Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Bréf til Snorra í Betel

Kæri Snorri.

Ég vil byrja á að þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert til að upplýsa fólk um lögmál Guðs. Ég hef lært margt af þér og geri allt sem í mínu valdi stendur til að deila þeirri þekkingu með eins mörgum og ég get.

Þegar einhver reynir að halda uppi vörnum fyrir samkynhneigð, svo dæmi sé tekið, minni ég viðkomandi einfaldlega á að í Þriðju Mósesbók 18:22 stendur: "Eigi skalt þú leggjast með karlmanni sem kona væri. Það er viðurstyggð." ... og þar með er það út rætt! Erindi þessa bréfs er hins vegar það að mig langar að biðja þig að útskýra fyrir mér nokkur önnur atriði varðandi lögmál Guðs og hvernig ég get best farið eftir þeim eins og sannkristin manneskja. Ég vona að þú getir svarað þessum spurningum.

Í Þriðju Mósesbók 20:13 stendur að ef karlmaður leggist með öðrum karlmanni skuli þeir líflátnir verða. Þýðir þetta að mér beri að drepa Pál Óskar og Hörð Torfa ef ég skyldi fá tækifæri til þess? Má ég eiga plöturnar þeirra áfram?

Einnig brenni ég gjarnan nautainnyfli á altarinu mínu, eins og kveðið er á um í Þriðju Mósesbók 1:9: "...til brennifórnar, eldfórnar þægilegs ilms fyrir Drottin." Vandamálið er hins vegar fólgið í því að nágrönnum mínum finnst ilmurinn hreint ekkert þægilegur. Hvernig á ég að bregðast við þessu?

Ég hef verið að velta því fyrir mér að selja dóttur mína þrælasölum, eins og leyft er í Annarri Mósesbók 21:7: "Þegar maður selur dóttur sína að ambátt ..." Hvað heldur þú að væri sanngjarnt verð fyrir hana á vorum tímum?

Ég veit að ég má engin samskipti hafa við konu á meðan hún hefur á klæðum, hvorki snerta hana né sitja í stól eða liggja í rúmi sem hún hefur setið á eða legið í, eins og skýrt er kveðið á um í Þriðju Mósesbók 15:19-24. Hvernig getur maður séð hvort kona er á túr eða ekki? Ég hef reynt að spyrja allar konur sem ég þarf að eiga samskipti við, en flestar þeirra hafa hreinlega móðgast og neitað að svara mér.

Í Þriðju Mósesbók 25:44 segir: "Viljir þú fá þér þræla og ambáttir, þá skuluð þér kaupa þræla og ambáttir af þjóðunum sem umhverfis yður búa." Þýðir þetta að ég megi aðeins kaupa þræla af Færeyingum og Grænlendingum eða gildir orðasambandið "þjóðunum sem umhverfis yður búa" um allt evrópska efnahagssvæðið?

Vinur minn einn vinnur vaktavinnu við aðhlynningu sjúkra og þarf því stundum að vinna um helgar, sömuleiðis er annar kunningi minn sjómaður og vinnur því stundum á hverjum degi í allt að heilan mánuð.Vandamál mitt er að í Annarri Mósesbók 35:2 segir: "Sex daga skal verk vinna en sjöundi dagurinn skal vera yður helgur hvíldardagur,hátíðarhvíld Drottins. Hver sem verk vinnur á þeim degi skal líflátinn verða." Ber mér, sem kristnum manni, siðferðileg skylda til að drepa þessa vini mína sjálfur?

Fyrir síðustu Verslunarmannahelgi bannaði ég syni mínum sem er á þrítugsaldri en býr enn heima að fara á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Fyrst ætlaði hann ekki að taka mark á mér, en þegar ég hótaði að reka hann að heiman ef hann óhlýðnaðist ákvað hann að fara hvergi, en brást þó reiður við og kallaði mig öllum illum nöfnum, s.s. "helvítis harðstjóra" og "djöfulsins fífl". Nú þykir mér vænt um son minn, en í Þriðju Mósesbók 20:9 stendur:"Hver sá sem bölvar föður sínum eða móður sinni skal líflátinn verða." Þýðir þetta að mér beri skylda til að drepa strákinn eða tekur þetta ákvæði ekki til bölvs og ragns af þessu tagi?

Vinur minn einn segir að jafnvel þótt það sé viðurstyggð að borða skelfisk, eins og segir í Þriðju Mósesbók 11:10: "...öll þau dýr í sjó eða ám sem eigi hafa sundugga og hreistur, [séu] yður viðurstyggð."... þá sé það ekki eins mikil viðurstyggð og að vera hommi. Er það rétt hjá honum?

Þar sem ég veit að þú ert sanntrúaður og biblíulesinn maður er ég sannfærður um að þú getur greitt úr þessum vandamálum og vonast eftir svari frá þér hið fyrsta. Þakka þér enn og aftur fyrir að minna mig sífellt á að lögmál Guðs eru ein og óbreytanleg um alla eilífð,

yðar einlægur,
Kristinn Sveinn


Tekið af Netinu - Höfundur ókunnur

Ritstjórn 10.03.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


AquilaMarke - 10/03/05 13:42 #

Gætirðu spurt Snorra einnar spurningar fyrir mig í leiðinni? Ég er ekki sérlega vel lesinn í biblíunni en mig minnir að eitthvað sé þar minnst á fjölkvæni, a.m.k. í gamla testamentinu. Mig rámar í frásögn af manni sem tók að sér systur eiginkonu sinnar. Konan mín á ansi sæta einhleypa systur nefnilega...


kristín - 10/03/05 14:19 #

og það er til fólk sem segir að heimurinn væri betri staður ef farið væri eftir biblíunni. ég vil ekki trúa því að það sama fólk hafi lesið hana.


Kári - 10/03/05 21:17 #

Getur verið að þetta sé gamalt bréf? Það hljómar a.m.k. kunnuglega. Ekki að það sé neitt verra fyrir vikið!


Gísli Freyr - 10/03/05 21:50 #

Kannski að höfundur hefði átt að athuga það að Snorri Óskarsson er ekki lengur forstöðumaður Betels í Vestmanneyjum. Segir kannski mikið um greinarhöfund þessarar greinar. Þykist vera með biblíulegar staðreyndir á hreinu en veit ekki til hverns hann á að skrifa þær. Áhugavert.


Sævar Helgi (meðlimur í Vantrú) - 10/03/05 22:09 #

Kannski að höfundur hefði átt að athuga það að Snorri Óskarsson er ekki lengur forstöðumaður Betels í Vestmanneyjum. Segir kannski mikið um greinarhöfund þessarar greinar. Þykist vera með biblíulegar staðreyndir á hreinu en veit ekki til hverns hann á að skrifa þær. Áhugavert.

Áhugavert já, en kemur ekki á nokkurn hátt niður á greininni sem er skemmtileg ádeila á trúarnöttara. Mér finnst það að vita ekki nákvæmlega hvar Snorri Óskarsson er niðurkominn ekki segja neitt um greinarhöfund, kannski frekar meira um þann sem rembist við að draga úr trúverðugleikanum með svona smáatriði. Ef eitthvað er rangt með farið þarna úr biflíunni, endilega bentu á það.

En ef þú vilt endilega halda því til haga þá er Snorri Óskarsson nú safnaðarhirðir Hvítasunnukirkjunnar á Akureyri, ekki það að það skipti nokkru máli, hann stendur væntanlega enn við bókstafstrúna. Skyldi hann enn standa fyrir bóka- og geisladiskabrennum?


jogus (meðlimur í Vantrú) - 10/03/05 22:09 #

Er það "biblíuleg staðreynd" að Snorri sé ekki lengur forstöðumaður Betels? Áhugavert.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 10/03/05 22:31 #

Ég held að þetta sé þýðing á einhverju ensku bréfi sem var stílað á einhvern ofsatrúarmanninn. Þýðandinn hefur bara ákveðið að setja Snorra í Betel í staðinn, enda frægur ofsatrúmaður.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 11/03/05 00:02 #

Já, þetta er gamalt og tekið af netinu, eins og fram kemur undir greininni. Hvort Snorri er nákvæmlega að stýra Betel eða einvherju öðru trúfélagi í dag er bísæd ðe poínt. Hann var það þegar þessi grein var samin/þýdd.


Ormurinn - 11/03/05 10:27 #

Ég hef séð þetta áður og hélt það væri eftir Davíð Þór Jónsson, en hann átti að mig minnir í rökræðum við sjálfan Snorra (eða var það Gunni Kross) um trúmál.


úlfurinn - 12/03/05 13:35 #

Eftir að ég rakst á "bölvaður er sá sem á vegginn mígur",steinhætti ég að míga á húsveggi.Þetta er bölvaður ósiður.En hvers vegna ætli þessu hafi verið sleppt í íslensku þýðingunni?


Ágúst - 16/03/05 18:59 #

Mér leikur líka forvitni á að vita hvort þetta er kjarni fagnaðarerindisins, að mati bókstafstrúarmanna. Eru þeir sem hafna þessu að hafna því sem Biblían og Kristur kennir? Ef svarið er já, eru þeir þá andkristnir sem vilja ekki fara eftir þessu og heldur ekki hafa þetta fyrir sannfæringu sína?


mofi - 18/03/05 17:53 #

Fyrst að Snorri ætlar ekki að reyna að svara þessu þá finnst mér að ég verði að gera heiðarlega tilraun. Fyrst að leggja einhvern grunn fyrir þetta. Margt sem er að finna í Mósebókunum þá sérstaklega því sem kemur að refsilöggjöf gyðinga hefur verið stór þröskuldur fyrir mig í minni trú og er að mörgu leiti ennþá. Þessi atriði verða samt að vera skoðuð í samhengi og hvaða þjóðfélag það á við. Einnig má ekki gleyma því að gamlatestamentið kenndi að það myndu koma sá tími er Guð myndi gera nýjann sáttmála við okkur sem uppfylltist í fyrirmyndinni sem Kristur gerði þegar Hann skýrðist. Þegar síðan lærisveinar Krists byrja að boða þá kenna þeir að refsilöggjöf gyðinga og þeirra helgisiðir væru liðnir undir lok.

Þegar Móse skrifaði hluta af mósebókunum þá var hluti af þeim settur við hliðina á sáttmálsörkinni og þjóðin gerði sáttmála við Guð um að halda það sem Móse hafði skrifað niður. Margt af því sem þar stóð var til þess eins og gera gyðinga öðru vísi en þjóðirnar í kringum þá, gera þá sérstaka meðal þjóðanna. Ástæðan þess vegna fyrir mörgum af þeim ströngu refsingum sem er að finna í Mósebókunum er vegna þess að sumir þessa glæpa voru í raun uppreisn gegn þjóðinni og Guði. Það þýðir ekki að ef einhver gerði sumt af þessu sem hann sá eftir að þá þurfti hann að sæti viðkomandi refsingu. Musteris þjónustan þjónaði þeim tilgangi að fólk gat komið þangað með fórn til að fá fyrirgefningu.

Samt situr auðvitað eftir spurning hvort að Guð hafi verið vondur í gamlatestamentinu en góður í því nýja. Ég tel svo ekki vera en þá þarf maður að skoða þesssi atriði nánar og í samhengi og reyna að skilja hvað er í gangi.

Í Þriðju Mósesbók 20:13 stendur að ef karlmaður leggist með öðrum karlmanni skuli þeir líflátnir verða. Þýðir þetta að mér beri að drepa Pál Óskar og Hörð Torfa ef ég skyldi fá tækifæri til þess? Má ég eiga plöturnar þeirra áfram?

Það stendur margt í okkar íslensku löggjöf samt er fólk ekkert að hugsa um að elta einhvern sem keyrir of hratt, taka af honum ökuskírteinið og geyma viðkomandi í kjallaranum heima hjá sér í nokkra daga. Svo þetta var löggjöf þjóðarinnar sjálfrar og einstaklingar áttu ekki að taka lögin í sínar eigin hendur alveg eins og hér á landi.

Ég hef verið að velta því fyrir mér að selja dóttur mína þrælasölum, eins og leyft er í Annarri Mósesbók 21:7: "Þegar maður selur dóttur sína að ambátt ..." Hvað heldur þú að væri sanngjarnt verð fyrir hana á vorum tímum?

Ef þú ert virkileg að hugsa um að selja dóttur þína í þrældóm þá er hún örugglega betur sett annars staðar en hjá þér. Hérna þarf maður að skilja hvað þrældómur var í þessu samfélagi. Þetta var ekki mikið öðru vísi en að vera vinnumaður, ef einhver faðir þurfti að gera þetta þá var það líklegast til að bjarga dóttur sinni frá hungri eða bara bjóða henni betra líf. Hvenær sem er var hægt að gefa þræli frelsi og hver sem er gaft keypt frelsi handa viðkomandi. Eftir sjö ára tímabil þá gat viðkomandi valið að verða frjáls og kom þá út skuldlaus með einhvern pening frá fyrrverandi húsbónda og byrjað upp á nýtt. Hafa í huga að menn gátu lent í þessu með því aðeins að geta ekki borgað skuldir sínar. Þrælahald eins og gerðist með svertingja þar sem þeim var rænt og fluttir til bandaríkjana sem þrælar er stranglega bannað í 2. mósebók 21:16. Meira um þrælahald í Biblíunni hérna: http://www.christian-thinktank.com/qnoslave.html

Einnig brenni ég gjarnan nautainnyfli á altarinu mínu, eins og kveðið er á um í Þriðju Mósesbók 1:9: "...til brennifórnar, eldfórnar þægilegs ilms fyrir Drottin." Vandamálið er hins vegar fólgið í því að nágrönnum mínum finnst ilmurinn hreint ekkert þægilegur. Hvernig á ég að bregðast við þessu?

Fórnarlögmál gyðinga var afnumið á krossinum vegna fórnardauða Krists og á þess vegna ekki við í dag.

Ég veit að ég má engin samskipti hafa við konu á meðan hún hefur á klæðum, hvorki snerta hana né sitja í stól eða liggja í rúmi sem hún hefur setið á eða legið í, eins og skýrt er kveðið á um í Þriðju Mósesbók 15:19-24. Hvernig getur maður séð hvort kona er á túr eða ekki? Ég hef reynt að spyrja allar konur sem ég þarf að eiga samskipti við, en flestar þeirra hafa hreinlega móðgast og neitað að svara mér.

Bara að vera kurteis! En annars er þetta dæmi um hreinlæti á þessum tíma, til að koma í veg fyrir sýkingar og sjúkdóma. Það var skilda konunnar að sjá um þetta, auðvitað geta utan að komandi ekki vitað þessa hluti.

Vinur minn einn vinnur vaktavinnu við aðhlynningu sjúkra og þarf því stundum að vinna um helgar, sömuleiðis er annar kunningi minn sjómaður og vinnur því stundum á hverjum degi í allt að heilan mánuð.Vandamál mitt er að í Annarri Mósesbók 35:2 segir: "Sex daga skal verk vinna en sjöundi dagurinn skal vera yður helgur hvíldardagur,hátíðarhvíld Drottins. Hver sem verk vinnur á þeim degi skal líflátinn verða." Ber mér, sem kristnum manni, siðferðileg skylda til að drepa þessa vini mína sjálfur?

Í gegnum alla sögu gyðinga þá hafa margar stéttir alltaf unnið á hvíldardögum því það er þörf á því. Kristur kenndi að hvíldardagurinn er til vegna mannsins og að gera góð verk á hvíldardögum er það sem besta sem maður gæti gert. Að vinna ekki á hvíldardegi sem myndi skaða aðra manneskju væri þess vegna einstaklega ókristilegt og í beinni andstöðu við tilgangi hvíldardagsins.

Fyrir síðustu Verslunarmannahelgi bannaði ég syni mínum sem er á þrítugsaldri en býr enn heima að fara á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Fyrst ætlaði hann ekki að taka mark á mér, en þegar ég hótaði að reka hann að heiman ef hann óhlýðnaðist ákvað hann að fara hvergi, en brást þó reiður við og kallaði mig öllum illum nöfnum, s.s. "helvítis harðstjóra" og "djöfulsins fífl". Nú þykir mér vænt um son minn, en í Þriðju Mósesbók 20:9 stendur:"Hver sá sem bölvar föður sínum eða móður sinni skal líflátinn verða." Þýðir þetta að mér beri skylda til að drepa strákinn eða tekur þetta ákvæði ekki til bölvs og ragns af þessu tagi?

Hérna þarf að hafa í huga hvað það þýddi á þessum tímum "að bölva...", það var ekki að segja einhver orð heldur að ákalla andaöfl til eyðileggingar einhvers einstaklings. Þess háttar hegðun var ekki liðin og var einnig litið á sem uppreisn gegn þjóðinni og Guði.

Vinur minn einn segir að jafnvel þótt það sé viðurstyggð að borða skelfisk, eins og segir í Þriðju Mósesbók 11:10: "...öll þau dýr í sjó eða ám sem eigi hafa sundugga og hreistur, [séu] yður viðurstyggð."... þá sé það ekki eins mikil viðurstyggð og að vera hommi. Er það rétt hjá honum?

Móselögin sem kveða á um hvaða tegundir af mat eru í lagi og þær sem eru ekki í lagi eru aðeins góð ráð fyrir þá sem vilja hlusta. Það gat verið lífshættulegt að borða sum af þessum dýrum og sú hætta er einnig til í dag í sumum tilvikum.

Það er margt sem virkar ótrúlega undarlegt en við nánari athugun þá er ástæða fyrir öllu sem þar er að finna. Virkar stundum mjög harkalegar refsingar en má ekki gleyma því að eftir þetta líf þá tekur betra við fyrir þá sem vilja.


Þórður Sveinsson - 18/03/05 18:40 #

Færslan hans Mofa er fróðleg og skemmtileg. Eitt stingur hins vegar verulega í augu, þ.e. eftirfarandi orð: „Virkar stundum mjög harkalegar refsingar en má ekki gleyma því að eftir þetta líf þá tekur betra við fyrir þá sem vilja.“

Í alvöru talað: Hér segir Mofi að það sé bara allt í lagi að taka fólk af lífi fyrir háttsemi á borð við þá að vinna á hvíldardegi, leggjast með öðrum karlmanni og formæla foreldrum sínum af því að það fer svo bara upp til guðs. Þetta er auðvitað ótrúleg firring og lýsandi dæmi um eina alvarlegustu hættuna sem trú getur haft í för með, þ.e. sinnu- og afskiptaleysi sem birtist í því að hinn trúaði horfir upp á fólk þjást og lætur sig það engu varða þar eð samkvæmt trú hans á það eftir að öðlast eilíft hjálpræði á himnum hvort eð er.

Það er alveg öruggt að trú manna á eilíft líf er ein af ástæðunum fyrir því að hægt er að senda menn í stríð til að drepa meðbræður sína, fremja sjálfsmorðssprengjuárásir og þar fram eftir götunum. Þeir sem raunverulega trúa því að þeir lifi eftir dauðann (t.d. brjálæðingarnir sem flugu farþegaþotum á tvíburaturnana) og muni þá búa við allsnægtir í Paradís hafa jú engu að kvíða, ekki satt?


mofi - 18/03/05 19:06 #

Færslan hans Mofa er fróðleg og skemmtileg. Eitt stingur hins vegar verulega í augu, þ.e. eftirfarandi orð: „Virkar stundum mjög harkalegar refsingar en má ekki gleyma því að eftir þetta líf þá tekur betra við fyrir þá sem vilja.“

Var að útskýra sjónarhól Guðs í sambandi við þessi refsingar, trúi því að Guð vissi hvað var best á þessum tíma fyrir þessa þjóð. Þetta voru þjóðfélagslög gyðinga sem þjóðin hét að halda og refsingarnar voru framkvæmdar af viðkomandi yfirvaldi, ekki einstaklingum.

Kristnir menn hafa frá upphafi ekki kennt þessi lög því þau eiga við þjóðfélag gyðinga.

Kristnir hafa yfirvald sem breytist aldrei og boðorð sem breytast aldrei og þau boðorð t.d. segja að það er bannað að myrða. Hvaðan koma lög þeirra sem trúa ekki á neitt nema tímann og tilviljanir?


Bjoddn - 18/03/05 20:45 #

Þessi trú á líf eftir dauðann getur tekið á sig ansi öfgafullar myndir. Í raun er mér nokk sama hvort fólk vill leggja sig í hættu í fullvissu um líf á betri stað ef illa fer, það sem mér finnst hinsvegar afleitt er þegar sama fólkið er tilbúið til að gambla með líf annarra í þessari fullvissu sinni.

Það er ömurlegt að vita til þess að 12 ára gömul börn hafa valið dauðann vegna þess að þeir vildu ekki þiggja blóðgjafir því það samræmdist ekki þeirri trú sem foreldrar þeirra tróðu í þau.

Það er ljótt að vita til þess að foreldrar virkilega neita læknisaðstoð fyrir börn sín ef hún felur það í sér að brjóta gegn boðum trúarinnar.

Blóðgjafarbann vottanna er eitt af þessum dæmum þar sem fólk hefur frekar kosið dauða yfir börn sín í stað þess að brjóta gegn boðum snældubilaðs sértrúarsafnaðar.

Hver er munurinn á t.d. Hale-Bopp söfnuðinum, þar sem 39 manns drápu sig til að komast á betri stað, og vottinum sem kýs dauðann í stað blóðgjafar til að komast á betri stað?

Jú, Hale-Bopp er geimverudæmi og því fordæmt af samfélaginu á meðan votturinn er guðs-og-jesúdæmi og því meiri sátt um það.

Samt eru báðir hlutirnir snældubrjáluð geðveiki svo ekki sé of sterkt til orða tekið.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 18/03/05 21:27 #

Samt situr auðvitað eftir spurning hvort að Guð hafi verið vondur í gamlatestamentinu en góður í því nýja.

Já, hvað var hann Guð þinn eiginlega að pæla þegar hann setti á þessi lög handa útvöldu þjóðinni sinni? Skorti hann siðferði og mannréttindavitund? Þroskast hann eftir því sem líður á eilífðina?

Eða getur ekki bara verið að þessi lög endurspegli siðferði það sem þessir hirðingjaþjóðflokkur bjó yfir? Er þetta ekki bara rakin sönnun þess að Biblían er skrifuð af mönnum út frá þeirra eigin ranghugmyndum?

Gamla testamentið er einfaldlega ekki nokkrum guði samboðið.


mofi - 19/03/05 02:48 #

Það er ljótt að vita til þess að foreldrar virkilega neita læknisaðstoð fyrir börn sín ef hún felur það í sér að brjóta gegn boðum trúarinnar

Það er óneitanlega slæmt þegar trú veldur hræðilegum hlutum. Gott dæmi um það væri t.d. þróunarkenningin þegar einhverjir fræðingar fóru til ástralíu og slátruðu frumbyggjum þar af því að þeir töldu þá voru sönnun að kenning þeirra væri rétt og þeir aðeins dýr.

Í mósebókunum er bannað að drekka blóð og er það af heilsufars ástæðum. Þarna tóku Vottarnir eitthvað sem er gott og breyttu því í bölvun sjálfum sér til mikillar skammar.

Eða getur ekki bara verið að þessi lög endurspegli siðferði það sem þessir hirðingjaþjóðflokkur bjó yfir? Er þetta ekki bara rakin sönnun þess að Biblían er skrifuð af mönnum út frá þeirra eigin ranghugmyndum? Gamla testamentið er einfaldlega ekki nokkrum guði samboðið

Þegar maður skoðar þessi lög í samhengi, skoðar hvaða fólk þetta var og í hvaða aðstæðum það var í þá tel ég að maður átti sig á því að það er meiri viska og kærleikur í þessum lögum en við gerum okkur grein fyrir.

Gott dæmi um gildi þessara reglna og að það er eitthvað meira á bakvið þær en mannleg viska myndi t.d. vera reglur er verða barnsfæðingar. Ef einhver átti að koma við konu sem var að fara að eiga þá átti viðkomandi að þvo sér fyrst og sömuleiðis eftir á. Það var ekki fyrr en um 1830 að maður að nafni Ignaz Philipp byrjaði að berjast fyrir því að læknar ættu að þvo sér hendurnar áður en þeir snertu hina verðandi móður. Dauðsföll vegna smita sem komu upp vegna þessa lagði af velli um 30 prósent af þeim konum sem fæddu á sjúkrahúsum á þessum tíma. Það var alls ekki þrautalaust fyrir hann að koma þessu á þótt að árangurinn lét ekki á sér standa og var hann rekinn frá fyrsta spítalanum þar sem hann byrjaði fyrst að halda þessu fram. Það tók nokkra áratugi að sannfæra læknastéttina um þetta og greyið Ignaz dó á geðveikrahæli, líklegast búinn að fá nóg af því að berjast við misgáfaða menn vegna þessa baráttumáls hans.

Það er engin spurning að mikið af þeim vandamálum sem við glímum við í dag myndu hverfa úr sögunni ef farið væri eftir þeim ráðleggingum sem er að finna í mósebókunum. Að mínu mati er mikla visku að finna í þeim þótt við núna þrjú þúsund árum eftir að þær voru skrifaðar eigum erfitt að skilja sumt af því sem þar stendur.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 19/03/05 03:05 #

Þegar maður skoðar þessi lög í samhengi, skoðar hvaða fólk þetta var og í hvaða aðstæðum það var í þá tel ég að maður átti sig á því að það er meiri viska og kærleikur í þessum lögum en við gerum okkur grein fyrir.

Í hvaða samhengi skoðar þú hommahatursbókstafinn til að fá út visku og kærleik?


mofi - 20/03/05 04:27 #

Í hvaða samhengi skoðar þú hommahatursbókstafinn til að fá út visku og kærleik?

Það er enginn vafi í mínum huga að þessi lífstíll er þeim sem velur hann bölvun þegar til lengra er litið.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 20/03/05 04:48 #

Og hvað hefurðu fyrir þér í því? Hvers kyns bölvun getur falist í því að elska einhvern af sama kyni og búa jafnvel með honum/henni?


Helga - 20/03/05 07:29 #

Er ekki verið að vara fólk við siðblindu og sjálfstortímingu í biblíunni.Ef við skoðum sjúkdóminn "eyðni"sem er búinn að leggja heilu byggðirnar í rúst.Eyðni er komin frá öpum,hvort ætli api hafi nauðgað manni eða maður apa? Maðurinn er grimmasta dýrið á jörðinni,eina dýrið sem að drepur sér til ánægju. Maðurinn er gráðugur og siðblindur,þannig hegðun endar alltaf "einhverstaðar" og aldrey vel. Erum við ekki á góðri leið með að gera jörðina óhæfa til að líf geti þrifist þar? Hvert ætlum við þá að fara?


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 20/03/05 21:39 #

Ef við skoðum sjúkdóminn "eyðni"sem er búinn að leggja heilu byggðirnar í rúst.Eyðni er komin frá öpum,hvort ætli api hafi nauðgað manni eða maður apa?

Oft heyrist þessi saga um að HIV hafi borist frá öpum yfir í menn með samförum. Mér finnst það virkilega fyndin saga og hún segir í raun sitt um hugsunarhátt þeirra sem halda slíku fram.

Líklegasta skýringin á því hvernig HIV barst milli ólíkra tegunda apa er sú að í sumum samfélögum í Afríku tíðkast að nota blóð þeirra við trúarathafnir ýmiskonar. Skyld veira í öpum sem kallast SIV (Simian Immunodeficiency Virus) hefur í gegnum tíðina þróast yfir í það að geta smitað menn og talið er að þetta hafi gerst einhvern tímann á fyrri hluta 20. aldar. Með auknum samgöngum á milli þjóða og heimshluta breiddist veiran smán saman út þar alnæmisfaraldurinn hófst á níunda áratug síðustu aldar.

Maðurinn er grimmasta dýrið á jörðinni,eina dýrið sem að drepur sér til ánægju.

Þú ert greinilega ekki úr sveit og hefur því ekki séð hvernig minkurinn fer að þegar hann kemst í hæsnakofana. Hann drepur allar hænurnar þrátt fyrir að geta einungis tekið eina með sér. Ótrúleg grimmdarskepna þar á ferðinni.

Ég veit að þetta tengist ekki greininni beint en ég varð að svara þessu.


mofi - 21/03/05 09:31 #

Það er ekkert að því að elska einhvern að sama kyni, þetta er spurning um kynlíf. Afstaða Biblíunnar varðandi kynlíf er mjög skýr og lífið á þessari jörð væri töluvert betra ef þeim reglum væri fylgt. Persónulega get ég ekki ímyndað mér að tveir karlmenn um fimmtugt með ekkert nema sjálfa sig og enga fjölskyldu gætu verið ánægðir með lífið. Einnig var líkaminn ekki hannaður með þetta í huga. Ég er aftur á móti fylgjandi því að samkynhneigðir eigi að hafa algjörlega sömu réttindi í öllu þessu því þetta tengist frelsi viðkomandi einstaklinga og þjóðfélagið á að virða það.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 21/03/05 10:47 #

Hvaða bölvun getur falist í því að sofa hjá einhverjum af sama kyni? Og hvers vegna er það „viðurstyggð“?


mofi - 21/03/05 13:41 #

Fyrir þann sem trúir að Biblían sé Orð Guðs þá treystir hann að Guð hafi rétt fyrir sér í þessu. Þeir sem velja þennan lífstíl þeir gera það þá það og komast að því hvað Guð átti við, eða komast að raun um að Hann hafði vitlaust fyrir sér. Ef ég hefði þannig kenndir sjálfur þá myndi ég samt treysta því að Guð viti betur í þessu máli sem öðrum.


Danni - 22/04/05 08:04 #

Þessi endalausu tillvitnanir í gamla testamenntið eru svolítið fyndin. Trúarbók kristinna er Nýja testamenntið, hið gamla er sögulegt fyrir kristna en ekki heilagt lögmál -það er það hins vegar fyrir gyðinga.

Með tillkomu hins nýja testamenntis tók Jesús út "gamla" lögmálið og setti nýtt. Þegar kristnir tala um homma vitna þeir í nýja testamenntið 1.Kor.6:9 þar sem talað er um kynvillinga...sem prestar þjóðkirkjunar eru reyndar á góðri leið með að henda út úr Biblíunni...

Allt í þessu bréfi sem beint er til Snorra á þar af leiðandi ekki við rök að stiðjast...þar sem þessar tilvitnanir eru ekki gildar í kristnum söfnuðum. Hægt væri hins vegar að senda það Gyðingum?

Kveðja


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 22/04/05 12:19 #

Áhugavert innlegg. En sértrúarhópar á borð við Krossinn og Betel hafa einmitt gegnum árin gert mikið út á Gamla-Testamentið og Gunnar í Krossinum jafnvel hamrað á því að Jesús hafi ekki sagst kominn til að afnema, heldur til að uppfylla. Þetta er bókstafstrúarfólk.

Það var ekki fyrr en fyrir fáeinum vikum, þegar Gunnar kom fram í Ísland í dag og deildi Við Bjarna Karlsson, að hann opnaði fyrir þann möguleika að með tilkomu Jesú hafi Gamla-testamentið verið „upphafið“. Þetta er alveg nýtt í málflutninginum og sýnir okkur að jafnvel hjá bókstafstrúarsöfnuðum fer í gang grænsápa þegar svara þarf óþægilegum spurningum.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.