt sem henni tengdist skyldi grafið og gleymt sem fyrst. Nú 6 árum síðar virðist svo sem það hafi tekist hjá okkar íslensku "men in black" að þurrka út minni þjóðarinnar með óminnisgeisla sínum. Það væri þarft verk að rifja þetta allt upp fyrir okkar ótrúlega gleymnu þjóð.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.