Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Í framför

Í nýlegum Spegilsþætti í Ríkisútvarpinu fjallar Hjálmar Sveinsson um mál Terri Schiavo og þær logandi deilur sem bandarískt þjóðfélag var undirlagt kringum það hvort þessi heiladauða kona fengi að deyja. Það var á Hjálmari að heyra að hann sakni þess hve litlar deilur um jafn siðferðilega mikilvæg mál eru stundaðar hérlendis. Almennt er maður auðvitað sammála honum í slíkum efnum. Skrif okkar hér á Vantrú eru einmitt antitesa á tesu sem búin er að vera frekar óumdeild gegnum tíðina, en í þessu tiltekna máli þykir mér það hið besta mál hve lítil mótmæli eru við líknardauða.

Því hver sá sem kominn er á þá skoðun að líknardráp sé réttlætanlegt er að mínu mati siðferðilega framar á merinni en hinir sem aðhyllast hið öfugsnúna siðferði kaþólskra og annarra afturhaldsafla mikillar trúar. Öll rökræða hlýtur að hafa það markmið að sannfæra þá sem rangar skoðanir teljast hafa um réttmæti annarra skoðana, með því að beita röksemdafærslu. Og það, að ekki skuli vera heitar umræður um málefni sem manni sjálfum finnast í réttum farvegi, bendir einfaldlega til þess að þjóðfélagið hafi nánast í heild sinni hrapað að skynsamlegri niðurstöðu.

Slíkt er fagnaðarefni.

Mér yrði ómótt ef háværar raddir væru upp í samfélagi okkar um að banna líknardauða, nú eða þá að kenna ætti sköpunarsöguna til jafns við þróunarkenninguna. Það er víst alveg nóg til þess að vita að Þjóðkirkjan ali á bænahaldi og trúaráróðri í skólastofum landsins, þvert á yfirlýsta stefnu sína.

Öll mál á auðvitað að ræða og það af hita. En málefni geta líka verið útrædd og almenn sátt um réttmæti þeirra. Íslensk læknastétt hefur siðareglur sem veita svigrúm til að lina þjáningar vonlausra sjúklinga, væntanlega í samráði við ættingja. Sé þjóðin almennt á því að þetta sé skynsamlegt sýnir það okkur að við stöndum framarlega í siðferðilegu tillliti þegar kemur að þessum málaflokki.

Og það gefur vonir um að heilbrigð skynsemi mjaki okkur framávið áfram, þrátt fyrir litla jaðarsöfnuði sem boða mannfyrirlitningu og tepruskap. Látum þá bara ekki komast með puttana á stjórnvölinn.

Birgir Baldursson 12.04.2005
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 12/04/05 00:11 #

Mér finnst það ekki skipta máli beint hvort að fólk sé sammála eða ósammála í þessum efnum.

Það sem mér finnst skipta meiru máli er hvort fólk noti "guðfræðileg rök" í siðferðisumræðum eða ekki. Þeas vísi til yfirnáttúru-afla og -kennivalda.


Katrín Ólöf Einarsdóttir - 12/04/05 01:40 #

Allajafna finnst mér líknardráp ætti að leyfast í tilfelli alvarlega sjúkra en ég hef áhyggjur af því á hvaða hátt það yrði.

Í Schiavo málinu verð ég nú að segja að mér finnst óhugnalegt að það var svelt konuna og haldið vökva frá henni þangað til hún dó. Sama hvort fólk er sammála þessu eða ekki, vona ég allavega að allir geta verið sammála að láta fólkið ekki þjást meira en það þarf. Overdose er mun mannúðlegra.

Annars á að fara að gera sérstakar reglur um líknardráp svo forvitnilegt hvernig það endar.
[kannski smá útidúr =) ]


eggert - 12/04/05 01:58 #

Ég finn mig knúinn til að benda á staðreyndavillur í pistli þínum Birgir. Í fyrsta lagi var dauði Schiavo ekki líknardráp heldur líknarmorð þar sem samþykki hennar lá ekki fyrir. Í annan stað er hvortvegga bannað samkvæmt íslenskum lögum ss. líknardráp og líknarmorð. Hvað varðar það "svigrúm" sem Birgir telur íslenska lækna hafa samkvæmt siðareglum þá væri fróðlegt ef hann bennti okkur á hvar þetta stendur.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 12/04/05 02:00 #

Sammála með sveltið. Stór morfínskammtur hefði verið mannúðlegri aftaka.

mér finnst óhugnalegt að það var svelt konuna...

Ahh, nýja þolmyndin hljómar vel :)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 12/04/05 02:13 #

Hmm, er líknardráp eftir allt bannað hérlendis, þótt samþykki sjúklings og/eða aðstandenda liggi fyrir? Veð ég villu svíma í þessu máli? Þá er bara að bæta sér í flokk Hjálmars Sveinssonar og heimta að almennilegt debat fari fram um þetta með nýjum lagasetningum í kjölfarið. Það réttlætir ekkert að fólki sem vill deyja sé haldið á lífi.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 12/04/05 02:27 #

Ég held að fræðilega séð hafi mál Terri Schiavo ekki verið líknardráp, enda held ég að það sé alfarið bannað í Bandaríkjunum. Þetta kallast að neita sér um læknisaðgerð eða eitthvað í þá áttina. Ef að þetta hefði verið líknardráp þá hefði líklega verið farin önnur leið.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 12/04/05 09:01 #

Þetta er rétt hjá honum eggert að líknardráp og líknarmorð er ekki í íslenskum lögum en það er hins vegar eitthvað sem heitir líknandi meðferð og einnig þegar meðferð er hreinlega hætt.

Líknandi meðferð er í grunninn morfín í æð án neinnar næringar. Hún er notuð þegar ljóst er að frekari meðferð er gagnslaus og lengir einungis dauðastríðið. Einnig held ég alveg örugglega að það sé ekki stundað hérna að halda fólki í öndunarvél svo árum skiptir. Fólki er leyft að deyja.

Annars held ég að þessi líknandi meðferð hafi komið fyrir svona 15 árum síðan.

Annars með hana Schiavo þá er ég ósammála því að þetta hafi verið eitthvað slæmt sem þeir gerðu þegar þeir tóku næringuna frá henni. Hún fann ekki fyrir neinu, því fljótlega eftir að næringin er tekin frá henni fellur hún í dá og deyr. Sársaukalaus dauðdagi, allavega miðað við allt sem hún hefur mátt þola.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 12/04/05 09:25 #

Ahh, ég sé að ég er að rugla líknandi meðferð saman við líknardráp. Við erum semsagt enn aftur í fornesku með þessa hluti. Ég kalla eftir opinberri umræðu um þessi mál.


ORK - 12/04/05 13:23 #

Vil ég benda á bókina Bioethics, þessi bók er gerð af siðfræðiprófessor og rökstuðningur hans er frá siðfræðisjónamiðum ekki trúarlegum, hann tekur á þessu máli og verð ég að segja að hann velti erfiðum grundvallarspurningum fram sem að lét mig efast um hvort að líknardráp siðferðinslega rétt, einnig lét hann mig skipta um skoðun á fóstureyðingum. Ég man ekki hvað kallinn hét en læt vita þegar ég kem heim.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 12/04/05 13:29 #

Hmm, hvað er siðferðilega rangt við að leyfa þeim að deyja sem enga von eiga og vilja ekki lifa lengur? Ég kem í fljótu bragði ekki auga á neitt. Einu rökin sem ég hef séð borin á móti þessu eru trúarleg.


Siggi Örn (meðlimur í Vantrú) - 12/04/05 22:00 #

Það verður allavega að vera öruggt að sjúklingurinn sé í þannig andlegu ástandi að hann geti tekið ákvörðunina sjálfur. Til dæmis er ekki sjaldgæft að þunglyndissjúklingar vilji deyja en mér þætti ekki sniðugt að ósk þeirra væri uppfyllt.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 12/04/05 22:24 #

En þunglyndissjúklingum er viðbjargandi. Við erum að tala um dauða þeirra sem ekki eiga sér von um betra líf.


Siggi Örn (meðlimur í Vantrú) - 13/04/05 00:04 #

Jújú, en þunglyndi og persónuleikabreytingar geta fylgt banvænum sjúkdómum. Sjúklingur með erfiðan banvænan sjúkdóm gæti þannig í þunglyndi óskað þess að deyja. Það eru til dæmi um fólk sem hefur yfirstigið slíka hjalla og lifað sæmilegu lífi í nokkur ár.

Það eru áreiðanlega flestir sammála um það að líknardauði sé réttlætanlegur við vissar aðstæður en erfiðleikarnir sem við stöndum


Ívar M. - 13/04/05 00:39 #

Já Siggi Örn, það eru dæmi um það að helsjúkir einstaklingar hafi náð bata. Ég hef sjálfur upplifað það að sjá fársjúkann ættingja veslast upp og óska sér þess að deyja sem allra fyrst. Af hverju ekki að uppfylla slíkar óskir? Líkurnar á því að ná bata eru í mörgum tilfellum svo hverfandi að þær eru álíka miklar og að vinna í Lottó. Ef að einstaklingur óskar eftir því að fá að yfirgefa þetta líf, hví ekki? Af hverju að láta fólk þjást einungis til þess að ættingjum geti liðið betur að vita til þess að "sál" þeirra sé ennþá í hinum jarðneska líkama. Það á ekki að eyða fjármunum og mannauð í það að halda heiladauðum og fólki sem á sér ekki von um bata á lífi. Er ekki skynsamlegra að nýta fjármuni og mannauð í það að hjálpa fólki sem virkilega á sér viðreisnar von??? Þetta hljómar væntanlega frekar kalt, en ef við horfum á þetta blákalt, þá eru líklega allar skynsamar persónur sammála um það.


eggert - 13/04/05 01:34 #

Mér virðist sem svo að hér séu menn ekki alveg með á tæru sú hugtakanotkunn sem er við lýði í þessum umdeilda málaflokki. Hjúkrun sjúklinga er skipt í þrjá meginflokka:

  1. FM= Full meðferð. (þegar öllum ráðum er beytt til að lækna eða endurlífga sjúkling)

  2. FME= Full meðferð að endurlífgun. (þegar öllum ráðum er beytt til lækningar fram að endurlífgun ss. hjartastopp)

  3. LM= Líknandi meðferð. (þegar meðferð miðasta að því að lina þjáningar sjúklings til dauða)

Hvergi er þó heimilt að veita sjúklingi meðferð sem miðasat að því að hraða dauða hans. Slíkt kallast:

  1. Líknadráp= Þegar sjúklingur tekur meðvitaða og upplýsta ákvörðun um að enda eigi líf hans.

  2. Líknarmorð= Þegar læknir, hjúkrunarfólk, aðstandendur eða aðrir gera eitthvað sem miðar að því að flýta dauða sjúklings. Getur verið í formi lyfjagjafar eða jafnvel koddi yfir andlit.

Í því máli sem kom upp í BNA virðist mér sem svo að um líknarmorð hafi verið að ræða þó vissulega meigi færa fyrir því rök að það gæti flokkast sem líknandi meðferð. Í þessu máli er línan á milli þessara hugtaka afar þunn og ekki allir á sama máli þar sem siðferðishugmyndir fólks eru ólíkar og gildin og viðmiðin ekki þau sömu.

Hins vegar tel ég afar varasamt að heimila líknarmorð þar sem það vekur einungis upp fleiri spurningar en það gefur svör við. Með slíkri lögleiðingu er verið að bjóða hættunni heim þegar hver og einn læknir/aðstandandi hefur sínar eigin forsendur til að meta hvenær rétt sé að svipta aðra manneskju lífi.


Guðjón - 13/04/05 13:14 #

Ég held að menn megi passa sig á að einfalda þessi má um of. Það eru ekki til nein einföld þægileg lausn á þessu máli. Það er margvíslegar hættur sem tengjast því. Ein hættan er sú að hátæknilæknisfræði fara offari í beita græjum sínum og tólum til halda lífi í fólki sem hefur enga möguleika á að lifa lífi sem er einhvers virði.
Önnur hætta er að gengið sé gegn hagsmunum fólks sem á undir högg að sækja í nafni mannúðar. Sú kostnaðaraukning í heilbrigðismálum sem virðist vera óviðráðanleg yrði leikur einn ef maðurinn með ljáinn væri skipaður í nefndina sem á að koma með tillögur um hagræðingu og sparnað í heilbrigðiskerfinu.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/04/05 13:44 #

Ok, margt sem var gruggugt í kolli mínum komið á hreint. Takk fyrir. En Eggert, hvaða afstöðu hefur þú til þessara mála eins og þeim er framfylgt hérlendis? Er þetta í góðum farvegi að þínu mati?


eggert - 14/04/05 01:22 #

Mér sýnist sem svo að kerfið hérna heima sé ekki það versta sem til er þó eflaust mætti lagfæra eitt og annað. Kerfinu hérna heima má líkja við ölvun á almannafæri, ss. bannað samkvæmt lögum en fyrirfinnst þó engu að síður, svona einskonar "líknardauði undir borðið" ef svo mætti að orði komast.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að líknarmorð megi aldrei í lög leiða. Ég tel slíka löggjöf grafa undan ákveðinni mannhelgi og virðingu fyrir lífinu. Slíkar skoðanir þurfa ekki endilega að tengjast trúarbrögðum á neinn hátt enda sorglegt að láta trúarlega þrýstihópa "highjacka" öllum umræðum um siðferðismál. Það þarf ekki trúarbrögð til að taka afstöðu í siðferðislegum málum.

Ástæður þesss að ég tek afstöðu gegn líknarmorðum má eflaust rekja til þeirra hugmynda sem fylgjendur slíkrar stefnu halda á lofti. Ég tel að þær hugmyndir sem fram hafa komið ekki nógu sannfærandi.

Guðjón setti meðal annars fram eftirfarandi fullyrðingu (þó ég viti annars lítið um hans afstöðu í þessu máli)

"Ein hættan er sú að hátæknilæknisfræði fara offari í beita græjum sínum og tólum til halda lífi í fólki sem hefur enga möguleika á að lifa lífi sem er einhvers virði."

Það er í raun niðurlagið sem ég tel varhugavert, þe. að nokkur maður sé yfir höfuð hæfur til að meta hvort líf einhvers annars sé þess virði að lifa því. Þegar lögin gera ráð fyrir því að einhverjir sérfræðingar geti metið verðleikagildi lífs hjá sjúkum einstaklingi þá skapast sú hætta að "mannleg mistök" leiði til fjölgunar dauðsfalla á sjúkrahúsum þar sem það getur jú aldrei verið annað en huglægt mat hvers og eins sérfræðings um hvaða líf sé þess virði að lifa því og hvað ekki.

Öfgann í þessari stefnu má sjá í myrkraverkum þriðja ríkisins þar sem sjúkt og gamalt fólk var miskunnarlaust tekið af lífi, þe. fólk sem var ekki þess virði að fá að lifa. Þó vissulega sé langur vegur á milli hugmynda manna í dag og hugmynda þriðja ríkisins þá vekur þetta óneitanlega upp spurningar í þá áttina. Hversu langt á að ganga?

Eins mun lögleiðing líknarmorða bjóða þeirri hættu heim að önnur sjónarmið en mannúð verði ofaná við töku svona ákvarðanna. Hljóta aðstandendur fjárhagslegan ávinning af láti sjúklings? Eru ástæðurnar einungis þær að aðstandendur "geta" bara ekki meira? Eða hver önnur þau sjónarmið sem gætu valdið því að aðstandendur kjósi sjúkum ættingja dauða fremur en lífs.

Svo má ekki gleyma því að hvert mál er ólíkt og því afar erfitt að ætla að finna raunsæja leið til lagasetningar sem væri nógu skýr.

Ég tel því lögleiðingu líknarmorða afar hæpna leið til aukinnar mannúðar enda á ég erfitt með að setja samasem merki á milli aðgerða sem miða að dauða manneskju (sama hver tilgangurinn er) og mannúðar. Í mínum huga er mannúð einmitt það að vernda og viðhalda lífi eins vel og kostur er og veita þeim sem deyjandi eru líknandi meðferð þar sem virðing fyrir líkamlegum og andlegum þörfum sjúklingsins ráða ferðinni í stað huglægs mats sérfræðinga sem bjóða upp á lausnina "banvæn sprauta".


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 14/04/05 11:29 #

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að líknarmorð megi aldrei í lög leiða. Ég tel slíka löggjöf grafa undan ákveðinni mannhelgi og virðingu fyrir lífinu.

Er það virðing við manneskjuna að láta hana þjást, kannski árum saman, þegar hún í vonleysi sínu óskar sér einskis fremur en deyja? Er það ekki miklu fremur virðingarleysi fyrir sjálfsákvörðunarrétti fólks?


Egill/drekinn - 14/04/05 19:43 #

Ég vil benda fólki á þessa síðu: http://en.wikipedia.org/wiki/Terri_Schiavo

Þarna er hlutlaus úttekkt á staðreyndumum í Schiavo málinu. Það sem stendur uppúr í því máli er auðvitað hræsnin og ótrúlega afskiptasemin sem stjórnvöld sýndu í þessu máli. Það er hreint ótrúlegt hvað menn virðast lítið pæla í því að í þessu máli gerðust stjórnvöld nokkrum sinnum sek um að brjóta gegn stjórnarskrá BNA.

Ég skrifaði á sínum tíma grein um þetta mál ef einhver hefur áhuga: http://www.sus.is/greinar/nr/686


eggert - 15/04/05 01:07 #

Þetta er áhugaverð spurning hjá þér Birgir en vekur í raun upp fleiri spurningar. Ekki fyrir alllöngu síðan viðraði ég þá skoðun mína við vin minn að stríðið í írak væri nú ekki heppihlegasti kosturinn í samskiptum þjóðanna en vinurinn svaraði eitthvað á þessa leið: "Átti þá að láta Saddam halda áfram að drepa saklaust fólk"

Ég verða að viðurkenna að spurningin kom mér úr jafnvægi en þegar mér gafst kostur á að hugleiða innihald spurningarinnar án þrýstingsins um skjótfengið svar áttaði ég mig á einu:. Ég lét ekki Saddam vera vondan. Ég lét hann ekki drepa fólk. Ábyrgðin getur aldrei verið mín.

Því tel ég það óbáyrgt að stilla málum svona upp. Að þjáning náungans sé mér að kenna af því ég gerði ekkert til að lina þær!?. Í þessu tilfelli með banvænni sprautu, kodda yfir andlit eða fjarlægja grunnþörf manneskjunnar eins og næringarleiðslur.

En sourningin sem Birgir varpaði fram kom mér þó á óvart fyrir aðrar sakir en þær að vera illa ígrunduð. Birgir spyr nefnilega hvort að það sé ekki virðingarleysi fyrir sjálfsákvörðunarrétti fólks að fá að deyja kjósi það slíkt. Það kann vel að vera. En í þessu máli sem og öðrum líknarmorðsmálum þá hefur sjúklingurinn ekkert um það að segja. Ákvörðunin er tekin af aðstandendum í samráði við lækni eða öfugt.

Því get ég vissulega endurtekið fullyrðingu mína um að ég sé alfsarið á móti því að líknarmorð skuli lögleidd á nokkurn hátt.

Ef sjúklingurinn hefur rænu og vit á að meta sjálfur hvurslags meðferð hann kýs þá kallast það líknardráp en ekki líknarmorð og það er einmitt líknarmorð sem verið er að fjalla um í máli Terri Schiavo.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 15/04/05 01:51 #

En hver er afstaða þín til líkardráps?

Eiginmaður Terri talaði um að hún hafi haft á orði að hún vildi ekki að henni væri haldið á lífi með vélum, kæmi til þess að slíkt ástand kæmi upp. Það vill stundum gleymast í umræðunni og því jafnvel hægt að tala um líknardráp í tilviki hennar.

Ætli sé ekki best að ég lýsi yfir einhverju svipuðu, maður veit aldrei hvað gerist:

Ég krefst þess að mér verði ekki haldið á lífi með vélbúnaði, sé öll von um bata úti og ég ekki fær um einföldustu hluti sem gefa lífinu gildi. Verði mér ógerlegt að láta óskir mínar í ljós, þá er þær að finna hér.


eggert - 15/04/05 03:48 #

Þetta er vissulega sjónarmið Birgir. Eins og ég sagði áður þá er eflaust hægt að færa rök bæði með og á móti því hvort um líknarmorð eða líknardráp hafi verið að ræða í tilfelli Terri. Niðurstaða slíkra rökræðna getur að mínu mati aldrei náðst að því marki að allir verði sammála. Kemur þar inn í mat hvers og eins á tilteknum rökum sem hann síðan metur út frá eigin siðgæðisvitund.

Ef það er staðreynd að Terri hafi í raun sagt eiginmanni sínum að hún kysi fremur að deyja í stað þess að vera haldið á lífi í vélum þá vakna upp ýmsar erfiðar og óþægilegar spurningar sem ég tel að lagasetning geti aldrei náð yfir svo vel sé.

Sú fyrsta gæti snúist um það af hverju Terri var látin bíða í 15 ár í kröm áður en hún var svelt til bana?

Sem óhjákvæmilega leiðir hugann til tímarammans sem við þyrftum að skilgreina. Hvenær á að aflífa fólk? Eftir hvað langan tíma? Hversu mikið þarf fólk að vera veik? Osfr osfr.

Eins verðum við að átta okkur á því að ósk Terri höfum við aðeins frá eiginmanni hennar. Ósk sem hún bar upp við hann amk. 15 árum áður (ef það er rétt skilið hjá mér að hún hafi verið heiladauð sl 15 ár)

Þó ég ætli nú ekki að saka eiginmann Terri um lygar þá vekur þetta enn og aftur upp spurningar eins og hagsmunavon aðstandenda við lát sjúklings. Í þessu tiltekna máli komu foreldrar Terri fram og sögðust draga í efa þessa afstöðu sem eiginmaður Terri eignar henni. Þau þekktu dóttur sína líka vel rétt eins og hann.

Eftir þeim upplýsingum sem liggja á borðinu varðandi mál Terri Schiavo má sjá að ekkert eitt svar er rétt. Báðir aðilar hafa eitthvað til síns máls. En ef sá sem telur líflát Terri í lagi, hefur rétt fyrir sér, er ekki þar með sagt að sá sem er því andvígur hafi rangt fyrir sér.

Tvær hliðar!

Annars þykir mér þetta sniðug hugmynd hjá þér Birgir að lýsa því svona yfir opinberlega hver þín ósk er. Gefur góða hugmynd um svona líknardauðakort svipað líffæragjafakortum. Þá getur viðkomandi einstaklingur komið óskum sínum á framfæri um hvað skuli gera í erfiðum aðstæðum. Kannski er það aðeins þannig sem fólk hefur raunverulegt val um hvað gera skuli. Ákvörðun sem er tekin án veikinda, verkja eða andlegri vanlíðan. Byrgja brunninn og allt það.

En svona til að svara fyrstu spurningunni þinni Birgir þá er ég á báðum áttum með líknardráp. Ég er hræddur við einhverskonar lögleiðingu og skilgreiningar. Það er aðeins til þess fallið að gera fólk að glæpamönnum.

Ég held að kerfið virki vel eins og það er í dag. Bannað en sjálfsákvörðunarréttur fólks virtur. Þetta gerist vissulega innan heilbrigðiskerfisins en enginn er nógu klikkaður til að skipta sér af því sem honum kemur nákvæmlega ekkert við.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 15/04/05 12:45 #

Semsagt: Kerfið er til fyrirmyndar og ekkert þarf frekar að ræða. Það var einmitt sú skoðun sem ég setti fram í greininni hér að ofan.

Það eina sem skiptir máli er að mannúð ráði för. Að halda fólki á lífi þjáðu og vonlausu er ekki mannúð heldur hið þveröfuga, blandið fullkominni eigingirni.

En ætli sé ekki best, í ljósi þess sem þú segir um líffæragjafir, að þetta komi hér fram:

Úr mér má hirða hvaða stykki sem er og græða í aðra, þegar séð verður að það komi mér ekki að frekari notum sökum heiladauða eða annars sem fært hefur mig að dauðans dyrum.

Ég geng reyndar með danskt dónorkort í veskinu, en veit ekki hvort íslenskir læknar mega taka mark á því. Nú ættu þeir ekki að velkjast í vafa.


eggert - 15/04/05 18:42 #

Ég verð að byrja á því að afsaka einkar óábyrg skrif hjá mér. Svo virðist sem þekking mín á hugtökum sé um margt ábótavant og nær væri að tala um vanþekkingu. Ég gerðist sekur um það að leggja avo til að jöfnu líknardráp og líknandi meðferð.

Ekkert gæti verið fjær sannleikanum og því skulu orð mín um "líknardráp undir borðið" falla dauð og ómerk. Það var síður en svo ásetningur minn að saka læknastéttina um línardráp, slíkt væri bæði óábyrgt og rangt.


Bjarki - 16/04/05 21:13 #

2. Líknarmorð= Þegar læknir, hjúkrunarfólk, aðstandendur eða aðrir gera eitthvað sem miðar að því að flýta dauða sjúklings. Getur verið í formi lyfjagjafar eða jafnvel koddi yfir andlit.

Mitt álit sem áhugamaður. Líknarmorð var þetta ekki eins og lesa má úr þessari skilgreiningu enda er slíkt bannað með lögum í Bandaríkjunum eins og hér, og eins og við vitum fengu dómstólarnir þar rækilega að fjalla um þetta. Henni var ekki veitt meðferð til að hraða dauða hennar heldur var meðferð til að halda henni á lífi hætt.


eggert - 17/04/05 00:57 #

Eflaust mætti betrumbæta þesar skilgreiningar hjá mér. Þær eru ónákvæmar og og margtúlkanlegar.

Ég verð þó að vera ósammál þér Bjarki hvað varðar síðasta svar. Ég tel að um líknarmorð hafi verið að ræða og það með mjög skelfilegri aðferð. Gleymum því ekki að næring telst ekki til meðferðar heldur mannréttinda. Það telst til frumþarfa mannsins að næra sig og því getur það ekki talist læknisfræðileg meðferð þó svo næringin fáist í gegnum slöngu.

Ef slík rök ættu að duga til réttlætingar líknarmorða þá má einnig spyrja að því hvort ekki hefði verið mannúðlegra að kæfa hana í koddanum. Í báðum tilfellum er verið að svipta manneskjuna lífsnauðsynlegum frumþörfum. Eini munurinn er tímalengdin: Hún hefði kafnað á 5 mínútum í stað þess að svelta á 15 dögum. Líknarmorð var þetta víst, bæði fyrir íslenskum lögum og þeim bandarísku.

Það sem mér þykir þó standa upp úr í öllum þessum vangaveltum er sú vangeta fjölmiðla og fræðimanna þar vestra að ræða málið á skynsamlegum nótum. Annarsvegar vorum við með hóp trúarflokka sem gengu hart fram í andstöðu sinni við líflátið og hins vegar "almennar" skoðanir sem miðuðust aðallega út frá því að trúarliðið hefði rangt fyrir sér.

Þarna tel ég skorta algerlega vitrænar umræður um málefnið. Má vel vera að hinir trúuðu hafi skort allar forsendur fyrir eðlilegum umræðum og hugmyndir þeirra um ástæður andstöðunnar eflaust hin mesta rökleysa. En það er ekki þar með sagt að trúarrökin séu þau einu sem hallast að ólögmæti aftökunnar. Vandamálið var að aðrar raddir heyrðust ekki.

Annars hef ég verið að velta því fyrir mér hvort ekki felist mótsögn í orðunum líknarmorð og líknardráp. Ég á mjög erfitt með að setja samasem merki á milli líknar og mannúðar annarsvegar og morða og drápa hins vegar.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 17/04/05 01:23 #

Morfínóverdós hefði verið máli í tilviki Terri. Mér finnst þetta svelti ekki beint geðsleg aðferð.


Bjarki - 17/04/05 12:34 #

Morfínóverdós hefði náttúrulega þýtt að um líknarmorð hefði verið að ræða að hætti Dr. Kevorkian.

Á mannamáli mætti kalla þetta hártoganir en það hlýtur að vera skýr lagalegur munur á að framkvæma eitthvað sem veldur dauða eða að framkvæma ekki eitthvað sem heldur lífi. Það var fjallað um þetta mál á nánast öllum dómstigum og hjá löggjafanum og eina sem ég er að segja er að ég þykist ekki vita betur um bandarísk lög en bandaríska dómskerfið.

Þessvegna einmitt var svelti eina leiðin og ég þykist nokkuð viss um að hún hafi ekki verið látin þjást.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 17/04/05 12:48 #

Eins og ég segi, ég er hlynntur líknarmorðum, svo lengi sem mannúðin er í fyrirrúmi. Hugtakið „morð“ situr ekkert í mér þarna, heldur er þetta sama mannúðlega afstaðan og þegar kvöldum ketti, sem ekki mun bera barr sitt, er lógað.

Að láta menn og skepnur sem okkur þykir vænt um tóra von úr viti við ömurleg lífsgæði/lífsskilyrði er ekkert annað en eigingirni.

En sennilega var Terri of heiladauð til að finna nokkurn mun á seddu og svelti, satt er það.


Bjarki - 17/04/05 12:58 #

Þetta er ekki samanburðarhæft við að kæfa einhvern sem getur andað með kodda en er nákvæmlega það sama og að slökkva á öndunarvél sjúklings sem getur ekki andað sjálfur.

Ávallt að því gefnu að viðkomandi sé án meðvitundar og það varanlega.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.