Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Sölumenn dauðans

Iðulega, þegar trúmál ber a góma í samræðum mínum við fólk, viðrar það skoðun sem er eitthvað á þessa leið:

Ef fólk hefur þörf fyrir að trúa á eitthvað æðra þá er það bara gott og blessað. Ekki ætla ég að setja út á það.

Ég er þessu auðvitað sammála í grundvallaratriðum, en tel þó að mönnum sé þarna að yfirsjást ákveðin staðreynd. Hún er þessi:

Ef fólki væri ekki innrætt í æsku að nauðsynlegt sé að trúa, að mikilvægt sé að ákalla æðri máttarvöld og biðja um að halda yfir sér verndarhendi, þá hefði það ekki þessa þörf.

Ég hef reifað þessi mál áður hér á vefnum, t.d. hér og hér. Það er ekkert út á það að setja þegar fólk, sem búið er að innræta þetta, leitar þessari gerviþörf fullnægingar, en heilmikið við það að athuga að atvinnulygarar skuli komast upp með að planta þessari þörf í fólk til að byrja með. Sjálf erum við sem hér skrifum lifandi dæmi þess að engin þörf er fyrir að dragnast með þetta ranghugmyndadrasl gegnum lífið. Væri því sleppt að veikja fólk með þessum hætti, stryki það um frjálsara höfuð.

Og væri ábyrgara.

Mér er að verða það ljósara, með hverjum deginum, hve prestsstarfið líkist mikið starfi dópsalans. Þeir sem halda fram skoðuninni hér að ofan ættu að hugleiða hvort þeir tækju heilshugar undir þetta hér líka:

Ef fólk finnur friðþægingu í hassi/spítti/heróíni/kókaíni, þá er það bara gott og blessað. Ekki ætla ég að setja mig upp á móti því.

Hvað með þá sem selja þessi eiturefni? Eru þeir stikkfrí? Sjáið þið ekki hvað það er í raun ábyrgðarlaust viðhorf? Er það ekki borgaraleg skylda okkar að bjóða aðstoð því fólki sem augljóslega er á villigötum statt, svo það megi rétta úr kútnum og halda lífsbaráttunni áfram sem uppréttar og frjálsar manneskjur? Er það ekki siðferðileg skylda okkar að berjast gegn þeirri skipulögðu glæpastarfsemi sem kallar þetta hugarvíl yfir saklausa borgara?

Maður áfellist ekki fíklana sem flækst hafa í viðjum mannskemmandi nautna. En okkur finnst sjálfsagt að taka harkalega á fíkniefnabarónunum, já og jafnvel fordæma tóbaksfyrirtæki, þótt lögleg séu.

En hvað með prestana? Af hverju fá þeir að vaða upp með þessi hryðjuverk sín? Er ekki kominn tími á dálitla hugarfarsbreytingu þegar þessi hræðilegu dómsdagskölt eru annarsvegar?

Í fullkomnum heimi væri lögum komið yfir presta, miðla, heilara, spákellíngar og alla þá sem hafa það að iðju að fá fólk til að hrærast í upplognum óraunveruleika. Þessu fólki yrði gert að láta af skemmdarverkum sínum á hugarstarfi annarra og skikkað til að taka upp heiðarlegri iðju.

Stefnum við ekki öll að fullkomnari heimi?

Það er athyglisverð staðreynd að Þjóðkirkjuprestar hennar berjast ekki með kjafti og klóm gegn starfsemi miðla, spákvenna, reikimeistara og annarra kuklara. Ætli þeir viti ekki sem er, að þeir eru sjálfir í sama bransa og því öruggast að leyfa öllu hinu hindurvitnadraslinu að viðgangast.

Þeir eru samsekir í lyginni og blekkingunni, spila á sömu trúgirni fólksins. Þessir sölumenn dauðans.

Birgir Baldursson 17.03.2005
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Orri - 17/03/05 02:22 #

Hjartanlega sammála þér um flest í þessari færslu, kæri vinur.

Ein er þó rökvillan og alvarleg.

Hugtakið "Sölumenn dauðans" er einfaldlega skekkja í þessu samhengi. Trú dregur mann ekki fysískt til dauða, þannig séð.

"Sölumenn" er hugtak sem á vissulega rétt á sér í þessu samhengi. En upprunalega er hugtakið "Sölumenn dauðans" til komið vegna þess að eiturlyfin, aðallega hörðu efnin, eru að draga marga til dauða, langt fyrir aldur fram.

Það er staðreynd og liggur í kemísku eðli efnanna sem um ræðir. Og samfélagsaðstæður þess sem þeirra neytir kynda undir.

Því er algjörlega óviðeigandi að krydda færslu þessa með slíkum samanburði. Hvað þá að gera hugtakið að "headline" færslunnar. Út í hött, finnst mér.

Það dregur úr trúverðugleika og rökfestu greinar þeirrar sem hér er lögð fram. Fólk deyr ekki úr "trú", allavega ekki hérlendis. Óbeinn dauði getur hlotist af trú - ekki efnafræðilegur "cause of death".

Við eigum ekki að slá vopnin úr eigin höndum með því að missa okkur svona, þótt slík headline séu ávallt freistandi í áróðri.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 17/03/05 08:55 #

Alveg var ég viss um að þessi athugasemd kæmi. En málið er að ég nota hugtakið dauðans í annarri merkingu en þegar talað er um fíkniefnabaróna. Svokallaðir prestar selja okkur dauðann, gera okkur að dauðadýrkendum.

Ræna okkur þar með stórum hluta lífsins.


Þórður Sveinsson - 17/03/05 09:27 #

„Trúarleg þjáning er bæði í senn raunveruleg þjáning og andóf gegn raunverulegri þjáningu. Trú er andvarp hinnar kúguðu veru, hjarta í hjartalausum heimi og sál í sálarlausum aðstæðum. Hún er ópíum fólksins.“

Svo ritaði Karl Marx í febrúar 1844 (þýðing mín).


anna k - 17/03/05 14:23 #

ég get alveg sætt mig við að til sé gersamlega ótrúað fólk sem bara skynjar ekkert yfirnáttúrulegt og getur þ.a.l ekki fílað neitt sem sá heimur hefur uppá að bjóða en ég er mjög ósammála mörgu sem þú segir að ætti að gera við fólk sem er ekki og getur ekki (eftir heilaþvottinn) orðið einsog þú. Við stefnum að fullkomnari heimi en sú ákvörðun að handtaka alla sem tengjast starfsemi sem snýr að hinum yfirnáttúrulegu skynjanaheimum væri bara einsog galdrabrennurnar uppá nýtt eða eitthvað enn viðbjóðslegra - og hvernig ætti að pynta fólk ofan af sínum skoðunum varðandi þetta?

þetta mál er aðeins flóknara en svo að þín trú á heiminum sé hin eina sanna og svarið við öllu, sama hvað þú skynjar hana sem skynsamlega

þetta er samt það sem ég hef mest útá að setja, það var margt í greininni sem vakti upp hjá manni pælingar.


anna k - 17/03/05 14:31 #

það er tvenns konar fólk og prestar í þjóðkirkju íslands og ég veit ekki hvor hópurinn er stærri: þeir sem lifa í spírítisma og svona hefðbundinni íslenskri náttúrukristni og svo hinir sem eru kristnir og mega ekki heyra orðið spírítismi nefnt án þess að reiðast. Þeir berjast gegn "kukli" í orðum og skrifum. Sá hópur og stundum báðir reyna svo að móðga og hæðast að því sem þeir telja enn neðar, heiðni og þjóðtrú.

Hér á þessum vettvangi eru allar trúarskoðanir álitnar í bræðralagi einhversstaðar á botninum, það er þó gott að þær fái að vera saman og ekki gert uppá milli. Það væri fyrst ógeðslegt.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 17/03/05 14:47 #

Anna k, ég fullyrði það að við aðhyllumst ekki skoðanir eins og fara stunda einhverjar ofsóknir á hendur trúuðu fólki. Þetta getur hins vegar snúist um almenn lög vegna t.d. svika. Við höfum dæmi um að fólk hafi verið dæmt fyrir svipaðar lygar/svik eins og trúarleiðtogar hafa orðið sekir um að gera í gegnum tíðina.

Ég tel t.d. það alvarlegan hlut að taka við geðveiku fólki inn í trúsöfnuð og láta hann ánafna öllum sínum eignum til söfnuðsins. Ef mig minnir rétt þá kom upp svipað mál hjá Krossinum fyrir ekki svo löngu síðan þar sem ættingjar reyndu að fá þessa peninga til baka.

Það er bara þannig að þeir sem svíkja peninga út úr fólki með gylliboðum enda í fangelsi en ef þessi gylliboð tengjast guði á einhvern hátt þá virðist sem menn sleppi við refsingu.


Sævar Helgi (meðlimur í Vantrú) - 17/03/05 15:00 #

Það er bara þannig að þeir sem svíkja peninga út úr fólki með gylliboðum enda í fangelsi en ef þessi gylliboð tengjast guði á einhvern hátt þá virðist sem menn sleppi við refsingu.

Eða annarri yfirnáttúru eins og miðlar, spámenn, stjörnuspekingar, talnaspekingar, hómópatar og svona mætti lengi áfram telja. Mér finnst þetta lið ekkert betra eða heiðarlega en svindlararnir frá Nígeríu, þegar það tekur peninga af fólki fyrir eitthvað ákaflega vafasamt.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 17/03/05 15:01 #

Ég tala hvergi um handtökur. Ég tala um að koma lögum yfir starfsemina sem ég nefni. Banna mönnum að ástunda hana og beina þeim í þarfari störf. Í fullkomnum heimi væri litið á þessa starfsemi sem glæp.


anna - 18/03/05 03:20 #

líst vel á sumt sem þið segið en sé það ekki geta gengið - því miður. Fólki verður að treysta almennt til að hafa vit fyrir sjálfu sér og góð byrjun væri að kenna fólki að vara sig á þessu sem öðru, í stað þess að banna fólki verður bara að kenna því hreint út nógu snemma að láta ekki bjóða sér hvað sem er varðandi svona lagað. Aldrei hef ég þurft að borga krónu fyrir neitt andlegt eða trúarlegt, samt er nóg af því og það sannar fyrir mér að það eru mjög jákvæðir hlutir til í þessu líka. Auk þess er alltílagi að greitt sé fyrir veitta þjónustu sem á kannski að vera í lækningaskyni. Venjulega þjónustan í kerfinu er hvorteðer líka kostnaðarsöm

en oj, ég er algerlega á móti einfaldri tilhugsuninni um svona ótrúlega rosaleg svik og illsku einsog þarf að ímynda sér að væri í gangi ef allir sem tækju peninga fyrir andleg störf væru svikarar, ég get ekki trúað því. Flest þetta fólk vill örugglega vel og hjálpar alveg helling af fólki.

trúarbragðaáhrif eru vafasamari og það snýst oftar um illa meðferð á veikari hugum en miðladótið

og yfirleitt miklu meira peningaplokk, ég held að íslenskir miðlar séu basically mjög indælir, náttúrulega skyggnir og næmir ég hef reyndar bara farið til breskra miðla en það var ýmislegt ókeypis í boði hjá þeim jafnvel og einkatími kostaði ekki hætishót en árangurinn var mjög góður og undraverður. Svona er bara mín reynsla, mér þykir mjög leitt hinsvegar að almennt geti aðrir orðið fyrir misnotkun gegnum svona lagað. En það getur gerst allsstaðar og ekki er hægt að banna allt. En ég legg þá helst til að verðbréfaviðskipti verði bönnuð. Mér leiðast þau og þau valda sannanlega óhamingju og jafnvel sjálfsmorðum. Það er stórmál! Enda eru þau einsog trúarbrögð hjá mjög mörgum í nútímanum.


anna - 18/03/05 03:27 #

meinti að einkatími hjá breskum miðli fyrir 10 árum hefði þótt ódýr í dag....hann kostaði eitthvað smávegis eftirsemáður - en ekki mikið


anna - 18/03/05 03:33 #

ef einhver sannanlega skaðar annan eða hefur af honum pening með beitingu hugarafls síns á að sjálfsögðu að meta tjónið og hafa framhald málsins samkvæmt því og hafa svona trúarbrjálæðinga-dálk í dv sem varar við trúarloddurum - ég vil ekki að einhver misskilji mig þannig að ég sé ekki sammála ykkur að miklu leiti um þetta. Góður millivegur er að hafa dáldið af handtökum og dáldið af kukli

þetta dugar samt kannski ekki gegn Omega sem eru skelfilegir!


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 18/03/05 03:44 #

Ég ítreka það sem ég sagði áður: Hér er ekki verið að mæla með handtökum.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 18/03/05 08:51 #

Fólki (neytendum) er frjáls að trúa því sem það vill í lýðræðisþjóðfélagi, sama hve vitlaust það er. Við viljum bara fá að gagnrýna það. Það er okkar réttur.

Sölumennirnir geta hins vegar verið að plata einfaldar sálir og ef þeir verða sekir um brot gegn almennum hegningarlögum þá á náttúrulega að dæma þá. Það á engu að breyta þótt þeir séu að selja gvuð eða hluti í einhverju píramída svindli.


Ormurinn - 18/03/05 11:28 #

Líst vel á sumt sem þið segið en sé það ekki geta gengið - því miður. Fólki verður að treysta almennt til að hafa vit fyrir sjálfu sér og góð byrjun væri að kenna fólki að vara sig á þessu sem öðru, í stað þess að banna fólki verður bara að kenna því hreint út nógu snemma að láta ekki bjóða sér hvað sem er varðandi svona lagað.

Þar er ég alveg sammála. Hinsvegar er verið að gera hið gagnstæða með trúboði í skólum. Þar er beinlínis verið að gera börn móttækileg gegn hindurvitnum.

Aldrei hef ég þurft að borga krónu fyrir neitt andlegt eða trúarlegt, samt er nóg af því og það sannar fyrir mér að það eru mjög jákvæðir hlutir til í þessu líka.

Samt fara nú skattpeningar okkar í það að mennta heila stétt sem sérhæfir sig í að predika vitleysuna. Þannig séð er ekki rétt að þú hafir aldrei þurft að borga krónu fyrir (nema þú hafir aldrei borgað skatta)


Sigga - 22/03/05 15:49 #

halló halló voðalega eru allir neikvæðir á þessari síðu prestar gera margt gott í sínu starfi og miðlar margt gott í sínu starfi og ef við einbeytum okkur að því góða og jákvæða í öllum manneskjum þá væri heimurinn miklu betri. og þið sem eruð svo á móti miðlum, heilurum, grasalæknum og öðrum "kuklurum" hafið þið einhverntímann prófað þetta og þá á ég ekki við að fara til einhverns og láta spá fyrir sér heldur virkilega prófa þetta sjálfur á sjálfum sér. Gerið það og prófið að vera svolítið opin gagnvart öllu og öllum og sjáið hvað gerist s.s. hættið að gagnrýna og verið svolítið jákvæð :)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 22/03/05 17:56 #

M.ö.o. „hættið að ástunda gagnrýna hugsun og verið svolítið trúgjörn“, ekki satt?


Sigga - 23/03/05 09:44 #

nei ekki trúgjörn en opin gagnvart hlutum og finna sannleikann innra með sér, maður þarf ekki að gagnrýna til þess að finna sannleikann :)


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 23/03/05 10:08 #

Að vera opin fyrir einhverju eða taka því sem sjálfsögðu er ekki alveg það sama. Við viljum ekki vera svo "opnir" að við hleypum öllum órökstuddum hugmyndum inn í heilabúið á okkur án þess að spyrja einhverra spurninga.

Ef þú myndi kynna þér hvaða aðferð miðlar (og allir hinir líka) nota til að plata fólk þá myndir þú kannski fara fatta hvað við erum að gagnrýna. Miðlar nota aðferðir sem kallast cold- og hot reading og þú finnur þær hérna á vantrú og á internetinu.


darri (meðlimur í Vantrú) - 23/03/05 10:19 #

maður þarf ekki að gagnrýna til þess að finna sannleikann

Hvernig ætlarðu að komast að því hvort eitthvað sé satt án þess að gagnrýna það?

Það að mér finnist eitthvað vera satt gerir það ekki sjálfkrafa satt, þú hlýtur að sjá það.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.