Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Marta Guðjónsdóttir hallar réttu máli

Það er algerum ólíkindum hvað margt trúfólk á í miklum erfiðleikum með að fara með rétt mál, þegar kemur að umræðunni um trúboð í skólum. Skýrt dæmi um þetta er grein Mörtu nokkurar Guðjónsdóttur á vefnum betriborg.is.

Þessi grein er ein rangfærslusúpa frá upphafi til enda. Skoðum það aðeins nánar:

Málsvarar Siðmenntar hafa átt í erfiðleikum með að benda á dæmi máli sínu til stuðnings á sama tíma og málsvarar Þjóðkirkjunnar og Félags kennara í kristnum fræðum hafa lagt áherslu á að kristinfræði í grunnskólum sé, - og eigi að vera, - fræðsla en ekki boðun.

Það hefur ekki verið nokkrum erfiðleikum bundið fyrir Sigurð Hólm Gunnarsson og félaga að tiltaka dæmi um hreint og klárt trúboð í kennslustundum. Hér er t.d. heil síða með dæmum. Málsvarar Þjóðkirkjunnar hafa aftur á móti stöðugt verið að rugla saman fræðslu og trúboði í málflutningi sínum, sbr. þetta, þetta og þetta. Það þarf góðan skammt af sjálfsblekkingu til að koma ekki auga á þetta.

Að sjálfsögðu er það ekki hlutverk hins almenna grunnskóla að boða nemendum sínum tiltekin trúarbrögð, enda hefur hann ekki gert það um áratuga skeið og enginn haldið því fram að svo eigi að vera. Í þeim efnum berst Siðmennt við vindmyllur.

Hvað með bænastundirnar sem skólastjóri nokkur á Suðurnesjum viðurkenndi stoltur að ættu sér stað? Hvað með þessi orð biskups?

Hinar helgu frásagnir, bænin og trúin, er besta veganestið, og besta forvörnin í viðsjálverðum heimi. Við vitum líka að ekkert foreldri getur til lengdar haldið óæskilegum áhrifum frá barni sínu. Ekkert foreldri getur varið barn sitt gegn þeim margvíslegu áreitum sem úr öllum áttum sækja að, og allar veitur og áhrifavaldar markaðarins og auglýsinga -iðnaðarins halda að því. Foreldri getur ekki varið barn sitt, gegn hinu illa, en það getur miðlað því hinu góða, þeim góðu áhrifum sem helst megna að vernda og verja. Ekkert foreldri getur varið barn sitt fyrir ágengni þess ofstækis sem helst sækir að þeim hjörtum og sálum sem ekki hafa fengið næringu trúar, ekki hafa fengið viðmið helgra sagna og helgrar iðkunar og ein megna að hamla gegn áhrifum sálardeyðandi og mannskemmandi guðleysis og vantrúar.

Það er dagljóst að í hugum langflestra trúmanna er grímulaust trúboð í skólum bara hið besta mál. Sjáið t.d. þetta.

Hingað til hefur verið talið eðlilegt og rökrétt að börn fræðist fyrst um sögu og sérkenni síns eigin lands og þjóðar áður en hugað er að fjarlægum löndum, mannkynssögu og framandi menningu í öðrum heimsálfum. Virðing fyrir öðrum byggir á sjálfsvirðingu og sá sem ekkert veit um eigin menningararfleifð er ekki líklegur til að meta eða umbera framandi menningareinkenni. Kristinfræðikennslan er því hluti þeirrar kennslu sem veitt er um íslenskan menningararf.

Það er enginn að tala um að leggja niður fræðslu um kristin menningararf. Ég skora á Mörtu að tiltaka hvar slíkt hefur komið fram í málflutningi Siðmenntarfólks eða bara trúleysingja í það heila, t.d. hér á þessum vef. Þvert á móti hef ég rætt nauðsyn þess að áhersla á hinn kristna mennigararf verði aukin og ekkert dregið undan, hvorki í frásögnum Biblíunnar eða hegðun kristinnar kirkju gegnum aldirnar.

En, hvað á Siðmennt við með því að breyta námsskrá „í átt til fjölmenningar og trúfrelsi“? Mættu kennarar þá ekki kveikja á kerti á kennaraborðinu á aðventunni? Mættu skólabörn þá ekki syngja „Bráðum koma blessuð jólin“ á litlu jólunum fyrir jólafríið? Mætti kannski ekki halda litlu jólin í skólanum, - eða gefa jólafrí í skólanum? Yrði kannski kennt á jóladag? Og hvað með páskana og páskafríið?

Koma nú þessir fáránlegu útúrsnúningar. Í fyrsta lagi er spaugilegt að Marta skuli velja lagið Bráðum koma blessuð jólin sem dæmi, því ekkert í þeim texta hefur nokkra skírskotun til kristinnar trúar. Jólin eru enda ekkert frekar kristin hátíð en heiðin. Og er eitthvað kristilegt við það að kveikja á kerti? Síðan hvenær? Auðvitað höldum við litlu jólin og dönsum kringum jólatré að heiðnum sið.

Trú er lífsviðhorf. Trúleysi er einnig lífsviðhorf. Og það lífsviðhorf Siðmenntar er alls ekkert merkilegra, eðlilegra, skynsamlegra en lífsviðhorf hinna trúuðu Þessu þurfa málsvarar Siðmenntar að huga að.

Það er lélegt af Báru Mörtu að gera kröfuna um hlutleysi skólastofnana í trúmálum að sérstöku lífsviðhorfi Siðmenntar. Var hún ekki sjálf að segja að stefna kirku og skóla væri sú að trúarinnræting fari ekki fram í skólum? Svo má færa fyrir því ótal rök að lífsviðhorf siðrænna húmanista, en Siðmennt er einmitt flokkur slíkra, séu einmitt mun skynsamlegri heldur en yfirnáttúruhyggja hinna trúgjörnu.

Þeir þurfa einnig að gera sér grein fyrir þeirri staðreynd að umfjöllun þeirra og kröfur síðustu daga eru ekki einungis aðför að kristinni trú, heldur einnig að íslenskum menningararfi, að sögu þjóðarinnar, þar sem „lífsvonin eina var samtvinnuð krossinum rauðum,“ – eins og Jón Helgason orðaði það.

Hérna fæ ég ekki betur séð en Bára Marta sé sjálf farin að rugla saman fræðslu og kristniboði. Ef hún heldur að ekki sé hægt að innræta börnum heilbrigð lífsviðhorf án þess að tvinna það saman við krossinn blóðrauða er hún á miklum villigötum. Ekkert réttlætir slíka samþættingu þegar kemur að uppfræðsluhlutverki skólanna.

Íslandsklukkan var ekki klukka á vegg sem mældi tíma heldur kristin kirkjuklukka. Þjóðfáni okkar er krossfáni og þjóðsöngurinn kristinn sálmur, ortur af einu virtasta þjóðskáldinu. Ég spyr því í lokin: Eigum við að fórna íslenskum menningararfi fyrir rangar og misskildar hugmyndir Siðmenntar og R-listans um fjölmenningu og mannréttindi?

Hér er Bára Marta komin út á hálan ís. Á hún engin betri rök en þessa þreyttu rökvillu? Við erum aðeins að tala um kennsluaðferðir þar sem hlutleysis er gætt, ekki að fórna íslenskum mennningararfi. Hann verður að sjálfsögðu áfram kynntur íslenskri æsku.

Báru Mörtu verður hér ekki skotaskuld að fara vitlaust með staðreyndir, gera fólki upp skoðanir og rugla saman fræðslu og trúboði. En kannski er það bara eðlilegt mál að trúfólk hagræði sannleikanum eftir eigin geðþótta. Þetta fólk hefur kosið að lifa í lygi og því í raun bara matsatriði í augum þess hve langt má gangaí þá átt að halda henni fram.

Birgir Baldursson 19.03.2005
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 19/03/05 01:22 #

Bára?

En eru þetta ekki bara pólítísk viðbrögð hjá konunni? Væntanlega allt kommar og vinstrisinnaðir sem eru í Siðmennt og kjósa þ.a.l. R-Listann.

Annars er þessi útúrsnúningur hjá þessu fólki orðinn töluvert þreyttur.


Orri - 19/03/05 01:23 #

Í ljósi gagnrýni minnar á tvo síðustu pistla þinna er mér ljúft og skylt að salúta þessum nýja.

Brilljant, Biggi minn!


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 19/03/05 02:02 #

Úbbs, Marta átti það að vera. Laga það.


Árni Árnason - 21/03/05 17:33 #

Marta, sem og stór hluti þjóðarinnar, er haldinn afar illvígri meinloku.

Í fyrsta lagi gerir hún ráð fyrir því að Siðmennt sé á móti kristinni trú.

Þó ég sé ekki meðlimur í Siðmennt, þykist ég vita með vissu að það er fjarri öllu lagi, enda umburðarlyndi gagnvart öllum trúarbrögðum þeirra aðalsmerki.

Með því að halda því fram í einni og sömu greininni, að ekki sé stunduð trúarinnræting í skyldunámsskólum annars vegar og hinsvegar að kröfur siðmenntar um trúarlegt hlutleysi í sömu skólum sé "aðför að kristinni trú" er Marta dottin í gildru eigin meinloku. Krafan um trúarlegt hlutleysi í skyldunámsskólum er einmitt tilkomin vegna þess að þar er svo ekki verður um deilt stunduð trúarleg innræting. Það er bókstaflega ekki hægt að halda því fram að svo sé ekki, og flokka svo kröfuna um trúarlegt hlutleysi sem "aðför að kristinni trú". Ef ekki væri stunduð trúarleg innræting, hefði krafa Siðmenntar enga merkingu, og þyrfti þá ekki að fara svona fyrir brjóstið á Mörtu. Það er einmitt vegna þess að Marta og fleiri telja kristna trú ekki mundu lifa af án innrætingarinnar sem fram fer í skólunum, sem krafa siðmenntar er " aðför að kristinni trú" í þeirra huga.

Það dettur væntalega engum í hug að stroka kristna sögu þjóðarinnar út úr sögubókum, og það er heldur enginn að biðja um það, en bænahald og sálmasöngur er eitthvað allt annað en fræðsla um íslenska menningararfleifð.

Marta fellur einnig í þá gryfju að eigna kristnum mönnum jólin. Jólin eru miklu eldri kristninni, meira að segja nafnið Jól er ekki einu sinni kristið.

Marta segir lífsviðhorf Siðmenntar ekkert merkilegra en lífsviðhorf trúaðra. Með þessu er hún sjálfsagt að setja sig í dómarasæti Salomons og reyna að sýnast víðsýn og opin fyrir jafnrétti lífsviðhorfa.

Gallinn er bara sá Marta að lífsviðhorf Siðmenntar ERU merkilegri en lífsviðhorf trúaðra. Ég skal útskýra það nánar. Lífsviðhorf sanntrúaðs múslima eru HONUM merkilegri en öll önnur, og hann rænir flugvélum og flýgur þeim á háhýsi til að upphefja lífsviðhorf sín og láta í ljós viðbjóð sinn á öðrum lífsviðhorfum. Og ekki nóg með það heldur skulu stjórnarskrár og lög heilla þjóða lúta lífsviðhorfum hans. Lífsviðhorf kristins eru HONUM merkilegri en öll önnur. Hann er að vísu ekki eins herskár í seinni tíð, en þó vill hann að lífsviðhorfum hans séu skipaður sérstakur sess í stjórnarskrá og landslögum umfram önnur lífsviðhorf.

Lífsviðhorf Siðmenntar gerir ráð fyrir að hver og einn geti haft sína trú, öðrum að meinalausu, og að engin trú skuli annarri æðri að lögum eða í framkvæmd. Ekki skuli veita boðendum einnar trúar aðgang að æsku landsins á kostnað skattborgaranna. Þetta er afar merkilegt lífsviðhorf, sem allir ættu að geta sammælst um, ólíkt þeim sem að ofan greinir.

Kveðja Árni Árnason

P.S. Ég held að Jón Helgason hafi með orðum sínum verið að undirstrika ömurleikann, sem blasir við þegar eina lífsvonin er bundin við blinda trú á einhvern blóðugan kross.

Gleymum því ekki að Jón orti einnig:

Ef allt þetta fólk fær í gullsölum himnanna gist sem gerir sér mat úr að nugga sér utaní krist þá hlýtur sú spurning að vakna hvort mikils sé misst þó maður að síðustu lendi í annarri vist.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.