Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Björgunarhringur úr blýi

Á vef Þjóðkirkjunnar er að finna grein eftir Karl Sigurbjörnsson biskup sem nefnist; Hvernig manneskja vilt þú vera. Þar er lagt útaf umræðu síðustu vikna um skólatrúboð Þjóðkirkjunnar með þeim orðum að bænir væri besta veganestið út í lífið og að það megi alls ekki bíða með að leyfa börnum að taka ákvörðun í trúmálum þar til þau hefðu þroska til því það að þegja um trú væri innræting gegn trú.

Setti suma hljóða er þeir lásu. Er þá skólatrúboðið sérstakt réttindamál barna? Eru það mannréttindi þeirra að þau séu látin taka ákvarðanir í trúmálum án þess að hafa til þess þekkingu eða þroska? Eru það mannréttindi þeirra að talað sé um Guð eins og það sé sjálfgefið að hann sé til, án allrar gagnrýni eða umhugsunar og þagað um að öll skynsemisrök benda til þess að hann sé ekki til? Er það forvörn í viðsjálverðum heimi þegar kristnifræðikennarinn sleppir því úr Biblíunni sem getur stuðað eða vakið grunsemdir um að um skröksögur gæti verið að ræða? Er það staðgott nesti og næring sál og anda að tala um Guð sem “algóðan”, en sleppa því að útskýra hvað Guði gangi til með uppfinningum á borð við kjarnorkusprengjuna, sýklahernaðinn, eyðniveiruna, skriðdrekann, vélbyssuna og sverðið. Hverju hyggjast kristnifræðikennarar svara þegar spurt er hvað “algóðum” Guði gengur til þegar hann veldur hungri, styrjöldum, plágum og hörmungum?

Orð séra Karls sýna að Þjóðkirkjan vill koma í veg fyrir rökrænar umræður um trúarbragðafræðslu. Hann telur fyrirfram að trúin á Guð verði undir ef beitt er skynsemisrökum. Séra Karl veit sem er að þegar börn eldast fara þau að spyrja spurninga og líta hlutina gagnrýnum augum. Jólasveinarnir, huldufólk og draugar missa trúverðugleika sinn. Og sama á við um kristindóminn. Þegar mælistika skynseminnar hefur verið lögð á hana fer trúin á “algóðan” Guð sömu leið og trúin á Bjúgnakræki og Þorgeirsbola.

Trú á Guð felur ekki í sér neina tryggingu fyrir því að hann sé til eða að hann bænheyri mann. Sá sem leggur traust sitt á eitthvað sem ekki er til getur ekki annað en orðið fyrir vonbrigðum. Það að stunda skólatrúboð og fá börn til að trúa á meintan Guð undir því yfirskini að verið sé að undir búa þau fyrir lífið er eins og að kasta björgunarhring úr blýi til drukknandi manns. Skynsemin segir manni að sá sem leggur traust sitt á slíkt “hjálpræði” sekkur til botns á skammri stundu.

Jón Einarsson 15.03.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Guðjón - 15/03/05 13:05 #

Hver er vefslóðin að grein Karls Sigurbjörnssonar biskups? Ég finn ekki þess grein. Kveðja


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 15/03/05 13:10 #

Jón er að vitna í þessa prédikun.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.