Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Samsærisafsökunin

Oftar en ekki þegar goðsögur kristninnar eru ræddar þá heyrast undalegar tilvistarkreppuafsakanir til að reyna breiða yfir vandræðaganginn. Ein afsökunin er sú að segja þá, sem telja söguna um Jesú Krist skáldsögu, halda því fram að gjörvöll kristin kirkja sé eitt allsherjar samsæri. Þetta er eflaust sagt til að gera gagnrýnandann tortryggilegan í augum allra þeirra milljóna manna sem trúa á Jesú Krist. En sannleikurinn er sá að þessi samsærisafsökunin hittir þá kristnu afar illa. Nú vill svo til að kristið fólk trúir ekki því sem búddistar, hindúar eða ásatrúarfólk trúir á. Þar af leiðir hittir þessi afsökun þá sjálfa verst fyrir.

Trúarbrögð eiga sér sínar sögulegu rætur og hafa ekkert með samsæri að gera. Það sem kristið fólk áttar sig ekki á er að trú þeirra um son guðs er ekki ný af nálinni. Í raun hafa slíkar sögur velkst um öldum saman í mörgum myndum undir ýmsum nöfnum. Þannig er bæði boðskapur Krists og hegðun margnotað leiksvið guðssona, hvort sem það er meyfæðing, dæmisögur, lærisveinar, fjallræður, vatnsganga, matargjafir, kraftaverkalækningar, kvöldmáltíð, svik, krossfesting, syndaaflausn, fórnardauði, upprisa eða annað. Þetta er allt endurtekið efni sem rekja má aftur frá tíma fyrstu samfélaga á jörðinni til þess dags að meintur Jesú átti að fæðast.

Þegar kristni var að festa rætur sínar í Róm, eftir að kristnir höfðu myrt trúarleiðtoga og helstu fylgjendur annarra trúarbragða, brennt guðshús þeirra eða yfirtekið þau, var páfinn í Róm í mestu vandræðum með fylgjendur Mítra. Mítra var sonur guðs, fæddur 25. desember með meyfæðingu í fjárhúsi. Hann kom með öllum þeim sjálfsögðu græjum sem fylgjendur Jesú þekkja: Tólf lærisveina, fórnardauða vegna synda okkar o.s.frv. Í guðshúsum Mítra var altarisganga, reykelsi og söngur sem Rómarkirkjan tók sér síðar til fyrirmyndar.
Vandamálið var að Mítra var 700 árum á undan Jesú og til að forða fólki frá þeirri trú var sú yfirlýsing gefin út af páfa að Mítratrú væri samsæri Satans á jörðinni gegn kristnu fólki. Satan átti að hafa farið aftur í tíman og komið Mítra fyrir til að rugla kristið fólk í ríminu. Til frekari upplýsingar voru höfuðstöðvar Mítratrúar á Vatikanhæðinni í Róm og páfinn þeirra hét papa. Auðvitað var Mítra ekkert samsæri frekar en kristin kirkja. Allt hefur þetta sínar samfélagslegu skýringar á sama hátt og þjóðsögur íslendinga um drauga, álfa og tröll.

Vissulega er lítið svigrúm fyrir ný meiriháttar trúarbrögð með nýjum sonum guðs og kraftaverkasýki á tækniöld. Á tækniöld eru flestar þjóðsögurnar uppfærðar með fljúgandi furðuhlutum, geimverum, nýaldarlækningum o.s.frv. Um þessi hindurvitni skapast hópar sem hafa sig mismikið í frammi. Ekkert af þessu er samsæri nema þá gegn kristinni kirkju sem er í bullandi samkeppni á sama markaði. Eitt eiga þó þessar þjóðsögur sameiginlegt nú til dags, en það er gríðarlegur fjöldi fólks sem hefur atvinnu af öllum þessum hindurvitnaiðnaði. Flest þetta fólk trúir einlæglega á þessi fyrirbæri þó þau standist ekki náttúrulögmál, og sumt þetta fólk hefur flækst í þennan iðnað af sjálfsbjargarviðleitni.

Er þetta allt eitt allsherjar samsæri? Nei, ekki frekar en það að benda trúfólki réttilega á að það lifir í blekkingu.

Frelsarinn 03.04.2005
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Ragnar Geir Brynjólfsson - 03/04/05 18:57 #

„Þannig er bæði boðskapur Krists og hegðun margnotað leiksvið guðssona, hvort sem það er meyfæðing, dæmisögur, lærisveinar, fjallræður, vatnsganga, matargjafir, kraftaverkalækningar, kvöldmáltíð, svik, krossfesting, syndaaflausn, fórnardauði, upprisa eða annað. Þetta er allt endurtekið efni sem rekja má aftur frá tíma fyrstu samfélaga á jörðinni til þess dags að meintur Jesú átti að fæðast.“

Fyrst svo er þá vilt þú kannski vera svo vinsamlegur við okkur trúarnöttarana að nefna eitt dæmi um trúarbrögð þar sem þetta kemur allt fyrir? Eða kannski bara trúarbrögð þar sem eitt af þessum atriðum kemur fyrir?

„Þegar kristni var að festa rætur sínar í Róm, eftir að kristnir höfðu myrt trúarleiðtoga og helstu fylgjendur annarra trúarbragða, brennt guðshús þeirra eða yfirtekið þau, var páfinn í Róm í mestu vandræðum með fylgjendur Mítra. Mítra var sonur guðs, fæddur 25. desember með meyfæðingu í fjárhúsi. Hann kom með öllum þeim sjálfsögðu græjum sem fylgjendur Jesú þekkja: Tólf lærisveina, fórnardauða vegna synda okkar o.s.frv. Í guðshúsum Mítra var altarisganga, reykelsi og söngur sem Rómarkirkjan tók sér síðar til fyrirmyndar.“

Hvernig gat páfinn í Róm verið í vandræðum með fylgjendur Mítra fyrst kristnir voru búnir að „myrða trúarleiðtoga og brenna guðshús“. Af hverju gátu þeir ekki gert það sama við Mítra? Viltu kannski vera svo vinsamlegur að nefna dæmi um trúarleiðtoga sem kristnir drápu og dæmi um guðshús (þú hlýtur að eiga við hof) sem voru brennd?

Fróðleikur þinn um Mítra virðist vera nokkuð fullkominn ef horft er á það að lítið virðist vera vitað um þennan guð, samanber Wikipaedia:

http://en.wikipedia.org/wiki/Mithraism:

„Mithraism is best documented in the form it had acquired in the later Roman Empire. It was an initiatory 'mystery religion,' passed from initiate to initiate, like the Eleusinian Mysteries. It was not based on a supernaturally revealed body of scripture, and hence very little written documentatory evidence survives.“

„In the absence of any Mithraist scripture, all we know about Mithras is what can be deduced from his images in the mithraea that have survived.“

Byggja upplýsingar þínar á nýjum rannsóknum eða uppgreftri? Ertu kannski fornleifafræðingur í felum „Frelsari“?

Kveðja, Ragnar Geir Brynjólfsson.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 03/04/05 19:50 #

Nægir ekki heimildaöflun?


frelsarinn@vantru.net (meðlimur í Vantrú) - 03/04/05 20:00 #

Stutt svar við fyrri spurningunni, þú getur skoðað hér smá samantekt um syni guða http://www.vantru.net/2004/05/19/00.01/ Síðar mun ég fjalla um þetta efni lið fyrir lið.

Varðandi spurninguna hvers vegna páfinn átti í baráttu við þá sem trúðu á Mítra þrátt fyrir að máttarstólpum þeirrar trúar hafði verið bolað út. Þó að æðstuklerkar Mítra voru út leik voru sterk samfélagsleg áhrif frá Mítra trúnni. Sama myndi gerast ef Vatikanhæðinni yrði lokað og fólki bannað að trús á Jesú. Slík trúarbrögð lifa í ákveðinni hefð í langan tíma. Spurning er bara hvernig farið að því að losna við trúarbrögð. Til dæmis er fæðingardagur Jesú þ.e.a.s. 25 desember frá Mítra svo ekki sé talað um ýmsa kirkjusiði sem við þekkjum í dag (altarisgangan, reykelsi í kaþólsku, söngur o.s.fr.). Með því að skipta Jesú út fyrir Mítra með gríðarlegri grimmd Konstantín Keisara gegn meintum villumönnum var kristni endanlega komið á sem ríkistrú. Meiri segja var Gnostísk kristni útrýmd með gríðarlegri grimmdarverkum, en þeir töldu Jesú ekki jarðneskan heldur anda sem kom til jarðar að frelsa okkur mennina. Meira um það síðar. Kveðja, Frelsarinn.


frelsarinn@vantru.net (meðlimur í Vantrú) - 03/04/05 20:05 #

Svona til skemmtunar þegar fornleifafræðingar fundu áletrun á Vatikanhæðinni, ef ég man rétt, Ég er kletturinn. Þá hoppuðu menn hæð sína í loft upp af gleði og töldu sig hafa fundið ummerki um Pétur Postula (þau fyrstu því engin hafa fundist). Síðar fór allt í steik þegar í ljós kom að þetta voru orð Mítra.


Ragnar Geir Brynjólfsson - 03/04/05 21:19 #

„Nægir ekki heimildaöflun?“

Jú, heimildaöflun nægir. Ef „Frelsarinn“ vildi nú bara nefna þó ekki væri nema eina heimild, aðrar en síður sínar hér á vantru.net þá væri það frábært. Hann vitnar t.d. í síðu á vantrú og samkvæmt henni þá eru þetta eiginleikar Mítra:

Fæðingin er kraftaverk Hann er fæddur í helli/fjárhúsi (- As) og tilbeðin af fjárhirðum Hann er kallaður frelsari (og mannsonurinn - B) Hann heldur síðustu máltíðina með lærisveinum sínum Þeir drekka blóð og borða líkama hans Hann rís upp frá dauðum Hann fer til himna

Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um þessar heimildir um guðinn Mítra, en það virðist vera einhver bið eftir þeim. Það sem hann segir um Konstantín keisara getur líklega staðist að hluta, sjá t.d. hérna (neðst á síðunni):

http://www.newadvent.org/cathen/04295c.htm

En efnislega virðist hann þekkja það í smáatriðum og því væri líka fróðlegt að sjá heimildirnar.

Það virðist líka þurfa að bíða eftir þessari heimild frá honum:

„Enda var það dagsskipun páfans þegar Rómarkirkjan hafði náð sér á strik að drepa alla Gnostíkara ef til þeirra náðist.“

Sjá: http://www.vantru.net/2005/03/31/00.27/ neðst.

Kveðja, RGB.


frelsarinn@vantru.net (meðlimur í Vantrú) - 03/04/05 21:29 #

Hafðu þolinmæði ágæti, RGB. Ég skal búa til sérstakt erindi hér á Vantrú um Mítra. Safna saman mínum heimildum sem ég á uppí bókaskáp. Einnig mun ég fjalla um trúbræður ykkar Gnosta sem var komið fyrir kattarnef af Rómarkirkjunni. En það er efni í heila grein og gott betur. Bestu kveðjur, Frelsarinn


Sigurður Hólm Gunnarsson - 03/04/05 21:32 #

Ég vil benda Ragnari Geir á eftirfarandi greinar á www.skodun.is: Fæðingu sólarinnar fagnað og Hvers vegna dó Bel?

Í fyrri greininni er sérstaklega fjallað um trúnna á Mítra og hvernig hún tengist kristni.

Þar segir:

Trúin á Mítra hófst líklegast í Persíu í kringum árið 2000 f.o.t. Mítra var rétt eins og Jesús sonur guðs og jarðneskrar konu sem einnig var hrein mey. Sagan segir að Mítra hafi fæðst á 25. desember ýmist í gripahúsi eða í helli og að fjárhirðar, sem urðu vitni að fæðingunni, hafi fært honum gjafir. Mítra var kallaður frelsari, lambið, ljós heimsins, sól réttvísinnar. Hann á að hafa framið fjölmörg kraftaverk, þar á meðal reisti hann mann upp frá dauðum, læknaði lamaða, gaf blindum sýn og rak illa anda úr mönnum. Rétt eins og Jesú borðaði Mítra síðustu kvöldmáltíð sína ásamt tólf lærisveinum áður en hann steig upp til himna. Á síðustu kvöldmáltíðinni neyttu þeir meðal annars sakramentis eða brauðs sem var skreytt með krossi. Eftir að Mítra dó var líkneski af honum búið til úr steini og var það sett inn í grafhýsi en síðan aftur fjarlægt þaðan þar sem því var trúað að Mítra hefði sigrast á dauðanum og stigið upp til himna. Þeir sem trúðu á Mítra trúðu því jafnframt að til þess að komast til himna eftir dauðann þyrftu menn að skírast. Samkvæmt trúnni mun Mítra koma aftur til jarðar fyrir heimsendi og dæma mannkynið. Trúin á Mítra var afar útbreidd í Rómarveldi á fyrstu dögum kristninnar og voru þessi tvö trúarbrögð lengi álíka vinsæl, enda keimlík. Þannig var Mítra útnefndur "verndari rómverska heimsveldisins" árið 307 e.o.t. Nokkrum árum síðar eða árið 325 tók Konstantínus þáverandi Rómarkeisari þá ákvörðun að kristni skyldi taka við sem ríkistrú Rómarveldis. Rétt rúmum 30 árum síðar eða árið 358 hófu kristnir að ofsækja þá sem trúðu á Mítra. Margar af helstu athöfnum kristinnar trúar eru nákvæmlega þær sömu og voru stundaðar af fylgjendum Mítra. Má þar nefna sakramentið, skírnin, ýmsar hátíðir og það að halda upp á hvíldardaginn á sunnudegi, degi sólarinnar. Gyðingar og ýmsir kristnir "sértrúar"söfnuðir (t.d. Sjöunda dags aðventistar) halda þó enn upp á hvíldardaginn á laugardegi, enda er það hvíldardagurinn samkvæmt Biblíunni.

Með seinni greininni, sem fjallar um sólguðinn Bel (kallaður Baal í Biblíunni), er nokkuð ítarleg (en engan veginn tæmandi) heimildaskrá sem lesendur geta dundað sér við að lesa sjálfir.

Það er varla umdeilt lengur að goðsögur Biblíunnar eru nær allar byggðar á eldri goðsögum. Kirkjufeðurnir á þriðju og fjórðu öld vissu sjálfir af þessum tengslum og fjölluðu mikið um þetta í ritum sínum. Útskýring þeirra (og seinnitíma bókstafstrúarmanna) var sú að djöfullinn hefði komið til jarðar á undan kristi í líkjum eldri guða (Bel, Mítra, Krisna, Dionysus, Osiris o.s.frv.) til að villa um fyrir fólki. Semsagt þeir neituðu því ekki að sögur um fyrrgreinda guði voru til löngu fyrir meinta tilvist Krists. Þeir vildu hins vegar ekki viðurkenna að kristnir hefðu kóperað gamlar goðsögur og búið til nýja í kringum Jesú. Í blindri trú sinni héldu þeir því fram að þessu hafi verið öfugt farið. Djöfullinn bjó til goðsögur aftur í tímann til að draga úr trúverðugleika Jesú í framtíðinni.

Semsagt allt, nema það sem stendur í Biblíunni, er blekkingar djöfulsins. Ég veit ekki hvað ykkur finnst en mér finnst þessi útskýring ansi þunn.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.