Fyrir allnokkrum vikum birtist grein aftan á Fréttablaðinu eftir Jón Gnarr, þar sem hann talaði um hve ómerkileg ásókn okkar væri eftir því sem við köllum lífsgæði. Ég gat ekki að því gert að detta í hug boðskapur guðspekingsins Jinarajadasa, sem Þórbergur gagnrýndi með svo glæstum hætti í Heimspeki eymdarinnar.
Þessi ritgerð Þórbergs hefur gegnum tíðina reynst mér haldgott tæki til að koma auga á ýmislegt kjaftæði í málflutningi manna í kringum mig. Hann hafði til að bera nógu beittan huga til að sjá gegnum allt þetta hljómfagra glundur sem við hin erum svo gjörn á að láta sefja okkur:
Þér svöruðuð, að ófarsæld og ytri eymd væru hjálparmeðul til andlegs þroska. Slíkt hið sama kennir oss peningasiðfræði auðkýfinganna. En ég álít, að efnaleg eymd, ófarsæld og mentunarleysi séu oftast þröskuldur á vegi andlegs þroska. Og í nafni þessarar sömu skoðunar hafa mætustu menn mannkynsins á öllum öldum látlaust kostað kapps um að ryðja þessum tálmunum úr vegi. Öll mannleg menning er ávöxtur þeirrar ódrepandi viðleitni að sprengja í sundur víggirðingar andlegrar og efnalegrar eymdar. Aðeins trúaðir einfeldningar og auðugir hræsnarar hafa kent mannkyninu heimspeki eymdarinnar.
Og aðeins seinna í bréfi sínu til gúrúsins segir Þórbergur:
Heimspeki eymdarinnar er svikaheimspeki. Til hafa að sönnu verið menn, er hafa getað beðið til guðs með tóman maga niðri í sorpinu, svo sem hinn heilagi Franz frá Assisi. En þeir eru hátíðlegar undantekningar. Allan þorra manna hefir ytri eymdin, örbirgðin, mentunarleysið og örvæntingin gert að óhreinum skepnum.
Þórbergur tekur svo dæmi úr sögunni til að sanna mál sitt. Á 16., 17. og 18. öld var eymdin mikil í landinu og þar með lítið um vitringa og andlega fræðara. Hallgrímur Pétursson er eiginlega sá eini sem hægt væri að draga fram, en hann teldist þó nokkuð efnaður maður á þeirra tíma mælikvarða og átti alltaf nauðþurftir. Holdsveikin segir Þórbergur að hafi síður en svo gert þennan mann að því skáldi sem hann varð:
Hann orti vel, áður en holdsveikin lagðist á hann. (En ég get skotið því hér inn á milli sviga, að ég hefi aldrei fundið mikilleikann í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar. Eftir mínum smekk eru þeir hversdagslegt þrælasiðferði, dapurlegir og lásigldir eins og tímarnir, sem höfundurinn lifði á. Og ég hygg jafnvel, að þeir hafi dregið þrek og kjark úr þjóð minni með sínu ámáttlega voli og kveinstöfum). Á Íslandi hefir margur maðurinn bæði fyr og síðar orðið holdsveikinni að bráð. Og vér höfum ekki orðið annars varir en þeir hafi sofnað jafnþroskaðir burt úr heiminum og þeir vöknuðu til hans.
Þórbergur teflir svo fram Matthíasi Jochumssyni, sem lést 85 ára gamall, var alltaf hraustur, át eins og hákarl og:
... virtist aldrei eiga við neina sérstaka ytri eymd að stríða, nema að guð gaf honum þrjár góðar konur. Þrátt fyrir það orti hann sálma og andlega lofsöngva, sem að mínum dómi skara fram úr sálmagerð hins volaða holdsveikissjúklings Hallgríms Péturssonar.
Og við gætum nefnt Laxness sem annað slíkt dæmi. Hann furðaði sig ætíð á þeirri þjóðsögu að menn gætu ekki orðið séní nema vera á hungurmörkunum. Sjálfur hefði hann, að því er hann best mundi, aldrei misst úr máltíð alla sína ævi.
Og áfram heldur Sobbeggi afi í þessari frábæru ritsmíð:
Heimspeki hinnar mannbætandi ytri eymdar er söguleg fölsun. Vafalaust er yður sú staðreynd kunn, að meginþorri ágætismanna heimsins er hvorki upprunninn úr stétt öreiga né auðkýfinga. Þeir eru komnir úr miðstétt mannfélagsins. Þetta er staðreynd. Og allir guðspekingar bera virðingu fyrir staðreyndum. „Engin trúarbrögð eru sannleikanum æðri.“1 Ef heimspeki hinnar mannbætandi ytri eymdar væri „sannleikur“, en ekki „trúarbrögð“, þá ættu úrvalsmenn mannkynsins að vera komnir úr stétt öreiga og volaðra. Þetta auðvirðilega eymdardekur, sem hefir jafnan verið öflugur þáttur í þrælasiðfræði kirkjunnar, er trúarsetning, fundin upp af auðugum hræsnurum, er hafa spekúlerað í eymd mannanna, og boðuð og viðhaldið af saklausum einfeldningum, sem ekki vita, hvað þeir eru að gera og þjónum auðmannanna, prestum og prelátum, er vinna fyrir sér með vísvitandi trúarbragðafölsun.
1Þetta eru einkunnarorð guðspekinnar.
Á pistli Jóns Gnarr þarna fyrir nokkrum vikum er helst að sjá að hann þrái að vera öreigi. Honum líður greinilega undarlega yfir að hafa vegnað vel í lífinu og vildi helst að það hefði ekki gerst. Í augum hans er það þó nægileg réttlæting að þykjast ekki eiga það sem maður á, heldur vera með það í láni. Að vera fátækur í anda táknar fyrir honum þann skilning að maður sé, þrátt fyrir eigur sínar, öreigi.
Gott og vel, en slær hann þá hendinni á móti öllum þessum lánshlutum, eða réttlætir hann græðgi sína með þessum afkáralega hugsunarhætti? Hér er ekkert annað á ferðinni en heimspeki eymdarinnar enn á ný, en nú í nútímalegum búningi. Nú er nóg að eymdin sé ímynduð, því of sárt er að þurfa að upplifa fáktækt og eymd mitt í allsnægtarþjóðfélaginu.
Ef Jón Gnarr ætlar að vera sjálfum sér samkvæmur ætti hann að láta jarðneskar eigur sínar róa og gerast sá fátæklingur sem hann greinilega þráir að vera. Enginn bíll, Jón. Ekkert eigið húsnæði, heldur kannski háalofts- eða kjallarakytra sem grjótharður leigusali getur sagt þér upp með engum fyrirvara. Matarpeningar er eitthvað sem þú getur ekki gengið að vísu. Strætó verður meira lúxus að nota á köldum óveðursdögum heldur en regla, sökum þess hve dýr hann er. Og þú átt ekkert VISA til að kaupa með bækur á Amazon, engar bíóferðir, ekkert sjónvarp, engar matarveislur, ekkert öryggi.
Bara gjaldfallnar skuldir.
Jón Gnarr er alveg jafn hallur undir lífsgæðin og við hin. Það er einungis þessi ruglaða trú sem hann hefur tekið sem byrjuð er að baka honum sektarkennd yfir því að hafa það ekki eins skítt og næsti maður. Hann þarf því að gera sér upp fátækt, afneita í þykjustunni nautninni sem fylgir lífsþægindunum, á sama tíma og hann sest upp í hlýjan bílinn sem ekur honum áreynslulaust heim á leið, þar sem er að finna gnægð matar og afþreyingar í hlýjum og notalegum húsakynnum.
Ég er öreigi, Jón, er bókstaflega í þeirri aðstöðu sem lýst er hér að ofan. Ég er ekki í einhverjum fögnuði yfir því. Viltu skipta?
Það efa ég. Fátækt er nefnilega sár og ekki til að hafa í flimtingum.
Ég geri ráð fyrir að Þórbergur leggi þá merkingu í orðið „ágætismaður“ að þar eigi hann við mestu lista- og vísindamenn samfélagsins, þá sem orðið hafa mannkyni mest til framdráttar með lífi sínu og starfi. Hve margir auðkýfingar (hann talar um auðkýfinga, ekki yfirstéttafólk almennt) geta státað af slíku?
Orð Þórbergs eru ekki eins mikill bjánaskapur og þú lætur liggja að.
Þessi pistill Jóns fór framhjá mér en í síðustu viku sá ég viðtal við manninn á OMEGA-TV, og það þótti mér kaldhæðnislegt. Fyrir nokkrum mánuðum gerði hann mönnum í svikamillu-bisness lífið leitt í útvarpsþætti sínum, en núna sér hann ekkert athugunarvert við að gerast þátttakandi í svikamillu OMEGA-manna.
Í þessu viðtali var ekki að sjá hjá honum neina andúð gegn peningum, þvert á móti var hann hinn ánægðasti yfir því að vera kominn á listamannalaun. Fyrirlitningin á neysluþjóðfélagið var þó til staðar, og viðurkenndi hann að hafa áður verið þræll þess. Lýsti Jón hvernig hann leitaði hamingju með því að kaupa nýjasta draslið á markaðnum, en sú hamingja lifði stutt eftir kaupin.
Fyrirtæki reyna gjarnan að selja vörur sínar með því að telja fólki trú um að með kaupunum fáist hamingja, en mér finnst skrítið hvernig Jón fór að því falla svona rosalega fyrir þessari markaðssetningarbrellu. Það er nefnilega ekki eins og hann sé eitthvað ókunnur auglýsingagerð (enn meiri kaldhæðni).
Með því að gerast trúarnött hefur Jón bælt niður neyslufíkn sína (ef það hefur þá tekist) og tileinkað líf sitt til að fullnægja annarri gerviþörf. Ég get trúað að líf hans sem heilalaus rotta í lífsgæðakapphlaupinu hafi verið merkingarlítið, en að gerast sauður í hjörð kristinna er bara vottur um áframhaldandi heilaleysi.
Sæll.
Þetta er nú nokkuð góð skrif og skemtilegur lestur, þó að vísu fynnist mér hann annsi litaður. Enn eins og frægur maður sagði, við segjum ekki frá eins og hlutinnir eru heldur eins og þeir eru frá okkar sjónarhorni.
Skemtileg síða. Kem til með að koma oftar og skoða skrif hérna
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Sindri - 21/03/05 11:33 #
Hmmm... ég hef alltaf staðið í þeirri trú að ágætismenn séu flestir komnir úr yfirstéttum. Maður ætti kannski að fara og fletta upp rannsóknum á þessu.