Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Opið bréf til Egils Helgasonar

Kæri Egill!

Vegna þess að biskup Þjóðkirkjunnar, Karl Sigurbjörnsson, er væntanlegur sem viðmælandi í þáttinn þinn á sunnudaginn, er hér svolítil samantekt af umræðuefni sem brydda mætti upp á:

1. Skoðanir Karls á trú

Í viðtali fyrir ekki löngu síðan var Karl Sigurbjörnsson spurður eftirfarandi spurningar:

Hefur þú aldrei efast um tilvist Guðs?

Hann svaraði:

"Ég hef ekki efast um tilvist Guðs en ég hef efast um margt annað."

Er Karli alvara með þessum orðum? Hvernig getur hann aldrei hafa efast um tilvist guðs? Látum vera þótt hann hafi komist að þeirri niðurstöðu að trúa á guð, en þegar öllu er á botninn hvolft er Karl nú einu sinni mannlegur. Efinn er manninum eðlislægur. Í guðfræðideild hlýtur Karl að hafa lært heimspekileg forspjallsvísindi eins og aðrir. Hann hlýtur því að vera kunnugur gagnrýninni hugsun. Sá sem trúir á guð og hefur tileinkað sér gagnrýna hugsun hlýtur, sem hluta af sjálfsgagnrýni, að velta fyrir sér ýmsu við guðdóminn. Til dæmis því að enginn hefur fært sönnur á að guð sé til. Það er hverjum manni nauðsyn að grisja garð hugans, hvort sem er jafnt og þétt eða öðru hvoru. Almáttugur, alvitur og algóður þríeinn guð sem er alls staðar í heimi þar sem enginn hörgull er á vonsku og náttúruhamförum og enginn hefur séð né getað sannað að sé til, hann stingur í stúf í garði hugans. Varla mælir biskup með því að gagnrýninni hugsun sé sleppt þegar kemur að trúmálum, eða hvað?

"Það eru ... mikil sannindi fólgin í orðum Chesterton, sem var enskur hugsuður á öldinni sem var að líða. "Það er ekki satt að sá sem trúir ekki á Guði trúi engu. Hann trúir öllu." Sá sem snýr baki við guðstrú leitar sér gjarna uppbótar og verður upptekinn af alls konar hégilju."

Hvað meinar biskup? Stendur valið milli guðstrúar og hégilju? Er biskup semsagt að segja að þeir sem hafa aðra lífsskoðun en hann aðhyllist hégiljur? Mundi ekki einhver kalla þetta yfirlætisleg orð? Er biskup að segja að fólk annarrar trúar sé bara hjátrúarfullt? Maðurinn sem segist aldrei hafa efast um tilvist guðs? Hefur það aldrei hvarflað að honum að hans eigin trú gæti verið hégilja?

Það er hreint og beint ósatt að guðleysingi eða trúleysingi aðhyllist sjálfkrafa hégiljur eða trúi öllu. Sá sem er trúlaus trúir ekki. Háskólamenntaður maður hlýtur að skilja að sá sem beitir hvassri gagnrýninni hugsun og kemst að þeirri niðurstöðu að kristin trú hafi of veikar forsendur til að eiga við hann, geti hæglega komist að sömu niðurstöðu með (aðrar) hégiljur. Sá sem varpar kristni fyrir róða er ekki þar með genginn í lið með andatrúarmönnum, vúdútrúarmönnum eða stjörnuspekingum. Hvað með þann sem trúir á ekkert af þessu og krefst bara sannana?

"Það er mjög mikilvægt að hafa í huga að orðið trú er ekki samheiti við skoðanir. Trú er hins vegar samheiti við tryggð og traust. Það er það sem skilur á milli, að treysta á Guð og halda tryggð við hans orð þó maður efist um eitt og annað í glímunni við lífið. Þar eru alltaf átök."

Trú er ekki samheiti við tryggð og traust. Tryggð og traust er ein merking orðsins trú, en trú á guð skilgreinir Páll postuli best í Hebreabréfinu 11:1: Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá. Trú á yfirnáttúru og traust á vini eða maka sem maður hefur reynt að trúnaði er ekki það sama. Það er ekki það sama að hafa trú á einhverjum sem sannanlega er til og að hafa trú á einhverjum sem er ekki sannanlega til. Þar liggur hundurinn grafinn. Tryggð og traust eru góðar dyggðir, því neita vísast fáir, en trú á að eitthvað sé á einhvern veg án þess að auðið sé að sjá það, hver segir að það sé dyggð? Er trúgirni dyggð?

2. Skoðanir Karls á trúfrelsi

Undanfarnar vikur hefur verið talsvert til umræðu trúboð í ríkisreknum grunnskólum á Íslandi. Siðmennt, félag um borgaralegar athafnir, hóf máls á þessu, og skoraði á menntamálayfirvöld að beita sér gegn þessu trúboði. Þeir sem til andsvara urðu töluðu margir hverjir um nauðsyn þess að fræða börn um kristna trú, þótt gagnrýni Siðmenntar hefði alls ekki lotið að fræðslu um trú heldur að innrætingu á trú. Trú er óneitanlega veigamikill þáttur í samfélagi og sögu og varla dettur nokkrum manni í hug að hafna trúarbragðafræðslu sem slíkri. Hins vegar er nú svo komið að við búum í borgaralegu félagi, þar sem borgaraleg gildi eru í heiðri höfð, gildi á borð við lýðræði, mannréttindi, málfrelsi og - ekki síst - trúfrelsi. Trúfrelsi er frelsi til að velja sér hvort maður vill trúa eða hverju maður vill trúa. Til þess að óharðað barn með ómótaðan huga fái að njóta sjálft frelsisins til þess að trúa ef það vill og þá hverju sem það vill, þá er ekki hægt að láta halla á sum trúarbrögð en hampa öðrum, ekki frekar en við vildum sjá sumum stjórnmálaflokkum hampað en öðrum mismunað í grunnskólunum.

Þetta mál hefur Sigurður Hólm Gunnarsson reifað vel í nýlegri grein á Skoðun.is þann 2. mars síðastliðinn. Trúarbrögðin verða öll að sitja við sama borð, og einnig trúleysið, svo að barnið geti fræðst á fordómalausan hátt og myndað sér skoðun samkvæmt sínum eigin tilfinningum. Boðun á einni trú brýtur augljóslega í bága við þetta sjónarmið, ekki síst þegar um er að ræða börn sem hafa ekki þroska til að mynda sér sjálfstæða skoðun á trúarbrögðum. Það er vægast sagt tortryggilegt að kirkjan skuli vera mótfallin því að börn fái örvun og skilning í stað innrætingar ... ætli hún sé hrædd um að þau komist að annarri niðurstöðu en er henni þóknanleg?

Þeir sem vilja trúfrelsi og jöfnuð meðal fólks, og þar með meðal lífsskoðana þess, hafa talað um að fræðsla um trú geti verið með svipuðum hætti og fræðsla í samfélagsfræði eða sögu, og vegna stöðu kristninnar á Íslandi má reikna með að hún fengi mikla athygli. Kirkjunnar menn hafa m.a. borið fyrir sig að siðfræði þurfi að kenna - og því hefur enginn neitað. En athugum að kristnir menn fundu ekki upp siðfræðina og siðfræðin er ekki einu sinni háð trúarbrögðum yfir höfuð.

Væri ekki gæfulegra að kenna börnum um heimspeki, bæði siðfræði og rökfræði, og láta þeim þannig í té tækin til að mynda sér sjálf heilbrigðar lífsskoðanir á trúarbrögðum og öðru? Eða vill Þjóðkirkjan frekar að trúfrelsinu séu skorður settar með því að kristni sé boðuð en engin önnur trú? Kirkjan er augljóslega hagsmunaaðili í þessu sambandi. Hvernig getur kirkjunni verið stætt á að vilja að þeim mannréttindum, sem trúfrelsi er, séu skorður settar til þess að hún geti hagnast á því sjálf?

Ekki er langt síðan Karl sagði í viðtali að trú væri manninum eðlislæg. Ef trú er manninum eðlislæg, hvers vegna þarf þá að innræta börnum hana? Og ef innræting er nauðsynleg, hvernig getur kirkjan réttlætt barnaskírn? Hvernig getur nokkurra vikna barn trúað á guð? Það gerir það ekki.

3. Skoðanir Karls á trúleysi

Fyrir tveim vikum (6. mars) sagði Karl í predikun í Áskirkju:

Ekkert foreldri getur varið barn sitt fyrir ágengni þess ofstækis sem helst sækir að þeim hjörtum og sálum sem ekki hafa fengið næringu trúar, ekki hafa fengið viðmið helgra sagna og helgrar iðkunar og ein megna að hamla gegn áhrifum sálardeyðandi og mannskemmandi guðleysis og vantrúar.

Kannski að Karl átti sig ekki á því, en þarna flugu hnútur sem meiða og særa marga trúleysingja, þar á meðal undirritaðan. Finnst Karli ekkert athugavert við að maður í slíku embætti sem biskup Íslands láti falla ærumeiðandi og móðgandi orð sem þessi um lífsskoðanir meðbræðra sinna og samborgara? Hvar er tillitssemin við annað fólk?

Úr nýlegu viðtali við Karl:

Er til trúlaus maður?

"Það er til trúlaus maður og það er ekki gott. Það eru líka til siðlausir menn. ... trúlaus maður er sá sem hefur slitið á það sem er manninum helgast"

Er Karl með þessum orðum að leggja trúleysi og siðleysi að jöfnu? Er honum alvara með þessum orðum? Heldur hann því virkilega fram að maður verði að verri manneskju við það að trúa á guð? Hvað með alla þá góðu menn sem ekki trúa eða ekki hafa trúað á guð? Hvað með öll þau ógæfuverk sem framin hafa verið af innilega trúuðu fólki?

Er biskup með orðum sínum að vísa til trúleysingja á borð við félaga í Siðmennt, SAMT eða Vantrú? Er hann að tala um okkur trúleysingja og segja að við séum verra fólk en hann, eða er hann ekki að því? Ef hann er ekki að því ætti hann að hugsa betur það sem hann segir svo hann særi ekki fólk og meiði. Ef honum er alvara væri athyglisvert að heyra hann færa rök fyrir máli sínu.

Enn var Karl spurður í nýlegu viðtali:

En þú heldur að maður án trúar sé miklu verr staddur en maður sem á trú.

"Andlega er hann tvímælaslaust verr staddur, veraldlega kannski alls ekki. Trúin leysir ekki öll vandamál. Hún skapar margvísleg vandamál. Á sama hátt og ástin leysir ekki allan vanda, hún getur skapað ótal vandkvæði – en enginn vildi án hennar vera. Aumur er ástlaus maður. Það er eins með trúna."

Hvað meinar Karl með að trúleysingi sé verr staddur andlega? Fólk sem á í andlegum örðugleikum er oftast miklu trúaðra en það sem er stöðugra á svelli andans. Hvernig getur Karl borið saman ást til einhvers sem maður getur séð, þreifað á og farið með í bíó, við trú á veru sem er yfirnáttúruleg, ómælanleg, samkvæmt skilgreiningu ekki hægt að sýna að sé til og brýtur auk þess í bága við þekkt náttúrulögmál? Aumur er ástlaus maður, en sem fyrr er ástæða til að benda Karli á að gæta tungu sinnar ef hann ætlar að segja að aumur sé trúlaus maður. Aðgát skal höfð í nærveru sálar, eins og Karl á að vita.

"Grundvallarþættir í persónu mannsins eru ástin, trúin og siðgæðið. Ást án trúar, ást án tryggðar, hvað er það? Og hvað er siðgæðið án kærleika? Þarf þetta ekki að haldast í hendur? Ég held það. Við þurfum á kærleikanum að halda. Við þurfum á siðgæðinu að halda. Við þurfum á trúnni að halda. Við þurfum á tryggðinni við Guð og við annað fólk að halda."

Kærleikur og siðgæði eru ekki í kategóríu með trú. Kærleikur er okkur í blóð borinn, siðgæði er ekki runnið undan rótum trúarinnar heldur er það einfaldlega sam-mannlegt, eins og sést af því að það fyrirfinnst í öllum trúarbrögðum og einnig í húmanískri heimspeki. Tryggð við annað fólk fylgir því að búa saman í samfélagi, en tryggð við verur sem er ósannað að séu einu sinni til er engum manni nauðsyn.

Nú má hugsa sér að Karl líti svo á að þegar maður trúi ekki á guð sé honum um leið ófært að virða verk hans, virða lífið og heiminn sem guð hafi skapað. Því séu trúleysingjar bölsýnir níhilistar. Ef þessi skilningur á orðum biskups er réttur, þá hefur hann á röngu að standa og ástæða til að leiðrétta hann: Trúleysingi lítur, eðli málsins samkvæmt, ekki á heiminn sem sköpunarverk guðs og efi um tilvist guðs hefur þannig ekkert að gera með virðingu fyrir lífinu eða heiminum. Öðru nær. Sá sem lítur svo á að hann lifi aðeins einu sinni hlýtur að meta líf sitt mikils - ef þetta er eina tækifærið hans hlýtur hann að reyna að verja því vel. Sá sem býr í guðlausum heimi býr ekki í köldum heimi ... hann býr einfaldlega í heimi. Trúleysingi getur litið á fagran rósagarð án þess að þar þurfi að vera blómálfar líka.

"Trúleysi ógnar mannlegu samfélagi, viðskiptum og stjórnmálum; ótryggð og ótrú ógnar uppeldi barna okkar, sundrar heimilum og fjölskyldum. Valið stendur milli trúar og trúleysis á vettvangi hversdagsins, sem og viðskipta og stjórnmála. Ég er ekki í vafa um að flestir myndu að athuguðu máli velja trúna. Og viðurkenna að þegar allt kemur til alls sé einfaldlega ekkert vit í því að eignast allan heiminn og fyrirgjöra sálu sinni. Eða hvað?"

Er Karl hér enn að vega að trúlausum? Hann segir að trúleysi ógni mannlegu samfélagi, viðskiptum og stjórnmálum. Mannlegt samfélag hefur tekið stórstígum framförum undanfarna öld eða svo á Íslandi, samfara til muna minnkandi trú. Það verður ekki betur séð en að minni trú og betra samfélag fari hér hönd í hönd. Já, vissulega er streitu fyrir að fara, og margt fer aflaga, en þegar Ísland í dag og Ísland fyrir öld síðan eru borin saman mundu fáir velja að búa á Íslandi fyrir öld síðan.

Hvað varðar trú og stjórnmál hefur sagan sýnt okkur þann háska sem fólki er búinn af að blanda þessu tvennu saman. Enn í dag má sjá hvernig bókstafstrúaðir talebanar, ayatollar og Bandaríkjaforsetar drýgja hvert óhæfuverkið á fætur öðru með sverðið í annarri hendi og heilaga ritningu í hinni.

4. Afstöðuleysi Karls í afdrifaríkum málum

Kirkjan segist berjast fyrir því góða, prestar gefa sig út fyrir að vera hermenn góðs guðs. Þó hefur biskup verið áberandi í að halda sig fjarri deilumálum. Jafnvel þar sem augljóslega er verið að níðast á lítilmagnanum kýs kirkjan oft að halda að sér höndum í staðinn fyrir að praktísera það sem hún predikar. Ef biskup vill ekki fá slettur á míturinn eða kyrtilinn fína, þá er hann ekki réttnefndur hermaður guðs. Hvernig getur sá sem berst fyrir góðan málstað um leið hafið sig upp fyrir róstur í samfélaginu? Hvers vegna skerst hann ekki í leikinn og styður lítilmagnann? Hvar er kirkjan til dæmis í baráttu öryrkja fyrir að fá bætur sem duga til að lifa með reisn? Hvers vegna berst kirkjan ekki gegn niðurskurði í heilbrigðiskerfinu? Hvers vegna beitir kirkjan sér ekki í réttindamálum samkynhneigðra, og gefur ekki einu sinni gott fordæmi með því að láta þá til dæmis sitja við sama borð og aðra þegar kemur að hjónaböndum?

Kirkjan er gamaldags og dregur iðulega lappirnar þegar framfarir í mannréttindamálum eru annars vegar. Hún segist veita skjól, en hitti kannski Karl Marx naglann á höfuðið? Veitir hún fólkinu kannski bara andlegt ópíum?

Hvenær átti íslenska kirkjan síðast píslarvott fyrir mannréttindi?

5. Ósamræmi í boðskap kirkjunnar og breytni

Kannanir hafa sýnt að mjög stór hluti Íslendinga er sinnulaus um trúarbrögð - að minnsta kosti dags daglega - og trúir öðru en kennisetningum kirkjunnar þótt þeir séu áfram skráðir í hana. Kirkjan virðist hafa látið sér vel lynda að þiggja sóknargjöld frá fólki sem ekki tekur mikinn þátt í safnaðarstarfi. Er kirkjan ekki í mótsögn við sjálfa sig hér? Er þetta ekki hræsni af hálfu kirkjunnar? Hér er kenning: Kirkjan vill ekki að fólk segi sig úr henni þótt það sé ósammála kennisetningum hennar, því þá missir hún, sem stofnun, spón úr aski sínum. Frekar heldur hún að sér höndum og forðast að gera nokkuð sem kynni að verða umdeilt, til þess að koma í veg fyrir stórfelldan flótta úr röðum sínum. Til að vera stór þarf kirkjan að miða við lægsta samnefnara í siðferðismálum og deilumálum. Málamiðlanir eru skiljanlegar í tilfelli stjórnmálaflokks sem sækist eftir fylgi, en var Jesús maður málamiðlana? Eins og honum er lýst í Nýja testamentinu var hann óneitanlega afdráttarlaus í skoðunum sínum og yfirlýsingum.

Sóknargjöldin fara í að halda uppi stríðalinni klerkastétt í stað þess að klerkar lifi í samræmi við boðskap sinn. Hvers vegna gefa þeir ekki annan kyrtil sinn klæðlitlum og annan brauðhleif sinn hungruðum? Hvers vegna sýna þeir ekki fordæmi í óeigingjarnri, ósérhlífinni mannúðarbaráttu og veita stuðning sem þá munar um? Hjálparstofnun kirkjunnar hefur vissulega stutt fólk í fátækum löndum, en fléttað trúboði inn í starf sitt. Svangt fólk vantar ekki Biblíur, það vantar mat. Hvers vegna kostar Hjálparstofnun kirkjunnar trúboð þegar sömu peningar gætu nýst til að brauðfæða svanga? Maðurinn lifir ekki af orði guðs einu saman, svo mikið er víst.

Kirkjunnar menn boða hógværð og lítillæti - meðan þeir standa í predikunarstól í hátimbruðum hörgi af guðshúsi. Þeir predika yfir hinum fáu kirkjugestum og virðast ekki vera í vafa um að þeir séu fjárhirðar þeirra. Er það hógværð? Er það lítillæti? Jesús á að hafa sagt að fyrir ríkan mann sé það erfiðara að komast inn í himnaríki en fyrir úlfalda að komast í gegn um nálarauga. Hvað með ríkan prest? Hvað með ríka kirkju? Til hvers þarf kirkjan þennan íburð, alla þessa yfirbyggingu?

Kirkjan hefur úr nokkrum milljörðum króna að moða árlega. Hvers vegna rekur hún ekki sinn eigin prestaskóla? Hvers vegna þarf þjóðin að borga fyrir menntun presta hennar? Væri ekki nóg að þeir sem eru skráðir í kirkjuna gerðu það? Ef það eru 85% landsmanna, hvers vegna geta sóknargjöld þeirra þá ekki runnið til þess að reka prestaskóla Þjóðkirkjunnar?

6. Tvíræður málflutningur um kirkju og trú

Hvers vegna er biskupnum og kirkjunni iðulega hlíft við gagnrýni? Eru þeir ekki bara hafnir yfir flest öll umdeild mál, heldur gagnrýna umræðu líka? Búningarnir kunna að vera skrautlegir, en þeir eru ekki brothættir. Rikkilín er ekki tegund af postulíni. Hvers vegna veigrar kirkjan sér við að taka þátt í opinskáum umræðum, eða taka málefnalega afstöðu til gagnrýni á borð við áðurnefnda gagnrýni Siðmenntar, sem svarað var með útúrsnúningi? Prestarnir eru ekki skurðgoð; þótt guð sé hafður á stalli þurfa fulltrúar hans á jörðu ekki að láta eins og þeir séu það líka. Hvers vegna þessa helgi(slepju) í kring um kirkjuna og presta hennar? Hvers vegna fara kirkjunnar menn í málefnalegum flæmingi undan gagnrýni um leið og hún verður hörð eða óvægin, þótt hún sé málefnaleg og heiðarleg?

Hvað óttast þeir? Telja þeir sig hafa veikan málstað að verja? Þeir hafa kannski aldrei efast um tilvist guðs sjálfir, en er trú þeirra kannski ekki nógu sterk til að geta sannfært þá sem hafa efast og kastað trúnni? Menn eru ekki sjálfkrafa fórnarlömb þótt þeir séu gagnrýndir.

Hvers vegna eru kirkjunnar menn vanir að þegja um umdeildari þætti Biblíunnar og kennisetninganna? Hvers vegna hefur kirkjan dogma sem hún heldur formlega fram, en kýs samt að þegja um hana? Efast kirkjan kannski sjálf um það, innst inni, að hún eigi erindi við nútímann? Finnur hún kannski á sér feigðarmerkin, en neitar að sætta sig við örlög sín?

Kveðja, Vésteinn Valgarðsson

Vésteinn Valgarðsson 18.03.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


ulfurinn - 18/03/05 09:38 #

Biskup er greinilega svolítið hræddur við okkur


Ormurinn - 18/03/05 11:12 #

Soldið langt en gott bréf engu að síður.


bsen - 18/03/05 19:53 #

Getur Egill verið hlutlaus eftir yfirlýsingar sínar undanfarið? Það verður áhugavert að fylgjast með því hvort hann valdi þessu starfi.


Ólafur S - 21/03/05 14:48 #

Mér fannst Egill standa sig bara ágætlega. Spurningar hans voru meira ögrandi en ég átti von á.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.