Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hvað með tungumálin, Mofi?

Stundum finnst mér eins og allt samfélag okkar sé að ganga af vitinu. Ég fæ þetta sér í lagi á tilfinninguna í hvert skipti sem í ljós kemur að einhver málsmetandi maðurinn eða konan, fólk sem maður hélt að væri með fullri skynsemi, reynist allt í einu sterktrúað og til í að tjá sig um það í fjölmiðlum. Það er eins og allir séu að tapa sér í trúarbrjálæðinu þessa dagana og dettur mér helst í hug farsótt.

Ein skringilegasta útgáfan af þessu er þegar sæmilega upplýst fólk á 21. öldinni, uppvaxið í vestrænu velferðarþjóðfélagi þar sem menntakerfið er nokkuð óbrjálað, gerist argir sköpunarsinnar. Þessi undarlegi þjóðflokkur hefur af einhverjum ástæðum kosið að ganga út frá því að tilurð, eðli og gerð veraldar sé í fullu samræmi við það sem stendur í Biblíunni, að bókin sú innihaldi sannleikann um þessi atriði.

Af og til kíkja svona furðufuglar í heimsókn hingað á Vantrú og skrifa í athugasemdakerfið. Einn þeirra kemur fram undir nafninu Mofi og er sá einnig öflugur á Málefnunum og Innherjum Vísir.is. Hann er sem betur fer í minnihluta en fari hlutföll spjallara á þessum rabbvöllum að breytast mikið sköpunarsinnum í hag mun ég endanlega sannfærast um að vestrænt samfélag sé að ganga af göflunum.

Mósebækur Gamla testamentisins taka til fleiri hluta en bara sköpunar heimsins. Þar segir t.d. frá því hvernig Guð ruglaði tungumáli mannanna svo enginn skildi annars mál, enda var hann fúll yfir turnbyggingu einni sem átti að rísa milli jarðar og himinsins.

Hann nennti ekki að fá þetta pakk í heimsókn.

Ef Mofi og aðrir sköpunarsinnar ætla að vera samkvæmir sjálfum sér og trúir þessari bók, sem logið hefur verið að þeim að innihaldi sannleikann um veröldina, þá hljóta þeir að ganga út frá því að þetta sé satt. Um leið hljóta öll málvísindi þau sem stunduð eru innan veggja háskólanna að vera eintóm villa og svími.

Tungumál þróast á mjög svipaðan hátt og dýra- og jurtategundir. Svokölluð indó-evrópsk mál eru t.d. öll runnin af sama stofninum, tungu sem töluð var fyrir eitthvað 3000 árum, ef ég man rétt. Hún greindist fljótt niður í tvo stofna, kentum og satem. Af þessum stofnum eru svo fjölmörg evrópumál og er íslenskan t.d. norður-germanskt mál. Hin norðurlandamálin eru það líka, en enska og þýska eru vestur-germönsk. Gotneska var eina austur-germanska málið og dagaði það uppi nokkrum öldum eftir Krist, rétt eins og Neanderdalsmaðurinn gerði ártugþúsundum áður.

Íslenskan er í stöðugri þróun, er fjarri því að vera sama málið og talað var á 11. öld, hvað þá fornnorrænan sem hún rennur undan. Hún hefur genablandast við dönsku og ensku gegnum tíðina og í sívaxandi tækni og hraða nútímaþjóðfélags hafa hrúgast utan á hana nýyrði svo hún megi velli halda. Orðið flugdólgur er t.d. ekki nema um 5 ára gamalt og töm eru orðin okkur í munni orð sem komu í fyrsta skipti fyrir augu okkar í síðustu viku.

Þetta virkar rétt eins og genabreytingar og náttúruval. Nýyrðasmíðin er meiri en svo að öll ný orð festist í tungumálinu, yfirleitt verða þau hentugustu ofan á, orð sem almenningur bjó til sjálfur, en tyrfin og forneskjuleg nýyrðin sem runnin eru undan íslenskufræðingum eru oftar en ekki dæmd til að deyja, enda eru þeir endalaust að skeyta aftan á þau endingum sem eru úreltar.

Mofi og félagar taka varla mikið mark á því sem hér að ofan stendur. Guð ruglaði tungumálunum í eitt skipti fyrir öll í fornöld og síðan hafa málin verið til óbreytt eða hvað? Íslenskan hlýtur að hafa orðið til þá, þótt ekki hafi hún verið tekin í notkun fyrr en löngu síðar. Og forn-íslenskan á handritunum okkar er ekki það sem fræðingarnir segja hana vera, enda eru málvísindin bara kenning.

Eða hvað, Mofi? Ertu nógu víðsýnn til að kaupa þessi vísindi, þótt þau fari í bága við Biblíuna? Eru sönnunargögnin nægjanleg að þínu mati?

Ef Mofi hafnar þeirri vitneskju sem ötular rannsóknir á sviði málvísinda hafa fært okkur heim sanninn um er hann meiri þverskalli en mig óraði fyrir. Það þarf ansi mikið af hunsun og meðvitaðri ásókn í fávisku til að draga málvísindin í efa.

Sér í lagi ef það er gert til þess eins að arfavitlaus heimsmynd upp úr gamalli bók fái staðist í huga hins sjúka trúmanns.

Birgir Baldursson 22.02.2005
Flokkað undir: ( Vísindi og trú )

Viðbrögð


mofi - 22/02/05 13:14 #

Takk fyrir heiðurinn að tileinka mér heila grein. Hvað er það sem þú hefur á móti því að fólk trúi á Guð og þeirri sögu sem Biblían segir? Ertu hræddur um að þeim fjölgi í samfélaginu sem móðgi fólk og kalli það þverskalla, fíkla í fáfræði og geðsjúka án þess að þekkja það? Hvað er ávinningurinn að þeim fjölgi í þjóðfélaginu sem trúa að fólkið í kringum það er bara tilviljanakend uppröðun á efnum sem mun hverfa í eilífðina og verða að engu þegar þeirra tími rennur út. Hvaða von hefur þín kenning að bjóða þeim sem hafa orðið undir í samfélaginu eða orðið fyrir barðinu á sjúkdómum og bíða dauðans?

Nú, hvað með tungumálin? Þú virðist vera að draga þá ályktun að vegna þess að tungumál breytast að það sanni eitthvað. Auðvitað eru þau að breytast og það sannar ekki neitt. En góð spurning aftur á móti, hvað vitum við um tungumálin og hvaða ályktanir getum við dregið út frá þeirri þekkingu. Hvað segja elstu rit sem við höfum í dag? Sýna þau að tungumálið fyrir sirka 3.500 árum var einfalt og ekki jafn þróað að það sem við höfum í dag? Alls ekki, hið gagnstæða er nær sannleikanum. Tungumál virðist hafa tilhneigingu til að verða einfaldari og ef það verður flóknara þá er það vegna þess að menn viljandi setja sínar gáfur í það til að gera það flóknara. Besta dæmið um það eru við íslendingar sem erum duglegir að búa til ný orð á meðan flestir í kringum okkur taka t.d. ensku orðin beint upp. Varðandi hugmyndina um að líkja þróun tungumála við náttúruval út í náttúrunni er dáldið blekkjandi. Ný yrði sem halda velli í tungumáli varð til þegar einhver ákvað að búa það til. Það gerðist ekki fyrir tilviljun eins og blind efni hegða sér í náttúrunni. Meira um þær hugmyndir hérna


Snær - 22/02/05 14:14 #

Hvað er ávinningurinn að þeim fjölgi í þjóðfélaginu sem trúa að fólkið í kringum það er bara tilviljanakend uppröðun á efnum sem mun hverfa í eilífðina og verða að engu þegar þeirra tími rennur út.

Fólk virðist ennþá geta gagnast umhverfi sínu á ýmsan máta eftir dauðdaga sína, sama þótt þú virðist halda að við trúum því að það verði að engu.


mofi - 22/02/05 14:25 #

Fólk virðist ennþá geta gagnast umhverfi sínu á ýmsan máta eftir dauðdaga sína, sama þótt þú virðist halda að við trúum því að það verði að engu.

En þið trúið að einstaklingurinn verður að engu. Auðvitað getur það verið að það sem hann gerði og skildi eftir gagnist einhverjum en einstaklingurinn sjálfur veit ekkert um það eftir hans daga. Jafnvel minningin um hann hverfur fljótt í gleymsku. Er þetta það sem þín hugmyndafræði hefur upp á bjóða þeim sem þér þykir vænt um og bíða dauðans? Að þeir verða einhverjum að einhverju gagni þegar þau deyja?


Grolsch - 22/02/05 16:04 #

Það að telja Biblíuna vera í besta falli áhugavert rit í bókmenntasögunni er ekki samasemmerki við að trúa hvorki á guð né líf eftir dauðan enda er það margt í heiminum í dag sem vísindamönnum dettur ekki einu sinni í hug að reyna að útskýra að það er bæði auðvelt og algengt að trúa bæði á vísindi og guð.

Hinsvegar finnst mér örlýtið barnalegt að nota það sem rök gegn trúleysi að hún svipti mann voninni. Það að hunsa sannleikann (hver sem hann kann að vera) vegna þess að hann hugnast manni ekki gerir ekkert gagn.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 22/02/05 16:36 #

Mofi, við erum ekki að reyna að selja fólki einhverja fallega hugmynd, við erum bara að benda á hvernig hlutirnir eru í raun og veru.


Snær - 22/02/05 16:37 #

En þið trúið að einstaklingurinn verður að engu.

Nei, ég trúi engu slíku.

Hinsvegar breytist virknin í heila þess sem deyr, og líkaminn tekur til að rotna (ef aðstæður eru réttar), sem er miður fyrir viðkomandi, en til blessunar fyrir fjölda annarra lífvera sem hafa af því lifibrauð.

Auðvitað getur það verið að það sem hann gerði og skildi eftir gagnist einhverjum en einstaklingurinn sjálfur veit ekkert um það eftir hans daga. Jafnvel minningin um hann hverfur fljótt í gleymsku. Er þetta það sem þín hugmyndafræði hefur upp á bjóða þeim sem þér þykir vænt um og bíða dauðans? Að þeir verða einhverjum að einhverju gagni þegar þau deyja?

Ég vona að þú gerir þér grein fyrir því að skortur á yfirnáttúrutrú er ekki hugmyndafræði í sjálfu sér, þó þessi ummæli þín virðist benda til hins gagnstæða.

Það hvort tiltrú eða sannfæring bjóði upp á eitthvað gott þarf ekki að hafa neitt með sannleiksgildi að gera. Og sannleikur er það sem skiptir mig mestu máli.

En ég stunda enga tómhyggju, það get ég sagt þér.

Það er líkt og þú setjir samasem-merki milli trúleysis og tómhyggju. Hvers vegna kann það að vera?


mofi - 22/02/05 17:26 #

Hinsvegar finnst mér örlýtið barnalegt að nota það sem rök gegn trúleysi að hún svipti mann voninni. Það að hunsa sannleikann (hver sem hann kann að vera) vegna þess að hann hugnast manni ekki gerir ekkert gagn.

Bara að benda á hvað trúleysis boðar, hvað innihaldið er dapurlegt.

Mofi, við erum ekki að reyna að selja fólki einhverja fallega hugmynd, við erum bara að benda á hvernig hlutirnir eru í raun og veru.

Það er engin spurning að þið eruð ekki að selja fallega hugmynd. Ég algjörlega ósammála því að þið eruð að segja hlutina eins og þeir eru, eruð að loka augunum fyrir því sem mér finnst vera augljóst.

Nei, ég trúi engu slíku. Hinsvegar breytist virknin í heila þess sem deyr, og líkaminn tekur til að rotna (ef aðstæður eru réttar), sem er miður fyrir viðkomandi, en til blessunar fyrir fjölda annarra lífvera sem hafa af því lifibrauð.

Einstaklingurinn, hans vitund verður að engu ekki satt?

Það er líkt og þú setjir samasem-merki milli trúleysis og tómhyggju. Hvers vegna kann það að vera?

Mín persónulega skoðun á því að trúa að það sé ekkert líf eftir þetta líf er tómlegt. Að þeir sem urðu út undan í þessu lífi að þeirri bíði ekkert nema að verða endurunnir.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 22/02/05 18:01 #

Mér finnst tómlegt að lifa sínu eina lífi í draumi um annað.


mofi - 22/02/05 20:19 #

Mér finnst tómlegt að lifa sínu eina lífi í draumi um annað.

Ég algjörlega sannfærður um að staðreyndirnar staðfesta sögu Biblíunnar. Hvaða staðreyndir eru það sem staðfesta þína trú?


Ágúst - 22/02/05 22:44 #

Þessi athugasemd var færð á spjallborð Vantrúar þar sem hún tengdist efni þessarar greinar ekki neitt. Athugasemdakerfið á vefritinu er ekki sápukassi fyrir nöldrara.

-Ritstjóri


Snær - 22/02/05 22:58 #

Ég algjörlega sannfærður um að staðreyndirnar staðfesta sögu Biblíunnar. Hvaða staðreyndir eru það sem staðfesta þína trú?

Mofi, þú berð stöðugt einhverja trú uppá okkur vantrúarseggina.

Ert þú að nota orðið í merkingunni að taka e-h sem sannleik, eða er merkingin samnefnd við sannfæringu?


Snær - 22/02/05 23:09 #

Allt er þetta bara stundlegt leiftur, en það varanlega er hið eilífa myrka tóm og hinn algeri dauði hið eðlilega ástand.

En þú tekur þér samt sem áður tímann til þess að bæði rita og pósta inn þessum skrifum? Það hefur ekki verið of stór fórn af þeim litla tíma sem þú hefur? :D

En í fullri alvöru, þetta á ekki heima hér. Athugasemdir eiga að fjalla um efni greinarinnar. Ef þú vilt koma til leiðar skrifum sem þessum ættir þú annaðhvort að setja þau á spjallið, eða senda til ritstjórnar til birtingar (þó ekki sé með öllu tryggt að aðsendar greinar séu birtar).


mofi - 22/02/05 23:46 #

Mofi, þú berð stöðugt einhverja trú uppá okkur vantrúarseggina.

Snær, ég veit og ég geri það viljandi. Flest það sem tilheyrir uppruna og fortíðinni er eitthvað sem maður verður að taka í trú. Ef einhver trúir að ekkert sprakk fyrir svo og svo mörgum biljón árum þá væri óskandi að viðkomandi áttaði sig á því að það er ekki staðreynd heldur trú. Hægt að taka til staðreyndir sem styðja þá trú en málið er flóknara en það því það eru mörg vandamál sem eru óleyst og eru ekki að passa við þá hugmynd, en það er svo sem önnur umræða.

Ert þú að nota orðið í merkingunni að taka e-h sem sannleik, eða er merkingin samnefnd við sannfæringu?

Ég hef bara sannfæringu en veit vel að það er trú en ekki óhrekjanlegur sannleikur. Þeir sem aðhyllast aftur á móti trúleysi segjast ekki bara hafa sannfæringu heldur segja að þeir hafa vísindalegann Sannleik og það er eitthvað sem ég er mjög ósammála.


Sævar Helgi Bragason (meðlimur í Vantrú) - 23/02/05 00:11 #

Þeir sem aðhyllast aftur á móti trúleysi segjast ekki bara hafa sannfæringu heldur segja að þeir hafa vísindalegann Sannleik og það er eitthvað sem ég er mjög ósammála.

Fínt. Það er gott að vera ósammála og rökræða hlutina, horfa á þá með gagnrýnu hugarfari. Stundum mega trúmenn alveg vera gagnrýnni á sínar eigin hugmyndir, það virðist alla vega skorta alltof oft. Sjá t.d. grein á Múrnum. Sama á alveg við um marga trúleysingja.

Í vísindum er ekkert til sem heitir "Vísindalegur sannleikur" þvert á það sem gerist í trúarbrögðum. (Kannski þess vegna hafa vísindin reynst betur í að smíða flugvélar, ísskápa, örbylgjuofna o.fl. sem hefur létt okkur lífið) Vandinn er bara sá trúarbrögðin eru ekki studd af sönnunargögnum eins og kenningar vísindanna. Vísindakenning lýsir ákveðnum hlut, t.d. þróun eða þyngdarkraftinum og getur útskýrt margt af því sem við sjáum í kringum okkur. Hún útskýrir það vel og er þess vegna viðtekin. Ekkert segir að hún sé "heilagur sannleikur" enda heilagur sannleikur ekki til í vísindum.

Ef þú hefur betri kenningar, endilega settu hana fram. Vandinn er bara sá að þú þarft að styðja hana með rannsóknum og athugunum á því sem er í kringum þig, en ekki því sem þú vilt að sé í kringum þig, eða einhverjum sögusögnum um kraftaverk. Slíkar sannanir eru einskis nýtar. Einhvern veginn grunar mig að fátt komi úr þessum rannsóknum annað en það sem blasir við þegar þú horfir á heiminn.


mofi - 23/02/05 01:16 #

Í vísindum er ekkert til sem heitir "Vísindalegur sannleikur" þvert á það sem gerist í trúarbrögðum. (Kannski þess vegna hafa vísindin reynst betur í að smíða flugvélar, ísskápa, örbylgjuofna o.fl. sem hefur létt okkur lífið)

Hérna lætur þú sem að "vísindin" eru það að trúa ekki á Guð, að þau gátu gert flugvélar, ískápa og svo framvegis. Ég veit ekki betur en Wright bræðurnir voru kristnir. Málið er að hver þín trú um uppruna heimsins og sögu hans segir ekkert til um hvort þú getur verið vísindamaður og fundið upp hluti. Ég er alls ekki á móti vísindum, ég er á móti ævintýrum um uppruna alheimsins og lífsins, að þau ævintýri eru kennd sem staðreyndir. Mitt ævintýri er að mínu mati stórkostlegt og passar við staðreyndirnar en er samt ævintýri eða saga úr bók sem ég trúi að sé sönn.

Vandinn er bara sá trúarbrögðin eru ekki studd af sönnunargögnum eins og kenningar vísindanna. Vísindakenning lýsir ákveðnum hlut, t.d. þróun eða þyngdarkraftinum og getur útskýrt margt af því sem við sjáum í kringum okkur. Hún útskýrir það vel og er þess vegna viðtekin. Ekkert segir að hún sé "heilagur sannleikur" enda heilagur sannleikur ekki til í vísindum.

Þarna er einmitt hundurinn grafinn, samkvæmt mínum skilningi á vísindum þá er það einmitt það sem við vitum um heiminn og hvernig hann virkar er vísindi. Newton var mjög kristinn einstaklingur og átti stórann hlut í að auka skilning okkar á einum af þeim þáttum sem þú taldir upp. Hvernig heimurinn virkar og hvað er að finna í honum, það er þekking og vísindi. Uppruni alheimsins og lífsins eru fyrir utan þennan ramma en samt er látið í veðri vaka að miklihvellur, aldur jarðarinnar og fyrstu lífverunnar og hvernig lífið þróaðist hérna á jörðinni að það er allt vitað og er vísindi og að við vitum nú að saga Biblíunnar er röng. Ég er á þeirri skoðun að uppruni alheimsins þarf á Guði að halda, að uppruni lífsins þarf líka á Guði að halda og það sem við vitum um þróun lífs á jörðinni þá passar staðreyndirnar betur við þá hugmynd að dýrin voru sköpuð en að þau hafi þróast.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 23/02/05 11:49 #

Guð útskýrir ekki eitt eða neitt, ef þú ætlar að nota útskýringuna Guð skapaði heiminn þá þarftu fyrst að útlista hvað Guð sé og hvernig hann varð til.


mofi - 23/02/05 12:55 #

Guð útskýrir ekki eitt eða neitt, ef þú ætlar að nota útskýringuna Guð skapaði heiminn þá þarftu fyrst að útlista hvað Guð sé og hvernig hann varð til.

Að Guð átti hlut að máli útskýrir margt. T.d. útskýrir það hver bjó til efnið og orkuna sem alheimurinn er búinn til úr þar sem hvorki er hægt að eyða orku né skapa orku. Hægt að útskýra þá röð og reglu sem við finnum út í geimnum, að einhver utan að komandi raðaði þessu þannig. Einnig skilur maður afhverju mörg náttúrulögmál eru ótrúlega fín stillt svo að tilvist okkar geti verið möguleiki. Sömuleiðis er hægt að útskýra uppruna lífs með formúlunni: upplýsingar + efni = líf, allt annað er fyrra að mínu mati. Fyrir mig er Guð vera sem er ekki bundin af þessum alheimi og þeirri vídd af veruleika sem við tilheyrum. Í mínum huga er Guð eilífur, ég get ekki útskýrt Guð eða hvaðan Hann kom og fyrir mitt leiti þarf ég þess ekki.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 23/02/05 14:43 #

Kæri Mofi.

Þú virðist ekki átta þig á því hvað vísindi eru nákvæmlega. Bendi á þetta hér í Skepdic's Dictionary til nánari skýringar.

Trúarbrögð og vísindi eru tvennt ólíkt og ekki hægt að bera þetta saman að neinu leiti. Það skiptir ekki máli þótt að Newton hafi verið kristinn og hreinlega skil ég ekki hvað það kemur málinu við.

Þú ert allur í post hoc skýringum hvað lífið og alheiminn varðar og hefðir því einnig gott af því að skoða þetta.


mofi - 23/02/05 16:40 #

Þú virðist ekki átta þig á því hvað vísindi eru nákvæmlega. Bendi á þetta hér í Skepdic's Dictionary til nánari skýringar. Trúarbrögð og vísindi eru tvennt ólíkt og ekki hægt að bera þetta saman að neinu leiti. Það skiptir ekki máli þótt að Newton hafi verið kristinn og hreinlega skil ég ekki hvað það kemur málinu við.

Það sem virðist vera mjög erfitt fyrir mig að koma þeim sem "trúa" þróunarkenningunni í skilning um er að þeir trúa atriðum varðandi heiminn og fortíðina sem eru ekki staðreyndir heldur trú. Að Newton hafi verið kristinn kemur því við að einhver sem trúir getur samt verið vísindamaður og getur gert uppgvötanir. Ég segi að vísindalegar staðreyndir passa við mína trú og að þeir sem trúa þróunarkenningunni að þeirra trú passi ekki við vísindalegar staðreyndir. Þú villt setja þróunarkenninguna sem hluta af vísindum sem er rétt að því leiti að kenningar verða hluti af okkar þekkingu en þessi kenning gengur á móti aragrúa af staðreyndum og menn væru löngu búnir að hafna henni nema það er engin kenning til að koma í staðinn nema sköpun. Annað hvort skapaði einhver heiminn eða heimurinn skapaði sig sjálfur, ekki fleiri valmöguleikar. Aðeins styttri útgáfa hvað vísindi eru hérna

Þú ert allur í post hoc skýringum hvað lífið og alheiminn varðar og hefðir því einnig gott af því að skoða þetta.

Endilega komdu með dæmi frá mér, þar sem þér finnst ég vera að nota þessa aðferð.


ormurinn - 23/02/05 17:02 #

Það skiptir engu máli hvort vísindamenn eru trúaðir eða ekki þegar þeir setja fram kenningar eða smíða nýjar uppfinningar.

Það skiptir hinsvegar máli þegar verið er að útskýra hvernig heimurinn "virkar" að settar séu fram rökstuddar kenningar sem aðrir geta sannreint hvort þær séu réttar eða ekki.

Vitnisburður einstaklinga er bara því miður ekki nægilega gott mælitæki.

Ég held ekki að nokkur maður í ritstjórn Vantrúar sé þeirrar skoðunar að vísindi geti útskýrt og sannað alla mögulega hluti. Hinsvegar geta vísindi útskýrt mjög margt í kring um okkur. Einnig er vísindaleg þekking gagnleg þegar settar eru fram kenningar um eitthvað sem við skiljum ekki (enn) hvernig virkar. Það er síðan hlutverk vísindamanna að sannreyna slíkar kenningar og styðja eða hrekja.

Ef við tökum dæmið um stórahvell sem Mofi minntist á hér að ofan, þá er sú kenning um tilurð alheimsins studd betri rökum heldur en sköpunarsaga biblíunnar (og annara trúarbragða).

Ég er nú enginn sérfræðingur um stórahvell en Stephen Hawkins útskýrir þetta nokkuð vel á einfaldan hátt í einni bóka sinna. Að vísu tekur hann fram að stórahvellskenningin sem slík útiloki ekki tilvist guðs. Hinsvegar samræmist vísindalega rökstudd kenning um tilurð alheimsins mun betur þekkingu okkar á náttúrulögmálum heldur en sköpunarsaga biblíunnar.

Til að koma aðeins inná innihald greinar Birgis um þróun tungumála þá þarf maður ekki að grafa allt of langt aftur í tímann til þess að sjá hvernig tungumál þróast og breytast í mállýskur og sjálfstæð tungumál. Þessar breytingar eiga rætur að rekja til fólksflutninga og einangrunar. Til dæmis eru töluð afbrigði af latínu í Rúmeníu, Portúgal, Spáni og Frakklandi en latínan yfirtók þau tungumál sem fyrir voru. T.d er svæði í N.Afríku sem byggt er innflytjendum sem upphaflega komu frá Spáni. Þar á bæ er ennþá töluð "forn" spænska sem hefur tekið minni breytingum en spænskan á Spáni og eiga venjulegir Spánverjar oft í vandræðum með að skilja þetta.


mofi - 23/02/05 17:47 #

Það skiptir engu máli hvort vísindamenn eru trúaðir eða ekki þegar þeir setja fram kenningar eða smíða nýjar uppfinningar.

Gott að það er á hreinu.

Það skiptir hinsvegar máli þegar verið er að útskýra hvernig heimurinn "virkar" að settar séu fram rökstuddar kenningar sem aðrir geta sannreint hvort þær séu réttar eða ekki.

Alveg sammála, búum til kenningu og síðan finnum við rök og staðreyndir til að bakka hana upp. Svo maður taki það dæmi sem liggur beint fyrir, hvernig þróast dýr samkvæmt kenningunni og hvernig passar það við það sem við vitum um málið?

Ég er nú enginn sérfræðingur um stórahvell en Stephen Hawkins útskýrir þetta nokkuð vel á einfaldan hátt í einni bóka sinna. Að vísu tekur hann fram að stórahvellskenningin sem slík útiloki ekki tilvist guðs. Hinsvegar samræmist vísindalega rökstudd kenning um tilurð alheimsins mun betur þekkingu okkar á náttúrulögmálum heldur en sköpunarsaga biblíunnar.

Miklihvellur er tilraun vísindamanna til að útskýra tilurð alheimsins án skapara. Þessi kenning gengur á móti ansi mikið af því sem við vitum um heiminn en þetta er það skásta sem vísindamenn hafa án þess að hleypa Guði inn í myndina. Eitthvað smá um sýn sköpunarsinna á miklahvellinn


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 23/02/05 20:26 #

Ég segi að vísindalegar staðreyndir passa við mína trú og að þeir sem trúa þróunarkenningunni að þeirra trú passi ekki við vísindalegar staðreyndir.

Að sjálfsögðu er hægt, ef vilji er fyrir hendi, að túlka allar staðreyndir sér í hag. Málið er að þetta er samt sem áður rangt hjá þér. Ég ætla ekki að biðja um neinn rökstuðning hjá þér því ég veit að þú átt einungis eftir að vísa á einhverja ameríska gervivísindasíðu fulla af rangtúlkunum og útúrsnúningum trúmanna.

Þú villt setja þróunarkenninguna sem hluta af vísindum sem er rétt að því leiti að kenningar verða hluti af okkar þekkingu en þessi kenning gengur á móti aragrúa af staðreyndum og menn væru löngu búnir að hafna henni nema það er engin kenning til að koma í staðinn nema sköpun.

Ef þú vilt þá getur þú komið inn á spjallborðið og rætt þennan aragrúa af staðreyndum og ég get lofað þér því að ég skal svara þeim öllum. Rétt að taka fram að ég tel fyrstu Mósebók ekki vera gild rök í slíkum umræðum.

Endilega komdu með dæmi frá mér, þar sem þér finnst ég vera að nota þessa aðferð.

Að líta á heiminn og segja að hann hljóti að eiga sér skapara er það sem ég kalla post hoc skýringu. Það getur svosem verið röng notkun á þessu hugtaki hjá mér.

Miklihvellur er tilraun vísindamanna til að útskýra tilurð alheimsins án skapara. Þessi kenning gengur á móti ansi mikið af því sem við vitum um heiminn en þetta er það skásta sem vísindamenn hafa án þess að hleypa Guði inn í myndina. Eitthvað smá um sýn sköpunarsinna á miklahvellinn

Kenningin um Miklahvell var ekki vinsæl þegar hún kom fyrst fram, vegna þess hversu róttæk hún er, en eftir því sem vísindalegri þekkingu fleygir fram þá styrkist hún stöðugt í sessi. Það er rangt að halda því fram að hún gangi á móti því sem vitað er um heiminn. Hún hefði ekki verið sett fram annars.

Þessi síða sem þú vísar á er annars stórfyndin. Þarna eru trúarnöttarar að ergja sig á því að vísindin gefa ekki fullkomin svör við hinu og þessu og svo er þessu slúttað með því að vísa í hið óskeikula guðsorð Biblíuna.(!)

Að safna upp vísindalegri þekkingu tekur langan tíma og auðvitað eru ekki öll kurl komin til grafar enn og einhverjum þekkingarlegum endapunkti verður líklega aldrei náð.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 23/02/05 21:37 #

Þessi umræða er annars komin töluvert frá efni greinarinnar, spjallborðið er mjög heppilegt ef pælingarnar eiga að fara svona um víðan völl.


Snær - 23/02/05 22:01 #

Miklihvellur er tilraun vísindamanna til að útskýra tilurð alheimsins án skapara. Þessi kenning gengur á móti ansi mikið af því sem við vitum um heiminn en þetta er það skásta sem vísindamenn hafa án þess að hleypa Guði inn í myndina.

Nei, kenningin um Miklahvell er vel rökstudd kenning um uppruna heimsins sem passar við það sem við vitum um hinn efnislega umheim okkar. Kenningin um Miklihvell svarar ekki spurningunni um sköpun, er í raun óviðkomandi, fyrir utan það hvernig hún er í mótsögn við ákveðnar trúarlegar tilgátur um slíkt.

Hún útilokar ekki þáttöku gvuðs eða gvuða, en bendir ekki heldur til slíks.

Svo dæmi sé tekið, hefur uppgötvun á doppler áhrifum ljóss, og í framhaldi af því mælingar og útreikningar á stefnu og hraða sýnilegs efnis í umheimi okkar, bent til þess að einhverntíma, líklega fyrir um 14 miljörðum ára, hafi allt sýnilegt efni í heimi okkar verið staðsett í sama nágrenni.

Fleiri athuganir, s.s. Cosmic Microwave Background Radiation og það hvernig orka getur orðið að efni (og öfugt), eins og afstæðiskenningin segir til um, hafa stutt við bakið á kenningunni um Miklahvell.


mofi - 23/02/05 22:56 #

Að sjálfsögðu er hægt, ef vilji er fyrir hendi, að túlka allar staðreyndir sér í hag. Málið er að þetta er samt sem áður rangt hjá þér. Ég ætla ekki að biðja um neinn rökstuðning hjá þér því ég veit að þú átt einungis eftir að vísa á einhverja ameríska gervivísindasíðu fulla af rangtúlkunum og útúrsnúningum trúmanna.

Staðreyndirnar eru mér í hag, staðreyndirnar öskra á hvern sem vill hlusta að heimurinn var skapaður. Kambríumsprengingin er staðreynd sem passar við sköpun en ekki þróun. Það passar við sköpun en ekki þróun að það vantar þær miljónir af milli tegundum af dýrum sem ættu að vera til í setlögunum ef þróunarkenningin væri rétt. Að dýr eru ekki að þróast í dag og hreinlega hafa engann mekanisma til þess passar við þá staðreynd að dýrin voru sköpuð, geta aðlagast umhverfi sínu en ekki oðrið að annari dýrategund. Þetta eru staðreyndirnar sem þróunarsinnar þurfa að teygja og beygja aðeins til þess að eins að gera tímann almáttugann.


Sævar Helgi (meðlimur í Vantrú) - 23/02/05 23:46 #

Staðreyndirnar eru mér í hag, staðreyndirnar öskra á hvern sem vill hlusta að heimurinn var skapaður.

Ég vil hlusta, og hlusta, en ég heyri samt aldrei sannfærandi rök um þetta. Það er ekkert sem bendir til að heimurinn hafi verið skapaður og að sama skapi ekkert sem bendir til að hann hafi ekki verið skapaður. Þetta er eitthvað sem við eigum aldrei eftir að fá svar við. Þér finnst heimurinn ekki geta verið án skapara, finnst hann of flott stilltur. Ég vona að heimurinn sé án skapara, mér finnst heimurinn nefnilega of flottur og magnaður til þess að draga úr fegurðinni með einhverri guðlegri veru. Guðlaus náttúra væri (og er?) stórglæsileg.

Hvað varðar rökin fyrir Miklahvelli þá munu umfjallanir um rökin fyrir honum birtast bæði á Stjörnufræðivefnum og Vísindavefnum innan tíðar.

Og síðast en ekki síst, Miklihvellur útilokar ekki skapara, sumum finnst kannski ólíklegra að skapari hafi hrundið honum af stað. Sumir hafa kallað þetta að skyggnast inn í huga guðs. Hver veit? Ekki ég eða vísindamenn og svo sannarlega ekki trúmennirnir heldur.


Snær - 23/02/05 23:50 #

Kambríumsprengingin er staðreynd sem passar við sköpun en ekki þróun.

a. Kambríumsprengingin er ekki staðreynd. Það er enn til umræðu hvort "sprenging" sé réttnefni, og þar fyrir utan hafa hefur það komið í ljós að þessi snögga breyting í lífríkinu var ekki nándar eins snögg og áður var talið.

b. Engin rökrétt túlkun á gögnunum bendir beinlínis til sköpunar. Það er ekkert nema óskhyggja að halda því gagnstæða fram.

dýr eru ekki að þróast í dag

Hinar smávægilegu stökkbreytingar sem er grunnur þróunar í lífverum er enn til staðar, og er áframhaldandi síbreytileiki örvera til marks um það.


Sævar Helgi (meðlimur í Vantrú) - 23/02/05 23:55 #

dýr eru ekki að þróast í dag

Dýr eru klárlega að þróast í dag. Þróunin er bara svo hæg að við tökum ekki eftir henni. Alveg eins og við tökum ekki eftir stjörnunum hreyfast sérstaklega mikið innbyrðis, en ef þú gætir fylgst með þeim í milljón ár eða svo sæirðu greinilegan mun. Sama á við um þróun.

Menn verða alls ekki svona útlítandi eftir milljón ár (ef við verðum þá hér eftir milljón ár). Þeir munu hafa þróast og þróað þekkinguna með sér.

Aahh, þróun er svo fallegt orð og svo áhrifaríkt.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 24/02/05 00:02 #

Sjáðu Mofi, ég bjó til spjallþráð hérna sérstaklega fyrir þig svo að þú getur látið gamminn geysa í notendavænna umhverfi.


mofi - 24/02/05 00:25 #

Kambríumsprengingin er ekki staðreynd. Það er enn til umræðu hvort "sprenging" sé réttnefni, og þar fyrir utan hafa hefur það komið í ljós að þessi snögga breyting í lífríkinu var ekki nándar eins snögg og áður var talið.

Það er staðreynd að aragrúi af lífverum birtist án nokkura þróunarsögu í sama setlaginu. Nú getur þú byrjað að teygja þessa staðreynd svo hún passi við þína trú eða horfst í augu við staðreyndirnar eins og þær eru.

Dýr eru klárlega að þróast í dag. Þróunin er bara svo hæg að við tökum ekki eftir henni.
Klárlega að þróast? Og við sjáum það ekki? Afhverju er það þá klárlega ef við sjáum það ekki? Staðreyndin er sú að eina sem getur látið dýr öðlast eitthvað sem það hafði ekki áður, þ.e.a.s. þróast, það eru stökkbreytingar. Allt sem við vitum um stökkbreytingar, saga þeirra og eðli segir okkur að þær geti ekki látið dýr þróa neitt nýtt. Menn reyna að týna til einhverjar smá breytingar þar sem eitthvað gat verið til bóta en staðreyndin er samt sú að stökkbreyting sem hefur aukið við upplýsingarnar í lífveru hefur aldrei sést. Líkurnar á því að stökkbreyting myndi búa t.d. þær upplýsingar sem þarf til þess að búa til eitt prótein eru stjarnfræðilegar og þá á eftir að segja hve mörg prótein og hvernig á að raða þeim svo þau komi að einhverju gagni. Allt í lagi að trúa að það geti gerst af algjörri tilviljun en það er bara á móti staðreyndunum.
Alveg eins og við tökum ekki eftir stjörnunum hreyfast sérstaklega mikið innbyrðis, en ef þú gætir fylgst með þeim í milljón ár eða svo sæirðu greinilegan mun. Sama á við um þróun.

Er þá ekki undarlegt að dýrin sem við finnum varðveitt sem steingervinga að þau hafa lítið sem ekkert breyst?


Ormurinn - 24/02/05 08:47 #

Það er fullt af dæmum í kring um okkur sem sýna hvernig dýr geta þróast. Takið bara hvaða húsdýr sem er; hunda, ketti, hesta, kýr etc.. Hér hefur maðurinn leikið sér að "þróa" mismunandi kyn sem eru mismunandi í útliti og hafa mismunandi eiginleika. Bæði Chihuahua smáhundar og Great Dane eiga sameiginlegan forföður i.e. úlfinn - þótt útlitið bendi ekki endilega til þess.


ormurinn - 24/02/05 08:49 #

Hvað varðar rökin fyrir Miklahvelli þá munu umfjallanir um rökin fyrir honum birtast bæði á Stjörnufræðivefnum og Vísindavefnum innan tíðar.

Vertu svo vænn og skelltu upp tilkynningu hérna þegar það er komið.


mofi - 24/02/05 10:21 #

Það er fullt af dæmum í kring um okkur sem sýna hvernig dýr geta þróast. Takið bara hvaða húsdýr sem er; hunda, ketti, hesta, kýr etc.. Hér hefur maðurinn leikið sér að "þróa" mismunandi kyn sem eru mismunandi í útliti og hafa mismunandi eiginleika. Bæði Chihuahua smáhundar og Great Dane eiga sameiginlegan forföður i.e. úlfinn - þótt útlitið bendi ekki endilega til þess

Hérna er mikill miskilningur á því hvað það er að þróast. Þessar ótrúlegu upplýsingar sem leynast í DNA menginu eru túlkaðar eftir umhverfinu sem dýrið vex í. Upplýsingarnar til að búa til öll þessi afbrigði af köttum og hundum eru þegar til í DNA menginu. Þeir sem eru búnir að stunda svona ræktun vita að fjölbreytileikinn er mjög mikill en síðan rekast þeir á vegg. Með meiri þekkingu á hvernig DNA virkar og erfðalögmál Mendels þá vitum við ástæðuna og ástæðan er sú að upplýsingarnar vanta. Það eru ekki til upplýsingar til lengra nef á hundum en eitthvað ákveðið og það sama gildir um flest annað í dýrinu. Breytingar á útliti t.d. hunda er kannski mikill innblástur fyrir ímyndunaraflið en það er ekki raunveruleikinn, það er bara ímyndun og steingervingarnir segja að þetta gerðist aldrei.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 24/02/05 16:08 #

Minni á spjallþráðinn sem ég bjó til sérstaklega fyrir Mofa.


Ágúst - 24/02/05 21:18 #

Miklihvellur er tilraun vísindamanna til að útskýra tilurð alheimsins án skapara. Þessi kenning gengur á móti ansi mikið af því sem við vitum um heiminn en þetta er það skásta sem vísindamenn hafa án þess að hleypa Guði inn í myndina.

Moffi, hvert er þá viðhorf þitt til þeirra sem vilja kalla sig kristna, en aðhyllast vísindalegar skýringar? Eru menn að loka dyrunum á Guð ef þeir aðhyllast kenninguna um miklahvell? Er það ókristilegt að aðyllast þróunarkenningu og þar með að hafna sköpunarsögu gamlatestamentisins í bókstaflegri merkingu?


mofi - 26/02/05 01:35 #

Moffi, hvert er þá viðhorf þitt til þeirra sem vilja kalla sig kristna, en aðhyllast vísindalegar skýringar? Eru menn að loka dyrunum á Guð ef þeir aðhyllast kenninguna um miklahvell? Er það ókristilegt að aðyllast þróunarkenningu og þar með að hafna sköpunarsögu gamlatestamentisins í bókstaflegri merkingu?

Að tengja þróunarkenninguna við vísindi finnst mér alltaf frekar sorglegt en allt í lagi. Mér finnst þeir vera hvorki að horfast í augu við vísindalegar staðreyndir né það sem Biblían kennir. Kristinn einstaklingur sem vill hafna því sem Biblían og Kristur kennir...ég bara veit ekki; mér finnst hann ekkert voðalega kristinn ef hann heldur að hann viti betur en Kristur sjálfur. Varðandi Miklahvell þá finnst mér það ekki skipta máli, fólk er aftur á móti er að trúa ansi miklu að mínu mati ef það heldur að alheimurinn hafa ráðað sér í svona ótrúlegt kerfi af sjálfu sér.


Ágúst - 27/02/05 01:06 #

Kristinn einstaklingur sem vill hafna því sem Biblían og Kristur kennir...ég bara veit ekki; mér finnst hann ekkert voðalega kristinn ef hann heldur að hann viti betur en Kristur sjálfur.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 27/02/05 14:40 #

ef það heldur að alheimurinn hafa ráðað sér í svona ótrúlegt kerfi af sjálfu sér.

Atburðir gerast bara eftir því sem aðstæður leyfa. Eðli efnanna er þannig að þau raða sér upp í efnasambönd, dragast að stærri massa o.s.frv. Þetta hefur allt verið útskýrt, svo vandamálið liggur í þinni eigin þversköllun við því sem vitað er.


mofi - 28/02/05 15:04 #

Atburðir gerast bara eftir því sem aðstæður leyfa. Eðli efnanna er þannig að þau raða sér upp í efnasambönd, dragast að stærri massa o.s.frv. Þetta hefur allt verið útskýrt, svo vandamálið liggur í þinni eigin þversköllun við því sem vitað er.

Hvert er eðli gas tegunda? Hvaða efni á að hafa myndast í stórahvellinum? Hvaða lögmál er mest áberandi í heiminum, eitthvað sem tengist uppruna efnis og orku, veistu hvað Entropy er?


Sævar Helgi (meðlimur í Vantrú) - 28/02/05 15:41 #

Hvaða efni á að hafa myndast í stórahvellinum?

Þetta á raunar ekkert skilt við greinina hér að ofan.

Ekkert! Það er ekki rétt að hugsa um Miklahvell sem spreningu. Þegar sprengja springur á jörðinni eða úti í geimnum (þegar efni springur) þjóta leifarnar í allar áttir frá miðpunkti sprengingarinnar. Ef þú getur rakið leifarnar að upprunanum gætirðu fundið út nákvæmlega hvar sú sprenging átti sér stað. Þetta er hins vegar ekki mögulegt mað alheiminn vegna þess að alheimurinn sjálfur hefur alltaf og mun alltaf samanstanda af öllu rúmi. Röklega séð getur alheimurinn ekki haft jaðar.

Í Miklahvelli sprakk því ekkert efni, heldur rúmið byrjaði að þenjast út og með því efnið í alheiminum. Efnið var í óendanlega þéttu ástandi.

Að lokum, ekki fara að blanda varmafræði og óreiðu inn í þetta. Það verður alltaf svo klaufalegt og aumkunarvert hjá sköpunarsinnum að blanda flókinni eðlisfræði í málið, eðlisfræði sem ekki einu sinni eðlisfræðingar kunna almennileg skil á, hvaða þá þið. Nema þið kunnið nýjar útskýringar á útþenslu, rauðviki, þversögn Olbers og örbylgjukliðnum.


mofi - 28/02/05 15:48 #

Þetta á raunar ekkert skilt við greinina hér að ofan.

Jú, samkvæmt kenningunni þá voru fyrstu efnin sem mynduðust ( well, alltaf hægt að breyta kenningunni ) þá voru það gastegundir, helíum og vetni. Það er alls ekki í þeirra eðli að safnast saman og mynda...plánetur.

Ekkert! Það er ekki rétt að hugsa um Miklahvell sem spreningu. Þegar sprengja springur á jörðinni eða úti í geimnum (þegar efni springur) þjóta leifarnar í allar áttir frá miðpunkti sprengingarinnar. Ef þú getur rakið leifarnar að upprunanum gætirðu fundið út nákvæmlega hvar sú sprenging átti sér stað. Þetta er hins vegar ekki mögulegt mað alheiminn vegna þess að alheimurinn sjálfur hefur alltaf og mun alltaf samanstanda af öllu rúmi. Röklega séð getur alheimurinn ekki haft jaðar.

Þannig að það var enginn hvellur? :)

Að lokum, ekki fara að blanda varmafræði og óreiðu inn í þetta. Það verður alltaf svo klaufalegt og aumkunarvert hjá sköpunarsinnum að blanda flókinni eðlisfræði í málið, eðlisfræði sem ekki einu sinni eðlisfræðingar kunna almennileg skil á, hvaða þá þið.

Vandamálið með varmafræðinni er að þetta er lögmál sem allir skilja, óreiðan er alltaf að aukast, alls staðar í kringum okkur í okkar daglega lífi. Það lögmál sem mun að endanum láta alheiminn deyja út, það á að hafa raðað alheimnum í þá ótrúlega flókna kerfi sem stjörnukerfin eru. Ég kaupi það ekki en þér er velkomið að kaupa það, bara passaðu upp á hvað þú þarft að borga fyrir það.


Snær - 28/02/05 15:55 #

veistu hvað Entropy er?

Á kannski að fara á þann oft gengna veg að beygja og brjóta uppgötvanir á náttúrulögmálum rökum sínum í hag?

Endilega tilgreindu nánar rökin sem þú vísar í, í stað þess að gera tilraun til þess að láta okkur hrapa um eigin ályktanir þess efnis.


mofi - 28/02/05 16:12 #

Á kannski að fara á þann oft gengna veg að beygja og brjóta uppgötvanir á náttúrulögmálum rökum sínum í hag? Endilega tilgreindu nánar rökin sem þú vísar í, í stað þess að gera tilraun til þess að láta okkur hrapa um eigin ályktanir þess efnis.

Þetta er ósköp einfalt, getur verið rangt enda flókin fræði á ferð en mér finnst þetta mjög góðir punktur. Hvað skeður þegar hlutir eru skildir eftir í hirðuleysi, t.d. bíll sem er skilinn eftir í kannski hundrað ár, hvað skeður? Þetta er bara náttúrulögmál og ætla heimi sem lýtur þessu lögmáli að ætla honum að raða sér í flókin kerfi er að mínu mati órökrétt. Að ætla gastegundum að þéttast saman og mynda stjörnur er ekki beint eitthvað sem passar við þá hegðun sem gas sýnir.


Snær - 28/02/05 16:15 #

óreiðan er alltaf að aukast, alls staðar í kringum okkur í okkar daglega lífi.

Frábært, sannanleg tilgáta. Sannaðu hana.

Þar til þú gerir það er þetta bara tilgáta. ;)

Það lögmál sem mun að endanum láta alheiminn deyja út, það á að hafa raðað alheimnum í þá ótrúlega flókna kerfi sem stjörnukerfin eru.

Alheimurinn mun ekki "deyja út". A.m.k. hef ég ekki séð neinar vísbendingar þess efnis. Hann mun hins vegar að öllum líkindum þenjast út þar til að erfitt er að hafa jafn ríkulegt magn af orku á jafn litlum reitum og umheimur okkar býður upp á í dag.

Og þar fyrir utan held ég að jafnvel mætti álíta heiminn stuttu eftir Miklahvell jafnvel ennþá flóknari, enda var þá jafnvel ennþá algengara að sameindir skyllu saman. Það var þá bara á smásæjan skala.

samkvæmt kenningunni þá voru fyrstu efnin sem mynduðust... þá voru það gastegundir, helíum og vetni. Það er alls ekki í þeirra eðli að safnast saman og mynda...plánetur.

Önnur sannanleg tilgáta. Sannaðu hana.

( well, alltaf hægt að breyta kenningunni )
Nú, er það eitthvað annað en kostur?

Sævar Helgi (meðlimur í Vantrú) - 28/02/05 16:15 #

Þetta á raunar ekkert skilt við greinina hér að ofan.

Ég átti við greinina hans Birgis. Þessi umræða er komin langt út fyrir efni greinarinnar.

Þannig að það var enginn hvellur? :)

Neibb, hér er ekki um spreningu, eins og við sjáum þær fyrir okkur, að ræða. Fred Hoyle fann upp á þessu nafni í gríni vegna þess að hann samþykkti ekki kenninguna strax. Mjög hár hiti snemma í sögu alheimsins og mikill útþensluhraði varð til þess að hann kallaði kenninguna Miklahvell. Á þeim tíma sem hann kom fram með nafnið vann Hoyle að annarri kenningu sem kallast sístöðukenningin og fjallar líka um uppruna alheimsins. Sú kenning er verri fyrir sköpunarsinna því hún gerir ráð fyrir því að alheimurinn hafi alltaf verið til. Alheimur sem alltaf hefur verið til þarf ekki á skapara að halda, þess vegna skil ég ekki hvað þið hafið á móti Miklahvellskenningunni, hún gefur fyllilega möguleika á skapara.

Sístöðukenningin gekk sér til húðar vegna þess að athuganir og rannsóknir á því sem við sjáum í geimnum samræmast henni ekki. Getur þú nefnt mér dæmi um einhverja athugun sem hefur breytt þínum kenningum?

Vandamálið með varmafræðinni er að þetta er lögmál sem allir skilja, óreiðan er alltaf að aukast, alls staðar í kringum okkur í okkar daglega lífi. Það lögmál sem mun að endanum láta alheiminn deyja út...

Er það? Útskýrðu þetta betur. Útskýrðu annað lögmál varmafræðinnar ef þetta er svona einfalt.


mofi - 28/02/05 16:47 #

Er það? Útskýrðu þetta betur. Útskýrðu annað lögmál varmafræðinnar ef þetta er svona einfalt.

Margir vísindamenn hafa útskýrt það á mismunandi veg, líklegast best að vísa á nokkrar þannig skilgreiningar.

The second law of thermodynamics predicts that a system left to itself will, in the course of time, go toward greater disorder - Harold Blum, Time’s Arrow and Evolution
"To their credit, there are a few evolutionists (though apparently a few) who recognize the critical nature of this problem [of the Second Law] and who are trying to solve it."—*Ilya Prigogine, Gregoire Nicolis & Agnes Babloyants, "Thermodynamics of Evolution," Physics Today
"The Entropy Principle will preside as the ruling paradigm over the next period of history. Albert Einstein said that it is the premier law of all science; Sir Arthur Eddington referred to it as the supreme metaphysical law of the entire universe."—*Jeremy Rifkin, Entropy: A New World View
The greatest puzzle is where all the order in the universe came from originally. How did the cosmos get wound up, if the second law of thermodynamics predicts asymmetric unwinding towards disorder?"—*Paul C.W. Davies.

Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 01/03/05 00:05 #

Spjallþráðurinn hefur verið uppfærður.


Baldvin - 30/03/05 19:29 #

Er fólk að ganga af göflunum. ef svo er það eitthvað nýtt? Hefur eitthvað breyst undanfarinn einhver þúsund ár? Þróuðumst við frá öpum yfir í menn. bla bla bla. ég er með fullt af hugmyndum um hvernig heimurinn var til og kanski hallast sérlega að einni frekar en annarri en þegar á botninn er hvolft þarf ég að hætta því og hugsa um peninga og fara með bílinn í skoðun og svoleiðis skemmtilegheit sem að eru að gerast í nútíðinni.En þar sem að enginn veit eða er með sannanir fyrir þessu-og ekki var Darwin sá sannsöglasti einsog komið hefur í ljós, frekar en að vísindamenn vita hvað jörðin er gömul,(ágiskanir ágiskanir) þá sé ég ekki að eiginlega neitt hafi komið í ljós sem skiptir nokkru máli fyrir einn eða neinn. Segjum sem svo að jörðin sé 4.6 billjón ára gömul.hvað segir það okkur? segir mér allevega eitthvað lítið.Við þróuðumst frá öpum! frábært og hvað? Hver er tilgangur lífsins? Gild spurning og svo einsog hvar endar tilveran og fleiri slíkar sem að eru uppistaðan í flestum vísindapælurum að vita meira um okkur sjálf ekki svo mikið umhverfið sjálft frekar en hvaðan við komum eða hvað við erum að gera hérna. Heimspeki er það sem varðar okkur öll og er nú minnst persónuleg sem mér finnst stundum geisla frá skrifurum hérna, því að ýta á hnappa hjá fólki til að fá viðbrögð til þess eins að bjóða upp á óvitsmunalega skothríð,í staðinn fyrir að vera með innlegg sem í raun gæti breytt oftækis skoðunum manískra einstaklinga sem vaða uppi i sínum upplýsta heimi trúaðra eða vantrúaðra.Brellur eru fyrir börn.Birgi fannst eflaust ekkert heimspekilegt við þetta innlegg sitt en ég sé þar að baki heilmiklar upplýsingar um hans innri gerð og hugsun og finnst mér hann vera að varpa því fram í sinni heimspekilegri útsýn á lífið.


Ólafur S - 31/03/05 02:40 #

Baldvin, hvað ertu að reyna að segja í innleggi þínu?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.