Fyrir ári var gerð stór könnun sem varðaði trúarlíf Íslendinga. Þessi könnun var gerð af Gallup, hún var styrkt af Kristnihátíðarsjóði. Kirkjuráð stóð að þessari könnun í samvinnu við Háskóla Íslands og kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma. Eftir þetta hefur kirkjan birt örfáar niðurstöður úr könnuninni og ég hef rætt þau atriði í greinunum Niðurstaðan var áhugaleysi og Kirkjukönnun. Þjóðkirkjan vill af einhverjum ástæðum ekki birta niðurstöðurnar í heild sinni. Við hljótum að spyrja okkur hvað þjóðkirkjan sé að fela.
Þegar Öddu Steinu Björnsdóttur hjá Biskupsstofu var send fyrirspurn um könnunina þá svaraði hún: "Ég hef flutt erindi um ýmsa þætti könnunarinnar. Hún verður ekki birt í heild. Að könnuninni standa fleiri aðilar en Þjóðkirkjan og hún er trúnaðarmál."
Hér er um ríkisstyrkta könnun að ræða, það þýðir að við öll borguðum fyrir hana en samt eru bara einhverjir fáir útvaldir sem fá að sjá niðurstöður hennar. Þetta eru ekki eðlileg vinnubrögð. Það er verið að fela skoðanir almennings fyrir honum sjálfum þó svo að fólkið hafi sjálft þurft að borga fyrir að láta spyrja sig.
Sem stúdent við Háskóla Íslands þá spyr ég: Hvers vegna er skólinn að láta gera skoðanakönnun sem ekki verður gerð opinber? Háskólinn á í miklum fjárhagsvanda og það er verið að skera niður í kennslu í þeim greinum sem ég stunda nám í. Hvers vegna tekur HÍ þátt í þessum feluleik?
Eins og áður sagði þá hafa verið birtar einstaka niðurstöður úr könnuninni. Þessar niðurstöður er sérvaldar af kirkjunni til þess að sýna hve staða hennar sé sterk. Nú hljótum við spyrja okkur hvort þeir hlutar sem eru faldir fyrir almenningi komi jafn vel út fyrir kirkjuna. Gæti svarið verið það að þeir hlutar könnunarinnar sem ekki verða kynntir almenningi komi illa út fyrir kirkjuna? Ég tel það afar líklegt.
Það er nú reyndar þannig að ef maður rýnir í þær tölur sem kirkjan hefur birt þá sést að þær gefa ekki mynd af sterku trúfélagi. Það er frekar þannig að tölurnar hafa verið matreiddar sérstaklega fyrir fjölmiðla til að niðurstöðurnar líti komi vel út fyrir kirkjuna. Fjölmiðlar eru því miður ekki nógu gagnrýnir á það sem þeir eru mataðir á.
Ég hvet þjóðkirkjuna til að birta niðurstöðurnar sem fyrst og ég hvet Háskólann líka til að þrýsta á um það. Við borguðum fyrir þetta og við eigum rétt að vita niðurstöðurnar.
Ég þekki ekki nógu vel formlega stöðu þeirra sem stóðu að könnuninni, en ef þeir aðilar falla undir gildissvið upplýsingalaganna (sem öll opinber stjórnsýsla gerir) þá er það skýr réttur almennings að fá niðurstöðurnar í hendur. Í lögunum eru reyndar sértækar undanþágur, en ekki er að sjá að þær eigi við í þessu tilviki (t.d. varla um að ræða upplýsingar um öryggi ríkisins eða varnarmál). Lögin eru númer 50/1996 og má m.a. finna á lagasafninu á www.althingi.is
Það væri margt vitlausara en að einhver tæki sig til og sendi bréf þar sem viðkomandi vísar í upplýsingalögin og krefst þess að fá niðurstöður könnunarinnar.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 07/03/05 17:22 #
Þar til Þjóðkirkjan birtir könnunina í heild er erfitt að draga aðra ályktun en þá að þar sé fólk að fela gögn sem koma sér ekki vel fyrir kirkjuna í því áróðursstríði sem hún stendur í til að réttlæta tilvist sína.