Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ömmuprestar

Hafið þið tekið eftir því að við veigrum okkur við að nota óvarlegan talsmáta þegar svokallaður prestur er nálægt? Af hverju ætli það stafi?

Getur verið að prestsstarfið firri menn raunveruleikatengslunum að einhverju leyti? Getur verið að það eitt að vera svokallaður prestur breyti öllu viðmóti manna á þann hátt að þeir byrja að sýna af sér bestu hliðar sínar?

Við höfum öll verið alin upp í því að svokallaðir prestar séu sérstakir umboðsmenn Guðs á jörðinni. Og frammi fyrir slíkum mönnum byrjum við ósjálfrátt að hegða okkur sérlega vel, rétt eins og sjálfur Guð væri að fylgjast með okkur gegnum augu þeirra.

Það segir enginn fökk þegar svokallaður prestur er nálægt (tja, nema ég kannski). Menn bókstaflega læðast á tánum kringum þessa stétt, líkt og þarna væru á ferðinni viðkvæmar ömmur sem gætu fengið hjartaáfall ef þær heyra ljótt.

Svokallaðir prestar virðast þrá að gangast upp í þessum falska raunveruleika sparihegðunar, enda gera þeir sjálfir þá kröfu að aðrir telji þá göfuga og hálfheilaga fyrir það eitt að ganga um með þetta hugmyndakerfi í hausnum. Sé það ekki gert, en störf þeirra og viðhorf gagnrýnd harkalega, láta þeir sér oft sárna mjög og beita sárindum sínum sem vendi á þá sem gagnrýna.

Verst er, að vegna þess hve gagnrýnandinn er yfirleitt í eðli sínu góð manneskja þá dregur hann í land, þ.e. ef hann sér ekki að þetta er rökvilla. Þannig hafa klerkar og prelátar gegnum tíðina getað vaðið upp með boðskap sinn öruggir um að enginn muni voga sér að "særa" þá.

Þeir tímar eru nú að baki.

Birgir Baldursson 12.03.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.