If there's an answer to the questions we feel bound to ask
Show yourself - destroy our fears - release your mask
Ég er oft spurður hvernig ég hafi orðið trúlaus. Þetta er á vissan hátt grundvallarspurning fyrir þá trúleysingja sem búa í samfélagi þar sem trú er talin vera normið.
Var ég einhvern tímann trúaður? Svarið er líklega já, sem barn trúði ég á Guð, Jesú og líf eftir dauðann. Ég trúði líka á Jólasveininn þar til ég sá búninginn hans Óla frænda.
Þegar ég var svona 10-11 ára þá fékk ég áhuga á trú og lífi eftir dauðann. Ég hafði þá nýlega fengið að gjöf Nýja Testamentið frá Gídeonfélaginu og ég las það. Á sama tíma las ég ótal dulspekibækur, um miðla og ýmis yfirnáttúruleg fyrirbrigði.
En allt í einu var fræi efans sáð í huga mér. Þar sem ég hlustaði á útvarpið heima hjá afa og ömmu heyrði ég talað um Nietzsche. Þarna var tilvitnun í hann sem ég man ekki hvernig hljómaði nákvæmlega en var á þá leið að það væri mun líklegra að maðurinn hefði skapað Guð heldur en að Guð hefði skapað manninn. Einnig var sagt að ástæðan fyrir því að maðurinn hefði skapað Guð væri að öllum líkindum sú að hann hafi ekki getað sætt sig við sitt stutta líf.
Ég íhugaði þetta í töluverðan tíma. Ég man eitt stigið hjá mér var það að ég komst að þeirri niðurstöðu að ef Guð væri til þá væri hann augljóslega miskunnarlaus og ekki verður dýrkunar. Þegar ég fermdist var ég orðinn algerlega sannfærður um að Guð væri bara hugarburður. Á svipaðan hátt hvarf trú mín á miðla og líf eftir dauðann.
Nú eru liðin allmörg ár og enn hef ég ekki rekist á neina guðshugmynd sem heldur vatni. Guð er líka þannig að um leið og einhver reynir að lýsa honum þá er hægt að sýna fram á að hann sé ekki til sem útskýrir af hverju sumir guðfræðingar og prestar forðast það að segja hvað í ósköpunum þeir trúa á.
Ég held að það sé gott að vera trúlaus, ég tel það frelsandi og eiginlega er það ígildi þessa að svipta grímu af andlitinu sem hefur skert skynjun manns. Það er nauðsynlegt að losa raunveruleikann undan skugga trúarinnar, það er nefnilega fátt sorglegra en að sjá fólk eltast við drauga.
Sannfæringin um að þú sért hérna og andir kallar ekki eftir trú, því það er hægt að sannreyna hana.
Þegar talað er trúað fólk og trúlaust þá er orðið trú notað í merkingunni að halda eitthvað sem ekki er hægt að sanna. Ég fer nánar í þetta í hinni greininni.
Ég man að ég var trúlaus þökk sé þungarokksveitinni Slayer sem sungu "God hates us all". (Keypti diskinn btw. einn daginn á leiðinni í fermingafræðslu ;) ) Auðvitað náðu þeir ekki að klára dæmið, heldur fór ég á snoðirnar og kynnti mér hin og þessi trúarbrögð og heimspekistefnur. Svo kom ég hingað í gegnum tengil á www.hugi.is og kynntist hérna efahyggju og hef verið að skoða hana og æfa mig í henni undanfarið.
Örsakasamhengi dauðans. :)
Spurning um að setja upp kork þar sem fólk getur skipst á frelsunarsögum sínum?
Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.
Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.
Kristján Sigurðarson - 27/02/05 11:22 #
Ég verð að segja að þetta er nú nokkuð góð grein, og held ég að það sé mikið til í því sem Nietzsche sagði. Annars kýs ég persónulega að kalla mig guðleysingja, því eins og meistari Megas orðaði það: Ég get ekki sagt að ég sé trúlaus því að þá myndi ég ekki trúa því að ég andaði og væri hérna.